Lyfjaverslun ríkisins, já takk !

Í lyfjadreifingunni er vandamálið ekki kreppan. Það er einokun einkaframtaksins. Nú eru að koma fram veikleikar okkar smáa markaðar og skortur á samkeppni.  Lyfjaframleiðslan er nánast komin á eina hendi fyrrum bjórframleiðanda í Rússíá og innflutningur sérlyfja er á harðahlaupum undan ódýrum og vel reyndum erlendum lyfjum.

Lyfjaframleiðandinn Actavis er uppi löngum stundum með hráefni til framleiðslu sinnar eða þá að það stendur á framleiðslu, sem fram fer í verksmiðjum hans í öðrum löndum; fyrirtækið skiptir út pakkningum og milligrammastærð að því er virðist eftir eigin hentugleikum og án læknisfræðilegra ábendinga eða fellir niður vörur hagkvæmar sjúklingunum og kemur með aðra dýrari þess í stað.

Mjög ber á því að erlend framleiðsla, sem innflutningsfyrirtæki í lyfjadreifingu hafa selt hér á markaði, hverfi og er því borið við að verð og velta hafi ekki skilað nægjanlegri framlegð til að standa undir leyfisgjaldi. Von bráðar dúkka svo margfalt dýrari lyf upp til sömu nota.

Nýjar aðferðir við lyfjaálagningu hafa verið teknar upp, sem hækkað hafa verð ódýrari lyfja verulega. Lyfsalar virðast ekki óánægðir með þess nýbreytni ríkissjóðs og úr því að þessir aðilar eru saman um ánægjuna: Hver skildi þá borga brúsann?

Sjúklingarnir!

Það er þyngra en tárum taki fyrir mig að biðja um sósíalískar lausnir. En manni dettur ekkert annað í hug en lyfjaverslun ríkisins eða jafnvel samvinnufyrirtæki lækna og sjúklinga til að greiða úr þessu öngþveiti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er frábært að þú komst með þessa færslu, Sigurbjörn.  Sjálf hafði ég kvartað við Neytendasamtökin fyrir 1/2 ári vegna okurs lyfjafyrirtækisins sem þú skrifar um að ofan.  Formaður neytendasamtakanna og hinn duglegi maður, Jóhannes Gunnarsson, fór strax í málið og skrifaði þeim nokkrum sinnum.  Þeir svöruðu aldrei spurningum hans nema út í hött.  Hann gat ekki fengið svar við þeim spurningum sem hann vildi.  Það er ófært að fólkið í landinu og sjúklingar þurfi að troða ofurháum fjárfúlgum í vasana á peningagróðaníðingunum (ætla ekki að skammast mín fyrir að nota það orð þarna) bara fyrir nauðsynleglyf.  Og fyrir enga sök aðra en búa í okurlandi.

EE elle (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 11:32

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Samþykkt.

Árni Gunnarsson, 31.3.2009 kl. 14:04

3 identicon

Kæri Sigurbjörn, þökk og heiður sér þér fyrir þetta greinarkorn.

Og ef félagslegar lausnir verða þér of þungbærar, þá á ég enn brúðkaupsvasaklútinn minn. Hann er úr silki, lítið notaður og ekki of góður fyrir þig.

Hvar í flokki sem við stöndum þá er ekki sætt undir framkomu lyfjafyrirtækja sem stjórnast af engu öðru en kröfum um hámarksgróða og taka ekkert tillit til þeirra sem þurfa á lyfjunum að halda og hafa ekkert val. Við höfum horft upp á þau, og þá fyrst og fremst Actavis, kippa hverju lyfinu af öðru út af markaði, af því fyrirtækin græddi ekki nóg af tilteknu lyfi. Í öllum tilvikum hefur verið um góð og gegn lyf að ræða. Síðan hefur sama fyrirtæki hafið innflutning á sama lyfi undir nýju nafni, frá eigin fyritæki erlendis, og selur það á allt að 4-5 sinnum hærra verði. Það verður einhvern veginn að taka á þessu.

Hafðu þökk, Sveinn Rúnar

PS Á þetta ekki að vera uppiskroppa í  stað uppi í fyrstu línu annarrar málsgreinar?

Sveinn Rúnar Hauksson (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 17:53

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Við Sveinn Rúnar leggjum estetíkina og pólitíkina að jöfnu. Þess vegna getum við í miðri alvöru máls diskúterað hvort betur fari "uppi" eða "uppiskroppa". Mitt svar er, að það sé smekksatriði. 

Sigurbjörn Sveinsson, 31.3.2009 kl. 20:09

5 identicon

Og kannski passar þetta ekki illa inn í umfjöllunina:

http://omarr.blog.is/blog/omar/entry/842675/

EE elle (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband