Matur með minni olíu og betri umgengni um miðin?

A síðasta borgarafundi í Háskólabíói voru bornar fram fyrirspurnir úr sal. Eins og oft vill verða undir slíkum kringumstæðum, þá voru spurningarnar ekki alltaf klárar, þó meiningu spyrjendanna væri gjarnan ekki undir mæliker skotið. Þannig var um manninn, sem af ákafa kallaði yfir salinn, að togararnir eyðilegðu vistkerfin á sjávarbotninum með botnvörpunni og eyddu meiri olíu en smábátarnir fyrir hvert veitt kíló.

Ég get ekki fullyrt, að hann hafi um ekkert spurt þessi maður, því ég varð barnslega glaður við þessa athugasemd og missti því þráðinn í máli hans. Hún rifjaði upp fyrir mér niðurstöður úr rannsókn, sem kynnt var fyrir um fimm árum, þar sem fram kom, að olíukostnaður fyrir hvert veitt kíló af þorski á smábátum væri umtalsvert minni en kostnaður stóru fiskiskipanna við að ná lífsbjörginni. Og oft hef ég velt fyrir mér þeim skemmdum, sem botnvarpan hlýtur að valda á lífríki hafsbotnsins eins og sjá má af  margvíslegu myndefni, sem þaðan er fengið. Þessu til viðbótar virðist mér augljóst, að afkastageta miðanna við Ísland hafi farið síminnkandi frá því að botnvörpuveiðar hófust - óháð afla. 

Mér segja fróðir menn, að trillukarlar séu svo sjálfstæðir, að þeir muni aldrei geta bundist samtökum um neitt það, sem til framfara geti horft í þeirra atvinnugrein, hvað þá um eitthvað, sem skákað getur stóru útgerðunum svo um munar. Aldrei er Bjartur langt undan Íslandsmanninum.

Eitt af því, sem trillukarla vantar, er kvóti. Svo segja þeir. Nú er búið að veðsetja kvótann í drep og fjárfesta fyrir milligjöfina í Kringlum þessa lands, í fallitt bönkum eða sólbekkjum fyrir ellihruma landa við miðbaug. Skuldug útgerðarfyrirtækin eru fyrir löngu horfin úr Kauphöllinni og kvótinn er kominn á brunaútsölu. Hvers vegna ekki að bindast samtökum um að eignast kvóta og leigja hann trillukörlunum? Þeir hljóta að geta greitt meira fyrir hann en stóru útgerðarfyrirtækin, sem einlægt eru á hausnum. Þetta gæti orðið vænlegt sprotafyrirtæki í eigu einhverra lífeyrissjóða, þar sem enn finnast markmið með kjarki eða þá Auðar Capital, sem líkist æ meir konunni minni að skynsemi.

Ég hef reyndar ekki mikið vit á þessu, þó ég sé af sjómönnum kominn. En þeir þekkja þetta frændur mínir á Bíldudal. Pabbi þeirra, Garðar Jörundsson,  réri til fiskjar á vit náttúrunnar. Hans rækjumið voru hross í haga og best reyndust gamlir hestar, sem treysta mátti að væru á sama stað í túni áratug eftir áratug.

Það hlýtur að hafa verið gott hlutskipti að róa við dagmál á vit gamalla hrossa, sem aldrei brugðust, hvorki til sjós né lands. Þau standa ef til vill enn í túni, afkomendum Garðars til hæginda, þegar rækjan lætur á sér kræla á nýjan leik í Arnarfirði.

Borgarafundir geta vakið margvíslegar hugsanir. Meira um það á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jörundur Garðarsson

Við þurfum að skoða heildarmyndina til þess að geta skilið hvernig komið er fyrir þjóðinni.  Við þurfum að skoða þróunina frá stofnun lýðveldisins og til þessa dags.  Hvernig gat þjóðin orðið ein sú ríkasta á jarðarkringlunni?  Hvað skapaði þennan auð og hvernig var honum ráðstafað?  Það þarf að skoða þessa hluti í heild til þess að geta skilið hvernig komið er.  Við mér blasir sú staðreynd að sjávarútvegurinn sem gerði okkur "rík" sé alls ekki í því standi í dag að hann geti staðið undir heiðarlegri endurreisn samfélagsins.  Ég man eftir þeirri umræðu fyrir 30 - 40 árum þegar Vestfirðingar öfluðu mun stærri hluta gjaldeyristeknanna en meðaltalið og að þeir ættu rétt á að fá til sín meira af þeim auðæfum sem verið var að skapa.  Fólkið hafði að minnsta kosti unnið baki brotnu til sjós og lands áratugum saman. Ég skrifaði grein á www.bb.is þann 24. oktober s.l. þar sem ég kom á framfæri minni sýn á ástandið eins og það stóð mér fyrir hugskotssjónum þá.  Greinin er vistuð þar undir "Stjórnmál" http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=122965  

Afar okkar voru settir til "mennta".  Þeir fóru í Stýrimannaskólann og útskrifuðust þaðan árið 1902.  Velmegun við Arnarfjörð hafði eflst með tilkomu útgerðar og fiskvinnslu og menn sáu örugglega ekki önnur eða betri tækifæri til þess að byggja upp samfélagið.  Sú útgerðarsaga hófst árið 1806 þegar Ólafur Thorlacius á Bíldudal hóf þilskipaútgerð og saltfiskverkun og sigldi hann sjálfur með afurðir sínar og annarra Arnfirðinga beint til Spánar.  Útgerð og fiskvinnsla hefur staðið óslitið síðan á Bíldudal og hefur hvergi staðið lengur samfellt.  Enginn staður á Íslandi á sér lengri samfellda sögu að þessu leyti. Síðustu 15 árin hefur  allt sigið á ógæfuhliðina.  Aflaheimildir og togari hurfu á braut og kreppan mikla í Arnarfirði hófst.  Síðan hefur íbúum fækkað úr u.þ.b. 400 niður í 150.  Af 110 íbúðarhúsum og íbúðum eru nú búið í 60.  Hin eru notuð sem sumarhús, standa auð og grotna niður eða að þau hafa verið rifin vegan vanrækslu.  Frystihúsið sem var vel útbúið og afkastamikið á sínum tíma hefur grotnað niður.  Sama á við um flest öll fiskvinnslufyrirtæki á Vestfjörðum og víðar.  Í staðinn eru frystitogarar að skrapa botninn einhversstaðar til þess að sækja hráefni fyrir verksmiðjur í öðrum löndum.  Meira en helmingnum af því sem kemur um borð er hent aftur í hafið og það þarf álíka mörg tonn af olíu í hverja veiðiferð eins og aflanum sem landað er. 

Bestu kveðjur frá Bíldudal

Jörundur Garðarsson

Jörundur Garðarsson, 15.1.2009 kl. 11:13

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sigurbjörn

Normenn hafa bannað alla veiði með Botnvörpum og Snurvoð í sinni landhelgi. Ástæðurnar er þær sem þú rekur hér að ofan. Við eigum að fara að þeirra fordæmi og banna þær hér við land.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 12:24

3 Smámynd: Jörundur Garðarsson

Gamlir hestar sem sem notaðir voru sem fiskimið voru auðvitað stafesting á því að hér hafði lífið verið í föstum skorðum í þúsund ár.  En nú er öldin önnur, Auðkúluhreppur kominn í eyði fyrir utan einn einbúa á Ósi í Mosdal en þar er líka Laugaból sem ól staðfastasta hest sem sögur fara af í Arnarfirði.  Á Laugabóli er nú hestabúgarður sægreifa úr Reykjavík og rækjumiðin því á reiki.  Menn verða því að treysta á fjöllin og ef til vill hátækni til að finna sér örugg fiskimið í framtíðinni.

Jörundur Garðarsson, 16.1.2009 kl. 08:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband