Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
16.2.2009 | 08:55
Alkul er bara alkul
Alkul getur ekki verið "svolítið", "nokkuð" eða "algert". Það gæti verið "svo til" eða "nánast" en þessi fyrirsögn er rökleysa. Alkul er "absolut" ástand. Náttúrufræðilega skilgreint hugtak. Ef um hlaupara er að ræða þá er því aldrei lyst að hann hafi komið algerlega í mark. Hann bara "kemur í mark".
Alkul í bílasölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2009 | 22:49
Helgarmoli: Intrumjusticaseðlarnir í Moulinexþeyturunum
Fyrirsögnin er innblásin af Eiríki Guðmundssyni þegar hann rappaði í upphafi Víðsjár á miðvikudag. Hann rappaði óvenju rösklega í Hrunadanstakti. Það var einhver feigð í hljómfallinu - eins og læmingjahjörð á vaxandi hraða til fundar við örlög sín. En andríki Eiríks var svo mikið, að það smitaði mig. Allt þar til ég heyrði fréttir af umræðum í þinginu. Þá féll mér allur ketill í eld. Þingmennirnir voru sem sagt komnir í læmingjahjörðina. Og Eiríkur á undan eins og flautuleikarinn í ævintýrinu. Hugsið ykkur: Eiríkur Guðmundsson rappandi fram af hengifluginu og Alþingi Íslendinga á efir í læmingjahópi. Áfeng hugsun eins og einhver sagði. Því ákvað ég að blogga um vinnuna mína:
Ég var að vinna á Læknavaktinni um liðna helgi. Við vorum á kaffistofunni, hjúkrunarfræðingurinn á vakt og ég, að snæða bitann okkar. Vorum sammála um, að þetta væri endemis harðmeti, sem væri á boðstólnum, bankakreppuharðmeti, ekki einu sinni kreppukóð.
- Bankakreppuharðmeti, kreppukóð, ég skil ekki þessa bankakreppu, sagði hún.
Mér vafðist tunga um tönn. Þegar allt kom til alls þá hafði ég ekki góðan skilning á þessu heldur. Ég hafði raunar alltaf verið að bíða eftir að ástandið batnaði. Alveg eins og allir hinir. Nema Bjarni Ármannsson. Maður hélt bara að hann væri að fara að gera eitthvað annað. Hjálpa til við orkumálin í Noregi - eða þannig. Þó voru ekki allir jafn bláir. Frétti af konu, sem sögð er seinfær á flestum sviðum. Hún seldi arfinn sinn í Glitni, þegar hún frétti af Bjarna og lagði á innlánsreikning. Ári fyrir hrun. Hugsið ykkur.
Ég hef alltaf haldið því fram að það þurfi sérgáfu til að ávaxta fé. Hana hef ég ekki. Hún hefur sagt mér það hún dóttir mín, sem fór að mínum ráðum með fermingarpeningana sína og glataði öllu.
-Jæja mín kæra, sagði ég við hjúkkuna. Ég skal kenna þér svolítið um bankahrun.
Ólafur hét maður og var Thors. Hann var vinmargur í æsku sem endranær og vildi öllum gott gera. Pabbi hans átti líka dálítið undir sér. Ólafur hafði sem sagt fyrirgreiðslusans eins og við segjum nú á dögum. Vilmundur heitinn landlæknir var skólabróðir Ólafs úr menntaskóla. Það gerist, að Vilmundur fær bréf frá Ólafi til Ísafjarðar, þar sem hann er læknir. Í bréfinu fer Ólafur fram á, að læknirinn losi hann undan víxilláni, sem hann hafði ábyrgst fyrir Vilmund. Ólafur greinir vini sínum frá því, að bankinn hafi gert sér að losa sig undan mörgum slíkum ábyrgðum til að forða vandræðum. Þetta er auðvitað pen aðferð bankans við að segja við Ólaf: Gættu þín strákur áður en þú rúllar. Þú hefur ekki bakland í okkur lengur.
Ólafur fór að ráðum bankans og stóð af sér þennan fjárhagslega titring.
Þessi saga hefur varðveist þar sem Vilmundur skrifaði Ólafi merkilegt bréf, sem birst hefur í ævisögunni sem Matthías Johannessen skrifaði. Það er athyglisvert að sínu leyti og þess virði að skoða og fer ég ekki nánar út í það.
Ólafur og einkum bræður hans lærðu sína lexíu ekki til fulls fyrr en löngu síðar. Þá voru þeir umsvifamiklir útgerðarmenn, sem byggt höfðu upp síldarvinnslu á Hjalteyri við Eyjafjörð. Grundvallaratriði var auðvitað að fá afla til vinnslu. Til að liðka fyrir viðskiptunum tóku þeir að ábyrgjast rekstrarfé útgerðanna, sem lögðu upp hjá þeim. Þetta vatt upp á sig og allt gekk vel um stund með Landsbankann að bakhjarli. En þar kom um síðir, að aflabrögð versnuðu og aflaverðmæti minnkaði og allir vinirnir hurfu, þegar eldarnir slokknuðu. Úrgerðarfyrirtækið Kveldúlfur stóð á brauðfótum og hafnaði að lokum í höndum Landsbankans.
Örmynd af bankahruni.
-Skilurðu núna hvað gerðist í bönkunum, spurði ég hjúkkuna? En augun voru jafn skilningsvana og áður. Þeim lét greinilega betur að hjúkra en braska. Ég ákvað að gera úrslitatilraun.
Vinur minn og kollega gekk einu sinni til rjúpna á Brekkunni sem svo er kallað. Þar eru mikil rjúpnalönd og langar og mishægar dagleiðir. Þegar hann hefur gengið stundarkorn áttar hann sig á, að maturinn hefur gleymst í bílnum. Það er hins vegar drjúgt af fugli og hann freistast til að halda áfram norður fjallið. Hann veiðir fram í ljósaskipti og er með talsvert af fugli, sem sígur í á heimleiðinni. Allt í einu finnur hann til hungurs og þorsta og síðan þreytu og máttleysis og án frekari fyrirvara kemur yfir hann eins og lömun útlimanna. Hann veit sem læknir nákvæmlega hvað er að gerast. Orkan er á þrotum og líkaminn hefur skipt yfir í margfalt óhagsstæðari efnaskipti, sem duga skammt, sýra blóðið og leiða á endanum til margvíslegra annarra truflana.
Það verður honum til happs, að hann finnur lítið súkkulaðistykki á botninum í veiðitöskunni og jafnar sig nægjanlega til að ná í bílinn.
Súkkulaðiklípa dugði bönkunum hins vegar ekki.
-Já þú meinar, sagði hjúkkan, og ég sá, að friður skilningsins færðist yfir andlit hennar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.2.2009 kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2009 | 15:41
Tækifærissinninn sjálfum sér trúr
Gat verið að Óli Eff kæmi með enn eina bókunina fulla með stóryrðum og nánast fúkyrðum um þá skynsamlegu framkvæmd "sem bjarga verður í hús". Það má segja, að seilst sé nánast eftir hverju sem er, ef það kann að vera til vinsælda fallið.
Andstaða Óla Eff mun áreiðanlega tryggja skynsamlega niðurstöðu í þessu máli. Þess vegna er ég alveg rólegur.
Hugnast ekki framhald framkvæmda við Tónlistarhús | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.2.2009 | 22:30
Stefán Gíslason: Blogg án skugga
Bloggið hans Stefáns Gíslasonar í dag um vísurnar hans Svantes með athugasemdum á athygli skilda. Þar sitja menn á siðaðra hjali við mannbót, ef svo má að orði komast og gefa dæmi um, hvernig bloggið getur verið uppbyggjandi dægradvöl í stað suðsins í haugflugunum, sem aldrei láta sig vanta og enginn veit hvaðan koma. Það er líka laust við að vera rop þeirra, sem aldrei heyrist í nema í þá sé potað.
Svona geta orðið til lítil sköpunarverk á blogginu frá allra hendi, ef fólk gefur sér smá tíma og telur upp að tíu áður en það lætur frá sér óhreinindin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.2.2009 kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2009 | 21:07
Teigsskógur í Þorskafirði
Ég hef alltaf verið veikur fyrir samgöngubótum. Sundabrautin er sjálfsagt verkefni og göng á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals hafin yfir allan vafa. Gangnakerfi á Austfjörðum með krossgötum í Mjóafirði eru spennandi viðfangsefni. Ég efast um ávinninginn af Héðinsfjarðargöngum en það er önnur og flóknari saga.
Þverun Gilsfjarðar var framfaraspor. Það sjá allir í dag sem um þá leið fara og þekkja til gamla vegarins fyrir Gilsfjörð. Unnið hefur verið að vegabótum í Barðastrandarsýslum í framhaldi þessa og víða kominn góður vegur á milli Kollafjarðar og Vatnsfjarðar t.d. í Kollafirði, um Klettsháls og í Vattarfirði. Enn eru farartálmar á leiðinni sem bíða endurbóta svo sem á Hjallahálsi. Þar er einmitt veginum um Teigsskóg ætlað að bæta um.
Ég hef margoft farið um Hjallaháls að vetrarlagi og í misjafnri færð. Það er ekki beinlínis hægt að segja, að hálsinn sé farartálmi miðað við veginn víða annars staðar í Gufudalssveit. Enda mundi vegur um Teigsskóg kalla á nýtt vegarstæði alla leið í Skálanes. Í því felast vegabæturnar. Meðal annars heyrði hin skuggalega brekka vestur yfir Ódrjúgháls sögunni til.
Eitt sinn flutti Þorgeir Samúelsson frá Höllustöðum mig á snjósleða í vitjun frá Stað á Reykjanesi yfir í Skálanes. Var þá fyrir þrjá firði að fara á ís. Var farið sunnan fyrir Hallsteinsnes og Grónes og tekið land sunnan undir Hofstöðum í Gufudalssveit. Þá gerði ég mér fyrst grein fyrir hve gríðarleg samgöngubót yrði af þverun þessara fjarða með sem stystri tengingu. Þetta var mörgum árum áður en þverun Gilsfjarðar komst á skrið.
Ég get vel skilið þá sem vernda vilja Teigsskóg. Ég hef farið um skóginn. Hann er mjög þéttur og hærri trúi ég en heimildir segja. Þá er þar að finna fallegan reynivið á víð og dreif, sem vex upp úr birkiskóginum eins og víða á Vestfjörðum.
Andstaðan við vegagerðina bar fyrst öll merki þröngra sérhagsmuna en hefur fengið breiðari skírskotun í seinni tíð. Landeigendur virtust vera á móti vegi um nesið hvað sem það kostaði. Hér þarf að finna lausn, sem sátt getur náðst um. Fjaran kemur etv. víðar til greina sem vegarstæði en nú er gert ráð fyrir.
Á meðan ekki annað gerist þá skora ég á hreppsnefnd Reykhólahrepps að láta hreinsa hina fornu leið um skóginn fyrir vegfarendur. Hann er nánast ófær og myndi sú aðgerð bæta útivistarmöguleika bæði heimamanna og ferðamanna í hreppnum til mikilla muna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.2.2009 kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.2.2009 | 17:52
Loksins, loksins
...kom að því að Agli forföður væri hampað að verðleikum. Aðstandendur Landnámssetursins eru glæsilegir meðreiðarsveinar hans og fá að njóta afls og vitsmuna Egils til líkama og sálar og munns og maga. Hvar væru Mýramenn ef Egils hefði ekki notið við? Maður spyr sig.
Þar kom hin prúða eyrarrós í allri sinni hæversku en litagleði réttilega niður.
Landnámssetrið fékk eyrarrósina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2009 | 20:39
Prik handa VG
VG hamaðist gegn þessu ákvæði á sínum tíma. Það var auðvitað afgreitt eins og hvert annað vinstra nöldur. Það var eftir öðru.
Það er skaði, að skynsemin hafi ekki fengið að ráða meiru um okkar örlög.
Varaði þingforseta við stjórnarskrárbrotinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2009 | 15:56
Lífeyrissjóðirnir ekki hraðbankar
Fyrirhugað er að rýmka reglur um endurheimt séreignasparnaðar hjá lífeyrissjóðunum. Þegar hefur viðmiðunaraldur verið lækkaður í 60 ár og eins á að heimila þeim, sem illa standa, töku séreignasparnaðar óháð aldri. Um þetta ræða stjórnmálamenn eins og ekki þurfi annað en að breyta leikreglunum til þess að þetta leysi vanda fjölda fólks bæði illa stæðra eigenda lífeyrissparnaðarins og stjórnmálamanna í úlfakreppu.
Um hvaða fjárhæðir er hér að tefla? Á það hefur verið slegið lauslega út frá ýmsum forsendum. Séreignasparnaðurinn er nokkur hundruð milljarðar sem stendur, en gera má ráð fyrir að hann verður ekki allur nýttur í þessu skyni. Þó verður að gera ráð fyrir, að þeir, sem náð hafa 60 ára aldri, hugi að öðrum ávöxtunarleiðum þegar opnast fyrir úttekt hjá þeim og að fólk í fjárhagsvanda nýti sér þá rýmkun sem því býðst. Um er að ræða milljarða tugi fyrir hvern og einn af stærstu lífeyrissjóðunum, sem reiða þarf af hendi. Eða hundruð milljarða alls þegar upp er staðið.
Það má sjá í hendi sér, að sjóðir með eignir bundnar í verðbréfum ráða ekki við útstreymi lausafjár af þeirri stærðagráðu sem fyrirhuguð er. Þeir munu neyðast til að setja þau bréf, sem seljanleg eru, á brunaútsölu. Þeir, sem eftir sitja í sjóðunum, munu verða handhafar lélegri verðbréfaeignar. Eða mun ríkissjóður mæta þessari þörf fyrir aukið lausafé með því að láta prenta peninga?
Ég er hræddur um að þessi hlið mála hafi ekki verið hugsuð til enda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.2.2009 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2009 | 23:04
Helgarmoli: Kennslustund í tónlistargagnrýni
Það er vandi að skrifa tónlistargagnrýni þannig að vel fari. Ein leiðin er að skrifa bókmenntaverk eins og Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur gerir. Þar með er tónlistin orðin kveikja annarrar fagurrar listar. Við skulum skoða dæmi þess með leyfi höfundar:
"Þú og ég
Ungverski fiðlusnillingurinn György Pauk hélt tónleika í óperunni á laugardaginn. Finnski píanóleikarinn Ralf Gothoni lék með honum.
Þeir byrjuðu á fiðlusónötu Beethovens op. 12. nr. 1. Og léku mjög beethovenlega. Þeir fluttu einnig A-dúr sónötu Schuberts. Og hana fluttu þeir mjög schubertlega.
En það voru tuttugustu aldar verkin sem voru opinberun tónleikanna. Fyrst kom sónata fyrir fiðlu og píanó eftir Janácek. Síðan partíta eftir Latoslavski. Og þetta eru mögnuð tónverk. Það er svona list sem sýnir svo átakanlega hve illa við lifum og ómerkilega. Heimurinn er fullur af fegurð og snilld. Og lífið er svo djúpt. En ekki í dægurþrasinu. Ekki í afþreyingunni.
Við eigum við skelfileg lífskjör að búa. Góð lífskjör eru ekki það að eiga mikla peninga til að kaupa fyrir drasl. Góð lífskjör eru hugarfar. Að lifa í fegurð og sannleika. Að gleyma því að maður sé til af einskærum fögnuði yfir því að vera til. Það er velferð og góð lífskjör. Og þá þurfum við enga afþreyingu af því að í huganum er hamingja og lífsfylling. En þessi gæði koma ekki fyrirhafnalaust gegnum Stöð 2. Það verður vinna fyrir þeim og leggja hart að sér: Menn verða að þagna og hlusta þolinmóðir á sönginn í sálinni. Þá birtast hin æðstu lífsgæði. Í gegnum þá fáu sem hugsa fegurra og dýpra en aðrir. Gegnum snillinga og spámenn mannkynsins. Í sannleika listar, trúar og kærleika. En þetta skilja víst engir lengur nema fáeinir úrtölumenn og sérvitringar.
György Pauk lék af óskaplegri snilld.
Guð, hvað ég fyrirlít þetta helvítis þras um hvali og bjór! Hve ég hata þetta andskotans land þar sem aldrei skín sól og aldrei er hlýtt og gott og yndislegt! Ég þrái sól og sumar. Bjartan himinbláma. Sælueyjuna. Draumalandið. Ég veit það er til. Þeir hafa sagt mér að því unaðslegar sögur Janácek og Lutoslavski, Beethoven og Schubert. Þangað skulum við fara og þar skulum við búa. Þú og ég. Og elskast eins og englar í himnaríki." Sigurður Þór Guðjónsson í Dagblaðinu um 1989.
Betur verður ekki gert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.2.2009 kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2009 | 16:47
Endurlífgun
Yfirlæknirinn stóð allt í einu í dyrunum fasmikill að vanda.
-Ertu með sjúkling?
-Nei
-Komdu, sagði hann venju fremur þjösnalega.
Ég var fljótur upp úr stólnum. Þurfti að endurlífga einhvern? Það yrði ekki í fyrsta skiptið sem við blésum lífsandanum í e-n hér í Mjóddinni.
- Það eru hádegistónleikar uppi í Gerðubergi.
- Já en ég er óétinn.
-Þú getur bara fengið þér súkkulaði og étið undir mússíkinni.
Á leiðinni í bílnum var mér hugsað til tónleikanna í kvöld. Messiaen gæti orðið harður undir tönn. Var þetta ekki of mikið á einum og sama deginum?
Couperin, Rachmaninoff, Beethoven og jafnvel Saint Saëns voru þarna allir á ferð með Gunnari Kvaran og Peter Máté. Svanurinn úr Kjötkveðjum dýranna var ábót á súkkulaðið. Dularfullt heiti á tónverki, Kjötkveðjur dýranna. Ekki beint lystugt.
Ég ákvað að blogga um þessa tónleika. En þá rifjaðist upp fyrir mér tónlistargagnrýni, sem ég las fyrir áratugum og ég seig niður í sætið. Maður hefur ekki leyfi til að stíga á stall með hverjum sem er, hugsaði ég. Maður þarf að hafa bréf upp á það. Ég fer allavega ekki í fötin hans Sigurðar Þórs Guðjónssonar.
Meira um það í helgarmola á morgun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)