Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Útvegsmenn ráða hér engu

Þeir hafa veðsett löglegar eignir þjóðarinnar upp í topp og langt umfram það. Við munum ákveða sjálf hvort og hvenær við ræðum við ESB og hvort það, sem út úr þeim viðræðum kann að koma, verður viðunandi fyrir okkur. Útvegsmenn eru þessa stundina að totta auðlindina okkar - eins og tilberar. 
mbl.is ESB-aðild ávísun á atvinnuleysi og launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marteinn Mosdal forsætisráðherra?

Undanfarna daga hafa talsmenn ríkisstjórnarinnar borið sig illa undan fylgishruni og meintu skilningsleysi kjósenda á mikilvægi þess sem gert er og þýðingu fyrir þjóðina þegar til framtíðar er litið. Árangur þess, sem nú er haft fyrir, muni koma í ljós á næstu mánuðum og þá endurheimti stjórnin traust landsmana og verði umbunað fyrir verk þau, sem nú er unnið að. 

Þetta er misskilningur. 

Ríkisstjórnin er einungis að gera það, sem til má ætlast af henni og ekki verður undan vikist. Ríkisstjórnin mun ekki vinna fylgi fyrir það, sem hún gerir nú. Hún mun hins vegar tapa því fyrir það, sem hún gerði ekki. Fyrir vanrækslusyndirnar. Það er sjálfsagt og ljúft að fyrirgefa einstaklingum afglöp, óvitaskap og jafnvel vísvitandi aðgerðar- og afskiptaleysi án iðrunar. En þegar þetta ráðslag á rætur sínar í hugmyndafræði, sem haldið er til streitu og það langt út fyrir eðlileg mörk, er engin ástæða til að fyrirgefa heilu stjórnmálahreyfingunum. Þjóðin er nú svo illa skædd fyrir þessar vanrækslusyndir landsfeðranna, að hún hefur orðið að finna sér nýtt göngulag, göngulag hins sigraða og niðurlægða.

Ekki þó hins bugaða.

Því unir þjóðin ekki, að ríkisstjórnin standi á öskuhaugi íslenskrar menningar og skari í glæðurnar. Stjórnmálamennirnir verða að fá hin réttu skilaboð fyrr en seinna. Og þau verður að senda þeim, hvað sem það kostar. Jafnvel það, að Marteinn Mosdal taki við stjórnartaumunum. Það er allt til vinnandi.

Moli úr Fréttablaðinu

Á bls. 6 í Markaðnum (Fréttablaðinu) í morgun er að finna athyglisverða grein eftir Jón Steinsson, lektor við Columbia háskólann í New York. Jón er runninn úr heiðblárri grasrót þar sem forsætisráðherrann var aldrei langt undan. Hann segir m.a.: 

"Innherjar geta hlunnfarið lánadrottna og smærri hluthafa með því að; 1) greiða sér of há laun og fríðindi, 2) láta félagið sem þeir stjórna kaupa eignir á yfirverði af öðrum félögum í sinni eigu eða eigu tengdra aðila, 3) láta félagið sem þeir stjórna selja eignir á undirverði til annarra félaga í sinni eigu eða eigu tengdra aðila.

Á Íslandi hefur spilling af þessu tagi fengið að viðgangast nánast óáreitt á undanförnum árum. Ef verulegar breytingar eru ekki gerða á því lagaumhverfi sem ríkir á Íslandi hvað þetta varðar þá mun þessi spilling án efa halda áfram."  

Kannist þið við þetta?


Ásta Sóllilja

Ásta skyldi hún heita dóttir okkar hjóna, þegar hún kom í heiminn fyrir rúmum þrem áratugum. Hryna tvínafna hafði gengið yfir árin á undan og svo var Ásta bæði einfalt og fallegt nafn og til í fjölskyldu okkar beggja . Og ekkert var smátt við hana Ástu Júlíu Thorgrímsen, langömmu konunnar, sem söng svo fagurlega yfir Jóni Sigurðssyni látnum, að Hannes Hafstein fór heim og sneri sálminum upp í mansöng. Menn velta því fyrir sér, hvort þetta hafi verið eina ástin á skólaárum Hannesar. 

Þegar tímar liðu sagði mamma Ástu okkar oft við hana þegar mikið lá við ÁSTA SÓLLIlJA og jafnan í góðu. Svo þegar stelpan stálpaðist safnaði hún sér fé og við vissum ekki alveg hvað fyrir henni vakti. Einn góðan veðurdag kom hún heim eftir að hafa farið niður á Hagstofu og hafði þá látið bæta Sólliljunni við nafnið sitt og greitt keisaranum það sem honum bar. 

Við foreldrarnir vorum harla ánægð með þetta framtak enda sammála um að fegurra kvenmannsnafn gæti vart.  Ég velti löngum fyrir mér hvaðan Laxness hefði komið nafnið og hélt helst að hann hefði fundið það hjá sjálfum sér. Þær voru ekki margar Ástur Sólliljur á þessum tíma og engin frá útgáfuárum Sjálfstæðs fólks.  

Svo kom annað í ljós. Þetta var eins og svo margt annað, sem Kiljan lét frá sér fara, gjöf frá þjóðinni eins og hann orðaði það sjálfur. Kristján bóndi í Neðri- Breiðdal í Önundarfirði og Sólbjört kona hans eignuðust dóttur 6. janúar 1892. Kristján er sagður hafa verið gefinn fyrir blóm og sumarskrúða og dótturinni var gefið nafnið Ásta Sóllilja að hálfu í höfuð móður sinnar. Kristinn vinur minn og skólabróðir Valdimarsson frá Núpi í Dýrafirði sem er ömmubarn Ástu þessarar Sóllilju hefur staðfest þetta við mig en upplýsingarnar eru upphaflega komnar frá Soffíu Gróu Jensdóttur, hjúkrunarfræðingi, móðursystur Kristins, sem fædd er 29. júní 1935 í Minna-Garði í Mýrahreppi í Dýrafirði. Þess má geta að læknarnir Ástráður og Stefán Hreiðarssynir eru annar liður frá Ástu Sóllilju eins og Kristinn.   

Það er margt blómið í íslenskri menningu, sem vert er að varðveita. Þannig hefur HKL fundið þetta annað hvort í kirkjubókum eða fyrir vestan. Á þessum árum var stutt í  Heimsljós. Sjálfstætt fólk kom út á árunum 1933-1935. Ásta Sóllilja Kristjánsdóttir dó um aldur fram 26. janúar 1936.  

Gaman væri ef einhver gæti fyllt þessa sögu.


Gufan er menningarvæn

Gufan heldur í mér lífinu. Án hennar færi ég úr tæringu. Andlegri tæringu. Auglýsingarnar á gufunni eru upplýsingaveita. Svo eru þær eins og hvert annað antík, sem ekki á að spilla.

Ekki má gleyma Rondoinu, FM 87,7.   Það tekur við þegar gufan megnar ekki að létta óveðursskýjunum. Rás 2 má fara. Seljum hana og notuð dreifikerfið fyrir rondoið handa öllum landsmönnum.


mbl.is Ræddu ekki um RÚV frumvarpið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband