Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Helgarmoli: Leyndardómar víns og vísinda

Í hinni góðu bók er sagt að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. Páll postuli ráðlagði lærisveini sínum, Tímóteusi, að fá sér eitt vínglas á dag vegna magans. Tímóteus virðist hafa verið magaveikur á yngri árum; ef til vill hefur hann verið stressaður. Það hefur ekki verið heiglum hent og án átaka að fylgja Páli eftir á leið hans um lífið. Páll hafði brýnt erindi. ´

Víða er hins vegar varað við ofdrykkjunni í hinni helgu bók og drykkjumaðurinn áminntur. Nói tók til óspilltra málanna þegar þornaði um og hann losnaði úr Örkinni. Hann ræktaði vínvið og drakk sig fullan. Fannst hann ber inni í tjaldi og urðu af því mikil eftirmál fyrir afkomendur hans. Sér þess enn stað. Kvöldmáltíð kirkjunnar og einkum hinnar kaþólsku líkist ekki hinni fyrstu heilögu kvöldmáltíð og þeim, sem á eftir fylgdu í frumkristninni. Nú neytir presturinn vínsins en söfnuðurinn brauðsins. Mér er sagt, að kvöldmáltíðirnar hafi í fornöld farið úr böndunum hjá hinum kristnu. Því hafi þessar ráðstafanir verið gerðar. Það sama vill henda á okkar dögum. Það enda ekki öll kvöldverðarboð eins og upp var lagt með. Kannski  ættum við að fá prestana til að drekka vínið? Þá bætist nú heldur á verkefnalistann hjá þeim. Útköll allar helgar.

Í nýjasta tölublaði Journal of the National Cancer Institute er birt rannsókn á 1300 þúsund konum á Bretlandi, sem gengust undir skimun vegna brjóstakrabba. Kannaðir voru drykkjusiðir þessara kvenna og tengsl þeirra við mörg krabbamein. Niðurstaðan var sú, að greinileg línuleg tengsl voru á milli áfengisneyslu og hættu á ýmsum krabbameinum svo sem í brjóstum, öndunarfærum og í meltingarvegi.  Heildarniðurstaðan var sú, að fyrir hvern einn sjúss á dag jókst áhættan um 1,5%. Eða með öðrum orðum hver sjúss skýrði 15 umframtilfelli krabbameina fyrir hverjar 1000 konur. Rannsóknin gefur ekkert tilefni til að álykta, að til séu e-r hættulaus mörk hvað þetta varðar.

Hver verða þá afdrif þeirra, sem neyta áfengis? Þessu svara höfundarnir ekki. Þessi rannsókn svarar því ekki, hvort þessar konur lifa lengur eða skemur. Höfundarnir hafa vafalítið þær upplýsingar, þó ekki hafi verið úr þeim unnið eða a.m.k. þær ekki verið birtar.

Margvíslegar vísindalegar niðurstöður gefa til kynna, að hóflega drukkið vín lengi mannsævina, bæti árum við lífið. Rannsókn á tæplega 30 þúsund hjúkrunarfræðingum í Bandaríkjunum, sem fylgt var eftir í áratugi, sýndi að þeir þátttakendur í rannsókninni lifðu lengur, sem drukku 1-2 vínglös á dag. Eins og kunnugt er tók almenningur þessum niðurstöðum og öðrum svipuðum vel og læknar nýttu þær til ráðlegginga. Þessar rannsóknir, sem til er vitnað, sýna einnig, að drykkja umfram þessi tvö glös grefur undan heilsunni eða fækkar ævidögunum a.m.k. Minna er gert með þær upplýsingar.

Þetta kennir okkur auðvitað, að ekki má lesa annað út úr vísindunum en þar er að finna. Við getum auðveldlega farið villt vega, ef ekki er skyggnst nægjanlega á bak við það, sem fram er borið.

Farið svo varlega um helgina, njótið lífsins og spillið því ekki.  Ekki láta okkur læknana trufla ykkur um of.


Davíð hlýtur að verða yfirheyrður

Davíð minntist á þessi einkahlutafélög, sem hann sagði hafa fengið "sérþjónustu"  hjá bönkunum. Ein ályktun, sem af þessu má draga og Davíð raunar gaf sterklega til kynna er, að um hafi verið að ræða hugsanlega refsivert athæfi annað hvort af hálfu bankanna eða eigenda þessara félaga. Davíð kvartaði undan, að þessu hefði ekki verið nægur gaumur gefinn . Þetta eru mjög alvarlegar getsakir frá hendi aðalbankastjóra Seðlabanka Íslands.

Rannsóknaraðilar, sem kallaðir hafa verið til sérstakrar rannsóknar á bankahruninu og aðrir, sem ábyrgð bera svo sem ríkislögreglustjóri og skattyfirvöld hljóta að taka við sér við frýjunarorð bankastjórans og kalla hann sjálfan til vitnisburðar um þær upplýsingar, sem hann segist  búa yfir.   


mbl.is Gæti talist mútuþægni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómar Ragnarsson hafði nægan tíma

Nú er alltaf eins og hann sé að missa af einhverju. Honum er margt betur gefið en að standa í pólitík. Hann skortir undirhyggjuna, sem virðist þurfa til að ná hylli okkar. Það er að sínu leyti dapurleg umsögn um okkur.

Eftir að hafa hrifist af tríói Þórðar Sigurðssonar í frístundahúsinu eins og ég bloggaði um í gær, þá leit ég á nokkrar gamlar Stiklur Ómars að vestan. Hann byrjaði á Klukkufellsmelum í Reykhólasveit, þar sem hann hitti breiðfirska hestamenn reyna með sér gæðinga sína. Þá fór hann yfir á Kinnarstaði í Þorskafirði og átti orðastað við Ólínu Magnúsdóttur, þessa með frolluna á dráttarvélinni. Þar bjó hún við systur sínar tvær og voru allar um eða yfir áttrætt. Ég kom oft á Kinnarstaði, en sá Guðrúnu sjáldan, þá sem elst var. Hún var of upptekin við gegningar eða annað þarft og hafði enga þörf fyrir lækni. Ómar endaði svo í Kollafirði í Gufudalssveit. Þar var fyrir Jóakim á Kletti, sem var að bregða búi og spáði firðinum í eyði. Þetta var fyrir hálfum þriðja áratug og enn er búið í Kollafirði.

Þessir þættir Ómars hafa annan brag heldur en  margt það, sem nú er gert. Þeir eru einhvers konar klassík, sem orðið hefur til þannig að þvinga tímans er víðs fjarri. Ómar gefur sér tóm til að kalla fram andrúmið, sem viðmælandinn hrærist í, umhverfið, landslag, dýralíf, búskapurinn, allt fær þetta sinn stað og samtalið er átakalaust, þrátt fyrir örvandi innsog Ómars. Jafnvel rykmökkurinn eftir Löduna í kynningu þáttarins hefur sína þýðingu; honum fylgir ilmur liðinna daga, sem setur mann í réttar stellingar.

Er hraðinn á hjóli tímans að svipta okkur þessu líka?

 


Alfreð að sniglast í Seðlabankanum

...og Davíð á rískisstjórnarheimilinu. Alli er alltaf þar, sem eitthvað er að gersat. Nú situr hann undir vesturveggnum á gamla Framheimilinu og flautar á liðið.
mbl.is Framsókn skekur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gettu betur: Hin síðari blessan

Það er alltaf tilhlökkunarefni að sjá og heyra unga fólkið takast á í þessari spurningakeppni. Við hjónin vorum í mestu makindum í frístundahúsinu og horfðum á fyrsta þáttinn í ár s.l. laugardagskvöld.  Allt gekk þetta vel eins og áður og ekkert óvænt í gangi. Davíð Þór bætt við sig svolitlu af "þekkingarrusli" eða "useless shit" eins og börnin mín kalla það jafnan.  Þau eru spurningakeppnisfíklar. 

Þá er kynnt til sögunnar tríó Þórðar Sigurðssonar úr Menntaskólanum við Hamrahlíð til að leika lag eftir hann sjálfan. Þetta fer rólega af stað, fyrstu tónarnir eins og til að liðka leikmenn og áheyrendur en síðan er tekið á sprett og leikgleði, fjörið og fáguð spilamennska allt til enda.  Ég hrífst með. Ég hrekk upp við að konan mín segir: Er ekki allt í lagi elskan mín? Þú ert í tárum.

Sprotarnir, hæfileikarnir og vilji og geta til sköpunar eru mitt á meðal okkar. Að þessu þarf að hlúa. Keppni liðanna var ágæt en kom ekki á óvart. Tríó Þórðar Sigurðssonar var perla kvöldsins. Það var hin síðari blessan.


Helgarmoli: Manstu gamla daga?

Það er allra veðra von þegar bloggvinur minn einn bloggar. Hann er gamall jaxl í faginu og sérstakur áhugamaður um veðrið. Það kunna ekki allir að meta smekk hans  fyrir veðri t.d. ekki sófabloggararnir. Látum það liggja á milli hluta.

Rithöfundar gleyma börnum sínum jafnharðan. Laxness hélt þessu fram og afsannaði sjálfur í túninu heima, þegar í ljós kom, að hann mundi allt. Eina stundina bloggar þessi veðurglöggi vinur minn um afturför bloggsins en fyrr en varir er hann floginn á grein um vafasamar hitamælingar á Eyrarbakka.  Sú merkilega kenning er sett fram, að hitamælirinn sé staðsettur undir þakskeggi húss, þar sem eldamennskan er með útgeislun. Þarna er s.s. saman komin elíta bloggara, sem kann að lesa tilfinningar á milli lína hvert hjá öðru. Árur bloggsins eru rifjaðar upp allt aftur til 2002 eða jafnvel lengra. Menn eins og ég upplifa sig eins og boðflennur eða öllu heldur statista í kompaníi, sem lifir á stikkorðum og spuna. Man einhver eftir kaffibrúsakörlunum? 

Á dögunum örlaði á svolítilli fortíðarþrá hjá þessum vini mínum.  Honum fannst blogginu hafa farið aftur svo klifað sé á því sama. Moggabloggið hefði sett það ofan.  Það má vel vera rétt hjá honum. Ég er ekki dómbær á það. Ég er nýgræðingur í þessu. 

En auðvitað er það rétt, að allt hefur sinn tíma undir sólinni. Þar er bloggið ekki undan skilið. Það er ekki ferskt lengur. Fyrsti bloggari landsins, Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, bloggaði vikulega í útvarpið árum saman og aðrir á eftir honum. Þá hét það um daginn og veginn. Það blogg lifði í áratugi enda var það ekki bundið fréttum augnabliksins. Eða þá, að augnablikin voru stærri þá en nú til dags. Jafnvel svo stór að blindir menn og bændur norður í landi blogguðu og búktöluðu í útvarpið og þótti engum tiltökumál. Rammpólitískir.  

Ég byrjaði að blogga í lok október, þegar ég fékk bréf frá syni mínum á fertugsaldri í útlöndum, sem sagðist ekki eiga föðurland lengur. Það var mér um megn. Ég varð að fá útrás. Nú er sú erting hjá og ég hef tekið út nokkurn bloggþroska. Fyrirferð þeirra sem "ropa þegar potað er í þá" eykst og umferðin er að hluta "vonabíar" í pólitíkinni, sem eru á leið í framboð. Það getur aldrei orðið skemmtilegt. Fyrir mér er það eins og að vera á föstu og horfa á korteríþrjú umferðina á Óðali. Engin spenna. 

Andrés Björnsson, útvarpsstjóri,  bloggaði áramótablogg í útvarp. Þau eru fágæti. Hann náði heljartökum á þeim, sem lögðu við hlustir. En hann vissi það ekki, því hann var auðmjúkur maður og hlédrægur, sem gerði engar áberandi kröfur til viðurkenningar í lífinu. Öllu var á hann troðið og var honum raunar um megn í góðmennskunni.

Hann sat við fætur C.S Lewis í Oxford. Þar var Tolkien einnig á ferð um lífið. Þeir reyktu saman pípu yfir bjórkollu á kvöldin hann og Lewis. Þar heitir Eagle and Child og má auðveldlega finna við aðalgötuna.

Ef menn vildu blogga hér áður fyrr, þá þurfti að koma því á prent. Í Skírni til að mynda. Menn urðu að gefa út blað. Listirnar kröfðust síns. Þær fengu Birting. Allt var þetta fyrirhöfn og fórn. Keypt dýru verði.

Þess vegna var höndum ekki kastað til innihaldsins.

Bloggið er hluti þeirrar menningar, sem fellur okkur í skaut  . Það snýst á hjóli tímans eins og öll okkar tilvera undanfarin misseri. Hraðar og hraðar með hverju andartaki þar til úr rýkur. Og við sjáum ekki fyrir endann á því frekar en öðru, eins og forðum í september.

Á þessum víðsjárverðu bloggtímum er þó alltaf rúm fyrir þá, sem feta vilja í fótspor Jóns Eyþórssonar, sérstaklega ef þeir eru veðurfræðingar við alþýðuskap.


Nei þetta fólk er sko ekki firrt

...eins og einhver stakk upp á hér að framan. Það er í fullkomnu lagi. Nú hefur skynsemin sigrað að lokum en hún hefur því  miður ekki átt upp á pallborðið hjá okkur á Fróni undanfarið.  Nú lítum við upp úr táradalnum og eymdinni sem enginn skortur er á og við höfum alltaf hjá okkur til móður allra lista. Listin er langæ en lífið er stutt og við verðum að fanga augnablikið ef við eigum að njóta þess. Það er hér og nú og kemur ekki aftur.
mbl.is Allt að 600 störf vegna framkvæmda við Tónlistarhús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýklalyfjaóreglan

Ég komst á dögunum yfir ráðherrabréf frá Vilhjálmi Ara Arasyni lækni til nýja ráðherrans í heilbrigðismálum.  Ekki að þar séu nein  undirmál að finna. Síður en svo.  Í bréfinu er læknirinn að vekja athygli á þeim vanda sem skapast við sýklalyfjanotkun. Það eru orð í tíma töluð. Vilhjálmur segir: 

"Kostnaður vegna sýklalyfja er mikill í þjóðfélaginu og skipar fimmta sætið í heildarkostnaði vegna lyfjamála.  Ofnotkun í þessum lyfjaflokki er að mörgu leiti alvarlegri en annarra lyfja vegna langtímaafleiðinga sem ofnotkun hefur í för með sér og snýr að hratt vaxandi sýklalyfjaónæmi.

Nýjustu upplýsingar frá Sýklafræðideild LSH sýna að tveir algengustu sýkingarvaldarnir sem valda flestum hálsbólgum, eyrnabólgum og lungnabólgum eru í nær helmingi tilfella með ónæmi fyrir penicillínlyfjum eða helstu varalyfjum.  Stór hluti barna bera þessar bakteríur, sérstaklega eftir að hafa fengið sýklalyf. Erfiðleikar eru þegar í dag að átta sig á kjörlyfjum og skammtastærðum sem duga til að meðhöndla alvarlegar sýkingar sem þessar bakteríur geta valdið, ekki síst meðal barna.

Sýklalyfjanotkunin hér á landi er allt að 40% meiri en á í hinum Norðurlöndunum auk þess sem meira er notað af breiðvirkum sýklalyfjum.  Hlutfallslega er notkunin langmest hjá yngstu börnunum eða sem samsvarar um fjórungi af allri sýklalyfjanotkun utan sjúkrahúsa.  Í samanburði við sýklalyfjanotkunina eins og hún var fyrir 10 árum í íslenskri rannsókn að þá hefur hún aukist um 35%  hjá börnum undir  5 ára aldri.

Stærsti hluti af öllum komum fyrir alla aldurhópa til heilsugæslunnar og á vaktir er vegna loftvegasýkinga og miðeyrnabólgu barna sem í mörgum tilvikum leiðir til sýklalyfjaávísunar.  Nýlega hefur verið sýnt fram á þrefaldan mun í sýklalyfjanotkun barna eftir landsvæðum og í nýlegri skýrslu Landlæknis um ávísanir á lyf 2007 var mikill munur milli landsvæða og  var sýklalyfjanotkun t.d. á Akureyri helmingi minni en á höfuðborgarsvæðinu. "

Við þurfum að átta okkur á því, að í hvert skipti sem sýklalyf er notað skapast sá möguleiki, að upp vaxi sýklar, sem eru harðgerari en þeir sem fyrir eru og jafnvel ónæmir fyrir viðkomandi lyfi. Því þarf ábendingin fyrir notkun lyfsins hverju sinni að vera skýr og notkun þess afdráttarlaus nauðsyn. Læknar ráða ekki við það einir að stýra þessu í heilbrigðan farveg. Til þess þurfa þeir hjálp almennings og skilning á því, að oft á það betur við að láta náttúruna sjálfa sjá um að lækna sjúkdómana en að krefjast læknisdóma til þess.   


Var fersk og verður vonandi

Þegar Svandís kom fram í borgarmálapólitíkinni bar hún með sér ferskan blæ óspilltrar hugsunar og nýrrar nálgunar. Hún var laus við klisjur, talaði s.s. mannamál og spratt eins og alsköpuð upp úr jarðvegi hversdagslífsins.  Þessi ímynd hefur auðvitað látið á sjá í þessum hildarleik sem er hin ömurlega ásýnd stjórnmálanna, sem að okkur snýr. Maður bíður bara eftir að Sigmundur Davíð fari sömu leið. Neistinn verði drepinn í honum eins og öðrum.

Ég hef trú á þeim báðum. Svandís er ekki af sendiherraætt eins og fram hefur verið haldið. Hún er Breiðfirðingur af ætt sem aldrei var mulið undir.


mbl.is Svandís stefnir á 1. sætið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyndibitar í sókn, hollustan á undanhaldi

KFC og aðrar skyndibitakeðjur eru í stórsókn á Vesturlöndum. Fréttir berast frá Bretlandi að KFC hafi á prjónunum fjárfestingar fyrir milljónir punda á næstu 5 árum. Ástæðan er stóraukin velta eftir að þrengdi fjárhagslega að almenningi. Almenningur hverfur til ódýrari skyndibita og velur það fæði í stað hollari matvöru, sem yfirleitt er dýrara í Bretlandi eins og hér á landi.

Það er auðvelt að átta sig á afleiðingunum fyrir heilsufar þjóðanna. Stjórnvöldum hér á landi hefur ítrekað verið bent á, að verðlag matvæla hafi úrslitaþýðingu fyrir neysluvenjur þjóðarinnar. Matarvenjur Íslendinga hafa skánað á allra síðustu árum. Ég tel að það verði ekki skýrt með skynsamlegum aðgerðum stjórnvalda í verðlagsmálum, heldur fyrst og fremst vegna aukinnar kaupgetu almennings og upplýsingu.

Hvað verður um þessa þróun þegar annars vegar þrengir að buddunni og stjórnvöld verða ólíklegri til að fórna skatttekjum af matvæladreifingunni? Hvað verður um skólamáltíðir barna hartleikinna foreldra?  Hvað verður um drauminn um ókeypis skólamáltíðir?

Að þessu verðu að hyggja með sameiginlegu átaki. Tími einleikaranna er liðinn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband