Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Kári fær jákvæð andsvör frá samfélaginu

Það er löngu tímabært. Þær rannsóknir, sem hann hefur staðið fyrir með samstarfsmönnum sínum, eru sjálfsagðar, þegar litið er til þeirrar þekkingar, sem hann byggir á. Hin meinta blessun, sem af þessum rannsóknum kann að hljótast fyrir mannkyn allt er enn óljós, en Kári hefur svo sannarlega hlaupið með keflið að sínu leyti og rétt það til næsta hlaupara á fullri ferð.
mbl.is Kári fær verðlaun fyrir rannsóknir í læknavísindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur verður það varla orðað;

þetta, sem mörgum er í hug þessa dagana.http://tmm.forlagid.is/?p=1876


 


Kynslóðin óseðjandi: Látum börnin borga!

Ég átti brýnt erindi í miðbæ Reykjavíkur í morgun. Á Miklubrautinni var þétt setinn bekkurinn að venju. Bensar og Bímerar, jeppar jafnt og drossíur, flutu áfram í fagurlega sköpuðum röðum og víða mátti sjá logandi GPS-tæki á mælaborðunum. Mín kynslóð var á leiðinni í vinnuna og ef bílaflóðið rann ekki nógu ljúflega fram var ekið upp á gangstéttar eða sprett úr spori eftir aðreinum öðrum ætluðum eða línum fyrir almenningssamgöngur.  Allt var þetta eins og áður.  Hver maður í sínu ríki og enginn vegur að átta sig á hver sat í sínu léni eða annars eða hvort umbúðirnar voru verðskuldaðar eða hrifsaðar.

Það var eins og skuldadagarnir væru víðsfjarri og víxlarnir fyrir glæsikerrunum og einbýlishúsunum, sem við hurfum frá í morgun, ekki fallnir í gjalddaga. Og grátstafirnir:  „ekki ég, ekki ég, við krefjumst afskrifta“, áttu sér engan samhljóm í þessari mergð.

Skuldir, sem orðið hafa til í útlöndum og guð má vita að hve miklu leyti hafa rekið á okkar fjörur, eru sagðar á annarra ábyrgð og það helst á könnu sparifjáreigenda þ.e. almennings í nágrannalöndum okkar. 

„Ekki ég, ekki ég“, emjar mín kynslóð. „Við berum enga ábyrgð á þeim stjórnvöldum, sem við kusum til leiðsagnar.“

Þegar ríkissjóður, hafandi tekið á sig þessar óvæntu byrgðar, sem fylgdu óráðsíunni, er í brýnni tekjuþörf og vill hækka skatta til að mæta henni,  er lausnin dregin upp úr pípuhattinum:

„Látum börnin borga“

Úr hattinum er dregið það þjóðráð að skattleggja lífeyrisgreiðslurnar strax og gjöra lífeyrinn skattfrjálsan síðar.  

Allt er þetta slétt og fellt á yfirborðinu. Eigendur fjármunanna, væntanlegir  lífeyrisþegar, finna ekki fyrir neinu. Hlutur þeirra verður óbreyttur þegar fram í sækir.  Og það sem meira er: Svigrúm þeirra til neyslu núna verður óbreytt vegna þessa nýja skattstofns og þar með lægri skatta en ráð er fyrir gert.

En hver er svo niðurstaðan, þegar dæmið er til enda hugsað?  Börnin okkar, sem áttu þennan skattstofn í vændum til að standa undir velferð okkar kynslóðar og heilbrigðisþjónustu í elli okkar, eru svipt honum.

Og til hvers?

Til að rýmka um fjárhag okkar eftir lifnað um efni fram á liðnum árum?

Er það þetta, sem við viljum?


Fellur VG á prófinu?

Það er raunalegt að fylgjast með Steingrími J. þessa dagana. Ótrauður berst hann heima og heiman fyrir hagfelldri niðurstöðu í fjármálaóreiðu þjóðarinnar og reynir að forða slysalegri brotlendingu hennar. Jafnframt berst hann fyrir lífi ríkisstjórnarinnar, sem hangir á bláþræði vegna yfirvofandi hjaðningavíga í þingflokki VG. Yfirvarpið er Icesave en hin raunverulega ástæða virðist djúpstæðari og ágreiningur komið fram í öðrum málum fyrr í sumar. Þetta er afleit staða, þar sem þjóðin hefur ekki annan fugl í hendi en þessa ríkisstjórn, þó tveir þykist í skógi. Maður spyr sig hvað veldur.

Ræður afbrýði för?

Er Ögmundur verkalýðsforingi feginn að vera laus við það hlutskipti að standa fyrir uppsögnum hundruða ríkisstarfsmanna í heilbrigðisþjónustunni?

Hafa menn fallið fyrir þeirri freistingu að láta að vilja almannaálitsins fyrir stundarvinsældir?

Eru hugsjónamenn eins og Ögmundur óstjórntækir, þar sem þeim er ekki gefið að víkja minni hagsmunum, sem styðjast við prinsríp, fyrir meiri? Berjast heldur um hvern lófastóran blett á vígvelli stjórnmálanna?

Sjónarandstaðan rekur klassíska stjórnarandstöðu við algerlega óklassískar aðstæður.  Hún er tilbúin til að leggja þjóðina undir til að ná markmiðum sínum. Á meðan foringi annars stjórnarflokksins fer utan og er fjarri vopnum sínum leggja þingmenn hans á ráðin um uppreisn í flokki hans. 

Er nokkur furða þó hér sé á skerinu hnípin þjóð í vanda?

Eða verður það sagt um Steingrím og þessa tíma þegar frá líður svo vitnað sé í Churchill:  "That was his finest hour."


mbl.is Hefur trú á að stjórnin lifi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýta ber kreppuna eftir kostum

Eitt og annað í íslensku þjóðlífi hefur snúið til góðs við hrunið. Þjóðin hefur staldrað við og endurmetið margvíslega hluti og lagt ósiði til hliðar, sem hún var búin að temja sér. Kreppuna, sem fylgir hruninu, má og á að nota til svipaðra hluta.

Kreppan gefur tilefni til að endurskipuleggja þætti, sem áður var ómögulegt að taka á vegna kerfislægrar andstöðu. Allir sparnaðartilburðir fyrri tíma hafa því byggst á flötum niðurskurði enda auðveld leið til að sýna fram á, að jafnræðis sé gætt við þær ákvarðanir.  Þessi aðferð hefur hins vegar haft í för með sér sleifarlag gagnrýnislausrar hugsunar í einstökum ríkisstofnunum og flata kostnaðaraukningu í kerfinu, þegar betur áraði.

Því er sjálfsagt að taka undir viðvörunarorð Huldu Gunnlaugsdóttur, þegar hún varar við flötum niðurskurði á Landspítala. Kreppan veitir tækifæri til að styrkja heilbrigðan sjúkrahúsrekstur ríkisins með sértækum og vel skilgreindum niðurskurði.


mbl.is Flatur niðurskurður hættulegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband