24.11.2009 | 10:24
Orka er ein af nauðþurftum heimilanna
Þeir sem búa á "köldum svæðum" þar sem ekki fæst heitt vatn verja að jafnaði um 80% orkunnar, sem þeir kaupa, til húshitunar. Er e-ð réttlæti í því, að afkoma þessara heimila sé skekkt, ef ríkissjóður ætlar að afla tekna með sköttum á raforku?
Það liggur alveg í hlutarins eðli, að sambærilegir skattar verði lagðir á heitt vatn. Orkan er ein af grunnþörfum nútíma heimila og á að vera aðgengileg á svipuðu verði öllum landsmönnum.
Hitt er svo annað, að menn geta haft mismunandi sýn á skattheimtuna almennt séð en það er s.s. önnur saga.
Nýtt gjald á heitt vatn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Allir neysluskattar sem leggjast á nauðsynjar eins og vatn, hita, farskipti og samgöngur eru ólíðandi og sú staðreynd að þessi þessi ríkisstjórn, sem kallar sig ríkisstjórn venjulegs fólks, fari þessa leið sýnir hvað fólkinu sem þar situr skortir mikla heilbrigða skynsemi.
Einar Þór Strand, 24.11.2009 kl. 11:40
Sigurbjörn. Hvað verður frádráttarbært í skattaframtali? Gæti ekki verið réttlátt að leiðrétta óréttlæti þá leiðina t.d. þeir sem búa á svæði sem ekki hefur heitt vatn í nágrenni við sig fái endanlega eitthvað réttlæti í orkureikningana. Slíkt óréttlæti hefur viðgengist allt of lengi eins og þú bendir réttilega á, að sumir hita upp húsnæðið sitt næstum frítt á meðan aðrir borga stórar fúlgur fyrir rafmagnið sem fer í upphitun. Ekki er það réttlátt.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.11.2009 kl. 23:33
Svarið er einfalt; nei, það er ekki réttlátt.
Af einhverjum ástæðum er eins og að margir Íslendingar hafi misst af því þegar gjörvallur efnahagur Íslands hrundi. Það er ekkert réttlæti í því. Það er ekkert réttlæti í því að hækka skatta, lækka laun, skera niður í heilbrigðisþjónustu, lögregluþjónustu, slökkviliði og reyndar öllum sviðum ríkisins (og víðar).
Það vill bara svo leiðinlega til, og þetta hefði ég haldið að væri komið á hreint nú þegar, að það er ekki um neitt að velja í þeim efnum. Þegar svona kreppa gengur yfir, þá verður að skera niður af þeirri einföldu ástæðu að það eru ekki nægir fjármunir til staðar. Það er þess vegna sem fólk gerir mikið úr þessari kreppu, ekki bara vegna þess að rosalega ríka liðið missir rosalega mikið af fjármunum, heldur vegna þess að áhrifin eru mjög ósanngjörn gagnvart landi og þjóð. Það er bara óumflýjanlegt, alveg sama hversu ósanngjarnt það er. Bara á sama hátt og að það er rosalega ósanngjarnt að fólk svelti, en það er það sem gerist þegar það einfaldlega er enginn matur til staðar.
Ég sé stundum fyrir mér Íslending í brennandi húsi, og í stað þess að koma sér fjandakornið út úr húsinu, velta fyrir sér hver hafi kveikt í húsinu. Það er að brenna, það þýðir ekkert að pæla í óréttlætinu við þessa kreppu núna, það verður að bíða þar til hún er búin, og mér þykir það alveg jafn skítt og hverjum öðrum. Það bara þýðir ekkert að pæla í óréttlætinu fyrr en efnahagurinn er kominn í eitthvað heilvita horf. Þangað til það gerist, þá máttu búast við ennþá meira óréttlæti, ennþá harðari niðurskurði og ennþá meira af vandamálum. Það er það sem orðið "kreppa" þýðir.
Að vísu eru Íslendingar svo góðu vanir að þeir geta jafnan ekki hugsað sér nein raunveruleg vandamál, eins og matar- og lyfjaskort. Ég hef reynt að útskýra fyrir fólki að ef við borgum ekki Icesave, þá verði sú martröð að raunveruleika með líkunum 100%. Það er eins og það bara komist ekki fyrir í hinni íslensku heimsmynd af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir að Ísland hafi margsinnis áður þurft að þola hungursneyð og annað böl af mjög ósanngjörnum völdum.
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 03:10
Anna: Gott væri að þurfa ekki að flækja skattkerfið meira en orðið er né að viðhafa beinar niðurgreiðslur. Best væri að kaupið yrði hærra á þeim svæðum, þar sem dýrara er að búa. En það er draumaland, sem ekki er í hendi.
Ég alltaf verið þeirrar skoðunar að þessi jöfnun ætti að fara fram innan orkugeirans sjálfs. Eins og ég sagði þá er orkan ein af nauðþurftum fjölskyldnanna í nútímasamfélagi og þeir, sem búa við lágt orkuverð, njóta þar samfélagslegra forsendna og hagkvæmni stærðarinnar.
Ísland verður hins vegar ekki rekið með því eina leiðarljósi að hagkvæmni stærðarinnar eigi að gilda um þróun samfélagsins í öllum hlutum og orkuverðið er ein af þeim byrðum, sem fólk á að deila saman.
Sigurbjörn Sveinsson, 25.11.2009 kl. 08:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.