Helgarmoli: Dagbókin hans afa

Ég er að fletta gamalli sjóferðadagbók frá afa mínum, Ólafi Veturliða Bjarnasyni, skipstjóra á Bíldudal. Hans blómtími var á skútum Péturs Thorsteinssonar, sinni eigin eða annarra. Hann fórst með mb. Erninum á fullorðinsárum. Hann fór einn túr á síld fyrir skipstjórann. Það var hans bani. Þetta var 1936.

Þá nótt dreymdi Lóu á Stakkabergi í Klofningi (Ólöf Elínmundardóttir hét hún), að hópur manna gengi á land í Hnúksnesinu. Voru þeir allir i sjóklæðum og draup af þeim. Daginn eftir heyrði hún í útvarpinu að Örninn hefði farist. Lóu kynntist ég á fullorðinsárum og var hún mér alveg vandalaus. Þá var liðinn hálfur fimmti áratugur frá skaðanum. Lóa var grandvör kona en frásagnaglöð. Lóa var náttúrubarn eins og afi. Hún var vaxin upp af landinu en hann sjónum. Við fráfall móður sinnar færði hún föður sínum og fatlaðri systur líf sitt á silfurfati. Og heimtaði það aldrei til baka. Var trú allt til dauða.

Dagbók afa hefst miðvikudaginn 10. apríl 1904 með þessum orðum: "Helstu viðburðir um borð í Gyðu frá Bíldudal, veðrátta og hvar fiskað var sumarið 1904.  10. apríl: Var fólkið lögskráð til skiprúms. 11. apríl: Kl. 1 var ljett upp frá Bíldudal og siglt út Arnarfjörð með hægum austan kalda. Komum út úr firðinum kl 11 sama dag, var þá norðan stormur með frosti, var þá því rifað stórseglið og lagt til drifs."

Þannig líður tíminn um sumarið að siglt er eftir gæftum og fiskiríi fyrir Vestfjörðum. Þegar frá líður er skipstjórinn ungi spar á ánægjuna, fiskiríið tregt, aflinn rýr og fiskurinn heldur smár. Taldar gellur að kvöldi eru þó oft á öðru þúsundinu og það, sem lagt er upp, jafnan viðunandi. Lýst er samskiptum milli skipa, gestakomum og fréttaöflun um veiði á öðrum miðum og húslestrum á sunnudögum. Það er sem sagt haldið heilagt um borð. 

Vestfirðingurinn Pétur Jónsson,  sem fæddur var í byrjun síðustu aldar, flutti til Manitoba og gerði út á Winnipegvatni. Með honum réru tveir Indíánar. Þegar þeir lentu í villum á vatninu svo sem í þoku,  lét hann þá ævinlega ráða og brást ekki að þeir náðu landi, þar sem til var ætlast. Hann áttaði sig aldrei á því, hvernig þeim tókst þetta. Sæmundur frændi minn Pétursson, bróðursonur afa, sagði mér þegar ég var strákur að afi hefði iðulega siglt inn Arnarfjörð í blindbyl og enginn í áhöfn séð fram úr stafni fyrr en lagt var að á Bíldudal. Hann fullyrti að afi hefði siglt eftir sjólaginu. Þetta kallar maður að rækta náttúruna í sér. Hún er þarna ekki síður en í fuglunum.  

Þetta kunna að vera ýkjur. Skipshöfnin og fjölskyldur hennar áttu allt sitt undir láni skipstjórans. Þetta fólk varð að trúa því að úrræði hans yrðu til farsældar. Eins og með læknana. Tiltrúin var stundum meiri en innistæða var fyrir. En þetta hefur breyst sem betur fer.  

Jónas vinur minn Guðmundsson, verkstjóri hjá RARIK í Búðardal, slæddi mig stundum upp vestur í Dölum í illviðrum og erfiðri vetrarfærð. Jónas notaði gleraugu til að sjá frá sér. Þegar ekki sást lengur út úr augum slökkti Jónas á þurrkum og miðstöð og tók ofan gleraugun. Þannig skilaði hann okkur jafnan heim. Ég hef enn þann dag í dag ekki grænan grun um hvernig hann fór að þessu. Þetta er auðvitað sérgáfa. 

Afi flutti suður 1926 vegna veikinda ömmu. Þar mældi hann göturnar í kreppunni og snapaði daglaunavinnu á meðan fjölskyldan át upp innistæðuna. Það hefur verið nöturlegt hlutskipti ekki síður en nú. Ég hef oft reynt að spegla mig í lífi þessa fólks. Það hefur reynst erfitt. Til þess eru spegilbrotin of smá og of fá. Sá, sem gat skotið stoðum undir arfleifð mína, gróf fortíð sína í ævilangri heimþrá.     

En að öðru en þó skyldu. Á dögunum fjallaði ég á vefnum aðeins um smábátaútgerð.  Ég lauk innlegginu á þessum nótum:

"Ég hef reyndar ekki mikið vit á þessu, þó ég sé af sjómönnum kominn. En þeir þekkja þetta frændur mínir á Bíldudal. Pabbi þeirra, Garðar Jörundsson,  réri til fiskjar á vit náttúrunnar. Hans rækjumið voru hross í haga og best reyndust gamlir hestar, sem treysta mátti að væru á sama stað í túni áratug eftir áratug.

Það hlýtur að hafa verið gott hlutskipti að róa við dagmál á vit gamalla hrossa, sem aldrei brugðust, hvorki til sjós né lands. Þau standa ef til vill enn í túni, afkomendum Garðars til hæginda, þegar rækjan lætur á sér kræla á nýjan leik í Arnarfirði."

Ég átti ekki von á að athugasemd kæmi við þessi skrif. En það var öðru nær. Jörundur sonur Garðars gerði athugasemd: "Gamlir hestar sem notaðir voru sem fiskimið voru auðvitað staðfesting á því að hér hafði lífið verið í föstum skorðum í þúsund ár.  En nú er öldin önnur, Auðkúluhreppur kominn í eyði fyrir utan einn einbúa á Ósi í Mosdal en þar er líka Laugaból sem ól staðfastasta hest sem sögur fara af í Arnarfirði.  Á Laugabóli er nú hestabúgarður sægreifa úr Reykjavík og rækjumiðin því á reiki.  Menn verða því að treysta á fjöllin og ef til vill hátækni til að finna sér örugg fiskimið í framtíðinni."

Þau voru fundvís á það, sem skipti máli í lífinu, systkynin, ekki síður en pabbinn. Lilja heitin Garðarsdóttir, systir Jörundar og síðar prestsfrú í Ássöfnuði í Reykjavík, var lífgjafi minn. Hún fiskaði mig úr sjónum við bryggjuna á Bíldudal forðum. Sumir verða þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga annarra lífi. Það er mikil blessun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Ég trúi varla að þetta góða fólk og systkini þeirra sem hugsuðu svo vel um mig þegar ég var barn skuli vera skylt lækni að nafni Sigurbjörn! ;)

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 30.1.2009 kl. 11:44

2 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

Sæll Sigurbjörn ! Ég var að lesa færslurnar þínar mér til ánægju og hnaut um tónlistarfrásagnir úr æsku þinni - þú ert þó ekki sonur Svenna Guðjóns ?

Lana Kolbrún Eddudóttir, 30.1.2009 kl. 15:38

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Sveins Ólafssonar sbr. "Sveinn Ólafsson in memoriam" (Sig. Fl.)  Láttu hann Venna segja þér frá honum og spila fyrir þig Stardust solo. Þakka þér fyrir þættina þína. Ef einhver kemur í stað Múlans þá ert það þú.

Sigurbjörn Sveinsson, 30.1.2009 kl. 15:47

4 Smámynd: Lana Kolbrún Eddudóttir

Ég meinti auðvitað Svein Ólafsson. Heilinn fer sínar eigin leiðir, ekki síst í lok vinnuvikunnar....

Lana Kolbrún Eddudóttir, 30.1.2009 kl. 18:39

5 identicon

Sæll vertu.

Afi minn var einnig um borð þennan örlagaríka dag í ágúst 1936.

Það markaði djúp spor hjá fjölskyldu minni. Pabbi minn var þá 10 ára.

Kristin Emelie Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 18:56

6 identicon

Góðir pistlar hjá þér Sigurbjörn. Mikil mannrækt í þeim og fróðleikur.

arnór Sveinsson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 22:46

7 identicon

Julian Edwin "Cannonball" Adderley var minn maður.

Colman var pabba maður.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 21:12

8 identicon

það eru nokkrar blaðagreinar í Mogganum um þessa atburði. Hægt að nálgast þá MBL net. Þeir eru í reun ömurleg lesning. í ljós i fjölda drukknaðra.

Örninn var línuveiðari úr Hafnarfirði og orsök (enginn veit) að þilið milli lúkars og lestar hefði verið veikburða og skipið stakkast á stefnið og fór í kaf á örskammri stund. Eina sem fanns var sundurskorin tóg á mill skips og nótabáta.18 að mér minnir.

ÓLAFUR SVEINSSON (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband