Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Í Brimnesi

 I.

Þegar ég gekk í hús þitt,

þá fann ég ekkert nýtt.

Alla klassíkina

hafði ég fyrir löngu lifað.

Vívaldí og vinirnir allir

voru þarna á sínum stað.

 

Í sprungnum veggjum hússins

ómaði hjal barna minna,

og sporin sá ég,

sem þau stigu í bernsku sinni.

 

Þá minntist ég meistarans,

sem fóstraði hugsunina

í faðmi trúarinnar:

 

"Endurtekningin er ekki til."

 

En úti fyrir

hafði blær vorsins

hrifið burt gamlan kunningja.

Fönnin skildi eftir benjar

í gróandanum.

 

Sköpunin er endurtekning alls.

 

(6. júní 1989)

 

II.

Ég settist niður

til að semja ljóð

eins og síðast.

En ljóð er ferðalag

frá einni hugsun til annarrar

eins og allir vita.

 

Og sálin náði ekki fluginu.

 

Hún var föst í möskvum gærdagsins,

neti persónulegrar reynslu.

Sú reynsla venjulegs manns

eins og mín

er bæði hversdagsleg

og alþýðlega óspennandi.

 

Það hefðu orðið örlög þess ljóðs

að vera kastað

á ruslahauga borgaralegrar menningar.

 

(2. desember 1990)

Höfundur var læknir í Búðardal með hléi frá 1978 til 1988. Hann bjó í Brimnesi.


Misheppnuð skólastefna eða samfélag á undanhaldi?

Reglubundið verður til umræða um launakjör kennara og mikilvægi kjaranna við að halda fólki að starfi. Öll viljum við halda í góða kennara fyrir börnin okkar og kjörin eru ríkur þáttur í þeirri viðleitni. “Keep the pastures green at home” , sagði vinur minn einn vitur frá Suður-Afríku. Síðustu atburðir í skólum landsins hafa vakið upp gamlan draug með mér.

Það eru s.s. aðrar áhyggjur en af kjörunum, sem banka upp á, þegar staða kennara er metin. Það eru vinnuaðstæðurnar. Og þá er ekki átt við húsakostinn eða búnaðinn, sem fylgir skólastarfinu, heldur agaleysið og ringulreiðina, sem fer vaxandi í íslenskum skólum. Einhvers staðar höfum við tekið ranga stefnu og vikið af leið. Það endurspeglast víðar í þjóðfélaginu en í skólunum með atburðum, sem endurtaka sig t.a.m. reglulega í Reykjavík um helgar. Þar er ekki við kennarana að sakast. Þar liggur agaleysið að baki ásamt tillitleysi eða öllu heldur fyrirlitning á friðhelgi borgaranna og rétti til ótruflaðrar umferðar um heimahverfi sín.

Í  skólunum hefur reglu verið fórnað fyrir hugmyndafræði, sem krefst réttar fyrir þá, sem jafnvel geta með engu mótið notið hans. Kennurum er ætlað að halda uppi kennslu í ringulreið ósamstæðra nemaenda og auk þess eru þeir og skólastjórnendur ítrekað sviptir nauðsynlegum úrræðum til að halda uppi heilbrigðu skólastarfi. Nemendur hafa jafnvel í hótunum við kennara með stuðningi foreldra.     

Þessu verður að breyta ef ekki á illa að fara. Launin duga ekki ein til að halda kennurum að starfi. Þeir verða líka að búa við aðstæður, sem gera þeim kleift að endast. Í grænum högum en ekki á berangri daglegrar óvissu. Við þær aðstæður í skólunum mun smám saman draga úr ótímabærum þvaglátum í miðbæ Reykjavikur og ofbeldi í skólunum.

Sá afríski vinur, sem til er vitnað að ofan, sagði það sína skoðun, að ekki væri við fátækt að sakast, þegar litið væri til óróans og agaleysisins í hans heimlandi. Glæpatíðnin væri alls ekki mest þar sem fátæktin væri verst. Þetta væri arfur sjálfstæðisbaráttunnar; þegar unglingar fengu frjálsar hendur við mótmæli og jafnvel til ofbeldisverka. Tilgangurinn helgaði meðalið. Og þessar kynslóðir losna ekki út úr kreppu ofbeldisins.

Sér nokkur líkindi með því og aðstæðum okkar?


Frelsi til hnefaleika partur af pólitík liðinna ára

Hér höfum við enn eina afleiðingu kröfunnar um algert frelsi til orðs og æðis. Undir fána þessarar kröfu var barist fyrir að hnefaleikar yrðu leyfðir á Íslandi og þóttu þeir heldur heimóttarlegir og stjórnlyndir, sem vöruðu við afnámi bannsins. 

Hvað eftir annað koma upp mál, sem tengja má iðkun hnefaleika þ.e. að menn beiti í þágu ofbeldisins því, sem þeir æfa undir yfirkyni íþróttarinnar. Að ekki sé minnst á það tjón sem þeir verða fyrir, sem leggja rækt við box eftir settum reglum.


mbl.is Harma árás í Sandgerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlendir ríkisborgarar fengið setningu

Mér finnst líklegt að setning erlends ríkisborgara í embætti hér á landi eigi sér fordæmi. Ég hygg að dæmi þess megi finna hér áður fyrr á ásunum þegar læknar voru embættismenn og erlendir ríkisborgarar fengu tímabundna setningu í þau embætti.  Er ég þá að tala um á lýðveldistímanum.
mbl.is Stjórnskipuleg óheillaskref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband