15.12.2008 | 18:16
Tímar Keynes runnir upp?
Í Morgunblaðinu í gær birtust tvær greinar um sama efni en með sitt hvorri niðurstöðunni. Önnur var leiðari blaðsins, sem vildu bregðast við kreppunni með enn meiri niðurskurði ríkisútgjalda en hin var grein Lúðvíks Ólafssonar, læknis, sem taldi skattahækkanir farsælli en launalækkanir og minni þjónustu. Sjónarmið ritstjóra Morgunblaðsins koma ekki á óvart þar sem þau eru runnin úr ama jarðvegi og viðhorf meirihluta þingflokksSjálfstæðisflokksins, sem ráðið hefur ferðinni undanfarin ár. Þar er hangið í afskiptaleysinu og minimalismanum eins og um sáluhjálparatriði sé að ræða og ekkert svigrúm virðist vera fyrir nýja hugsun ef hún styðst við eitthvað annað en kenningar Friedmans og Hayeks.
Lúðvík, sem er sannur aristokrat og hefur blárra blóð í æðum en flestir í þingliði sjálfstæðismanna, hefur losnað út úr þráhyggju frjálshyggjunnar og því tekst honum betur að koma auga á list hins mögulega en atvinnustjórnmálamennirnir, sem það ættu að kunna flestum betur. Hann dregur fram mikilvægi þess, að fólk verði ekki niðurlægt með launalækkunum og atvinnumissi, þegar hægt væri að mæta efnahagsvandanum á annan hátt. Ég gæti fyrir mitt leyti alveg fellt mig við skattahækkanir til að efla atvinnu eða jafnvel til að tryggja fríar skólamáltíðir í grunnskólum landsins svo eitthvað sé nefnt. Atvinnuleysi er versta afleiðing kreppunnar. Það er skárra að tapa peningum en heilbrigðum viðfangsefnum vinnunnar. Allir þurfa að finna kröftum sínum viðnám. Heilsuspillandi afleiðingar atvinnuleysis hafa margoft verið tíundaðar í vísindalegum rannsóknum. Það hefur Lúðvík vafalítið haft í huga.
John Maynard Keynes var einn af fremstu hagfræðingum 20. aldarinnar. Hann var markaðssinnaður hagfræðingur en ólíkur frjálshyggjumönnum að því leyti, að hann taldi rétt að beita miðstýringu og ríkisafskiptum ef tilefnin væru viðeigandi. Einna frægust afskipta af þessu tagi voru ráðstafanir stjórnar Franklins D. Roosevelts til að ráða niðurlögum kreppunnar í Bandaríkjunum. Fyrir bragðið var Roosevelt kallaður "kommi" og nafn hans skammaryrði og mátti jafnvel ekki nefna á sumum heimilum vestra. Þó var Roosevelt talinn farsæll forseti og elskaður af þjóð sinni.
Það er ekki óeðlilegt, að menn líti til Keynes nú á dögum við þessar aðstæður. Það er engin minnkun í því. Það sýnir sveigjanleika og víðsýni. Hagfræði er ekki kennisetningar eða trúarbrögð. Því síður er hún raunvísindi þar sem viðfangsefnið verður þvingað niður í far öreindarinnar eftir hárnákvæmum ferli rafsegulsviðsins. Hagfræðin er félagsfræði og mannfræði, þar sem engin jafna mun ná yfir allar þær breytur, sem í henni þurfa að vera.
Ég held að nálgun Lúðvíks Ólafssonar feli í sér meiri skynsemi, en nálgun ritstjóra Morgunblaðsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2008 kl. 08:12 | Facebook
Athugasemdir
Ekki má gleyma að afleiðingarnar af Kanyesisma gátu líka verið slæmar.
Til dæmis um það er flugiðnaðurinn í BNA. Þar var, undir hinum mikla Kanyesisma sem ríkti þar nánast fram að reglan, gífurlega mikið eftirlit. Verðin voru ákveðinn af ríkinu, flugleiðir sem mátti flúga o.fl. Hins vegar þegar mikið af þessum reglum var aflétt, t.d verðstýringu, hrundi verðið á flugmiðum, farþegafjöldi 3x á fáum mánuðum, 2x fleiri fengu vinnu við flugiðnaðinn, ferðaþjónusta hófst fyrir alvöru(fleiri efni á því).
Einnig má taka dæmi um Berlín eftir stríð (vestur) en þar hafði verið byggt á hreinum "kanyesisma" um miðstýringu verðs til að halda í t.d við verðbólgu. Þar var nánast ekkert um viðskipti. Búðir höfðu engar vörur, peningar í raun ekkert gildi, allt fór í gegnum svartmarkaðsbrask með amerískar sígarettur og koníak. Einn daginn komst "leyni" Hayekisti til valda (án þess að BNA menn vissu það) yfir efnahagslífi Berlínar. Strax felldi hann niður verðstýringu á vöru og kom á stað frjálsum viðskiptum. Daginn eftir (engar ýkjur) var markaðurinn kominn á fullt skrið, vörur fullar af vörum o.s.frv. Áhrifin af þessu leiddi til þess að Þýskaland, nánast eitt Evrópuríkja, tók upp blandað kapítalískt hagkerfi, þ.s kaptitalískan Kanyesisma í bland við kenningar Hayek. Út af þessu, segja margir, tóku Þjóðverjar mjög snemma aftur forustuna í efnahagsmálum Evrópu.
Þannig að í raun hittir þessi pistill hjá þér í mark Sigurbjörn, hagfræðikenningar eru ekki trúarbrögð. Kanyesismi gæti gegnið vel í því ástandi sem nú er, tortryggni í mörkuðum o.s.frv. Hann gæti hjálpað að skapa atvinnu og haldið þjóðarbúinu gangandi. Hins vegar eru takmörk fyrir því hve ríkið getur gengið í atvinnulífinu, það fellst í eðli þess. Ríkið er íhaldssamt, á að uppfylla ákveðnar skyldur (t.d öryggi borgaranna =atvinnusköpun) Hins vegar ef ríkið gegnur of langt, ef einstaklingurinn fær ekki tækifæri til að njóta sín líka, mun dugnaðurinn og viljinn hverfa. Nýsköpun minnkar þar sem gæðafólk mun ekki njóta eins vel afrakstur síns erfiðis(græðgi eðli mannsins). Því verður hlutverk ríkisins að takmarkast við visst mark (t.d flugiðnaðurinn). Einkaaðilinn, til að byggja upp áframhaldandi velferð, verður að fá lausan tauminn (upp að vissu marki, enda er það í eðli Kapitalismans að ef engin högt eru þá snýst hagkerfið upp í andhverfu sína = einokun). Blanda af báðum kerfum er lausnin.
En annars góður pistill og hugleiðingar.
Haraldur Sigurjónsson (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 01:56
Þessi hressandi andsvör gefa tilefni til þess að víkja örstutt að John Stuart Mill síðar í dag. Sjáum hvað gerist í matartímanum.
Sigurbjörn Sveinsson (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 08:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.