Marteinn Mosdal forsætisráðherra?

Undanfarna daga hafa talsmenn ríkisstjórnarinnar borið sig illa undan fylgishruni og meintu skilningsleysi kjósenda á mikilvægi þess sem gert er og þýðingu fyrir þjóðina þegar til framtíðar er litið. Árangur þess, sem nú er haft fyrir, muni koma í ljós á næstu mánuðum og þá endurheimti stjórnin traust landsmana og verði umbunað fyrir verk þau, sem nú er unnið að. 

Þetta er misskilningur. 

Ríkisstjórnin er einungis að gera það, sem til má ætlast af henni og ekki verður undan vikist. Ríkisstjórnin mun ekki vinna fylgi fyrir það, sem hún gerir nú. Hún mun hins vegar tapa því fyrir það, sem hún gerði ekki. Fyrir vanrækslusyndirnar. Það er sjálfsagt og ljúft að fyrirgefa einstaklingum afglöp, óvitaskap og jafnvel vísvitandi aðgerðar- og afskiptaleysi án iðrunar. En þegar þetta ráðslag á rætur sínar í hugmyndafræði, sem haldið er til streitu og það langt út fyrir eðlileg mörk, er engin ástæða til að fyrirgefa heilu stjórnmálahreyfingunum. Þjóðin er nú svo illa skædd fyrir þessar vanrækslusyndir landsfeðranna, að hún hefur orðið að finna sér nýtt göngulag, göngulag hins sigraða og niðurlægða.

Ekki þó hins bugaða.

Því unir þjóðin ekki, að ríkisstjórnin standi á öskuhaugi íslenskrar menningar og skari í glæðurnar. Stjórnmálamennirnir verða að fá hin réttu skilaboð fyrr en seinna. Og þau verður að senda þeim, hvað sem það kostar. Jafnvel það, að Marteinn Mosdal taki við stjórnartaumunum. Það er allt til vinnandi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

kórrétt

Hólmdís Hjartardóttir, 3.12.2008 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband