Færsluflokkur: Löggæsla

Helgarmoli: Á Tyrðilmýri

 Á Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd vestur í Djúpi stendur gamla íbúðarhúsið enn, þó það sé komið á annað hundraðið. Það er þarna á fjörukambinum vestan við nýju húsin eins og afskipt hæruskotið gamalmenni í varpa, sem engar kröfur gerir, hvorki til fegurðarinnar né eilífðarinnar. Það hallar undir flatt upp í innlögnina nánast eins og fatlaður maður, sem skýtur öxlinni upp að vegg sér til hvíldar. Þannig hefur það verið síðan ég sá það fyrst fyrir hálfum öðrum áratug.  Það minnir á skakka turninn í Pisa, sem hefur hagrætt sér á grunninum og er ásamt dómkirkjunni og skírnarkapellunni á leiðinni út í á. Þar mun þessi þrenning lenda, ef tímarnir endast. En gamla húsið á Tyrðilmýri er á engri sérstakri vegferð og mun ekkert fara. Það bara er þarna og geymir sína sögu fyrir okkur.

Því minnist ég á þetta, að Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, lauk upp Tímanum og vatninu fyrir okkur í Kiljunni fyrir nokkru. Þetta gerði hann svo snilldarlega, að nú er kvæðið eins og opin bók og allar flóknar vangaveltur um það hjómið eitt. Í gamla daga voru tveir vinir á ferð á milli staða suður í Gyðingalandi, þegar þriðji maðurinn slóst í för með þeim. Þegar heim var komið buðu þeir honum í bæinn og sagt er að hann hafi brotið brauðið og lokið upp ritningunum. Og augu þeirra opnuðust segir þar. Þannig var þessi kvöldstund með Guðmundi. Örstutt vegferð um Tímann og vatnið, sem gerði erfiði vegmóðra bókmenntafræðinga að engu. Þetta var eins og áningarstaður, þar sem þeir tóku á móti okkur, Guðmundur og Daníel heitinn læknir á Dalvík.

Hann gerði margt vel.    

Aðalsteinn Kristmundsson, síðar Steinn Steinarr og höfundur Tímans og vatnsins, fæddist á Laugalandi í Skjaldfannardal við Djúp. Hann var af bláfátæku fólki, sem átti ekki alltaf öruggt skjól í lífinu frekar en Steinn sjálfur. Steinn lifði við kröpp kjör lengst af sinni ævi og stundum við sára fátækt. Það var því ekki á vísan að róa, þegar hann varð ástfanginn ungur maðurinn í Reykjavík á árunum fyrir stríð. Utan af landi, skáld og lífskúnstner og jafnvel kommúnisti, með visna hönd. Ástfanginn af læknisdóttur?  Ekki sjens. Hann og Louisa Matthíasdóttir og Nína Tryggva voru vinir. Hann elskaði Louisu en Nína elskaði hann eða öfugt. Hvað vitum við um það?  En þær fóru báðar og Steinn sat eftir og endaði líf sitt í Fossvoginum.  Eftir situr heimslist og eilíf altaristafla í Skálholtsdómkirkju og Tíminn og vatnið á tungu, sem einungis örfáir sérvitringar í veröldinni skilja - og ekki einu sinni þeir.

Tíminn og vatnið er ástarljóð og við skulum vista okkur fyrir helgina með möndli þess, þegar skáldið gerir sér grein fyrir orðnum hlut og sættist við hann:     

 

"Í sólhvítu ljósi

hinna síðhærðu daga

býr svipur þinn.

 

Eins og tálblátt regn

sé ég tár þín falla

yfir trega minn.

 

Og fjarlægð þín sefur 

í faðmi mínum 

í fyrsta sinn." 

Úr Tímanum og vatninu e. Stein Steinarr, 15. liður.

 

Foreldrar Steins voru á Tyrðilmýri um skamma stund. Sú saga lifir í sveitinni, að þar hafi Steinn orðið til.  Í gamla húsinu, sem hallar sér til sólarlagsins og er ekki á neinni sérstakri vegferð.  Það er eins góð tilgáta og hver önnur. Allar sveitir eiga sín skáld. Nauteyrarhreppur á Höllu og Sigvalda Kaldalóns, Dalirnir eiga Jóhannes úr Kötlum, kennara Steins, og Stefán frá Hvítdal og mörg önnur. Steinn varð til og fæddist vestur við Djúp og því verður ekki breytt, frekar en að því verði breytt, að folald er kennt við þann stað, þar sem því er kastað.  

Listin lifir okkur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband