Mikilvæg vistaskipti

Helgi Hálfdanarson færði þjóðinni mikil alþjóðleg, andleg verðmæti með þýðingum sínum. Ekki er gert lítið úr Matthíasi Jochumssyni og Steingrími Thorsteinsyni þótt verk Helga séu sögð stórvirki meðal þýðinga ljóðaleikja Shakespears. Helgi gerði annað og meira en að færa leikrit Shakespears í íslenskan búning; hann gerði úr þeim ný listaverk að ytri og innri gerð. Þetta gerði hann á svo yfirlætislausan hátt og með svo mikilli naumhyggju, þegar líf hans sjálfs er skoðað, að næsta torvelt er fyrir venjulegan alþýðumann eins og mig að átta mig á þeim uppvexti og lífsreynslu, sem réðu þessari vegferð.

Því hefur verið lýst opinberlega, að þetta hafi verið nánast eins tilviljun og hafist á pöntuðum þýðingum. Þá er eins og Helgi hafi verið settur í gang og síðan haldið áfram eins og svinghjól, sem útilokað er að stöðva.

Því er stundum á loft haldið að svelta eigi listamenn til stórvirkjanna, í þeim ham einum veiti andagiftin þeim nægan innblástur til að markverð list verði til. Þetta er auðvitað mesta firra.  Það er eins og menn jafni listsköpun við kappreiðar eða jafnvel hanaat, þar sem dýrin eru kvalin með hungrinu til átaka.  Altaristaflan í Skálholtsdómkirkju, loftmyndirnar í Sixtínsku kapellunni og hin skosku sönglög Beethovens eru allt pöntuð listaverk. Krafa lágmenningarinnar á Íslandi um okkar daga er að illa sé búið að listamönnum og menn vilja jafnvel kosta til níðstöngum í hafnarkjöftum til að ná því markmiði sínu. En það er önnur saga. 

Einhver pantaði þýðingu hjá Helga og það varð ekki aftur snúið. Hann fór í förina, sem hvorki hann né aðrir höfðu séð fyrir. Og hann skrifaði bækurnar, sem enginn hafði lagt á ráðin um. Því er lítið hampað, að til þess að svo mætti verða, þá lagði Helgi lífsstarf sitt til hliðar tiltölulega ungur og fann sér annað, sem hæfði betur þessari ástríðu. Má vera, að þessu hafi verið öfugt farið, ástríðan hafi dafnað fyrir vistaskiptin, en það gildir einu. Vistaskiptin voru mikilvæg og örlagarík fyrir íslenska menningu. 

Enn eru menn á ferð, sem hefðu gagn af að horfa í sína skuggsjá eins og Helgi og hafa vistaskipti eftir hæfileikum sínum. Enn eru ferðir í boði, sem ekki hafa verið farnar og bækur að skrifa, sem ekki hafa verið skrifaðar.


mbl.is Bjarni og Þorgerður Katrín oftast nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Smjerjarmur

Fín lesning.  Ég átta mig þó ekki á tengingu við Bjarna og Þorgerði.

Smjerjarmur, 5.2.2009 kl. 09:02

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Tengingu bloggsins við fréttina mun hver hafa eftir sínu lagi.

Sigurbjörn Sveinsson, 5.2.2009 kl. 09:06

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Tek undir hvert orð hér. Helgi Hálfdanarson er einhver mesta perla bókmenntanna sem íslendingar hafa átt. Hann er sennilega eitthvert mesta skáld sem við höfum átt. Það er nefnilega ekki nóg að kunna að þýða af öðru tungumáli yfir á tungumál okkar. Það verður að færa það í réttan búning og þarf skáld til Við samlestur á Shakespeare og þýðingu Helga þá finnst mér sem Helgi sé skáld betra en Shakespreare.

Mikil er arfleifð Helga Hálfdanarsonar. Megi algóður Giuð blessa minningu hans og fjölskyldu alla.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 5.2.2009 kl. 09:34

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ferðirnar eru margvíslegar og minnir mig á afar hyggileg vísuorð;

Vegir liggja til allra átta,

engin ræður för.

Svo hinn ágengi hrynjandi, sem Sigfús Halldórs setti inn í hugskot manns með tónum sínum.

Þakka þér mjög fyrir þessar línum, sem bendir lesendum á, að hyggja að sinni för, frá hinu minnsta til hins stærsta og hvað þar er á milli.

Enn er svo, að Sólin gyllir fjallatoppa vestra, hvar sól mikils hugsuðar og mannvins hné til viðar hinsta sinni.

Ég sé óaflátlega eftir þeim Dreng.

Vonandi ná þeir sem honum kynntust, að temja sér huga hans til lands og lýðs, með hugarþeli ræktunarmannsins og þolinmæði.

Guðlaun fyrir hugvekjuna.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 5.2.2009 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband