Aukinn líkamsþyngdarstuðull (BMI) á unglingsárum ýtir undir kransæðasjúkdóm á miðjum aldri

segir í nýrri rannsókn ísraelska hersins á 37000 karlmönnum skv. New England Journal of Medicine í morgun.  Um er að ræða bein tengsl hækkaðs líkamsþyngdarstuðuls við kransæðasjúkdóm án þess að falla undir skilgreinda offitu. Offitan tengist þróun sykursýki best um það leyti, sem sykursýkin greinist, en kransæðasjúkdómurinn á sér sterk tengsl við líkamsþyngdina bæði á unglings- og fullorðinsárum. Þessar niðurstöður styðja þá kenningu, að grunninn að heilbrigði kransæðanna er verið að leggja um ævi alla.

Eins og kunnugt er, þá hefur náðst mikill árangur í baráttunni við kransæðasjúkdóm bæði hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum. Fréttir af versnandi holdafari þjóðarinnar, ungra jafnt sem aldinna, vekja ugg um að við kunnum að eiga von á nýrri bylgju kransæðasjúkdóma þegar fram í sækir. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sigurbjörn. Það er dálítið ógnvekjandi að rökræða við góðan hefðbundinn lækni um óhefðbundnar lækningar.

 Ég ætla samt að freistast til þess vegna þess að ég veit að ert í hjarta þínu réttlát persóna.

 Það er án efa eitt stærsta vandamál vesturlanda að þarmaflóra fólks hefur verið eyðilögð með pensillíni/fúkkalyfjum. Pensillín drepur nefnilega góðu bakteríurnar í þörmunum og þarmarnir verða óhæfir til að nýta næringuna úr fæðunni. Og sjúkdómar herja á alla sem hafa þegið svona ofnotkun á pensillíni vegna næringarskorts!

 Og þegar þarmaflóran er ónýt er ekki hægt að nýta næringu úr matnum. Og þegar fólk nýtir ekki næringu úr matnum er einungis næringarskortur og offita afleiðingarnar.

 Er ég að fara með rangt mál Sigurbjörn? Hefur þú leyfi til að segja mér og öðrum sannleikann um þessi mál? Þorir þú því? Þetta er áskorun á þig að segja sannleikann Sigurbjörn!

 M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.4.2011 kl. 11:31

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Sæl vertu Anna.

Það er alveg rétt hjá þér að penicillin og önnur sýklalyf geta spillt heilbrigðri bakteríuflóru líkamans, sem við þörfnumst þ.m.t. þarmaflórunni. Við það brenglast meltingin og frásög nauðsynlegra næringarefna í blóðið truflast. Oftast gengur þessi breyting til baka þegar neyslu lyfjanna er hætt, stundum tognar úr vandanum en sjaldan er hann varanlegur. Þess vegna er mjög mikilvægt að bæði læknar og skjólstæðingar þeirra geri sér grein fyrir takmörkum sýklalyfjanna og noti þau eingöngu ef ábendingarnar eru alveg skýrar.

Offituvandi okkar er held ég aðallega bundinn við neyslu umfram þörf. Í þeim efnum eigum við bara tvo kosti, sem unnið geta saman. Annars vegar að draga úr neyslunni og hins vegar að auka þörfina með aukinni hreyfingu. Þetta dæmi er mjög einfalt en að útfæra það í einkalífinu getur veið mjög flókið og jafnvel óyfirstíganlegt. Læknar ráða ekki við þetta verkefni heldur verður þjóðin að takast á við það. 

Það þarf að mennta þjóðina í þessum efnum og leiðin til þess held ég að sé um börnin. Ef við sinnum börnunum þá munu þau kenna foreldrunum hinn rétta lífsstíl. 

Sigurbjörn Sveinsson, 7.4.2011 kl. 13:05

3 Smámynd: Vilhjálmur Ari Arason

Góð ábending um greininna og þörf. Þetta er alvarlegt mál...og börnin eru okkar mesta áhyggjuefni í dag eins og gamla daga þótt forsendurnar séu gjörólíkar!  Bestu kveðjur

Vilhjálmur Ari Arason, 7.4.2011 kl. 21:16

4 identicon

Það vantar ekki dramatíkina. Það mætti halda að þú vissir hver hafi skotið Kennedy: "Er ég að fara með rangt mál Sigurbjörn? Hefur þú leyfi til að segja mér og öðrum sannleikann um þessi mál? Þorir þú því? Þetta er áskorun á þig að segja sannleikann Sigurbjörn!"

Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 07:40

5 identicon

Sæll Sigurbjörn.

Heilagur Ágústínus (354 - 430) hélt því fram á
sinni tíð að Ástralía væri ekki til.
Þegar peningasendingar og skýrslur um
ómeðvitaða líkamsþyngdarröskun og bráðdrepandi
og ólæknandi alkoholisma tóku að berast frá téðri
Ástralíu og andfætlingum þar gripu áhangendur
hins heilaga kirkjuföður til þess ráðs að vitna í
Efesusbréfið og segja allt slíkt vélabrögð andskotans.

Hóf er best á hverjum hlut og "Allt kann sá er hófið
kann," segir í Gíslasögu Súrssonar.
Innst inni vita menn af tilvist Ástralíu en furðu vekur
að það sem þegar var kýrskýrt fyrir 20 árum tekur sig upp
sem bros sem legið hefur í frosti þegar fyrirsjáanlegt er
að holskefla velmegunarsjúkdóma mun hvolfast yfir
íslenska þjóð á næstu 5 - 10 árum.

Var Lee Harvey Oswald ekki einn á ferð?(!)

Húsari. (IP-tala skráð) 9.4.2011 kl. 11:32

6 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Vafalítið hefur Ágústínus ekki viljað að trúariðkanir manna væru truflaðar af vangaveltum um Terra Australis Incognita og reyndar ekkert þar að hafa samanborið við frjóar lendur Norður Afríku og Atlasfjalla. Honum hefur gengið gott eitt til.

En nú dugir alls ekki að loka augunum lengur fyrir staðreyndum máls.

Sigurbjörn Sveinsson, 10.4.2011 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband