Teigsskógur í Þorskafirði

Ég hef alltaf verið veikur fyrir samgöngubótum. Sundabrautin er sjálfsagt verkefni og göng á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals hafin yfir allan vafa.  Gangnakerfi á Austfjörðum með krossgötum í Mjóafirði eru spennandi viðfangsefni. Ég efast um ávinninginn af Héðinsfjarðargöngum en það er önnur og flóknari saga.

Þverun Gilsfjarðar var framfaraspor. Það sjá allir í dag sem um þá leið fara og þekkja til gamla vegarins fyrir Gilsfjörð. Unnið hefur verið að vegabótum í Barðastrandarsýslum í framhaldi þessa og víða kominn góður vegur á milli Kollafjarðar og Vatnsfjarðar t.d. í Kollafirði, um Klettsháls og í Vattarfirði. Enn eru farartálmar á leiðinni sem bíða endurbóta svo sem á Hjallahálsi. Þar er einmitt veginum um Teigsskóg ætlað að bæta um.

Ég hef margoft farið um Hjallaháls að vetrarlagi og í misjafnri færð. Það er ekki beinlínis hægt að segja, að hálsinn sé farartálmi miðað við veginn víða annars staðar í Gufudalssveit. Enda mundi vegur um Teigsskóg kalla á nýtt vegarstæði alla leið í Skálanes. Í því felast vegabæturnar. Meðal annars heyrði hin skuggalega brekka vestur yfir Ódrjúgháls sögunni til.

Eitt sinn flutti Þorgeir Samúelsson frá Höllustöðum mig á snjósleða í vitjun frá Stað á Reykjanesi yfir í Skálanes. Var þá fyrir þrjá firði að fara á ís. Var farið sunnan fyrir Hallsteinsnes og Grónes  og tekið land sunnan undir Hofstöðum í Gufudalssveit. Þá gerði ég mér fyrst grein fyrir hve gríðarleg samgöngubót yrði af þverun þessara fjarða með sem stystri tengingu. Þetta var mörgum árum áður en þverun Gilsfjarðar komst á skrið.

Ég get vel skilið þá sem vernda vilja Teigsskóg. Ég hef farið um skóginn. Hann er mjög þéttur og hærri trúi ég en heimildir segja. Þá er þar að finna fallegan reynivið á víð og dreif, sem vex upp úr birkiskóginum eins og víða á Vestfjörðum.

Andstaðan við vegagerðina bar fyrst öll merki þröngra sérhagsmuna en hefur fengið breiðari skírskotun í seinni tíð. Landeigendur virtust vera á móti vegi um nesið hvað sem það kostaði. Hér þarf að finna lausn, sem sátt getur náðst um. Fjaran kemur etv. víðar til greina sem vegarstæði en nú er gert ráð fyrir. 

Á meðan ekki annað gerist þá skora ég á hreppsnefnd Reykhólahrepps að láta hreinsa hina fornu leið um skóginn fyrir vegfarendur. Hann er nánast ófær og myndi sú aðgerð bæta útivistarmöguleika bæði heimamanna og ferðamanna í hreppnum til mikilla muna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Bjó í (á) Tálnafirði um 16 ára skeið og ljúft það. 

Flæktist í vafstur fyrir Flokkinn  einhverra undarlegra hluta vegna,  þekkti þessar leiðir í Baðrastrandasýslum frá því að ég var í brúargerð með ,,Fúsa-flokknum"  á mínum yngri.

Þverun fjarðana þarn er ekki bara samgöngubót, heldur líka nokkur bót á aðstæðum lífríkisins.  Þegar við vorum að berjast fyrir þverun Gilsfjarðar, voru friðunarsinar æfir út af því, að þar væri kjörlendi Rauðbristinga og því allt í fári um þeirra afkomu, einnig tölu sömu, Toppskarfinn og fl tegundir slíkra eiga tilveru sína undir að mannvirki risu ekki þarna og umferð yrði til þess, að stráfella stofnana við innanverðan Breiðafjörð.  Við Matti Bjarna fengum lendingaheimildir á Rauðasandi fyrir Rauðbristingana og loforð um að menn færu nú ekki að abbast uppá þá á leið sinni, svona rétt á meðan þeir lærðu nýja hagi.

Ekkert af þessu varð og Skarfar ekki verið í betri ætismálum og ef þeir eru að drepast er það líklega úr kransæðastíflu sakir feitis en ekki ófeitis.

Stofn Rauðbristinga hefur ekki verið stærri og heilu breiðurnar fara um og lenda þarna á lið sinni vesturum og svo á Rauðasandi.

Ef farið yrði nánast eins og nef vísar frá AUðshaugi yfir í Skálmanesmúla og þaðan eftir nesum að Bjarklundi, væri komin vegursem ekki þyrfti oft að ryðja og að líkum kominn verulegur sparnaður í eldsneyti og tíma.

Svo væri auðvitað hægt að virkja sjávarföllin undir brýrnar á sumum stöðum, sem slíkt þola.

Með þökk

Miðbæjaríhaldið

fyrrum Vestfjarðaríhald

Bjarni Kjartansson, 11.2.2009 kl. 08:58

2 identicon

Sigurbirni lækni þakka ég hér með góða og mjög þarfa ábendingu um fyrir lifandislöngu þarfar vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum.  Það er með öllu óásættanlegt að þröng skógverndarsjónarmið skuli hindra og tefja þessa brýnu framkvæmd.  Það er ofvaxið mínum skilningi hversvegan nú er verið að verja fjármunum til að bæta veginn fyrir Þorskafjörð í stað þess að þvera hann og setja það verkefni í forgang fram yfir láglendisveg frá Kinnastöðum í Skálanes.  Vegna þeirra deilna sem upp eru komnar um Teigsskóg kastaði ég þeirri hugmynd fram á Reykhólavefnum í fyrra að leggja veginn út með Þorskafirði sunnanverðum og þvera hann um fjarðarmynnið yfir á fyrirhugað vegarstæði og áfram í Skálanes.  Þar var ég að gera ráð fyrir varanlegri brú (sem í dag er lausnarorð til að skapa atvinnu !) en ekki að fara á ís eins og Sigurbjörn gerði forðum.  Hvernig hugnast staðkunnugum þessi hugmynd ??

Gunnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 14:02

3 Smámynd: Sævar Helgason

 Frá Þorskafirði- Teigsskógur            

Séð út Þorskafjörð   Vegagerð um Teigsskóg  í vestan verðum Þorskafirði hefur verið hafnað svo og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Málið er því einhverri biðstöðu

Sumarð 2007 réri ég á kayak frá Reykhólum og fór um þessa leið sem vegurinn á að liggja - fararstjóri á því ferðalagi var kollegi þinn Reynir Tómas Geirsson,læknir. Þetta er alveg ótrúlega náttúru mikið svæði. Fuglalíf mikið og sjávarlíf. Skógurinn einstæður - þéttur og gróskumikill. Undirgróður mikill. Hafernir hafa sín heimkynni þarna . Allt þetta myndi raskast varanlega við vegagerð um Teigsskóg. Það yrði mikill skaði                                                  

Teigsskógur  er víðáttumesti náttúrulegi birkiskógurinn á Vestfjörðum og mjög stór á landsvísu. Teigsskógur er upprunalegur birkiskógur, með  reynitrjám á dreif . Teigsskógur er á náttúruminjaskrá auk þess sem fornminjar eru nokkrar á svæðinu.

Er einhver jafngóður eða betri kostur í stöðunni varðandi samgöngubætur þarna ?

Bent hefur verið á fara með veginn í göngum um Hjallaháls yfir í Djúpafjörð og síðan í öðrum göngum frá botni Gufudals, þvert yfir í Kollafjörð. Þessi leið myndi stytta leiðina frá því sem nu er um 20 km og  yrði 8 km styttri en leið um Teigskóg og það sem meira er , sennilega yrði kostnaður minni.

En nú eru Íslendigar blankir mjög og með öllu óvíst havð þarna verður ogan á en ljóst er að samgöngubætur þarna eru afar brýnar...

Þetta er svona innleg í áhugavert málefni.

Sævar Helgason, 11.2.2009 kl. 15:18

4 Smámynd: Sævar Helgason

Smá leiðrétting á texta:

En nú eru Íslendingar blankir mjög og með öllu óvíst hvað þarna verður ofan á en ljóst er að samgöngubætur þarna eru afar brýnar...

Þetta er svona innlegg í áhugavert málefni.

Sævar Helgason, 11.2.2009 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband