Björn Bjarnason túlkar söguna

Björn Bjarnason ritaði pistil á heimasíðu sína um liðna helgi. Þar fjallar hann um umræðuna um aðild að Evrópusambandinu. Ekki verður betur séð en að hann vilji draga fram að saga  Sjálfstæðisflokksins sé samofin sögu lýðveldisins. Er það og flestra manna mál.  Eins og vitnað hefur verið til segir hann: "Fyrir því eru hins vegar sterk og málefnaleg rök, að léti Sjálfstæðisflokkurinn við það eitt sitja á landsfundi sínum að binda trúss sitt við Evrópusambandið, yrði hann með öllu ótrúverðugur og brygðist sögulegu hlutverki sínu. " Björn lætur það hins vegar vera að skýra nánar hvert hið sögulega hlutverk Sjálfstæðisflokksins er í þessum efnum.

Hið sögulega hlutverk Sjálfstæðisflokksins hefur ætíð verið nytjastefna í utanríkismálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur grundvallað stefnu sína á hagsmunamati í þágu þjóðarinnar eins núverandi forustumenn flokksins hafa ítrekað bent á. Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu á sínum tíma forgöngu um aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum og síðar Atlantshafsbandalaginu en enn síðar að EFTA. Flokkurinn studdi aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu og Björn Bjarnason var einlægur stuðningsmaður aðildar að Schengensamkomulaginu.  Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ákafur í viðleitni sinni við að rjúfa einangrun landsins og gera Íslendinga gildandi í samfélagi þjóðanna.

Það er svo líka umhugsunarefni og gerir athugasemd Björns neyðarlegri fyrir vikið, að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þeirri stöðu, sem upp er komin í efnahagsmálum þjóðarinnar, þannig að við erum nú hársbreidd frá því að glata sjálfstæði okkar.

Ef litið er til sögulegs hlutverks Sjálfstæðisflokksins, þá er vegferð forustu flokksins núna ekki vel til þess fallin að ríma við það.  Flokkurinn verður að ganga í endurnýjun lífdaga ef hann á að vera þjóðinni áfram það pólitíska gagn, sem hann hefur verið.  

Auk þess legg ég til, að ríkisstjórnin boði til Alþingiskosninga og fari frá. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þarna er ég afar ósammála þér.

1.  Megininntak utanríkisstefnu Flokksins hefur verið sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur okakr til allra mála.  Þar með varna og aðegerða í vendun náttúru okkar og fiskimiða, höfðum raunar forgöngu á heimsvísu um 200 mílna landhelgi eða umráðarétt.

2.  EFTA var byggt á TVÍHLIÐA SAMNINGUM MILLI FRJÁLSRA RÍKJA en ekki sameiginlegar uppá lagðar  samningsgerðir.

3.  AÐ söguleg stefna hafi verið NYTJASTEFNA  er auðvitað bull og vitleysa.  Öngvir börðust harðar gegn Aronskunni en forystumenn okkar. 

4.  Aðild að NATO var til þess gerð, að við hefðum val og frelsi til athafna og að nálgast lærdóm í Vestrænum Háskólum.  Það gleymist svo oft, að það er vegna NATO aðildar að stúdentar okkar komust hindrunarlaust inn í MIT og fl skóla.

5.  Stíor hluti Flokksmanna var afar ANDSNÚINN AÐILD AÐ EES til upprifjunar vil ég minna á hve hart var tekist á um þetta innan Flokksins bæði á Landsfundum og víðar.  Þetta klauf okkur nánast um miðju.

6.  Svo mun enn, að innan Flokksins eru afar þjóðhollir menn sem ekki vilja binda okkar trúss við lestt ræningja og ofbeldismanna en svo vil ég kalla Breta eftir meðferð þeirra á okkur.  Gersamlega ófyrirgefanlegt með öllu en viðbúið af þeim, enda þekktir af stórbokkaskap við þa´sem þeir telja sig  eiga í fullu tré við en undirlægju við hina, svo sem Kanann.

Miðbæjaríahldið

lítur EKKI á ESB sinna sem þjóðholla, frekar sem bernska í hugsun og einfalda.

Bjarni Kjartansson, 13.1.2009 kl. 11:56

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Það er gott að vera bernskur og einfaldur.  Þeim var nú lofað himnaríkinu á sínum tíma, hvorki meira né minna.  En hafandi þessa skoðun verðskuldar tæplega að vera sagður óþjóðhollur. Það eru landráð skv. minni orðabók. Menn eru reyndar ESB-sinnar af ýmsum ástæðum og ekki eru þær allar einfaldar viðureignar.

Sigurbjörn Sveinsson, 13.1.2009 kl. 13:57

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Svo er með mig og að vísu fleiri, að við vonum lengi að villur menna séu af frómum rótum en ekki rætnum.

 Ég vona, að Flokkurinn minn, sem ég gekk til liðs við barnungur, nái að skoða sín inni nægjanlega til þess, að muna til hvers hann var stofnaður og af hverju gildi hans hafa rímað svo vel við þjóðarsálina okkar íslensku.

Hver lítur sínum augum silfrið EN sannleikurinner einn og aleinn.  Því líta menn aurana hver sínum augum og túlka hvaðeina eftir sínu höfði og hvað hentar til slæfingar samvisku sinnar hverju sinni en að lyktum mun svo verða, að það sem er hulið myrkri mun í ljósið koma og þá sjá menn hvað er og hvað er ekki.

Því óska ég okkur Landsfundarfulltrúum alls hins besta´við þá iðju, að finna þa´leið sem er í sem bestu samræmi við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins en ekki bara ,,hagfelldast" til stutts tíma.

Miðbæjaríhaldið

Forn í skapi og ann fornum bókmenntum mjög.

Bjarni Kjartansson, 13.1.2009 kl. 15:35

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Offorsandstæðingar ESB-aðildar beita heimatilbúnum hræðsluáróðri.

ESB er skilgreint sem bandalag fullvalda og sjálfstæðra lýðræðisríkja - Önnur lönd eða landsvæði en þau sem þetta á við um geta ekki orðið sjálfstæðir aðilar að ESB.

Með aðild að öllum bandalögum ríkja heims sem við veitum einhverskonar ákvörðunarrétt sem er bindandi fyrir aðildarríkin erum við í sama skilningi og Bjarni vitnar til að deila hluta fullveldis okkar - en fá á móti áhrif á niðurstöðuna í heild fyrir öll ríkin - þegar það á við er það aukning á valdi okkar.

Þegar um er að ræða viðfangsefni sem vart verða leyst nema með öðrum ríkjum er þannig um „veldisaukningu“ að ræða en alls ekki afsal.

Munurinn milli þess sem við og Sjálfstæðisflokkurinn höfum margoft áður gert og svo ESB aðildar er fyrst og fremst að með ESB eru mörg mál tekin í einum pakka. 

Fyrir erum við aðilar að og bundin ákvörðunum fjölmargra stofnanna og bandalaga. T.d. Sameinuðu þjóðanna og stofnanna þeirra og þar helling af sáttmálum þar inni - t.d. gæti Öryggisráðið úthlutað íslandi til Breta á morgun - ef menn vilja búa til hræðsluáróður þá hefur Öryggisráðið þó gert viðlíka áður.

Þar sem það er helst Fiskveiðistefnan sem menn kvarta yfir og hún er stofnuð aðeins til að stjórna fiskveiðum til verndar fiskistofnum, má minna á að við erum aðilar að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er bindandi fyrir okkur, einnig hvalveiðiráðinu sem svo sannanlega er bindandi fyrir okkur, einnig Kyoto-sáttmálanum sem bindur okkur um notkun andrúmsloftsins og svo Ríó-sáttmálanum um gróðurhúsaáhrif, einnig GATT og WTO sem þegar þar eru teknar ákvarðanir um reglur heimsviðskipta þá eru þær bindandi fyrir okkur um tolla og viðskiptahindranir m.a. um landbúnaðarvörur. NATO sem ekki er nú víst að alltaf leita samþykkis okkar.

Mannréttindasamningar og sáttmálar binda okkur á ýmsa vegu og svo auðvitað hefur fullveldi okkar verið stórkostlega skert með því að okkur er bannað að koma okkur upp kjarnorkuvopnum og hverskyns gereyðingavopnum - efnavopnum, sýklavopnum og nú að nota jarðsprengjur - að ógleymdum þessum óþolandi Genfarsáttmála um meðferð stríðsfanga - ekki sömdum við hann en látum neyða hann uppá okkur - eða þannig. ... og miklu fleira ef menn vilja leggjast í að finna það allt til.

Fyrst og fremst er þó um það að ræða að með öðrum þjóðum að taka ákvarðanir sem varða þær allar og eru miklu meira virði sameiginlega en sitt í hvoru lagi.

ESB fer nú stærra en svo að það fer aðeins með 1% af þjóðartekjum aðildarlandanna eða 236 evrur á  hvern íbúa  - og af því er 8/10 sent beint aftur til landanna sem niðurgreiðslur landbúnaðarvara og byggða- og uppbyggingastyrkir í ýmsum myndum.

Ríkisstjórnir landanna og hið opinbera fer með 40-60% þjóðartekna en ESB 1%.

Helgi Jóhann Hauksson, 13.1.2009 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband