Helgarmoli: Intrumjusticaseðlarnir í Moulinexþeyturunum

Fyrirsögnin er innblásin af Eiríki Guðmundssyni þegar hann rappaði í upphafi Víðsjár á miðvikudag. Hann rappaði óvenju rösklega í Hrunadanstakti. Það var einhver feigð í hljómfallinu - eins og læmingjahjörð á vaxandi hraða til fundar við örlög sín. En andríki Eiríks var svo mikið, að það smitaði mig. Allt þar til ég heyrði fréttir af umræðum í þinginu. Þá féll mér allur ketill í eld. Þingmennirnir voru sem sagt komnir í læmingjahjörðina. Og Eiríkur á undan eins og flautuleikarinn í ævintýrinu. Hugsið ykkur: Eiríkur Guðmundsson rappandi fram af hengifluginu og Alþingi Íslendinga á efir í læmingjahópi. Áfeng hugsun eins og einhver sagði. Því ákvað ég að blogga um vinnuna mína:  

Ég var að vinna á Læknavaktinni um liðna helgi. Við vorum á kaffistofunni, hjúkrunarfræðingurinn á vakt og ég, að snæða bitann okkar. Vorum sammála um, að þetta væri endemis harðmeti, sem væri á boðstólnum, bankakreppuharðmeti, ekki einu sinni kreppukóð.

- Bankakreppuharðmeti, kreppukóð, ég skil ekki þessa bankakreppu, sagði hún.

Mér vafðist tunga um tönn. Þegar allt kom til alls þá hafði ég ekki góðan skilning á þessu heldur. Ég hafði raunar alltaf verið að bíða eftir að ástandið batnaði. Alveg eins og allir hinir. Nema Bjarni Ármannsson. Maður hélt bara að hann væri að fara að gera eitthvað annað. Hjálpa til við orkumálin í Noregi - eða þannig. Þó voru ekki allir jafn bláir. Frétti af konu, sem sögð er seinfær á flestum sviðum. Hún seldi arfinn sinn í Glitni, þegar hún frétti af Bjarna og lagði á innlánsreikning. Ári fyrir hrun. Hugsið ykkur.

Ég hef alltaf haldið því fram að það þurfi sérgáfu til að ávaxta fé. Hana hef ég ekki. Hún hefur sagt mér það hún dóttir mín, sem fór að mínum ráðum með fermingarpeningana sína og glataði öllu.

-Jæja mín kæra, sagði ég við hjúkkuna. Ég skal kenna þér svolítið um bankahrun.

Ólafur hét maður og var Thors. Hann var vinmargur í æsku sem endranær og vildi öllum gott gera. Pabbi hans átti líka dálítið undir sér. Ólafur hafði sem sagt fyrirgreiðslusans eins og við segjum nú á dögum. Vilmundur heitinn landlæknir var skólabróðir Ólafs úr menntaskóla. Það gerist, að Vilmundur fær bréf frá Ólafi til Ísafjarðar, þar sem hann er læknir. Í bréfinu fer Ólafur fram á, að læknirinn losi hann undan víxilláni, sem hann hafði ábyrgst fyrir Vilmund. Ólafur greinir vini sínum frá því, að bankinn hafi gert sér að losa sig undan mörgum slíkum ábyrgðum til að forða vandræðum. Þetta er auðvitað pen aðferð bankans við að segja við Ólaf: Gættu þín strákur áður en þú rúllar. Þú hefur ekki bakland í okkur lengur.

Ólafur fór að ráðum bankans og stóð af sér þennan fjárhagslega titring.

Þessi saga hefur varðveist þar sem Vilmundur skrifaði Ólafi merkilegt bréf, sem birst hefur  í ævisögunni sem Matthías Johannessen skrifaði. Það er athyglisvert að sínu leyti og þess virði að skoða og fer ég ekki nánar út í það.

Ólafur og einkum bræður hans lærðu sína lexíu ekki til fulls fyrr en löngu síðar. Þá voru þeir umsvifamiklir útgerðarmenn, sem byggt höfðu upp síldarvinnslu á Hjalteyri við Eyjafjörð. Grundvallaratriði var auðvitað að fá afla til vinnslu. Til að liðka fyrir viðskiptunum tóku þeir að ábyrgjast rekstrarfé útgerðanna, sem lögðu upp hjá þeim. Þetta vatt upp á sig og allt gekk vel um stund með Landsbankann að bakhjarli. En þar kom um síðir, að aflabrögð versnuðu og aflaverðmæti minnkaði og allir vinirnir hurfu, þegar eldarnir slokknuðu. Úrgerðarfyrirtækið Kveldúlfur stóð á brauðfótum og hafnaði að lokum í höndum Landsbankans.

Örmynd af bankahruni.

-Skilurðu núna hvað gerðist í bönkunum, spurði ég hjúkkuna?  En augun voru jafn skilningsvana og áður. Þeim lét greinilega betur að hjúkra en braska. Ég ákvað að gera úrslitatilraun.

Vinur minn og kollega gekk einu sinni til rjúpna á Brekkunni sem svo er kallað. Þar eru mikil rjúpnalönd og langar og mishægar dagleiðir. Þegar hann hefur gengið stundarkorn áttar hann sig á, að maturinn hefur gleymst í bílnum. Það er hins vegar drjúgt af fugli og hann freistast til að halda áfram norður fjallið. Hann veiðir fram í ljósaskipti og er með talsvert af fugli, sem sígur í á heimleiðinni. Allt í einu finnur hann til hungurs og þorsta og síðan þreytu og máttleysis og án frekari fyrirvara kemur yfir hann eins og lömun útlimanna. Hann veit sem læknir nákvæmlega hvað er að gerast. Orkan er á þrotum og líkaminn hefur skipt yfir í margfalt óhagsstæðari efnaskipti, sem duga skammt, sýra blóðið og leiða á endanum til margvíslegra annarra truflana.

Það verður honum til happs, að hann finnur lítið súkkulaðistykki á botninum í veiðitöskunni og jafnar sig nægjanlega til að ná í bílinn.

Súkkulaðiklípa dugði bönkunum hins vegar ekki. 

-Já þú meinar, sagði hjúkkan, og ég sá, að friður skilningsins færðist yfir andlit hennar.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilegan pistil!

sandkassi (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 03:12

2 identicon

Fyrst náði ég ekki samhenginu.  Og ekki fyrr en læknirinn skildi efnaskiptin.  Góður pistill. 

EE elle (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband