25.3.2009 | 11:54
Evra eða króna?
Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur. Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.
Svo var það fyrir páska í fyrra, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.
Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.
Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð. Við eigum tæplega annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið.
Of mikil eyðsla endar illa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Facebook
Athugasemdir
Hvað með norsku krónuna? Þeir vilja varla verið einir eftir, fínt að taka frændur sína með upp í bátinn.
Örn (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 12:05
Hugmyndir um norska krónu á Íslandi eru sjarmerandi. Menn benda á að hagkerfi landanna séu ólík og að olían hafi of mikil áhrif á virðisaukann í norska hagkerfinu þannig að sú norska henti ekki hér á landi. Þetta er auðvelt að athuga með samanburði aftur í tímann á því, hvernig þessu hefur háttað liðna áratugi. Norðmenn yrðu ekki einir á báti í framtíðinni og EES myndi lifa. Við fengjum sterkan seðlabanka í ábót.
Það hefur hins vegar drepið þessa umræðu, að Norðmenn hafa tekið hugmyndinni illa þ.á.m. forsætisráðherra þeirra og erfitt að gera sér grein fyrir hvort þau andsvör byggja á raunsæju mati, athugunarleysi eða pólitískri tillitsemi við íslenska stjórnmálamenn og varkárni við að blanda sér í íslensk innanríkismál.
Sigurbjörn Sveinsson, 25.3.2009 kl. 12:18
Alveg sammála þér Sigurbjörn.
Eftir er að vita hvernig Evrópusambandið kemur út úr þrengingunum.
Vonandi stenst það þennan vanda.
Svíar eru að taka við stjórninni bráðum og vilja að því er mér heyrist gera það sem þeir geta til að liðka fyrir inngöngu okkar ef við kærum okkur um.
Fróðlegt verður líka að fylgjast með því sem kemur frá Landsfundunum sem haldnir verða um helgina.
Kveðja, HP
Hólmfríður Pétursdóttir, 25.3.2009 kl. 12:25
vaaá. þið eruð eins og útrásarvíkingarnir forðum. haldið að við getum fengið allt fyrir ekkert. eruð þið virkilega að halda því fram að Íslendingar fái varanlegar undanþágur frá stofnsáttmálum evrópusambandsins?
Fannar frá Rifi, 25.3.2009 kl. 13:15
Svo maður haldi sig við málefnin, þá hefur enginn fullyrt eitthvað um með hvaða kjörum við fengjum aðild að ES. Til þess að komast að því þá verðum við að taka upp aðildarviðræður. Þessi einfaldi sannleikur ætlar að flækjast furðu lengi fyrir okkur. Við munum örugglega þurfa að koma til móts við þá, sem við ætlum að semja við. Þannig er það alltaf.
Nema þar sem ofbeldið ræður niðurstöðunni.
Sigurbjörn Sveinsson, 25.3.2009 kl. 13:25
Því miður er öflug þverpólitísk andstaða við að fara í aðildarviðræður. Heimastjórnararmur Sjálfstæðisflokksins er sérlega virkur og öflugur í þessari afstöðu. Þessir aðilar líta ekki einu sinni á íslensku krónuna sem vandamál, heldur telja hana bestan kost fyrir Ísland þrátt fyrir að peningamálastefnan með ónýtan gjaldmiðilinn hafi ítrekað farið í þrot. Saga íslensku krónunnar er harmasaga og Íslendingar hafa náð mjög góðum efnahagslegum árangri þrátt fyrir hana en ekki vegna hennar. Nú er hinsvegar uppi ný staða. Auk gjaldþrots krónunnar hafa afskriftir erlendra kröfuhafa líklega gert endanlega út um möguleika á að endurreisa efnahagslífið með þannig að hagvöxtur verði jafnmikill og í nágrannalöndum okkar. Líklegra er að hér ríki efnahagsleg eingangrun og stöðnun um alllangan tíma.
Forsenda fyrir efnahagslegri endurreisn Íslands er að taka upp trausta mynt til að tryggja stöðugleika, lága vexti, afnám vísitölubindingar lána og traust gagnvart erlendum viðskiptaaðilum og bönkum, ofl. Samkvæmt könnunum vill meirihluti þjóðarinnar ganga til aðildarviðræðna (þó svo að meirihluti sé á móti aðild í augnablikinu). Barátta gegn aðildarviðræðum að ESB og upptöku Evru er því ofbeldi gagnvart þessum meirihluta. Það er lýðræðislegra að láta þjóðina kjósa yfir sig efnahagslega stöðnum og einangrun, þ.e. hafni hún aðild á grundvelli samnings, heldur en að örfáir herskáir hugsjónamenn nái að drepa þjóðina í þann dróma án samningsviðræðna.
Jóhannes (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 15:23
Í sambandi við norsku krónuna, þá getum við alveg blásið hana út af borðinu. Þótt Norðmenn hafi fellt Evrópusambandsaðild tvívegis er meirihluti á meðal norskra stjórnmálamanna fyrir aðild og þeir munu örugglega ekki gefa okkur undankomuleið í þessu máli. Þeim hentar ágætlega að við göngum í ESB - það setur meiri þrýsting á að þeir fari sömu leið.
Kjartan Jónsson, 25.3.2009 kl. 15:46
Ég vill Íslenska krónu meðan við vinnum okkur út úr þessum fjanda. Ég á allt eins von á að aðrir gjaldmiðlar falli og því háskaleikur að skipta út gjaldmiðil þegar krónan er veik.
Eftir að við erum búnir að koma öllu í horf tel ég ráðlegt að skoða hvort hægt sé að taka upp stærri gjaldmiðil. Og jafnvel hvort Esb henti okkur því það er stór samtryggingarsjóður sem hugsanlega geti varið okkur falli síðar meir.
Annar hefur reynslan sýnt okkur að stórar sameiningar á fyrirtækjum geta reynst okkur hættulegar. Erfiðara er að hafa yfirsjón á stórum pakka.
Offari, 25.3.2009 kl. 15:59
Meirihluti á meðal norskra stjórnmálamanna fyrir aðild.
Hvaðan hefur Kjartan það?
Ég var rétt í þessu að ræða við norskan forstjóra í skipaiðnaði og hann telur ásamt fleirum að ESB liðist í sundur innan 10 -15 ára, vegna innri andstæðna. Nýju ríkin í austurhlutanum er á brauðfótum og aðfram komin. Þau reikna með aðstoð frá hinum sem erfitt verður að uppfylla.
Grikkir í vandræðum og sjálfgæska annarra þjóða á uppleið. Hver er sjálfum sér næstur.
Hvað hæft er í þessu?
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 16:10
Þar sem réttarhöld fara fram fljótlega yfir fjárglæframönnum þarf vart að kvíða framtíð gjaldmiðils okkar þar sem krónan mun styrkjast gífurlega við endurheimtingu þeirra fjármuna sem teknir voru með ólögmætum hætti. Vissulega er evran ekki slæmur kostur en hún er ekki valkostur núna. Þær hugmyndir sem hafa verið viðraðar um upptöku Norsku krónunnar má þó vel skoða enda er þar sterkur gjaldmiðill sem gæti jafnvel komið sér betur en krónan eða evra ef á allt er litið.
Hilmar Gunnlaugsson, 25.3.2009 kl. 22:04
Úr bloggfærslunni: "Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.
Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu."
Með fullri virðingu fyrir skoðun höfundar, þá finnst mér alltaf sorglegt að sjá þegar menn líta á inngöngu í ESB sem stefnu í peninga- eða gjaldmiðilsmálum. Það að ganga í Evrópusambandið er hundrað sinnum stærri ákvörðun en það eitt að skipta um gjaldmiðil. Framsal á valdi yfir eigin velferð mun alltaf leiða af sér skaða á endanum. Kannski ekki strax, en það kemur að því. Þá verður sá kostur kannski ekki raunhæfur að snúa til baka.
"Við eigum tæplega annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið." Hvað með að setja sanngjarnar leikreglur sem koma í veg fyrir að "ofurríkir fésýslumenn" geti endurtekið leikinn? Er það ekki íslenskari kostur en að gefast upp?
Endurreisn Íslands felst í að halda uppi atvinnu, verðmætasköpun, útflutningi og að eyða ekki um efni fram. Ef þetta vantar skiptir nafnið á myntinni ekki máli. Íslenska krónan verður notuð áfram næsta áratuginn, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og því óþarfi að eyða púðri í þref um evru.
Haraldur Hansson, 25.3.2009 kl. 22:55
Það er hægt að kreista út úr Íslendingum afganginn af eigunum í hvaða mynt sem er - því miður. Nú á eftir að herða betur á að gefa ÁLRISUM orkuna - svo er afgangurinn af fiskinum, plús afgangurinn af vatninum. Þegar fjárplógsmenn hafa komið þessu í verð í krónum - evrum - rúblum eða dollurum - flytja þeir úr landi og láglaunaþrælar sitja eftir til að starfa fyrir erlenda eigendur auðlindanna. Verskú!
Hlédís, 25.3.2009 kl. 23:34
Sæll Sigurbjörn ég hef þegar sett fram mína afstöðu og það er reyndar margt við hana að bæta sem ekki kemur fram þarna.
http://helgi-sigmunds.blog.is/blog/helgi-sigmunds/entry/815451/
Bestu kveðjur frá Ísafirði
Helgi Kr.
Helgi Kr. Sigmundsson, 26.3.2009 kl. 00:52
Það er tilgangslaust að tala um að taka upp annan gjaldeyri. Við erum rúnir öllu trausti, sama hvert litið er. Ég tek undir með Jóni Frímanni þar sem hann talar um réttarhöld yfir fjárglæframönnum, sem gætu í sumum tilfellum tekið nokkur ár, en ég óttast bara að þessir menn sleppi með skilorðsbundinn dóm ,sbr. Jón Ásgeir, "klapp á öxlina og föðurlega áminningu."
Einnig að ná fjármunum til baka kann að reynast erfitt-í sumum tilfellum eru þeir ekki til- og svo geta færustu lögfræðingar, sem þessir menn hafa efni á, teygt lopann í það óendanlega.
En nú verð ég bara að reyna að vera bjartsýnn.
Bestu kveðjur.
Þráinn Jökull Elísson, 26.3.2009 kl. 02:19
sæll skólabróðir.
Ég get bent þér á mynt sem ætti að duga ágætlega og hægt er að taka upp einhliða án þess að það fari í taugarnar á nokkrum. hún er SDR .
Sigurjón Jónsson, 26.3.2009 kl. 11:12
Hvar er seðlabanki þessarar myntar? Er það í Langtíburtistan eða í Aldreivar? Eða eigum við bara að fara að vigta krónuna eins og SDR og þá verður allt gott?
Sigurbjörn Sveinsson, 26.3.2009 kl. 11:16
Notaði Seðlabankinn ekki einhvers konar körfu nokkurra gengja í vissu hlutfalli hér áður en genginu var fleytt alveg? Ég er alls ekki vel að mér í þessum fræðum, en hef fylgst nokkuð vel með bæði hér og í erlendum fréttum.
SDR er þýtt sem sérstök dráttarréttindi og ég skil ekki hvernig það ætti að koma okkur til góða. Sé ekki annað en allir gjaldmiðlar séu mjög óstöðugir.
Satt að segja held ég að margt eigi eftir að gerast í fjármálum beggja vegna Kyrrahafsins áður en einhver stöðugleiki kemst á.
Ég sé ekki að við eigum margra kosta völ.
Hólmfríður Pétursdóttir, 26.3.2009 kl. 15:39
Af Vísindavefnum:
"SDR er skammstöfun á reiknieiningu sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (e. International Monetary Fund, IMF) notar. Á ensku er fullt heiti Special Drawing Rights og hefur það verið þýtt sem sérstök dráttarréttindi á íslensku. Gildi SDR er reiknað út frá gengi tiltekinnar körfu þeirra gjaldmiðla sem helst eru notaðir í milliríkjaviðskiptum. Sjóðurinn notar þessa einingu í viðskiptum sínum en einnig er stuðst við hana í ýmsum öðrum viðskiptum, einkum þó milli ríkisstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana.
Körfunni er breytt af og til og var það síðast gert 1. janúar 2001. Nú er karfan þannig reiknuð að Bandaríkjadalur vegur 45%, evran 29%, japanska jenið 15% og sterlingspundið 11%. Þegar þetta er skrifað, í febrúar 2002, kostar hvert SDR um 126 krónur íslenskar.
Nafnið sérstök dráttarréttindi er þannig til komið að aðildarþjóðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hafa rétt til að fá fé frá sjóðnum undir ákveðnum kringumstæðum, það er hafa rétt til að draga fé út úr sjóðnum. Hve mikið hver þjóð getur fengið eða dregið út er reiknað í fyrrgreindum einingum og þess vegna eru þær kenndar við dráttarréttindi."
Sigurbjörn Sveinsson, 26.3.2009 kl. 15:46
Já, einmitt það! Og svo?
Hlédís, 26.3.2009 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.