27.1.2015 | 22:47
ASÍ kýs fremur að veifa röngu tré en öngu
Ekki get ég hrakið fullyrðingar ASÍ um heildartekjur lækna á Íslandi í samanburði við félaga þeirra á hinum Norðurlöndunum. ASÍ gefur engar heimildir upp fyrir niðurstöðum sínum. Hins vegar er ein áberandi villa í málflutningi þeirra sem vafalítið er með vilja beitt.
Íslenskir læknar notuðu dagvinnulaun sín og annarra lækna á Norðurlöndum til samanburðar í kjarabaráttu sínni. Ekki heildartekjur. Baráttan snerist um að bæta dagvinnulaunin þannig að lifa mætti af þeim. Um leið var það baráttumál að fólk kæmist af með styttri vinnutíma. Því var haldið fram alveg feimnislaust að læknar á Íslandi hefðu of stóran hlut heildartekna sinna af yfir- og vaktavinnu. Það er hlutskipti sem við eldra fólkið sættum okkur við á sínum tíma en yngri lækna hafna nú til dags góðu heilli.
Ekki ætla ég að hafa af félögum í ASÍ réttmætar kjarabætur. Öðru nær. Það fer hins vegar betur á því að fyrir þeim sé unnið með haldbærum rökum frekar en ósanngjörnum samanburði sem stenst ekki.
Læknar með fjórfaldar dagvinnutekjur verkafólks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2015 kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.1.2015 | 19:50
Hjartalæknir segir upp
Vinur minn einn og kollega, læknir á Landspítalanum, sagði stöðu sinni lausri á gamlársdag. Hann er lunkinn í hjartaþræðingum og margt annað til lista lagt, sem góðan lækni má prýða. Ástæður uppsagnarinnar segir hann þessar:
1. Óhóflegt vinnuálag.
2. Undirmönnun.
3. Margar og illa launaðar vaktir.
4. Lág dagvinnulaun.
5. Nauðsynleg yfirvinna í þágu sjúklinganna aldrei greidd.
6. Samningsleysi.
7. Almennt aðstöðuleysi á spítalanum.
Þetta er þyngra en tárum taki. Málefni lækninga innan heilbrigðisþjónustunnar hafa ratað í óskiljanlegt öngstræti. Eigi veldur sá er varar. Ótal dæmi um aðvaranir lækna eru til frá síðustu áratugum. Stjórnmálamennirnir hafa þverskallast við. Og sökin liggur ekki bara hjá þeim, sem nú stjórna landinu. En þeir hafa verkfærin til að færa hlutina til betri vegar. Leiðsögnina vantar hins vegar af þeirra hálfu.
Funda um helgina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2014 | 15:33
Læknar horfa í eigin barm
Fjármálaráðherrann snýr hlutunum á haus. Hvetur lækna til að fara í naflaskoðun vegna stöðunnar í kjarasamningunum. Segir þá þurfa að líta í eigin barm.
Það hafa læknar þegar gert. Þeir hafa horft á laun sín, sem hafa rýrnað um meira en 30% á 8 árum miðað við aðra opinbera starfsmenn hér á landi. Þeir hafa horft á heilbrigðiskerfið og starfsaðstöðuna í heild sinni molna fyrir augum þeirra. Þeir sjá ekki yngri lækna með nýja þekkingu koma til starfa hér heima. Þeir sjá unga lækna fara héðan við fyrsta tækifæri sem gefst.
Þannig hafa læknar horft í eigin barm nú þegar og staðan í dag er niðurstaðan. Það er komið að Bjarna Benediktssyni að líta í eigin barm.
Gleðilegt nýtt ár.
Læknar horfi í eigin barm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.12.2014 | 22:45
Allt um kjör og starfsumhverfi lækna
Allt sem þið viljið vita um kjör og starfsumhverfi lækna. Ellefu blaðsíður.
Samsæriskenningar um læknamafíu, ofurlaun lækna, lúxusjeppa og gólfferðir mega nú heyra sögunni til.
Athugið svo að ENGIN stétt í kjarabaráttu hefur þurft að taka saman upplýsingar á þennan hátt til að réttlæta tilveru sína. Ég ætlast til þess að læknar fái mínútu af respekt fyrir þetta!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2014 | 22:39
Bylur, snjóbylur eða snjóstormur
Enskan er áleitin. Fyrir nokkrum árum varð allt í einu áberandi að talað var um snjóstorm. Eitthvað hafa menn áttað sig á að þetta var ekki tunga feðranna. Nú er talað um snjóbyl.
Er einhver þörf á því?
Ef við lendum í kafaldi þá er bylur. Það nægir. Ekki er þörf á að að flækja málin frekar.
12.12.2014 | 22:41
Gunnar Ingi yfirlæknir í Árbæ hefur rétt fyrir sér
Við höfum átt samtal Halldór Jónsson verkfræðingur og mbl.bloggari og ég um þessa deilu. Halldór hefur sýnt okkur læknum vissa sanngirni en leitar jafnharðan í sama farið. Það er gömul saga og ný. Hér er eitt af innleggjum mínum:
"Það er erfitt að stunda mannjöfnuð af þessu tagi á okkar tímum. Það eru sífelldar efasemdir uppi og grunur um undirmál. Ég er í hálfu föstu starfi hjá ríkinu sem heilsugæslulæknir tæplega 65 ára og með 35 ára samfellda starfsreynslu og starfsaldur hjá þessum vinnuveitanda. Ég er því í hæsta þrepi sem kjarasamningur lækna bíður fyrir utan að fá dagvinnuálag vegna þess að ég tek vaktir verandi orðinn meira en 55 ára. Fyrir þetta eru mér greiddar u.þ.b. 340.000 krónur fyrir skatta ef allt er talið, sem ekki telst til yfirvinnu. Eftirspurn eftir vinnu minni er mikil og ég gæti ábyggilega þénað 1.800.000 krónur á mánuði ef ég tæki vinnu allan sólarhringinn í þeim vinnutíma sem ég á lausan í hverjum mánuði. En ég hef hvorki áhuga né heilsu til þess. Ég segi þér þetta vegna þess að að það brá fyrir sanngirni og áhuga á staðreyndum í færslu þinni hér að ofan. Það virði ég.
Ég hef meiri áhyggjur af unga fólkinu en mér. Ég hef stundum haldið því fram að launataflan ætti að vera eins og pýramíti þar sem þeir, sem elstir eru ættu að hafa minna en þeir sem yngri eru. Á yngri árum er fólk að efna í fjöskyldur og afdrep fyrir þær og við ættum að auðvelda þeim leikinn. En því miður hefur þessu verið tekið sem óráðshjali. Þessir ungu læknar eru að byrja lífsstarfið með 330.000 í grunnlaun. Síðan níðumst við á þeim, fáum þá til að bera hitann og þungan af resktri spítaladeildanna utan dagvinnu og með því verða heildartekjurnar háar. Enginn hefur áhuga á að skoða þá vinnu, sem að baki býr.
Ég fann á netinu tilvitnun í laun í Seðlabanka Íslands. "Meðaltal mánaðarlauna hjá Seðlabanka Íslands var 692.143 krónur á síðasta ári. Regluleg laun næstráðenda og sviðsstjóra Seðlabankans hafi verið 1.433.220 krónur á árinu 2013."
Ef allrar sanngirni er gætt, finnst þér óeðlilegt, að nokkur kergja sé í yngri læknum, þegar þeir skoða launaseðilinn sinn um hver mánaðamót?"
Segir orð fjármálaráðherra hafa valdið tjóni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.12.2014 kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2014 | 22:41
Ófært er á Bröttubrekku
Enn langar mig til að minna á hina réttu orðmynd Brattabrekku. Ég hef áður orðað þetta á bloggi mínu fyrir rúmum tveim árum og þá við misjafnar undirtektir. Auðvitað er við ofurefli að etja en það hleypur alltaf einhver firðingur í mann þegar spurningin stendur um það sem sannara reynist.
Fjallvegurinn tekur nafn sitt að brattanum sem er norðan í fjallveginum á gömlu leiðinni niður í Suðurárdal. Í Vegahandbókinni er þessu lýst svo: "Sjálf Brattabrekka er aðeins brekkan ofan í Dalina, þar sem póstleiðin lá fyrrum." Þetta er í texta Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, sem vafalítið hefur haft skýringar Þorsteins Þorsteinssonar, sýslumanns Dalamanna í Árbók Ferðafélags Íslands til hliðsjónar. Þorsteinn segir, að þessi spölur af fjallveginum hafi verið kallaður Bratti og þaðan hafi nafnið komið.
Ekki veit ég hvort Þorsteinn hafi haft gáfu til að lítast um í liðnum tíma en ég rakst á þetta á dögunum í Sturlungu: "En að sumri búast þeir báðir til þingreiðar Sturla Langavatnsdal en Einar Brattabrekku." (Svart á hvítu, Reykjavík 1988, bls. 62)
Mér finnst að við ættum að reyna að koma þessu í lag í eitt skipti fyrir öll og þar ættu Dalamenn að fara fremstir í flokki.
Brattabrekka áfram ófær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2014 | 22:23
Löng og erfið kjaradeila lækna við ríkið framundan
Verkfallsaðgerðum lækna mun ekki ljúka á næstunni. Mikið virðist bera í milli deiluaðila. Ríkið á ekki hægt um vik að ganga til samninga við stétt sem gerir miklar kröfur um launaleiðréttingu fyrir utan hækkanir, sem hún fer eðlilega fram á. Læknar eru í fyrsta sinn í verkfalli og hafa lagt mikið undir. Fyrir utan þá hagsmuni sem þeir hafa hver og einn af kjaraabótum sem kunna að skila sér í kjarasamningi, þá eru þeim ofarlega í huga afdrif heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi og sá hlutur sem íslenskir læknar leggja til hennar. Á þetta hafa þeir ítrekað bent og engin ástæða er til að efast um þetta markmið þeirra með verkfallinu.
Í hönd fara erfiðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Þeir verða gerðir í skugga msigengis, sem varð á launum hinna ýmsu stétta eftir síðustu samninga, sem kenndir voru við þjóðarsátt. Launaskrið hefur orðið bæði í hinum opinbera geira og í einkageiranum meðal tekjuhárra einstaklinga og veldur það ólgu í röðum almennings, sem sækja vill kjarabætur í þessu ljósi. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu koma að samningaborðinu á útmánuðum með fjárlögin og verðbólguvæntingar í farteskinu og þau markmið fyrst og fremst, að verðbólga fari ekki úr böndunum með tilheyrandi óstöðugleika í efnahagslífinu og kaupmáttarrýrnun almennings. Í þessu ljósi ber að virða ummæli ráðherra, þegar þeir tala í einu orðinu um að bregðast þurfi við kjararýrnun lækna miðað við aðra hópa og að skapa viðunandi starfsskilyrði fyrir yngri lækna hér á landi. Í hinu orðinu tala þeir um að útilokað sé að mæta launakröfum lækna, eða þá að tilstyrk hins almenna vinnumarkaðar þurfi að koma til svo bæta megi læknum kjörin umfram aðra.
Við þessar aðstæður er útilokað að fjármálaráðherrann gangi til samninga við lækna á næstunni.
Nú hafa læknar nánast einum rómi lagt á ráðin um þriggja mánaða verkfall til 1. apríl á næsta ári og með hertum aðgerðum miðað við þá þrjá mánuði sem eru að líða. Með nýju skipulagi á verkfallinu mun hin valkvæða heilbrigðisþjónusta nánast lamast í þrjá mánuði og aðeins því sinnt, sem þarfnast bráðrar úrlausnar. Sérstaklega er útlitið svart í skurðlækningum.
Reiði og óánægja með kjör var orðin djúpstæð þegar á árinu 2008 og ræddu þá læknar í sínum hópi, hvort grípa ætti til uppsagna eða verkfalla til að knýja á um breytingar. Þá kom Hrunið og læknar tóku þeim kjarasamningi, sem þeim var boðinn auk margvíslegra skerðinga sem vinnuveitandi gat beitt án brota á samningnum. Að vonum hafa viðhorf lækna til kjara sinna ekki batnað á þeim 6 árum sem liðin eru.
Ein afleiðing þessa eru viðhorf ungra íslenskra lækna erlendis til vinnu á Íslandi. Önnur afleiðing er vinna lækna erlendis, sem þó eru búsettir hér heima. Þriðja afleiðingin er brottflutningur íslenskra lækna til útlanda, lækna, sem eru í blóma lífsins og þekkingar sinnar. Fjórða afleiðingin er vaxandi urgur og versnandi mórall þeirra, sem hér eru enn og vilja hvergi annars staðar vera. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ríkisstjórnin stendur frammi fyrir gjörvallri læknastéttinni sem hefur lagt allt undir og hefur engu að tapa þó í harðbakkann slái.
Aðgerðirnar munu harðna á næsta ári eftir að þessu hálfa ári í verkföllum lýkur 1. apríl 2015. Þá munu vafalítið taka við aðgerðir, sem ganga enn lengra. Ég er ekki sá spámaður að geta séð fyrir um í hverju þær verða fólgnar. En þó sýnist mér fátt eftir annað en allsherjarverkfall. Þegar það verður, þá munu margar uppsagnir lækna hafa komið til framkvæmda.
Það er rétt af öllum almenningi að búa sig undir langa og erfiða kjaradeilu lækna við ríkið.
20.11.2014 | 11:14
Stjórnmálamenn ráða þróun heilbrigðisþjónustunnar
Litið er til læknisfræðinnar við þróun heilbrigðisþjónustunnar. Landspítalinn er kallaður "þjóðarsjúkrahús" og á góðum degi er honum falið veita alla læknismeðferð, sem ekki fæst annars staðar á Íslandi, auk þess að vera héraðssjúkrahús fyrir höfuðborgarsvæðið og nærsveitir. Þá er hann sagður hafa æðstu skyldu til að ryðja braut nýjungum í læknisfræði á heimsvísu og taka þær upp í þágu almennings.
Sá hængur er þó á þessu ráði, að stjórnmálamennirnir ráða alfarið þróun heilbrigðisþjónustunnar að þessu leyti með þeirri aðferð, sem þeir fjármagna spítalann og hvernig þeir beita henni til að svelta hann.
Þó ekki sé litið til annars en starfskjara lækna, þá bera þau vott um hvaða stefnu hefur verið framfylgt á liðnum árum. Reynir Arngrímsson, læknir, dregur þetta vel fram í grein í Fréttablaðinu í morgun. Hann segir m.a.:
"Á sama tíma og læknar hverfa frá störfum og þeim fækkar hefur ríkið fjölgað stöðugildum ljósmæðra um 25%, háskólamenntuðum starfsmönnum stjórnarráðsins (FHSS) um 29%, BHM-starfsmönnum um 19%, verkfræðingum um sjö prósent og hjúkrunarfræðingum um þrjú prósent.
Fjármálaráðuneytið hefur nýlega lýst því yfir að kostnaður ríkisins við að ganga til samninga við Læknafélag Íslands þýði óviðráðanlega hækkun á útgjöldum ríkisins, sérstaklega launakostnaði. Þegar þróun launakostnaðar ríkisins vegna ofangreindra starfsstétta á þessu tímabili (janúar 2007 - desember 2013) er skoðuð kemur í ljós að heildarútgjaldahækkun vegna kjarasamnings Læknafélags Íslands var aðeins um 31%, en hjúkrunarfræðinga 55%, ljósmæðra 120%, verkfræðinga tæp 60%, BHM 81% og FHSS 95%.
Læknar hafa ekki setið við sama borð. Tekjur þeirra eða heildarlaun hafa hækkað langminnst á tímabilinu eða um 34%. Hjá öðrum ofangreindum stéttum hafa heildarlaun hækkað á bilinu 47% til 52%. Mestu munar þó í samanburði við ljósmæður þar sem hækkun í heildarlaunum á milli 2007 til 2013 var 77% eða 46% meiri en hjá læknum."
Fyrir þessar sakir stendur læknisfræðin og þjónusta lækna höllum fæti um þessar mundir. Læknastéttin getur ekki snúið þróuninni við. En það geta stjórnmálamenn gert. Ef þeir girða sig ekki í brók mun afkomendum okkur verða sagt, að heilbrigðisþjónustan hér á landi hafi fallið á þeirra vakt. Það yrði sorgleg niðurstaða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2014 | 10:41
Tillaga um "faglega" meðferð, sem oft er ekki boði eða of dýr
Hér má lesa á milli lína þá skoðun, að setja beri hömlur á þá geðhjálp, sem heimilislæknar veita skjólstæðingum sínum með lyfjagjöf og einnig með viðtölum og öðrum stuðningi. Eflaust er þessi málflutningur vel meintur en styðst ekki að mínu mati við þann veruleika, sem við búum við.
Sóun við lyfjagjöf á Íslandi er sérstakt vandamál, sem þekkist reyndar í öðrum löndum. Hún er að miklu leyti kerfislæg og stafar m.a. af undirmönnun í heilsugæslunni þó skýringanna sé víðar að leita. Að ráða bót á því vandanáli er verkefni samfélagsins en ekki einnar stéttar.
Fólk, sem fæst við geðræn vandamál, fær oftast nær faglega hjálp hjá heimilislækninum sínum en taka má undir það, að úrræði þau, sem hann hefur aðgang að í þessu skyni, mættu vera aðgengilegri og fjölbreyttari.
Of miklu ávísað af geðlyfjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |