"Ég var að æfa lögreglukórinn"

Það er átakanlegt að fylgjast með leiðtogum þjóðarinnar bítast um þann litla sakleysisbút, sem kann að vera til skiptanna af köku aðfarar bankahrunsins. Ekki benda á mig, segja þau öll.

 

Kjóserndur eiga hins vegar fáa kosti aðra en að draga stjórmnálamenn til ábyrgðar. Og raunar er þeim nauðugur einn kostur, því öllu skiptir um þessar mundir, að stjórnmálamenn, hvorir tveggja þeir, sem nú eru við völd og þeir, sem hyggja á frama á þessari braut, fái skýr skilaboð um að ábyrgðar- og aðgæsluleysi um fjöregg þjóðarinnar verði ekki liðið. Gagnvart kjósendum þá eru það ríkisstjórnir landsins á undanförnum árum, sem bera ábyrgðiuna.

 

Ríkisstjórn og meirihluti Alþingis lögðu grunninn að þeirri skipan stjórnar peningamála, sem nú gildir. Ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis réðu mestu um það á sínum tíma, hverjir eignuðust ráðandi hlut í rikisbönkunum við einkavæðingu þeirra. Ríkisstjórnin stuðlaði að sókn þeirra á húsnæðismarkaðnum og horfði aðgerðalaus á þá bólgna út við fjármögnun húsnæðis- og neyslulána og fjármögnun hringekju viðskipta með fyrirtæki heima og erlendis. Þessi hringekja hefur verið kölluð “skuldsettar yfirtökur”. Það heitir á mannamáli að kaupa upp á krít og það gerðu menn fyrir sparnað almennings í nálægum löndum. Peningarnir fóru s.s. til Íslands, höfðu þar stutta viðdvöl og fóru síðan aftur út til fjárfestinga eftir að hluti þeirra hafði orðið eftir og fallið í skaut þeirra, sem þátt tóku í svikamyllunni. Ísland varð pýramídafyrirtæki eða ein stór bréfakeðja fyrir augunum á ríkisstjórn landsins. Forysta Sjálfstæðisflokksins var meðvitundarlaus eða öllu heldur agndofa yfir nýju fötum keisarans, því aðgerðarleysið var hluti þeirrar hugmyndafræði hans, sem réði hagstjórninni.

 

Sú ríkisstjórn, sem nú situr, ber ekki minni ábyrgð en þær, sem á undan henni komu. Samfylkingin ber ekki minni ábyrgð á stöðu okkar í dag en þeir framsóknarmenn, sem nú sleikja sár sín í suðurhöfum. Ríkisstjórn Geirs og Ingibargar hafði setið við völd í 15 mánuði, þegar ráðuneytisstjórinn seldi bréf sín í Landsbankanum. Hún hafði ekkert aðhafst.

 Kalla þarf nýtt fólk til starfa, sem er laust við alla kreddufestu gamalla og úr sér genginna hugmynda, hefur tilfinningu fyrir vanda alþýðunnar í því ástandi sem er að hvolfast yfir hana og kjark til að varða leið til nýrrar framtíðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fjóla Björnsdóttir

Blessaður Sigurbjörn.

Alltaf gaman að lesa vel skrifaðar færslur. þar að auki eru þínar eins og talaðar út frá mínu hjarta.

Fjóla Björnsdóttir, 19.11.2008 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband