26.11.2009 | 09:20
Léttara líf
Það var forvitnilegt viðtalið í Kastljósi í gær við bandaríska nóbelsverðlaunahafann í læknisfræði, Dr. Ignarro. Hann talaði mannamál, sem allir máttu skilja, og hafði afdráttarlausan boðskap að flytja, sem hann byggði á rannsóknum sínum. Það var líka eftirtektarvert, ef marka má orð hans, að hann lifir eftir kenningum sínum til hins ýtrasta og talar máli sínu af ástríðu. Þeir vísindamenn eru jafnan notadrýgstir almenningi, sem kunna vel að flétta saman þekkingu sína og vísindi og mannlegar tilfinningar og lífsnautn.
Boðskapur Ignarros um mikilvægi næringar og hreyfingar fyrir heilsuna er ekki nýr af nálinni eins og öllum er kunnugt. Það skiptir hins vegar miklu máli að sífellt er skotið styrkari stoðum undir þekkingu þá byggða á vísindum, sem hann hvílir á. Því er það miður að erfitt virðist að fá almenning og ekki síður stjórnmálamenn til að tileinka sér þessi sannindi og gera sér grein fyrir, að hér er ekki um heilbrigðisþjónustu að ræða, heldur almenna aðbúð almennings og lífsstíl.
Fyrir hálfum áratug átti Læknafélag Íslands frumkvæði að því að forsætisráðuneytið lét skv. fyrirmælum Alþingis gera tillögur til að bæta hér um. Skýrslunni, sem hér má finna, skilaði ráðuneytið til Alþingis degi fyrir þinglausnir 2007 og kafnaði hún síðan í undirbúningi kosninganna það vor og hefur eftir það farið hljótt.
Skýrsla þessi er ekki gallalaus en þar eru að finna fjölmargar tillögur um hvernig samfélagið getur á einfaldan hátt staðið fyrir víðtækum framförum í anda Ignarros og án þess, að sjúkdómar og lækningar komi þar nokkuð við sögu.
Það er verðugt umhugsunar- og umræðuefni, hvers vegna mönnum fallast ævinlega hendur, þegar kemur að aðgerðum í þessum efnum og hvað er til ráða til að opna augu stjórnmálamanna fyrir þessari hlið á varðveislu heilsunnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurbjörn! Takk fyrir að benda mér á þessa skýrslu. Ég hafði náttúrulega ekki heyrt af henni, frekar en sjálfsagt flestir aðrir. En nú er hún komin á skjáborðið hjá mér. Hugsa mér gott til glóðarinnar að kynna mér innihaldið. Sýnist þetta einkar áhugavert! Og mikið er ég sammála þessu sem þú segir um „augu stjórnmálamanna“. Menn horfa oft fram hjá bestu og ódýrustu lausnunum og einbeita sér þess í stað að því að byggja upp dýr kerfi, sem eru vissulega nauðsynleg en geta eðlis málsins samkvæmt aldrei leyst nema lítinn hluta vandans. Mig minnir einmitt að Ignarro hafi sagt í viðtalinu, að fólk kæmi ekki til læknis fyrr en það væri í raun orðið of seint. Eftir það væri lítið hægt að gera nema meðhöndla einkennin.
Stefán Gíslason, 10.12.2009 kl. 08:33
Þetta er nú ekki alveg rétt hjá Ignarro. Það má kalla þetta karekatúr af sannleikanum. Sem betur fer má stundum forða frekari vandræðum með því að leita til læknis, þó auðvitað sé best að haga lífi sínu þannig, að þess gerist ekki þörf.
Sigurbjörn Sveinsson, 10.12.2009 kl. 08:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.