3.2.2009 | 09:00
Á ruslahaugi líðandi stundar
Matthías er enn að. Það var hressandi að fara á ný til fundar við hann í Lesbók s.l. laugardag. Matthías hefur fljótandi stíl, sem þó er alltaf í ákveðnum farvegi. Eins og hann lýsir stíl Guðmundar Andra, að hann renni eins og vatn um landslagið. Þeir höfundar, sem fara alveg áreynslulaust um hjáleiðir hugsunarinnar eins og ekkert sé sjálfsagðara, henta mér betur en þeir, sem búa að krepptum hringvöðva rökrænnar afleiðslu. Ég er líka svolítið reikull í hugsun eins og þeir. Kannski skiptir það máli, að í prósanum sé ljóðskáldið ekki fjærri eins og Matthías bendir sjálfur á. Lestur Málsvarnar og minninga Matthíasar fyrir nokkrum árum var ógleymanleg reynsla. Það var sannkallað ferðalag fá einni hugsun til annarrar. Ljóð í prósa. Söknuður vaknaði við bókarlok. Það eru meðmæli með bók sagði einhver nýlega.
Ég minntist á fyrr í vetur, að stjórnmálamenn þyrftu að glíma við tillit þjóðarinnar, spegla sig í augum hennar og reyna þannig getu sína til að þjóna henni. Sú glíma væri ævilöng. Nú hefur Árni Bergmann sagt mér og hefur það eftir ekki ómerkari manni en Kazantsakis, að manninum sé sæmst að glíma við Guð. Við hvern annan ætti hann að glíma, spyr hann. Þeir hafa báðir glímt við Guð, Árni og Matthías. Það er að sínu leyti merkilegt. Ég ætla að finna þeirra niðurstöðu. Ég hef komist að minni. Það eru víðar leyndarmál en í Seðlabankanum.
Þessar hugsanir eru áfengar og krefjast hófs.
Árni og Matthías voru fjórða valdið í mínum uppvexti. En þá talaði enginn um þetta fjórða vald. Flokkspólitískir sneplar voru það frekar. Ég velti því stundum fyrir mér, hvort ekki hafi verið auðveldara að skrifa fyrir flokkslínuna, sem allir þekktu, en hina huldu hönd auðsins eins og nú gerist. Þrátt fyrir allt.
Matthíasi hefur orðið um kreppu frjálshyggjunnar eins og fleirum. Hann var búinn að sjá hana fyrir þó með svolítið öðrum hætti en við, þegar við upplifðum hana á okkar skinni. Matthíasi þykir sem menn hafi framið skemmdarverk á frelsinu og fullveldinu undir lamandi dáleiðslu auðsins.
Það er hægt að taka undir það.
Annar maður sló á svipaða strengi 6. nóvember 2007. Það var Davíð Oddsson: "Hin hliðin á útrásinni er þó sú og fram hjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. .....við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma. Hitt er einnig til að ný orð fái nánast á sig goðsagnakennda helgimynd, eins og orðið útrás sem enginn þorir að vera á móti svo hann verði ekki sakaður um að vera úr takti, hafi ekki framtíðarsýn eins og það heitir nú, og þekki ekki sinn vitjunartíma.
Þessi orð báru ekki tilætlaðan árangur. Augu okkar voru haldin. Þá sögu er tímabært að skrifa. Fyrr en síðar.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Facebook
Athugasemdir
Þessi færsla var góð og örugglega gagnleg fyrir suma.
Dunni, 3.2.2009 kl. 12:39
Sæll frændi(segi bara ein og Sigurbjörn afi þinn)
Mikið er notalegt að fá svona fína hugleiðingu þar sem allt er undir frá Guði til peninga og pólitíkur. Hlakka til að fá meira að heyra.
Frændsemin er nú orðin nokkuuð útvötnuð, en ég komst að því snemma að í Kjósinni og meðal þeirra sem þaðan komu voru eingir fjarskyldir ættingjar til.
Ég man mjög vel eftir því þegar þau systrabörnin Sigurbjörn afi þinn og Guðríður amma mín og einstaka sinnum Ólöf amma mín sátu á spjalli, hvort sem það var á Fjlnisvegi 2 eða 9. Þá var nú mikið rætt, sögur sagðar og hlegið dátt. Manstu Bjössi, Já manstu Gudda og svo kom saga og síðan þessi dillandi hlátur.
Þakka þér fyrir skrifin þín.
Kveðj, H.P.
Hólmfríður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 15:40
Snilldar færsla. Matthías hefur frá æsku verið uppáhalds ljóðskáld mitt og fékk ég oft bágt fyrir á menntaskólaárum.
Finnur Bárðarson, 3.2.2009 kl. 17:39
"Hin hliðin á útrásinni er þó sú og fram hjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. .....við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.”
Og nú á að lífláta sendiboðann ...
Flosi Kristjánsson, 3.2.2009 kl. 21:57
"Ertu að koma heim núna?," spurði eiginkonan þegar hún vaknaði við bröltið í eiginmanninum. Hann stóð við rúmið undir morgun og var að klæða sig varlega úr buxunum eftir langa nótt á kránni. "Neiiii," svaraði hann og dró buxurnar aftur upp og girti sig. "Ég er bara á leið út til bakarans." Svo fór hann út og keypti morgunbrauð.
Solveig (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 23:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.