Færsluflokkur: Menning og listir

Á sunnudagsgöngu

Í gærdag var ég á gangi suður eftir Ægisbrautinni í Búðardal. Það var hvöss norðanátt og við frostmark og ég hálfpartinn fauk á heilsubótargöngunni. Dúðaður með húfu og ullarvettlinga og fjórði dagur í sumri. Þá heyri ég allt í einu þekkilega rödd tala til mín utan úr buskanum. Ég sný mér í hring. Það er ekki sála á ferli. Jörvagleðiball og kosninganótt að baki og Búðdælingar með hugann við annað en útiveru. 

Samt berst röddin áfram til mín og nú öllu skýrar. Hún kemur frá húsi, sem stendur nánast í götukantinum. Mér reiknast til að þar sé ekki nokkur sála. Óskar og Henný löngu dáin og húsið í notkun af og til af af afkomendum. Enginn bíll fyrir utan. Þegar nánar er að gáð þá berst þessi talandi frá húsveggnum. Úr litlum kassa er mér fluttur bókmenntarþáttur Rásar 1. "Ekkert umbyltir lífinu eins og það að missa móður sína", er haft eftir frönskum rithöfundi. "Öllu heldur tvær ef út í það er farið". 

Þarna hefur verið komið fyrir snotrum bekk undir húsveggnum, sem hefur svolítið skjól fyrir norðanáttinni af lítilli útbyggingu. Ég fæ mér sæti og horfi á æðarfuglinn í flæðarmálinu. Hjarta mitt er þakklátt þeim, sem sér um að veita gömlu Gufunni til gesta og gangandi. Mér gefst svo líka tóm til að leiða hugann að þessum Frakka, sem yrkir upp Laxness og gerir foreldrana í Brekkukotsannál að tveimur konum. 

Það er tímanna tákn.  

Bókmenntaelítan kiksar

Við fengum fregnir af því fyrir nokkrum dögum, að Svari við bréfu Helgu og Hreinsun hafi verið hampað af bóksölum fyrir ágæti. Fleiri dómar hafa fallið á sömu lund undanfarnar vikur. Ég verð því miður að lýsa mig ósammála niðurstöðum þessa ágæta fólks.

Hreinsun Sofi Oksanen er vissulega vel þýdd skáldsaga af Sigurði Karlssyni á íslensku. Það er ekki þar með sagt að sagan sjálf beri sömu einkenni. Oksanen hefur tekist að búa verkinu eftirtektarverðan ramma þarna á "frímerkinu" í skógum Eistlands; henni ferst hin tæknilega úrlausn vel úr hendi. Frásagan er hins vegar full af tilfinningalausri smámunasemi, yfirborðskenndum persónum og ævintýralegri atburðarás, sem styðst við smásmygli langt umfram þarfir frásagnarinnar. Oksanen hefði þurft að æfa sig á skinn.

Svarið við bréfi Helgu er á margan hátt spennandi bók. Þráður sögunnar er frumlegur og hún er ákaflega íslensk, ef svo má að orði komast.  Þar liggur hins vegar veikleiki hennar einnig. Höfundur vill segja söguna með tungutaki alþýðunnar eða jafnvel einyrkja í íslenskri sveit. Útkoman er uppskrúfaður stíll, tungutak sem enginn hefur notað í íslenskum sveitum, hvað þá að nokkur skilji nú til dags. Heimildarmenn eru sagði ábyrgir fyrir textanum og þekki ég þar mann innanum.  Ekki þekki ég til að hann hafi haft það orðfæri sem frásögnin notast við þó ég hafi kynnst honum fyrir 30 árum og þekkt fram á þennan dag.  Í stað fallegrar ástarsögu situr lesandinn uppi með eitthvert afskræmi í texta og klám og jafnvel dýraníð. Má ég biðja um aðra fegurð.

Hana er að finna í Myndinni af Ragnari í Smára. Þar eru á ferðinni fagurbókmenntir sem því miður voru ekki réttilega vegnar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, talin með heimildaritum. Bókin styðst að vísu við urmul heimilda en þar með er það upp talið.  Hér er á ferðinni glæsileg skáldsaga, hugarsmíð þar sem íslensk menningarsaga um miðja síðustu öld er skrifuð inn í fjóra daga í lífi Ragnars í Smára. Allar ástríður hans, styrkur og veikleiki eru dregin fram með undursamlegum dráttum. En hvers mátti þessi bók í samkeppninni við risavaxið heimildarit um jökla. Dauðadæmd.

Það kemur ekki á óvart að Kristín Marja og Eiríkur Guðmundsson skyldu hljóta verðlaun útvarpsins. Þar er jafnan mennilega að verki staðið. Eiríkur skrifar áfengan stíl.


mbl.is Kristín Marja og Eiríkur verðlaunuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

“skrítinn og sköllóttur karl”

   Ég fékk mér göngutúr um götur Búðardals í gær. Gekk út á bakkana, þar sem tún Jóns heitins Hallssonar eru að búa sig í vetrarbúninginn. Síðan lá leiðin inn með gömlu útihúsunum og íbúðarhúsinu, sem nú hefur verið gert upp og fært í upprunalegt horf að hluta.  Það byggði Sigurður Sigurðsson fyrsti héraðslæknirinn í Búðardal um aldamótin 1900 og var svokallað katalóghús frá Noregi. Hafa hinir norsku viðir reynst vel. Veðrið var ómótstæðilegt  eftir árstíma, aðventan á næsta leyti, tæplega andvari, Hvammsfjörðurinn spegilsléttur og æðarfuglinn enn uppi við land; hitinn eins og á góðum vordegi. Fólkið var útivið að þrífa bílana sína og huga að öðru, sem þarfnaðist athygli fyrir veturinn.

  

   Þar sem ég var á Ægisbrautinni rétt vestan við gamla sýslumannsbústaðinn mætti ég Haraldi Leví Árnasyni frá Lambastöðum í Laxárdal, fyrrum sýsluskrifara og margfróðum Dalamanni. Hann var á göngu eins og ég.  Með hans hjálp vildi ég reyna að átta mig á hvar litla húsið hans Guðmundar Ingvarssonar frá Hóli í Hvammssveit hafði staðið þarna rétt ofanvið á neðra barðinu. Aðalsteinshús var það lengst af kallað. Það brann fyrir aldarfjórðungi og Guðmundur með við annan mann.

  

Haraldur leysti úr þessu fljótt og vel en sagði mér eitt og annað í leiðinni. Böðvar nokkur Marteinsson, eldsmiður, sem jafnan var kenndur við Hrútsstaði, hafði byggt þetta hús á fyrsta hluta tuttugustu aldarinnar.  Þegar Böðvar bjó þar, bar að gest, sem baðst næturgistingar. Kom hann ekki af landi heldur af hafi. Það sem kom á óvart var, að hann var fótgangandi og kom frá Borðeyri í Hrútafirði. Úti var bylur og tæplega ratljóst. Hafði bóndinn farið í kaupstaðinn fyrir jólin en fengið blindbyl á leiðinni heim og ratað í villu á Ljárskógafjalli. Missti hann fótanna á klettsnefi, tapaði taumnum, fór fram af klettinum og lenti í Fáskrúð, sem var á ís. Honum var ljóst að hann hafði ekki mið heim til bæjar í bylnum og valdi því að fylgja ánni til sjávar. Áttaði hann sig ekki fyrr en það blotaði í fæturna á ísnum og vissi þá, að hann var kominn út á Hvammsfjörð. Fór hann út með ströndinni á ísinum og kom að landi í Búðardal og beiddist gistingar í litla húsinu rétt ofan fjörunnar eins og áður sagði. 

  Þetta var Jónas Jóhannesson, bóndi í Ljárskógaseli 1900-1924 og faðir Jóhannesar úr Kötlum. Jóhannes gerði föður sínum  kvæði, þar sem finna má fyrirsögn þessa pistils.  Jóhannes þekkti ég ekki en Guðrúnu systur hans kynntist ég á hennar efstu árum og fylgdi allt til dauðadags. Þar fór róleg en stórlynd kona, sívinnandi eins og allt þetta fólk, sem ólst upp við hin kröppu kjör einyrkjans.

Magnús Ásgeirsson

Í nóvember 2008 tók ég mér frí á pólitíkinni á blogginu og skrifaði smá pistil um Vögguþulu Garcia Lorca og vin minn Jökul heitinn á Vatni. Þýðandi ljóðsins, Magnús Ásgeirsson,  barst þar í tal og Hösmagi á Selfossi af óbeinum ástæðum en hann hafði gert athugasemdir við skrif mín um lífeyrissjóði. Hluti pistilsins var á þessa leið:

"En svo aftur sé vikið að Hösmaga á Selfossi, sem ég þekki alls ekki, en ekki hrútnum þeirra Grettis og Illuga, þá virðist mér hann hafa verið í mægðum við afkomendur Magnúsar Ásgeirsonar ljóðaþýðanda. Og þá erum við komin inn á miklu skemmtilegri slóðir heldur en þetta eilífa þras um meinta sök, sem þó verður ekki undan vikist. En tökum okkur leyfi frá því um stund.

Magnús Ásgeirsson var leiklistargagnrýnandi Þjóðviljans. Hann fór hamförum í gagnrýni sinni og skrifaði lærða leikdóma sem jafnan voru heilsíðugreinar. Svo vel metnar voru skoðanir hans á uppsetningu leikrita í Reykjavík á þeirri tíð, að kunnir íhaldsmenn keyptu Þjóðviljann í skjóli nætur til þess að hafa dóma Magnúsar á takteinum. Þá reis sól íslenskrar blaðamennsku hátt, hvort sem var á Mogga, í Tímanum eða á Þjóðvilja. Menn hugsuðu fyrst og skrifuðu svo. Voru frekar trúir pólitíkinni en eigendum blaðanna. Það hlýtur að hafa verið þægilegra hlutskipti þrátt fyrir allt. Árni Bergmann og Matthías Johannessen voru síðustu stóru nöfnin á þessum vettvangi og Styrmir fylgdi fast í kjölfar þeirra. Ilmur þessara daga berst stundum úr leiðurum Fréttablaðsins en þá er það upp talið.

En hvað um það; Magnús gerði fleira en að rita leikdóma, hann þýddi ljóð. Það gerði hann með undursamlegri smekkvísi og skáldlegu innsæi og raunar þeim sköpunarkrafti sem þarf til að frumsemja stórvirki. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég eignaðist fyrir mörgum árum ljóðasafn Almenna bókafélagsins þar sem í einu bindinu mátti finna ljóðaþýðingar. Og þar var þessi Magnús Ásgeirsson allt í einu kominn, fyrirferðarmeiri en Jón Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn. Mitt í þyrpingu ljóðaþýðinganna innan um Nordahl Grieg, Hjalmar Gullberg og aðra andans jöfra, rekst ég á kvæði eftir Federico Garcia Lorca, Vögguþulu, sem Magnús kallar svo. Skiptir engum togum, að kvæðið í þýðingu Magnúsar nær á mér þeim heljartökum, sem það hefur haft allt fram á þennan dag. Þó hef ég alls ekki skilið það enn. Annars vegar er barnsleg og viðkvæm vögguvísa fyrir dreng, sem verið er að bía í svefn og hins vegar einhver yfirþyrmandi spánskur harmur ef til vill aftan úr forneskju, sem fylgir með værðinni inn í sál barnsins. Gamalkunn aðferð til að koma arfleifðinni fyrir, þannig að hún ferðist með kynslóðunum."

Á dögunum átti ég tal við yngri mann í minni stétt yfir kaffibolla og hann tók upp þráðinn um Vögguþuluna. Hafði hann rekist á þessi skrif mín fyrir löngu og sagðist eiga þýðingar Magnúsar og væru þær í uppáhaldi í sinni fjölskyldu. Sagði hann, að sonur sinn ungur deildi þessum áhuga með sér og bæði sveinninn hann gjarnan og ítrekað að lesa "kvæðið um hestinn" þegar þeir vildu eiga náðuga stund saman. Þessi félagi minn bar m.a. upp það umhugsunarefni, sem áhugafólk um bókmenntir hefur alla tíð velt fyrir sér, hvers vegna Magnús hafi lagt fyrir sig ljóðaþýðingar fremur en frumsaminn skáldskap.  Ég lét þau orð falla, að ef til vill hafi Magnús notað neistann úr skáldskap annarra til þeirrar nýju sköpunar, sem þýðingar hans vissulega voru en vantreyst sér til að láta frá sér ljóð, sem ekki hefði aðra samhverfu en persónu hans sjálfs. Þessi orð féllu auðvitað í flýti og báru vanþekkingu minni á bókmenntasögunni vitni. Það kom svo á daginn.

Nú er ég að lesa Mynd af Ragnari í Smáraeftir Jón Karl Helgason, þar sem víða er leitað fanga. Í bókinni rata ummæli Ragnars úr minningargrein um Magnús inn samtal þeirra Hjalmars Gullberg, þegar þeir eru ásamt hópi fólks að bíða á brautarpalli í Stokkhólmi eftir næturlestinni frá Kaupmannahöfn. Þar er Halldór Laxness á ferð með Auði til að taka á móti Nóbelsverðlaununum. Svo er frá sagt:

""Magnús var einn stórbrotnasti persónuleiki, sem ég hef kynnst," segir Ragnar við Gullberg og finnst að það sé hinn mesti harmur íslenskra bókmennta að hann hafi neitað þjóðinni " um að taka það sæti er hann var borinn og fæddur til að fylla, við hlið öndvegisskálda hennar. Hlédrægni hans og lítillátt hjarta munu ekki hafa leyft honum slíkan veraldarmunað." Þess í stað hafi Magnús tekið "ungur þá ákvörðun að fela snilli sína og áhrifavald bak við nöfn ýmissa manna frá mörgum þjóðum, sem hann lyfti sumum hverjum úr hópi góðskálda í nálægð meistaranna¨."  (Mynd af Ragnari í Smára efir Jón Karl Helgason,  Reykjavík 2009, bls. 170-171.) 


Kapellan í Vatnaskógi

Kapellan í VatnaskógiMargir drengir hafa dvalist í Vanaskógi sér til ánægju og yndis. Það eru áreiðanlega enn á lífi drengir á níræðis- og tíræðisaldri, sem eiga dýrmætar minningar um tjaldbúðavist í Vatnaskógi á 3. og 4. áratug liðinnar aldar. Gamli skálinn í Vatnaskógi var byggður í upphafi seinna stríðs og lauk þar með vist Skógarmanna í tjöldum.

Kapellan í Vatnskógi, sem reis 1949, á stóran sess í ljúfum minningum Skógarmanna allt fram á þennan dag. Það sanna tilsvörin, þegar þeir svara því, hvers þeir minnast frá dvöl þar á æskuárum. Nokkrir ungir Skógarmenn á þeim tíma höfðu forgöngu um þessa byggingu. Meðal annarra voru þar fremstir í flokki Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður og síðar kennari við Iðnskólann í Reykjavík og Bjarni Ólafsson húsasmiður og síðar kennari við KÍ. Bjuggu þeir kapelluna af miklu listfengi og má enn sjá innlagða skreytingu Aðalsteins og útskurð  í húsinu ósnertan og óskemmdan frá fyrstu tíð. 

Eins og öll önnur hús, þá þarf kapellan viðhald og var endurnýjun þaks orðin mjög aðkallandi. Nokkrir fullhugar réðust í þessa framkvæmd liðið sumar og prýðir nú endingargóð koparklæðning þakið húsinu til varnar um ókomin ár.

Einangrun þaksins er ólokið og gert er ráð fyrir að allt þetta fyrirtæki kosti um 3 milljónir króna. Um ein milljón hefur þegar safnast en afgangurinn bíður þess að velunnarar Vatnaskógar rétti hjálparhönd, hver eftir sinni getu.

Reikningur verkefnisins er: 0101-05-192975, kt. 521182-0169  

Ég vil nota bloggsíðu mína um þessi jól til að koma þessu þarfa verki á framfæri um leið og ég færi ykkur bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. Þakka ég öllum sem komið hafa við hjá mér á árinu og ennfremur athugasemdir við skrif mín, sem flestar hafa verið  mér vinsamlegar og allar málefnalegar.


Kilja Egils varpar ljósi á tvo stráka ...

...eða öllu heldur unga menn, sem hittast á sjúkrabeði annars. Sá er yfirkominn af kvenlegri aðhlynningu og nánast fangi umhyggju hennar. Þetta er í Miðstrætinu á árunum eftir fyrri heimstyrjöld og tengdamamma mín sáluga einhvers staðar í næsta nágrenni á ungbarnarýjunni væntanlega.

Við hittum þá næst í bjartri sumarnóttinni á leið inn fyrir Rauðará og austur í grjótholtin ofan við Tungu og þar innaf. Þeir eru þyrstir og svangir og fyrirhyggjulausir þess utan. Í holtinu ofan við veginn er greiðasala í heimahúsi og þangað hverfa þeir.  Fjallmyndarleg kona, sem yngist með hverri setningunni, klifar einlægt á því, að beinanum sé lokið þann daginn. Um leið ber hún þeim mjólk og bætir á,  þegar sér í borð. Þeir launa greiðann með flissi og fíflalátum og að lokum hlátri, þannig að mjólkin puðrast um og yfir þá. Þetta kannast allir við, sem enn hafa heilsu til að rifja upp æskuárin.

Síðan liggur leiðin inn fyrir bæ. Ferðin sækist illa þar sem einn er vanbúinn til fótanna og er annar fóturinn lakari, hvað sem Gunnlaugi ormstungu líður. Magnús á Blikastöðum tekur þá upp í en á ekki bensín lengra en að heimreiðinni sinni og þeir leggja á hálsinn ofan Lágafells og fara um móa og mýrar í Skammadal til Mosfellsdals. Sá sem heldur á penna er þar kunnugur. Hann kemur þeim í húsaskjól þar sem þeir losna við vosbúðina.  Það má hverjum manni ljóst vera, að hinn bæklaði förunautur er höfundi textans hjartfólginn og frásögnin ólík ýmsum öðrum, þar sem finna má lýsingar þessa manns af samtíðarfólki sínu. Þar sleppur jafnvel Erlendur í Unuhúsi ekki undan.

Það rifjast upp, að nokkrum árum áður er höfundurinn, þá varla kominn af barnsaldri, í hrossaragi á Hvalfjarðarströnd og verður þar ferðstola fyrir gestrisni heimamanna. Hann lýsir því svo, að það taki lungann úr deginum að ná upp hita undir frambærilegu bakkelsi. Þar rekst hann á rifrildi úr blaði með ljóði eftir Jóhann Jónsson, Hafið dreymir, og verður svo hugfanginn af kvæðinu, að móeldurinn og bakkelsið endist honum til að læra það fyrir lífið.  Þessu segir hann frá í Grikklandsárinu eins og gönguförinni til Laxness. Skáldið úr Ólafsvík, þessu guðsvolaða plássi, er öðruvísi en annað fólk, aðrir menn, önnur skáld. Handgegnar mannlýsingar með kerskni, ærslum og háði, jafnvel þegar vinir eiga í hlut, eru hér víðsfjarri. Nú víkja þeir fóstbræður, Gerpla og allur bálkurinn aftur til Steins Elliða fyrir broddlausri nærgætni og lotningu. Í raun einhvers konar öfugmæli í gjörvöllu skáldverki Laxness. Ásta Sóllilja hefur sérstöðu ekki ólíka.

Rúmum áratug síðar förum við um Skáldatíma til Leipzig,þar sem þeir eyða tíma saman Jóhann Jónsson, skáld frá Ólafsvík og Halldór Guðjónsson, rithöfundur, frá Laxnesi. Þeir fara um slóðir Bachs, Jóhann og Halldór, annar að búa sig undir dauðann, sem aldrei vill koma og hinn að kveðja ástvin. Baksviðs er leikkonan sem býr við Jóhann í dauðastríði hans, frú Göhlsdorf. Sögur fara af henni síðar á Íslandi í torskilinni einsemd í Tjarnargötunni við nauman kost.

Hennar sögu höfum við vanrækt.

Skáldatími er merkilegur fyrir þessar fátæklegu línur um manninn, sem Halldór Laxness elskaði heitar en aðra, sem hann gerir að umtalsefni, ef frá eru skildar amma hans og móðir. Að öðru leyti er Skáldatími teprulegur flótti frá sænskum skálaræðum, katólsku og hinu gerska ævintýri kommúnismans.

 “Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?”

Það er ekki með öllu ónýtt að eyða smá tíma við sjónvarpið, þegar Kiljan er annars vegar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband