Bloggfærslur mánaðarins, september 2012
30.9.2012 | 21:16
Bróðir
Um sumarsólstöður
hvarf maður mér nákominn
á braut.
Hann fór um boga litbrigðanna
inn í sköpunarverkið.
Faldi dauðann
í erminni
- eins og hvert annað bragð
á sviði.
Þögull um eigin örlög.
Hjarta hans sló
í sólheitu landi
í engum takti
við ljá eilífðarinnar.
Slíkur maður
verður ekki syrgður
í harmi augnabliksins.
Þarna!
Þarna við dagsbrún
er söknuðurinn
á vængjum tímans.
Ljóð | Breytt 30.10.2012 kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.9.2012 | 09:55
Kvennaathvarfið - þjóðþrifastofnun því miður
Heimilisofbeldi er böl, sem margir búa því miður við, bæði karlar og konur. Miklu algengara er, að konur verði fyrir ofbeldi maka eða sambýlismanns og karlar neyta líkamsburða sinna til að halda undirtökum í fjölskyldunni eða fá útrás fyrir kvalalosta. Kvennaathvarfið var því eins og himnasending fyrir konur, sem áttu engan annan kost en að flýja ógnina og leita skjóls utan heimila sinna.
Æ fleiri konur leita til athvarfsins með og án barna og húsnæðisþörfin er brýn. Kvennaathvarfið er sjálfstætt og getur ekki reitt sig á framlög hins opinbera og er háð hinum almenna borgara um stuðning. Við þurfum að styðja það núna í húsnæðisvandræðunum - öll með tölu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.9.2012 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2012 | 15:17
Farið um Brattabrekku en ekki Bröttubrekku
Þegar komið var af fjallinu á póstleiðinni vestur í Dali og niður í Suðurárdal var farinn svokallaður Bratti. Leiðin liggur austan við núverandi vegarstæði vestur. Brattabrekka dregur nafn sitt af þessum Bratta. Því er rétt að segja að farið sé um Brattabrekku en ekki Bröttubrekku. Svipað dæmi er Kaldakinn. Maður fer í Kaldakinn en ekki Köldukinn.
Hljóðvörpin vinna á þessum orðum með tímanum og nöfnin glata upprunalegri merkingu sinni.
Óveður á Holtavörðuheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.9.2012 | 10:48
Stjórnendur í klemmu fjárveitinga og fagráðuneytis
Það er gömul saga og ný að erfiðlega gangi að ná endum saman á heilbrigðisstofnunum landsins. Landsmenn og fulltrúar þeirra í stjórnmálaum eru áhugasöm um að veita eins góða þjónustu og völ er á fyrir sem minnstan pening. Eðli málsins samkvæmt verður eilíft reiptog milli þessara sjónarmiða og erfitt að fullnægja allra kröfum.
Það sannast ítrekað á Heilbrigðisstofnun Austurlands, að ekki gott að gera svo öllum líki í þessum efnum. Nú hefur Ríkisendurskoðun upplýst að stofnunin hafi brugðist tilhlýðilega við þriggja ára tilmælum hennar um fjárreiður og aðra stjórnsýslu en samt sem áður þurft að reka stofnunina að hluta til með rándýrum yfirdráttarlánum. Þetta gerist þrátt fyrir samdrátt í þjónustu með erfiðum niðurskurði og fækkun starfsmanna. Hafa yfirmenn stofnunarinnar fengið bágt fyrir frá öllum, íbúum, starfsmönnum og stjórnmálamönnum. Þeir hafa sem sagt verið skammaðir við skyldustörfin.
Stjórnendur HSA eiga ekki nema einn kost þ.e. að skera enn frekar niður þrátt fyrir ramakveinin. Hinn kosturinn er sá, að stjórnmálamennirnir láti af tvískinnungnum og bæti fjárhag stofnunarinnar eða aðstoði stjórnendur og styðji við frekari niðurskurð og samdrátt í þjónustu.
Fjármögnuðu rekstur með yfirdrætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)