Niður með grímurnar

Mér er vel við mótmælendur. Hef alltaf verið dulítið veikur fyrir aktívistum. Jafnvel anarkíið er sjarmerandi á sinn hátt. Það er ekki langt á milli anarkistans og Hannesar Hólmsteins. Sjáið frjálshyggjuna.  Aldrei hefur afskiptaleysið hlotið aðra eins upphefð. Hampað af ríkjandi öflum. Fullkomlega lögleg hugmyndafræði. 

Mótmælendur gegna þýðingarmiklu hlutverki. Þeir halda okkur við efnið.

Ég hef fengið bágt fyrir þessa meintu linku hjá vinum og vandamönnum. Fólk hefur eðlilega áhyggjur af skemmdarverkum og eignaspjöllum yfirleitt, sem eru framandi íslensku samfélagi. Ég get vel tekið undir það. En ég hef tilhneigingu til að vega álag og ávinning fyrir samfélag okkar og fram að þessu hef ég viljað hlífa aktívistunum við of harkalegum gagnaðgerðum.

En eitt á ég ákaflega erfitt með að verja. Það eru hetturnar. Hvaða hugmyndafræði er þarna að baki? Hver er nauðsynin? Er ekki lengur hægt að standa á skoðunum sínum án þess að leyna persónu sinni?  Standa skoðanirnar ekki undir reisn persónunnar? Eru skoðanirnar og persónurnar ekki samferða í baráttu hversdagsins?  Þetta er orðið eins og hver önnur tíska. Fólk mætir á fjölmenna og friðsama borgarafundi, sem bera af því, sem áður hefur verið gert af þessu tagi hér á landi. Og láta svo ófriðlega í agiteraðri auglýsingamennsku fyrir grímubúninga sína. Fyrir mér er þetta fólk í besta falli unglingar í þörf fyrir uppeldi og aðhald og í versta falli andlitslausir aumingjar.

Það þarf að taka hart á þessu þegar í stað og það þarf að koma alveg í veg fyrir að þetta fólk fari inn í opinberar byggingar í þessum búningi. 

Ég legg til að grímurnar verði teknar ofan og þeir, sem eru í ríkri þörf, stundi sína Batmanleiki í viðeigandi umhverfi.

Auk þess legg ég til, að ríkisstjórnin boði til Alþingiskosninga og biðjist lausnar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Guðmundur Schmidt

Hefði ekki getað orðað þetta betur. Þeir mótmælendur sem mæta grímuklæddir með ofbeldi og skemmdarverkum uppskera lítið annað en slæmt orðspor. Að auki setja þessir aðilar svartan blett á málefnaleg mótmæli.

Róbert Guðmundur Schmidt, 14.1.2009 kl. 12:38

2 Smámynd: Aradia

Með grímu ertu Íslendingur, án grímunnar, ertu íslendingurinn Jóna Jónsdóttir sem vinnur þarna og á þennan mann og bla bla..... dregur athyglina að manneskjunni sem er að mótmæla í stað þess að draga athyglina að mótmælunum.

Aradia, 14.1.2009 kl. 15:20

3 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Ég held að þetta sé partur af nafnlausu byltingu internetsins. Samtökin Anonymous, sem eru að stórum hluta sprottin upp úr 4chan síðunni leggja einmitt áherslu á nafnleysi og notkun á grímum við mótmæli. Á síðunni er ekki einu sinni hægt að tjá sig undir nafni.

Í V for Vendetta er einmitt lagt upp úr þessu, að skoðanir séu ekki beintengdar við manneskjurnar sem hafa þær.

Kristján Hrannar Pálsson, 14.1.2009 kl. 17:58

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er sammála að vissu leyti en finnst þetta ekki það stórmál sem gert er úr því.  Margir hata þessa örfáu grímumennu meira en þá sem steyptu ósköpunum yfir þjóðina. Og það er ekki hægt að gera sjálfkrafa og án tilefnis grímuklæddan mótmælanda að ofbeldismanni og velja honum ónefni en það er gert í stórum stíl á bloggum. Þjóðin er greinilega ekki í jafnvægi - á hvorn veginn sem er. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.1.2009 kl. 19:15

5 identicon

Ég hef svarað þessu með grímurnar, t.d. hér.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 17:48

6 identicon

Heyrði um daginn talað um gamlan heimspeking sem hafði krufið skoðanir fólks og hafði "skoðanir" á skoðunum.

En hann sagði eitthvað á þessa leið að:

heimskingjarnir forðuðust skoðanir

hugaðir reyndu að breyta  skoðunum

gáfumenn tækjust á við skoðanir

en baráttu mennirnir mynduðu skoðanirnar.

Eftir að hafa heyrt þetta hlusta ég betur eftir hvað þetta fólk er að fara fram á því það er alveg á hreinu að það breytist ekkert hjá okkur ef öll umræða fer fram á kaffistofum og á bloggi og ekkert annað fylgir, það höfum við öll séð. Það er sama hvort koma hæstaréttardómar,álit umboðsmanns,álit nefnda um hæfi umsækjenda......

Stjórnvöld eru búin að skapa umhverfi þar sem fólk er að fyllast örvæntingu og reiði. Krafist er breytinga á stjórnkerfinu og sagan sýnir okkur að það hefur aldrei verið gert nema með átökum. Yfirleitt hafist hjá ungu fólki sem svo verkalýðurinn hefur stutt.

Man aldrei eftir að hafa lesið um miðaldra menntamenn sem hafa leitt neinar slíkar umbyltingar. Þeir hafa frekar stutt kerfið, sem leiðir okkur aftur að heimspekingnum.

Sævar Smárason (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband