Að drepa umræðu með klisjum

“Stöndum saman” er brýning dagsins. Er þá vísað bæði til okkar sem einstaklinga og samfélags, fjölskyldna jafnt sem atvinnu- og efnahagslífs. Fátt er mikilvægara við þær aðstæður, sem nú eru, en að lifa daginn og njóta hans og átta sig á að samfélaginu verður ekki bjargað án þess að hlúð sé að einstaklingunum og að þeir veiti hverjir öðrum stuðning með návistum, tillitsemi og nærgætni. Þetta er hverju orði sannara. Það er líka mikilvægt að þjóðin horfi saman fram á veginn með meira í brjósti en einungis von um betri tíð.  Mér finnst það hins vegar ljóður á þessari annars heilbrigðu afstöðu sumra að halda því fram samhliða henni, að ekki megi gagnrýna það, sem miður hefur farið eða ráðstafanir líðandi stundar, það séu niðurrif og úrtölur og andstætt því verkefni, sem við stöndum frammi fyrir. Sagt er, að við eigum að bíða, bíða eftir logninu, bíða eftir ráðstöfununum, bíða eftir útkomunni, bíða eftir flokksþingunum, nánast bíða eftir þeirri framtíð, sem enginn veit hver er.  Ekkert má persónugera. Öllum á að hlífa og fyrst og fremst ríkisstjórn og seðlabanka. Þau virðast öll hafa verið að æfa lögreglukórinn.  

 

Þetta er misskilningur.

 

Þetta er áreiðanlegasta leiðin til að drepa alla gagnrýna hugsun, drepa umræðunni á dreif, tryggja að enginn verði kallaður til ábyrgðar og að við lærum ekkert af því sem gerst hefur og að engin breyting verði á samfélagi okkar til góðs. Við verðum að ræða atburðina um leið og þeir gerast. Það er ekki eftir neinu að bíða. Saga hugmyndanna, svo ekki sé minnst á sögu þjóðanna, er full af dæmum um umræðu, sem kæfð hefur verið með þessum rökum.  Tökum slaginn strax með opnum og lýðræðislegum skoðanaskiptum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband