26.1.2009 | 11:47
Við verðum ekki svipt sjálfum okkur!
Það var fallegur dagur í gær sunnan heiða. Einhverra hluta vegna vaknaði ég snemma, fór ofan, fékk mér te og kveikti á útvarpinu. Njörður P. Njarðvík var í sínum vikulega þætti að fara yfir kveðskap Jóns Helgasonar, prófessors, sem gjarnan er kenndur við Kaupmannahöfn. Jón var hrjúfur maður og ekki allra en ljóðin hans eru mjúk og hlý og bera vott um mikla ættjarðarást. Í þeim leiðir hann saman í töfrandi myndmáli blæbrigði tungu og hugsunar, þannig að af verða mikil listaverk og fögur. Jón vissi hvers hann fór á mis í útlegðinni í Höfn.
Það var líka fallegt að sjá Össur leiða Ingibjörgu af fundi forsætisráðherra og heyra hana síðan og sjá á skjánum fulla með skýrleik og snerpu eins og áður. Og svo kom Geir. Hann var strákslega klæddur og það var létt yfir honum og eins og óveðurskýjunum, sem fylgt höfðu honum liðna mánuði, hefði verið svipt burt.
Þessi dagur staðfesti það eitt, að bjartar sumarnætur koma aftur. Ég bý í góðu landi með góðu fólki og Bubbi syngur: Þessi fallegi dagur.
Bjartar sumarnætur að baki á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Facebook
Athugasemdir
Bjartar sumarnætur verða aldrei af okkur teknar. Og mér er sama hversu blönk ég verð í sumar, birtunnar mun ég njóta á mínu fagra Íslandi :-)
Fluga (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 12:03
Ég held að hrjúfleiki Jóns Helgasonar hafi verið yfirbreiðsla á óvenjulega mikilli viðkvæmni.
Sigurður Þór Guðjónsson, 26.1.2009 kl. 15:17
Takk fyrir þetta.
Ásta Sóllilja (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.