Skuldarar úti í feni pólitískra loforða

Ég rakst á kunningja minn fyrir  rúmu ári. Hann er Norðmaður og býr hér á landi. Hann var að blaða í fasteignaauglýsingum og ég spurði, hvort hann ætlaði að festa sér húsnæði. Hann kvað svo ekki vera. Sagðist ætla að bíða í a.m.k. eitt og hálft ár í viðbót. Botninum yrði ekki náð fyrr. Þannig hefði það verið í kreppunni í Noregi fyrir 20 árum. Við ræddum það aðeins og þá atburði og þá kom fram, að um fjórðungur allra heimila í Noregi lenti í greiðsluvandræðum og engar sérstakar ráðstafanir voru gerðar af hálfu almannavaldsins í þeirra þágu. 

 

Það var athyglisvert að sjá gömul viðtöl við talsmenn Sigtúnshópsins í sjónvarpinu á dögunum. Sigtúnshópurinn  varð til í misgengi launa og verðlags 1983. Í hópnum voru ungir húsbyggjendur og vorum við hjónin á þeim báti um þetta leyti. Engar kröfur komu fram um að fá peninga að gjöf. Pétur J. Eiríksson krafðist aðlögunar fyrir fólkið til að það gæti staðið í skilum, aðlögunar, sem fæli sér aukin lán og lengingu þeirra eldri. Mannréttindaráðherrann var í þessum hópi. Skuldirnar voru borgaðar og erum við hjónin enn að og teljum það ekki eftir okkur. 

Vandinn, sem við er að glíma núna er tvíþættur a.m.k. Annars vegar er raunverulegur greiðsluvandi fólks, sem reisti sér ekki hurðarás um öxl miðað við óbreyttar forsendur, en getur ekki staðið í skilum án breytinga á skilmálum skulda sinna. Hins vegar er miklu stærri hópur, sem kominn er út í fen pólitískra loforða, sem gefin hafa verið allt frá hruni um að töfralausnir úr pípuhöttum stjórnmálmanna muni gera hann jafnsettan og hann var fyrir hrun. Engir stjórnmálamenn eða flokkar eru án sakar í þessum leik. Og jafnvel hinn gamalreyndi mannréttindaráðherra fer þar fremstur í flokki.

Þessi hráskinnaleikur hefur orðið til þess að draga úr greiðsluvilja fólks. Eða telja menn, að allir þeir viðskiptamenn bankanna, sem eiga 40 % lána þeirra í vanskilum, séu í raunverulegum greiðsluerfiðleikum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Sigurbjörn það eru raunverulegir erfiðleikar. Og mesta furða hvað fólk er að rembast við að borga sem ekki hefur efni á því. Og óréttlætið sem svíður á fólki er af hverju þeim sem eiga 70% af bankainnistæðunum í dag var bjargað án nokkurs skaða af hruninu.

Hefuru svar við því sem stenst skoðun?

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 13:13

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég gæti hugsanlega svarað Sigurður, ef spurningin væri markvissari og þess getið nákvæmlega við hvað væri átt. Hvort það svar stenst svo skoðun; það er annað mál.  

Sigurbjörn Sveinsson, 26.11.2010 kl. 13:44

3 identicon

Við bíðum spennt eftir ýtarlegri spurningu frá Sigurði.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 17:48

4 Smámynd: Hörður Þórðarson

Mjög góð færsla, Sigurbjörn.

Hörður Þórðarson, 26.11.2010 kl. 21:02

5 identicon

Sigurbjörn þetta svar er útútsnúningur eða þá að þú hefur ekki fylgst með. Neiðarlög voru sett í landinu þar sem ríkissjóður ábyrgðist allar innistæður í bönkum sama hversu háar þær voru. Sagt er að 7% eiganda þessara innistæðna hafi átt meir en 40% þessara innistæðna sem lágu á háum vöxtum bankanna fyrir hrun af hverju var þetta fólk ekki líka látið taka á sig skell bankahrunsins???? Spurningin er mjög auðveld en ekki fyrir þá sem teljast þokkalega stæðir þeim finnst alveg sjálfsagt að þeim hafi verið bjargað og gefa svo skít í þá sem raunverulega þurfa að borga.

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 27.11.2010 kl. 07:53

6 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Sigurður: Þessi 7%, sem áttu 40% við hrunið, eiga þeir 70% núna?

Sigurbjörn Sveinsson, 28.11.2010 kl. 17:30

7 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Við hrunið voru innistæður í bönkunum tryggðar. Þeir, sem áttu í peningmakaðssjóðum, skuldabréfum eða  hlutabréfum töpuðu öllu. Erlendir lánardrottnar íslensku bankanna töpuðu mestu og sumir stjarnfræðilegum upphæðum. Almenningur í útlöndum tapaði miklu sparifé. Neyðarlögin mæltu fyrir um þessa ráðstöfun. sennilega var hún skynsamlega til að tryggja að bankarnir gætu starfað áfram og að greiðsluflæðið héldi þjóðfélaginu gangandi.

Ég átti ekkert sparifé á innistæðureikningum, það var í hlutabréfum og tapaði ég því öllu nema því litla, sem var í Marel og Össuri.  Skoðanir mínar mótast ekki af því að neyðarlögin hafi komið mér fyrir vindinn. Síður en svo.

Innistæðurnar voru tryggðar eftir þeim skilmálum, sem þeim fylgdu. Hvorki og né van. Langtum stærri upphæðir töpuðust en tryggðar voru á þessum innistæðureikningum. Innistæðureikningarnir gefa ekkert tilefni til að e-r aðrir, sem skulduðu í bönkunum, fái afslátt á lánum sínum vegna þessara innistæðutrygginga.  Hver á þá að borga það? Sparifjáreigendur? Félagar í lífeyrissjóðunum? Sparifjáreigendur á Bretlandi? Bresk sveitafélög?

Mér er spurn.

Sigurbjörn Sveinsson, 28.11.2010 kl. 22:26

8 identicon

Sæll Sigurbjörn.

Til er nákvæm lýsing á því hvernig
hráskinnsleikur fór fram.


Það segir sig sjálft að ekki voru þau fleiri
en eitt hverju sinni!

Þeir sem tókust á um skinnið voru ósjaldan fjórir.

Húsari.

Húsari. (IP-tala skráð) 5.12.2010 kl. 00:21

9 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Mátti vita en hafðu þökk fyrir þetta Húsari.

Sigurbjörn Sveinsson, 5.12.2010 kl. 08:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband