Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

"fór ekki á milli bæja nema þrír fullorðnir saman"

kom fram í Kiljunni í gær um fólkið í Suðursveit. Það saug draugaganginn með móðurmjólkinni undir ægifögrum hamrabeltum, sem réðu vindum, gæftum og gróðri sumar sem vetur. Þórbergur var enginn meðalmaður að kynjum og gekk dag hvern á hólm við furður lífsins. Þar sáði hann í frjóa jörð sérvisku sinnar og leið aldrei fyrir eins og sumir sveitungar hans, sem getið var í gær.  

Nokkrum húsum neðar í götunni, þar sem ég ólst upp, bjó fólk ættað úr Suðursveit. Ég var þarna heimagangur um tíma tæplega tíu ára. Sonurinn á heimilinu, Óskar Már Ólafsson, ÓMÓ eða Bubbi, var töluvert eldri en ég en barngóður og skólabróðir bróður míns.  Hann átti gnægð bóka, mekkanó og fleira eigulegt, sem ég sótti í. Bubbi varð síðar dugandi togarasjómaður og skipsstjórnarmaður hjá Tryggva Ófeigssyni og missti ég sjónar af honum fyrir áratugum. 

Mér var alltaf vel tekið á þessu heimili og fékk bita með heimilisfólkinu ef svo bar undir. Eitt kvöldið var óvenju mikil viðhöfn og ég fann að eitthvað sérstakt var á seyði. Þegar mér var vísað til borðs í eldhúshorninu voru nýbakaðar pönnukökur með rjóma reiddar fram og til borðs með okkur sat gamall gráhærður maður, sem strax reyndi að koma lífi í okkur krakkana. Allt í einu rýkur hann á fætur og segir: "Krakkar, nú ætla ég að segja ykkur draugasögu." Ég spenntist allur upp og bjóst við leikaraskap með hvelli í endann eins og þá var tíska að hræða krakka með. Byrjar þá ekki gamli maðurinn að spígspora um gólfið með hendur fyrir aftan bak og segja fram söguna eins og í makindum og dáleiðir okkur krakkana alveg um leið. En ég var alveg svikinn um "hvellinn" sem mér fannst ómissandi með öllum draugasögum.

Þegar heim kom um kvöldið var ég upplýsur um það, að þetta mundi hafa verið Þórbergur Þórðarson, einn af mestu ritsnillingum þjóðarinnar.   


Tilbrigði við stef

Nótt, eins og dagur sólar sakni

í sorta og veglaust haf.

Dagur, eins og nótt á vængjum vakni

í vorsólar hlýjan staf.


Kiljan: Páll Baldvin fór yfir strikið

Ég hef oft bloggað um Kiljuna. Það er ákveðin nautn að vera óvirkur þátttakandi í samræðum hugsandi fólks um bókmenntir og innihald þeirra. Að ekki sé talað um ferðir Egils með sjáendum um ódáinsheima Þingholtanna eða Hólavallarkirkjugarðs að ógleymdum Braga tóbakskarli.

Páll Baldvin er alfræðingur um mannlífið og beturvitrungur um hvað eina, sem að bókmenntum snýr. Kolla fær stundum að kenna á því í allri sinni kvenlegu mýkt. Oftast er þetta græskulaust og við hæfi til að skemmta okkur hinum. Í Kiljunni í kvöld snerist umræðan um bók Úlfars Þormóðssonar, sem er ástríðuskrif um guðleysi. Páll áttaði sig ekkert á einlægum áhuga guðleysingja að fjalla um guð, sem ekki er til, og get ég alveg tekið undir það með honum. Þá bregður svo við, að umræðan fer að snúast um persónulega upplifun af almættinu og Páll Baldvin líkir Kolbrúnu við faríseann, sem þakkaði guði fyrir altarinu að líkjast ekki tollheimtumanninum.

Með þessari samlíkingu dró Páll Baldvin upp á átakanlegan hátt þá mynd af sjálfum sér, sem hann ætlaði sessunaut sínum.


Stjórnendur lífeyrissjóðanna umboðslausir

Stjórnir lífeyrissjóðanna þrýtur umboð til að ráðstafa eigum þeirra til dreifðra afskrifta án lagafyrirmæla. Það er ekkert sem heimilar þeim að ráðstafa eigum sjóðsfélaga  á þann hátt. Þær hafa þurft að takast á við niðurfærslur og jafnvel afskriftir í einstökum málum en ætíð þannig, að ekki hefur verið strikað yfir eignir sjóðanna fyrr en þrautreynt er, og þá að lögum. Hér tækju þær hins vegar þátt í eignaupptöku, sem er fráleitt að gera nema með lagaboði, sem þá kann að stangast á við stjórnarskrána.

Það er í raun furðulegt að þetta sjónarmið hafi ekki komið upp á yfirborðið í þeirri umræðu, sem nú á sér stað og lýsir það ef til vill þeim lausatökum, sem menn hafa á samvisku sinni þessa dagana, þegar fjármunir annarra eru undir.
mbl.is Afskrifa þyrfti 220 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís hlýtur að sjá ljósið

enda Breiðfirðingur að föðurkyni.  Rennslisvirkjanirnar, sem eftir eru í neðsta hluta Þjórsár, eru bestu virkjanakostir okkar nú um stundir. Að leggja þessar framkvæmdir til hliðar er jafn gáfulegt og að leggja grunn að húsi, sem enginn ætlar sér að byggja. Miðlunin er fyrir hendi á fjöllum og náttúru- og landspjöll yrðu í lágmarki.

Skuldbindingar við álver eru skemmri en líftími virkjana. Það má rífa álver. Reyndar er þessu rafmagni ætlað annað hlutverk, en að laða fram þann góða málm ál. Þess heldur ætti það að vera skynsamleg niðurstaða Svandísar að leggja ekki stein í götu þessara virkjana í baráttu sinni við "málmbræðsluauðvaldið". 


mbl.is Svandís áfrýjar dómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband