"Veiða og sleppa"

Ég tel það heilbrigða athöfn að veiða sér til matar. Ekki svo að skilja, að margir séu í brýnni þörf fyrir það nú á dögum. En þetta er í eðlinu og sjálfsagt að svara þessari hvöt með þeirri útivist og tengslum við náttúruna sem fylgir. Svo fylgja því líka búdrýgindi.

Ég á hins vegar mjög erfitt með að skilja þá, sem veiða dýr til þess eins að sleppa þeim aftur. Fá fiskinn til að bíta á agnið og berjast síðan fyrir lífinu að uppgjöf. Ég kem þessu ekki heim og saman við neina heilbrigða hvöt eða sjálfsbjargarviðleitni mannsins. Þá eru fá dæmi úr náttúrunni um dýr sem veiða að nauðsynjalausu. Drápseðli minksins á sér vafalítið einhverjar rökréttar skýringar þrátt fyrir allt. Þetta að "veiða og sleppa" hlýtur að vera einhver síðari tíma tilbúningur. 

Ég get engin önnur rök séð fyrir þessu háttalagi en að létta á veiðiám, sem ætlað er að standa undir meira veiðiálagi en þeim er unnt frá náttúrunnar hendi. Eða með öðrum orðum að hemja rányrkjuna, sem þar hefur verið stunduð. Eða með enn öðrum orðum að halda uppi leigutekjum, sem ekki styðjast við eðlilega sókn í ána. 

Hvar eru dýraverndarsamtök? Eða er það kannski fólkið, sem segir hvalveiðar viðbjóðslegan verknað, sem stundar þessa þokkalegu iðju?

Við vini mína sem veiða og sleppa vil ég segja: Ekki persónugera þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Bjarnason

Sammála Sigurbjörn, þetta er einhver furðulegast iðja sem ég hef heyrt af. Að fólk skuli vera tilbúið að borga stórfé fyrir að fá að kvelja dýr til einskis. Ég á ekki orð til að lýsa hneykslun minn á þessu athæfi.

Aðalsteinn Bjarnason, 1.2.2009 kl. 21:59

2 identicon

Mikið rétt. Þessir sömu "veiðimenn" sem stunda þetta ganga jafnvel svo langt að halda því fram að þetta geri fiskinum ekki neitt. Hið rétta er að menn hryggbrjóta gjarnan fiskinn þegar honum er haldið á sporðinum til að mynda "bráðina" auk þess sem að mannshöndin getur á stundum eyðilagt hreistur fisksins með þeim afleiðingum að hann fær sýkingar. Þennan fróðleik hef ég frá fiskifræðingi sem sérhæfir sig í sýkingum fiska. Þetta er stórfurðuleg iðja og hefur  ekkert með veiðimennsku að gera. Villimennska, miklu frekar.

Björn Róbert (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 06:07

3 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Veiðimennirnir, sem stunda þessa fáránlegu iðju að veiða fiskinn og sleppa honum síðan, telja sig hina einu og sönnu sportveiðimenn. Við hinir erum bara dráparar og mjög lágt skrifaðir. Margir fiskifræðingar eru sammála um að megnið af fiskinum sem veiddur er og síðan sleppt, sé dauðvona. Þar er sýkingarhættan stærsti þátturinn. Ég ætla að halda áfram að drepa bráðina sem ég veiði og tel mig alls ekki vera neinn plebba fyrir það. Ég hef stundað stangveiði frá blautu barnsbeini. Aflinn er ekki aðalatriði heldur bónus á allt sem þessari skemmtilegu iðju fylgir. Ég hef stundum komið fisklaus úr veiðiferðum. Alsæll engu að síður eftir útiveru, náttúruskoðun og góðan félagsskap.

Sigurður Sveinsson, 2.2.2009 kl. 08:34

4 Smámynd: Skúli Guðbjarnarson

Það sem gefur okkur rétt til að veiða dýr er eðli veiða í þróun mannsins sér til viðurværis. Um leið og þú sleppir dýri af krók ertu einungis að leika þér að pína villt dýr í náttúrunni sjálfum þér til gamans. Það getur aldrei verið réttlætanleg.

Samtök sem segjast vera náttúruverndarsamtök hafa barist fyrir þessu, þótt engum dyljist að ekki er verið að gæta hagsmuna fiska með þessum athöfnum.

Dýraverndasamtök og allir sem hafa komið að siðferði náttúrunytja fordæma þessar athafnir.

Skúli Guðbjarnarson, 2.2.2009 kl. 15:14

5 Smámynd: Ransu

Hér verð ég að benda á upplestur á stórbrotinni grein eftir Helga Hálfdánarson sem var í  þættinum Andrarímur á Rás 1 á sunnudaginn fyrir viku.

Í greininni er Helgi fyrst argur yfir stíflu í Elliðaárdalnum og lætur svo laxveiðimenn fá það óþvegið.

Þátturinn var helgaður Helga og þessi upplestur er fyrir miðjum þætti.  Hér er beinn linkur á þáttinn http://dagskra.ruv.is/ras1/4418216/2009/01/25/

Mæli svo sannarlega með þessu. Hreint frábær texti.

Ransu, 2.2.2009 kl. 18:53

6 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Ég á hins vegar mjög erfitt með að skilja þá, sem veiða dýr til þess eins að sleppa þeim aftur."

Tek undir hvert orð enda fáránlegur "leikur" í alla staði. því til viðbótar skil ég ekki heldur hvernig hægt er að drepa dýr sér til ánægju - og kalla það íþrótt eða sport. 

Atli Hermannsson., 2.2.2009 kl. 19:03

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Meðferð á alidýrum er líka mjög grimmdarleg víða um heim. Frá fæðingu til dauða er farið illa með þau. Það er litið á þau sem kjötvöru en ekki sem lifandi verur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.2.2009 kl. 09:21

8 identicon

Sammála. Lægsta og fyririrlitslegasta stig veiðimanna eru þeir skilja bráðina eftir, aðeins að svala drápsfýsninni. Í laxveiðinni eru þeir ofurríku að sýna veldi sitt, "sjáið, ég hendi matnum".

Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 13:30

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Algjörlega sammála þér Sigurbjörn. Hef aldrei skilið þetta veiða og sleppa fyrirbæri (nema e.t.v. á öldurhúsum)

Júlíus Valsson, 6.2.2009 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband