Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014
20.11.2014 | 11:14
Stjórnmálamenn ráða þróun heilbrigðisþjónustunnar
Litið er til læknisfræðinnar við þróun heilbrigðisþjónustunnar. Landspítalinn er kallaður "þjóðarsjúkrahús" og á góðum degi er honum falið veita alla læknismeðferð, sem ekki fæst annars staðar á Íslandi, auk þess að vera héraðssjúkrahús fyrir höfuðborgarsvæðið og nærsveitir. Þá er hann sagður hafa æðstu skyldu til að ryðja braut nýjungum í læknisfræði á heimsvísu og taka þær upp í þágu almennings.
Sá hængur er þó á þessu ráði, að stjórnmálamennirnir ráða alfarið þróun heilbrigðisþjónustunnar að þessu leyti með þeirri aðferð, sem þeir fjármagna spítalann og hvernig þeir beita henni til að svelta hann.
Þó ekki sé litið til annars en starfskjara lækna, þá bera þau vott um hvaða stefnu hefur verið framfylgt á liðnum árum. Reynir Arngrímsson, læknir, dregur þetta vel fram í grein í Fréttablaðinu í morgun. Hann segir m.a.:
"Á sama tíma og læknar hverfa frá störfum og þeim fækkar hefur ríkið fjölgað stöðugildum ljósmæðra um 25%, háskólamenntuðum starfsmönnum stjórnarráðsins (FHSS) um 29%, BHM-starfsmönnum um 19%, verkfræðingum um sjö prósent og hjúkrunarfræðingum um þrjú prósent.
Fjármálaráðuneytið hefur nýlega lýst því yfir að kostnaður ríkisins við að ganga til samninga við Læknafélag Íslands þýði óviðráðanlega hækkun á útgjöldum ríkisins, sérstaklega launakostnaði. Þegar þróun launakostnaðar ríkisins vegna ofangreindra starfsstétta á þessu tímabili (janúar 2007 - desember 2013) er skoðuð kemur í ljós að heildarútgjaldahækkun vegna kjarasamnings Læknafélags Íslands var aðeins um 31%, en hjúkrunarfræðinga 55%, ljósmæðra 120%, verkfræðinga tæp 60%, BHM 81% og FHSS 95%.
Læknar hafa ekki setið við sama borð. Tekjur þeirra eða heildarlaun hafa hækkað langminnst á tímabilinu eða um 34%. Hjá öðrum ofangreindum stéttum hafa heildarlaun hækkað á bilinu 47% til 52%. Mestu munar þó í samanburði við ljósmæður þar sem hækkun í heildarlaunum á milli 2007 til 2013 var 77% eða 46% meiri en hjá læknum."
Fyrir þessar sakir stendur læknisfræðin og þjónusta lækna höllum fæti um þessar mundir. Læknastéttin getur ekki snúið þróuninni við. En það geta stjórnmálamenn gert. Ef þeir girða sig ekki í brók mun afkomendum okkur verða sagt, að heilbrigðisþjónustan hér á landi hafi fallið á þeirra vakt. Það yrði sorgleg niðurstaða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2014 | 10:41
Tillaga um "faglega" meðferð, sem oft er ekki boði eða of dýr
Hér má lesa á milli lína þá skoðun, að setja beri hömlur á þá geðhjálp, sem heimilislæknar veita skjólstæðingum sínum með lyfjagjöf og einnig með viðtölum og öðrum stuðningi. Eflaust er þessi málflutningur vel meintur en styðst ekki að mínu mati við þann veruleika, sem við búum við.
Sóun við lyfjagjöf á Íslandi er sérstakt vandamál, sem þekkist reyndar í öðrum löndum. Hún er að miklu leyti kerfislæg og stafar m.a. af undirmönnun í heilsugæslunni þó skýringanna sé víðar að leita. Að ráða bót á því vandanáli er verkefni samfélagsins en ekki einnar stéttar.
Fólk, sem fæst við geðræn vandamál, fær oftast nær faglega hjálp hjá heimilislækninum sínum en taka má undir það, að úrræði þau, sem hann hefur aðgang að í þessu skyni, mættu vera aðgengilegri og fjölbreyttari.
Of miklu ávísað af geðlyfjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |