11.4.2012 | 20:27
Til hliðar við ómálefnalegan munnsöfnuð
Tveir menn tóku til sín gagnrýni mína um ómalefnalegan munnsöfnuð í Evrópuumræðunni og kröfðust annars af mér. Varð ég m.a. við því með pistli, sem ég skrifaði hér á bloggið fyrir 3 árum eða 2009:
"Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur. Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.
Svo var það fyrir páska í fyrra, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.
Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.
Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð. Við eigum tæplega annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið."
Krónan heldur ekki nema með höftum og efnahagsstjórnin hefur verið slök og ekki spyrnt við fallvöltu gengi gjaldmiðilsins. Til þess að kóróna vitleysuna vilja stjórnmálamennirnir ríghalda í krónuna til þess sð geta reglubundið breytt yfir mistök sín við efnahagsstjórnina með því að ráðstafa auðnum frá einum til annars með þessum einfalda krana, sem krefst einskis annars en að skrúfa hann fram og til baka.
Þetta er ástand, sem er óviðunandi fyrir okkur, og krefst úrlausna, sem ekki eru í boði við óbreytt fyrirkomulag í stjórn efnahagsmála.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sigurbjörn, vildi segja fyrst að ég er sammála um ljótu orðin, óþarfi að nota þau þó maður megi nota sterk orð. Oft dugir samt ekkert minna en sterk orð. Í það minnsta ekki þegar um ofurefli er að ræða.
Hinsvegar get ég ekki þagað um gamla pistilinn þinn. Við gefum ekki upp fullveldi landsins og ríkisins fyrir neinn gjaldmiðil eða peninga. Fullveldið og sjálfstæðið sem forfeður okkar börðust fyrir fyrir okkur og komandi kynslóðir er svo miklu dýrmætara en það.
Elle_, 11.4.2012 kl. 22:38
- - - dýrmætari en það.
Elle_, 11.4.2012 kl. 22:40
Kannski vorum við, Elle E, aldrei fullkomlega sjálfstæð og fullvöld nema á árunum 1918 til maí 1940. Öll tilvera okkar utan þess er lituð af málamiðlunum við nágranna svo ekki sé minnst á kúgun. Frelsi okkar hefur byggst á tillitsemi annarra og háttvísi. Þessi tími er liðinn. Enginn er eyland svo notuð sé gömul og útjöskuð klisja.
Það er kominn tími á að við horfumst í augu við þessar staðreyndir. Tími hins freka krakka og uppivöðslusama er liðinn.
Sigurbjörn Sveinsson, 11.4.2012 kl. 22:55
Og eitt enn: Var að enda við að lesa það sem Jón Steinar skrifaði í no. 3 (07:35) í gær í síðasta pistli og það er satt hjá honum. Við sem ekki viljum fara undir yfirráð Brussel höfum verið kölluð öllu illu lengi, ljótustu orðum, ógeðslegum orðum fyrir það eitt að vilja það ekki.
Í pistli þar á undan var ég of sein að skrifa undir. En kann ekki að meta það sem þú og Sveinn sögðuð í commentunum um núverandi forseta og læt það fylgja með núna. Núverandi forseti er að mínum dómi svo miklu hæfari, lýðræðislegri og sterkari en hinn forsetinn sem þið berið hann saman við. Hann stendur í lappirnar með fólkinu, með lýðræðinu og ríkinu.
Elle_, 11.4.2012 kl. 22:58
Nú las ég svarið þitt. Hvað meinarðu með ´freka krakka´? Við getum haldið fullveldinu þó við högum okkur ekki eins og það. Það er verið að vaða yfir okkur og við hljótum að standa í fæturna eins og menn.
Elle_, 11.4.2012 kl. 23:10
Ein alþekkt aðferðarfræði í áróðri er einmitt að þykjast hafa verið með í leiknum, en komast svo að þeirri niðurstöðu að vilja söðla um. Getur verið ansi áhrifaríkt, en að mínu mati undirförult.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.4.2012 kl. 09:35
Hvað áttu við með þessu Ásthildur?
Sigurbjörn Sveinsson, 12.4.2012 kl. 17:32
Mér urðu á nafna-mistök í gær og dreg það til baka, Sigurbjörn. Ætlaði að segja Ólafur, ekki Sveinn.
Elle_, 12.4.2012 kl. 19:01
Það sem ég á við er nákvæmlega þetta Sigurbjörn: Það hefur stundum gefist ansi vel hér á netinu að þykjast fylgja einhverju máli eftir, þó maður vilji gera annað, "skipta svo um skoðun" eða þannig, svo að fólk hugsi, ó já þessi maður hefur fengið vitrun og aðra sýn, það verður að skoða vel og vandlega.
Þetta er ekkert flókið, né stærðfræðilega rökrétt, bara eitthvað sem ef til vill var kennt í pólitískum skólum Sjálfstæðis og Samfylkingar til að komast eins lang og hægt er að plata fólk upp úr skónum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.4.2012 kl. 19:05
Þakka þér þessa skýringu Ásthildur. Bjóst reyndar ekki við svona harkalegum viðbrögðum frá þér en látum það vera.
Ég geri ráð fyrir að þú sért að vísa til þess, að ég segist hafa skipt um skoðun í ESB málum Ég hlýt að álykta af orðum þínum að þú teljir mig "þykjast hafa verið með í leiknum" en sýnt "undirferli" til að "plata fólk upp úr skónum".
Það blæs ekki byrlega fyrir Evrópusambandssinnum í augnablikinu. Sambandið stendur illa innan frá; mörg ríki eiga í miklum efnahagsvanda og sameiginlegur gjaldmiðill eykur á hann. Að auki er Evrópusambandið orðið andstæðingur okkar í milliríkjadeilu fyrir dómi. Að þessum atriðum skoðuðum ætti það að vera fremur ólíklegt að ég fari fram með stuðning við Evrópusambandsaðild Íslands af undirmálum til að plata fólk til fylgilags við skoðun mína. Mín skoðun nýtur alls ekki mikils fylgis um þessar mundir og á undir högg að sækja. Ég hygg hins vegar að það muni breytast með tíð og tíma. Alla vega finnst mér skynsamlegt að ljúka þessum viðræðum við Evrópusambandið og að þjóðin taki síðan afstöðu til niðurstöðunnar.
Það væri freistandi að túlka þessar viðtökur þínar við ummælum mínum sem staðfestingu á réttmæti fyrirsagnar fyrri pistils, en ég vil alls ekki ganga svo langt. Ég met allt það góða sem þú hefur lagt fram hér á blogginu of mikils til að slík túlkun eigi nokkurn rétt á sér.
Sigurbjörn Sveinsson, 12.4.2012 kl. 20:19
Takk fyrir þetta svar Sigurbjörn. Já ég hugsaði eitthvað í þá veru. Ég er orðin svo hvekkt á rangfærlsum og lygum eða hálfsannleika stjórnvalda að ég tek öllu með fyrir vara.
En ég hef dvalið bæði í Austurríki, Þýskalandi og Danmörku og þekki fjölda fólks líka í Svíþjóð og Englandi og allir þessir vinir mínir vara mig við að þessi örþjóð gangi inn í ESB.
Það mótar sennilega mína afstöðu frekar, en líka þær fréttir sem þú bendir á með ESB með allt niðrum sig á sínum jaðarsvæðum.
Auk þess tel ég að ESB sé ekki björgunarfélag heldru fyrst og fremst að gæta hagsmuna þeirra ríkja sem mest eru invikluð, Frakkland Þýskaland Holland og England. Það sem þeir eru búnir að gera sér grein fyrir er þurrð náttúruauðlinda á sínum heimasvæðum og horfa því til lands eins og Íslands, sem ríkt er af náttúruauðlindum sem geta gagnast þeirra sveltu ríkjum bæði hvað varðar rafmagn, jarðhita og aðrar orkulindir fyrir utan auðvitað sjávarauðlindina.
Allt þetta setur mig í varnarstellingar, því ég hlusta á þessa erlendu vini mína og varnarorð þeirra sem bera hag okkar litla lands fyrir brjósti, og þetta eru almennir borgara í þessu þjóðríkjum, sumir afar vel menntaðir og vita hvað þeir eru að tala um.
Þarna þurfum við að stíga varlega til jarðar, því þessir komisserar í Brussel hugsa ekki bara eins og oft virðist hér heima í vikum og mánuðum, þeir hugsa í árum og jafnvel öldum.
Börnin okkar og barnabörn eru þarna inn í spilinu, en ekki bara við og áhyggjur morgundagsins eða jafnvel gærdagsins eins og virðist vera ríkjandi hér.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.4.2012 kl. 20:36
Niðurstaða þín er skiljanleg út frá forsendum þínum. Þakka svarið.
Sigurbjörn Sveinsson, 12.4.2012 kl. 21:39
Persónulega held ég ekki að það verði neinn yfirgnæfandi vilji í landinu seinna fyrir að fara og lokast innan Brusselmúra þar sem þeir munu fara með utanríkismál okkar og alla yfirstjórn. Við viljum geta stjórnað okkar landi sjálf og okkar utanríkismálum og utanríkissamskiptum. Vonandi verður veldið þarna ekki lengur við lýði innan skamms.
Elle_, 13.4.2012 kl. 00:43
Það er líka þannig að fjöldi okkar hefur bara ekki nokkra löngun eða vilja fyrir nánu samstarfi og hvað þá yfirstjórn evrópskra stórvelda. Það eru margir sem kjósa nánari samband við önnur lönd heimsins. Það eru mín lokaorð.
Elle_, 13.4.2012 kl. 00:52
Ég er sammála þeim Elle, það er lokaorðum þínum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2012 kl. 10:30
Skynsamlega lausnin hlýtur þó að vera sú að fá einhverja niðurstöðu sem verður kosið um. Allt skynsamt fólk hlýtur að sjá það, hvort sem það er með eða á móti. Eða hvernig tekur maður afstöðu til einhvers sem enginn veit hvað er?
Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 13.4.2012 kl. 21:49
Enginn veit? Ég ætlaði að vera hætt, en Tómas Örn, allt sem þarf að gera er að lesa sáttmála Brussel við sambandsríkin. Og 90 þúsund blaðsíður af lögum þeirra sem yrðu ráðandi, æðri okkar.
Það ´fæst´ ekkert þarna, ekki einu sinni varanlegar undanþágur fyrir stjórn á okkar eigin landsvæði og hafsvæði. Engar sem neinu skipta miðað við fullveldisafsalið/yfirtökuna yfir landinu og lögsögunni, líka fiskveiðilögsögunni. Enda hví ættum við að vilja fá e-ð fyrir fullveldið og sjálfstæðið??
Við vorum ekki einu sinni spurð hvort við vildum nokkuð með þetta þvingunarveldi hafa.
Elle_, 13.4.2012 kl. 22:48
Ekki bara það Elle heldur hefur utanríkisráðherra nú orðið uppvís að því að leyna forsætisráðherra, utanríkismálanefnd og allt alþingi upplýsingum sem skipta miklu máli. Það hlýtur a.m.k. að verð lögð fram vantrauststillaga á hann ef ekki alla ríkisstjórnina.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2012 kl. 11:00
Já, Ásthildur. Hann hikar ekki við að fela skjöl og skýrslur. Hann gerði það líka í ICESAVE-málinu. Og varðandi það eilífa umtal um að ´kjósa um niðurstöðu´ segi ég að þeir sem segja þetta mættu spyrja sig hvort við ættum ekki líka að ´kjósa um niðurstöðu´ um inngöngu/yfirtöku víðar um heim. Kannski vildum við ganga í Bandaríkin, Kanada, Rússland, etc. Við vorum ekki spurð um eitt eða neitt. Þessu var þvingað í gegn fyrir 1 stjórnmálaflokk.
Elle_, 14.4.2012 kl. 12:28
Nei nákvæmlega.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.4.2012 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.