Kindabóla en ekki sláturbóla

Þessi kvilli hefur verið í fréttum að undanförnu og Matvælastofnun vakið athygli á honum á heimasíðu sinni. Ég tel nafngiftina "sláturbóla" villandi, þar sem um erfiðan sjúkdóm er líka að ræða í lambám og ungum lömbum. Sláturbóla er staðbundið heiti einkum á Austurlandi. Ítarlega var ritað um þennan sjúkdóm í Læknablaðið 1990 og höfðu höfundarnir, læknarnir Stefán Steinsson og Sigurbjörn Sveinsson, kynnst sjúkdómnum við störf sín í Dölum og Austur Barðastrandarsýslu. Nokkru áður hafði verið ritað um þetta fyrir bændur í búnaðarblaðið Frey og voru höfundar Rögnvaldur Ingólfsson, þá héraðsdýralæknir og Sigurbjörn Sveinsson. Í texta, sem finna má á þessari slóð, segja Stefán og undirritaður:

"Sjúkdómur einn heitir »orf« í erlendum ritum. Þetta er búfjárkvilli, en getur þó borist til manna. Honum var lýst árið 1787 í sauðfé (getið í 1), 1879 í geitum (getið í 2) og 1934 í mönnum (3). Hann er ekki algengur og hefur vafist fyrir læknum að greina hann og meðhöndla rétt. Því er vakin athygli á honum hér. Á íslensku gengur sjúkdómurinn undir mismunandi nöfnum eftir héruðum: Skagfirðingar kalla hann hornabólu en Skaftfellingar sláturbólu. Hvorugt nafnið er allsendis réttnefni, eins og lesendur munu sjá. Lambabóla, bændabóla og kindabóla koma til greina. Orf er erlent alþýðunafn. Það mun komið úr fornsaxnesku, skylt orðinu sem á þeirri tungu þýðir naut (4). Einn höfundur segir það af sama stofni og íslenska orðið »hrufa« (5). Á fræðimáli er sjúkdómurinn oftast nefndur ecthyma contagiosum (4) en stundum dermatitis pustularis contagiosa (6). Síðara nafnið lýsir honum betur, en er öllu stirðara. Enskir kalla þetta ýmist orf, »soremouth« eða »scabby mouth«, og eru þá að tala um sauðfé, einnig »sheep pox« um menn. Þýskir tala um »Lámmergrind« (7). Í þessu skrifi höfum við eftir nokkrar vangaveltur valið nafnið kindabóla. Ekki er örgrannt um að menn kalli ýmis þau kýli sláturbólu, sem í sláturtíðinni fást, þar með taldar meðfærilegar bakteríusýkingar. Því er sláturbólunafnið ónákvæmt. Hornabóla er eina lifandi nafnið sem nothæft væri, ef forðast ætti nýyrðasmíð. Af neðanskrifuðu má þó sjá, að ekki smitast meinið af hornum einum. Því er leið nýyrðasmíða farin og kindabóla er ágætlega lýsandi nafn. Hér skal, áður en rætt er um eðli meinsins, drepa á nokkur sjúkratilfelli, sem höfundar hafa sjálfir stundað, eða haft spurnir af."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er gaman. Rétt eins og að lesa Bændablaðið sem er skemmtilegasta blað á Íslandi nú um stundir.  Jafnvel bullið í þeim um Evrópumál gleður sálina því það er vel skrifað. Svo er gaman að fræðast um frunsur á spenum, hafrasæði og  ullarverð. Maður á að líta upp úr sínuog fylgjast með. 

Ég las Ljósberann árg. 1917 - 1953, innbundinn í syrting, á Skriðinsenni og hafði gaman af.  

En mér hefur yfirsést Læknablaðið 1982 - 1990 og blygðas mín hálfvegis fyrir.

Nú, nú. En af hverju má ekki kalla þessa óværu hrufu, hrúf eða hrýfi? 

Gunnar M Sandholt (IP-tala skráð) 20.11.2010 kl. 22:47

2 identicon

Óvænt, en skemmtilegt að rekast hér á pistil um orðsifjafræði og meingerð dýrasjúkdóma. Ég er sammála pistilhöfundi varðandi villandi merkingu "sláturbólu" og líst vel á tillögur Sandholts, en í Noregi kallast sjúkdómurinn munnskurv, sem lýsir einkennum ágætlega.

Latnesk-ensk hugtök eru oftast lýsandi (sbr. dermatitis pustularis contagiosa) og eru ómissandi í meinafræðinni. Stundum tekst ágætlega til við íslenskun á sjúkdómaheitum, besta dæmið er kannski maedi/visna sem einnig er notað erlendis.

Oft er hinsvegar of mikil ónákvæmni í hugtakanotkun í læknisfræði - besta dæmið (frá sjúnarhorni dýrameinafræðings) er "gin- og klaufaveiki" í BÖRNUM!

Dæmi um tilraun til íslenskunar á latínu/ensku, sem hljómar eins og alþjóðlega orðið en er merkingarlaust á íslensku, er t.d. súna (e. zoonosis).

Einar Jörundsson (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 08:59

3 identicon

Ginveiki hlýtr að vera undirflokkur alkóhólisma og algengari í fullorðnum en börnum og klaufaveiki þá frekar einkennalýsing

Skurfa,  sbr. norskuna, mund-skurv, er skemmtilegt orð en upptekið. 

En þið ættuð að bara skoða hvílíka tungubrjóta sjúkdómsvæðing hegðunar barna hefur leitt yfir okkur. "Mótþróaþrjóskuröskun",  að maður nú minnist ekki á "einhverfurófið". Gud bevare meg!

Gunnar M Sandholt (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband