Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Laus úr pólitísku helsi samtímans

Einu góðu hefur Ólafur Ragnar komið í verk í dag. Ég fékk í mig þá döngun að segja mig úr Sjálfstæðisflokknum og losa mig við Mogga Davíðs og lagsfólks.   

Þetta minnir á Ólaf Ólafsson sem var lengi kristniboði í Kína. Þegar hann var ungur maður, þá fór hann í messu á Gilsbakka í Hvítársíðu minnir mig hjá presti, sem ekki var þekktur fyrir að snúa fólki til þeirra trúarskoðana, sem Ólafur síðar aðhylltist. Þessi maður hafði hins vegar svo mikil áhrif á Ólaf að hann varð til þess, að Ólafur gerðist boðandi trúarinnar upp frá því. Það mætti e.t.v. kalla ávarp Ólafs Ragnars Gilsbakkaþulu.  

Hvernig Ólafi Ragnari tókst að losa mig við helsi núverandi húsbænda í Valhöll og í Hádegismóum ætti að vera nokkuð augljóst, en ég er tilbúinn að ræða það frekar ef eftirspurn er fyrir hendi.   

Gangi ykkur allt að sólu í dag, vinir og frændur og aðrir bloggvinir!


mbl.is Endurreisnaráætlun í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baggalútur enn á ferð

Undanfarin ár hefur Baggalútur glatt okkur með undraskemmtilegum jólatextum við lagboða úr öllum áttum. Þjóðin hefur beðið eftir jólalagi Baggalúts með eftirvæntingu ár hvert og aldrei orðið fyrir vonbrigðum.

Í fyrra heyrðist kvein úr ranni Baggalúts og gefið í skyn að byrðin væri orðin of þung, kröfurnar of miklar og verkkvíði settist að þeim um veturnætur.

Nú bregður svo við, að jólalagið er ekki eitt heldur mörg. Það mætti halda, að Baggalútur hafi ákveðið að kæfa þjóðina með jólalögum til að losna við kvöðina. Það er gamalkunn aðferð. 

Sumir gera það vel, sem allir geta, en engum öðrum dettur í hug.

Það er list.

Frá einni árstíð til annarrar standa baggalútarnir mínir þegjandi í gluggakistunni í sumarhúsinu í einfaldri röð eftir stærð. Þeir eru listaverk náttúrunnar eins og Baggalútarnir okkar.


Hagræðing eða niðurskurður eða skrauthvörf?

Nú hanga stjórnmálamenn gjarnan í því haldreipinu, að þeir séu að hagræða í opinberum rekstri. Menn forðast niðurskurð eins og heitan eldinn enda vekur það hugtak neikvæðar tilfinningar en hagræðing  jákvæðar.  Það vafðist hvorki fyrir fréttastofu RUV né fulltrúa foreldra í seinni fréttum sjónvarps að verið væri að skera niður á leikskólum borgarinnar. Talsmaður borgarinnar talaði hins vegar um að hagræðing hafi verið minnkuð þannig að nú væri hún nánast orðin engin. Í fljótu bragði sýnist þessi fullyrðing tæplega meðmæli með eigin verkum og endurtekin hagræðingarrullan orðin beggja handa járn í höndum heilaþvegins stjórnmálamannsins.

Ég hef alltaf skilið hagræðingu á þá leið, að verið væri að breyta fyrirkomulagi til að meira fengist fyrir sama fé eða greiða þyrfti minna til að fá ákveðna vöru eða þjónustu. Þetta er líka skilningur orðabókarinnar því þar segir, að hagræðing sé að breyta þannig að afköst aukist eða kostnaður minnki.  

Jón heitinn Gúm, sem kenndi mér íslensku í menntaskóla, vakti oft athygli okkar strákanna á skrauthvörfum, þegar þau komu fyrir í texta og hvatti okkur til að nota þá aðferð, þegar við ætti. Að tefla við páfann, eru skrauthvörf, sem flestir kannast við.  Orðabókin segir að skrauthvörf eigi við það að nota fínlegra eða vægara orð í stað orðs, sem þykir ófínt, dónalegt eða hranalegt og nefnir botn í stað rass því til skýringar.

Ekki veit ég hvað stjórnmálamenn eru að forðast með því að klifa á hagræðingu í stað þess að kalla hlutina sínum réttu nöfnum eins og niðurskurð. Ég vil þó ráðleggja þeim að nota ekki önnur hugtök en þau, sem þeir hafa vald á, þegar þeir kjósa að nota skrauthvörf í stað sannleikans.  

 

 


Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman

hefur verið sagt. Ég held að ég afsanni þetta innan tíðar. Hér á heimili eru nú orðið gerðir þvílíkir brauðhleifar og af svo drullugóðum gæðum að lifa má af þeim án annars til margra daga. Fyrir nokkru bakaði spúsa mín brauðhleif, sem var svo stór að undrun sætti. "Man eating plant" datt heimasætunni í hug. En gómsæt var hún og hvarf fljótlega á sinn stað. Nú er komið úr ofninum annað brauð öðru betra og mætti halda að atvinnubakarar hefði lagt þar hönd að verki. Og til viðbótar er það snyrtilega vaxið og prútt og frjálslegt í fasið eins og brauð eiga að vera.

Það skal tekið fram, að brauðgerðarvél önnur en konan mín hefur aldrei komið inn fyrir dyr á þessu heimili.

Léttara líf

Það var forvitnilegt viðtalið í Kastljósi í gær við bandaríska nóbelsverðlaunahafann í læknisfræði, Dr. Ignarro. Hann talaði mannamál, sem allir máttu skilja, og hafði afdráttarlausan boðskap að flytja, sem hann byggði á rannsóknum sínum. Það var líka eftirtektarvert, ef marka má orð hans, að hann lifir eftir kenningum sínum til hins ýtrasta og talar máli sínu af ástríðu. Þeir vísindamenn eru jafnan notadrýgstir almenningi, sem kunna vel að flétta saman þekkingu sína og vísindi og mannlegar tilfinningar og lífsnautn.

Boðskapur Ignarros um mikilvægi næringar og hreyfingar fyrir heilsuna er ekki nýr af nálinni eins og öllum er kunnugt. Það skiptir hins vegar miklu máli að sífellt er skotið styrkari stoðum undir þekkingu þá byggða á vísindum, sem hann hvílir á. Því er það miður að erfitt virðist að fá almenning og ekki síður stjórnmálamenn til að tileinka sér þessi sannindi og gera sér grein fyrir, að hér er ekki um heilbrigðisþjónustu að ræða, heldur almenna aðbúð almennings og lífsstíl.

Fyrir hálfum áratug átti Læknafélag Íslands frumkvæði að því að forsætisráðuneytið lét skv. fyrirmælum Alþingis gera tillögur til að bæta hér um. Skýrslunni, sem hér má finna, skilaði ráðuneytið til Alþingis degi fyrir þinglausnir 2007 og kafnaði hún síðan í undirbúningi kosninganna það vor og hefur eftir það farið hljótt.

Skýrsla þessi er ekki gallalaus en þar eru að finna fjölmargar tillögur um hvernig samfélagið getur á einfaldan hátt staðið fyrir víðtækum framförum í anda Ignarros og án þess, að sjúkdómar og lækningar komi þar nokkuð við sögu.

Það er verðugt umhugsunar- og umræðuefni, hvers vegna mönnum fallast ævinlega hendur, þegar kemur að aðgerðum í þessum efnum og hvað er til ráða til að opna augu stjórnmálamanna fyrir þessari hlið á varðveislu heilsunnar.


Orka er ein af nauðþurftum heimilanna

Þeir sem búa á "köldum svæðum" þar sem ekki fæst heitt vatn verja að jafnaði um 80% orkunnar, sem þeir kaupa, til húshitunar.  Er e-ð réttlæti í því, að afkoma þessara heimila sé skekkt, ef ríkissjóður ætlar að afla tekna með sköttum á raforku?

Það liggur alveg í hlutarins eðli, að sambærilegir skattar verði lagðir á heitt vatn.  Orkan er ein af grunnþörfum nútíma heimila og á að vera aðgengileg á svipuðu verði öllum landsmönnum.

Hitt er svo annað, að menn geta haft mismunandi sýn á skattheimtuna almennt séð en það er s.s. önnur saga.


mbl.is Nýtt gjald á heitt vatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðurkenning byggð á bjargi

Stefán Karlsson er hæglátur og vandaður vísindamaður og hefur verið eftirsóttur leiðtogi í læknavísindum bæði austanhafs og vestan.  Það duldist engum, sem kynntist Stefáni í læknadeild, að þar færi mikið efni, hvaða braut sem hann kysi sér innan læknisfræðinnar.

Það hefur Stefán löngu staðfest með starfi sínu og án nokkurra lúðrahljóma.


mbl.is Stefán Karlsson fær Tobias-verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kári fær jákvæð andsvör frá samfélaginu

Það er löngu tímabært. Þær rannsóknir, sem hann hefur staðið fyrir með samstarfsmönnum sínum, eru sjálfsagðar, þegar litið er til þeirrar þekkingar, sem hann byggir á. Hin meinta blessun, sem af þessum rannsóknum kann að hljótast fyrir mannkyn allt er enn óljós, en Kári hefur svo sannarlega hlaupið með keflið að sínu leyti og rétt það til næsta hlaupara á fullri ferð.
mbl.is Kári fær verðlaun fyrir rannsóknir í læknavísindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur verður það varla orðað;

þetta, sem mörgum er í hug þessa dagana.http://tmm.forlagid.is/?p=1876


 


Kynslóðin óseðjandi: Látum börnin borga!

Ég átti brýnt erindi í miðbæ Reykjavíkur í morgun. Á Miklubrautinni var þétt setinn bekkurinn að venju. Bensar og Bímerar, jeppar jafnt og drossíur, flutu áfram í fagurlega sköpuðum röðum og víða mátti sjá logandi GPS-tæki á mælaborðunum. Mín kynslóð var á leiðinni í vinnuna og ef bílaflóðið rann ekki nógu ljúflega fram var ekið upp á gangstéttar eða sprett úr spori eftir aðreinum öðrum ætluðum eða línum fyrir almenningssamgöngur.  Allt var þetta eins og áður.  Hver maður í sínu ríki og enginn vegur að átta sig á hver sat í sínu léni eða annars eða hvort umbúðirnar voru verðskuldaðar eða hrifsaðar.

Það var eins og skuldadagarnir væru víðsfjarri og víxlarnir fyrir glæsikerrunum og einbýlishúsunum, sem við hurfum frá í morgun, ekki fallnir í gjalddaga. Og grátstafirnir:  „ekki ég, ekki ég, við krefjumst afskrifta“, áttu sér engan samhljóm í þessari mergð.

Skuldir, sem orðið hafa til í útlöndum og guð má vita að hve miklu leyti hafa rekið á okkar fjörur, eru sagðar á annarra ábyrgð og það helst á könnu sparifjáreigenda þ.e. almennings í nágrannalöndum okkar. 

„Ekki ég, ekki ég“, emjar mín kynslóð. „Við berum enga ábyrgð á þeim stjórnvöldum, sem við kusum til leiðsagnar.“

Þegar ríkissjóður, hafandi tekið á sig þessar óvæntu byrgðar, sem fylgdu óráðsíunni, er í brýnni tekjuþörf og vill hækka skatta til að mæta henni,  er lausnin dregin upp úr pípuhattinum:

„Látum börnin borga“

Úr hattinum er dregið það þjóðráð að skattleggja lífeyrisgreiðslurnar strax og gjöra lífeyrinn skattfrjálsan síðar.  

Allt er þetta slétt og fellt á yfirborðinu. Eigendur fjármunanna, væntanlegir  lífeyrisþegar, finna ekki fyrir neinu. Hlutur þeirra verður óbreyttur þegar fram í sækir.  Og það sem meira er: Svigrúm þeirra til neyslu núna verður óbreytt vegna þessa nýja skattstofns og þar með lægri skatta en ráð er fyrir gert.

En hver er svo niðurstaðan, þegar dæmið er til enda hugsað?  Börnin okkar, sem áttu þennan skattstofn í vændum til að standa undir velferð okkar kynslóðar og heilbrigðisþjónustu í elli okkar, eru svipt honum.

Og til hvers?

Til að rýmka um fjárhag okkar eftir lifnað um efni fram á liðnum árum?

Er það þetta, sem við viljum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband