Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Rannsóknarnefndin hvorki opinber úrskurðaraðili né stjórnvald

Lögmaðurinn er ónákvæmur í framsetningu sinni. Það hafa ekki alveg allir og fortakslaust andmælarétt hvað varðar efnistök nefndarinnar og niðurstöður. Um það gilda sérstök lagaákvæði í lögum um nefndina nr. 142/2008.

"13. gr.     Að gagnaöflun lokinni gerir nefndin þeim sem ætla má að orðið hafi á mistök eða hafi orðið uppvís að vanrækslu í starfi skriflega grein fyrir afstöðu sinni og eftir atvikum lagatúlkun á þeim atriðum sem varða þátt hans í málinu og nefndin íhugar að fjalla um í skýrslu til Alþingis. Nefndin veitir viðkomandi hæfilegan frest til að gera skriflega athugasemd við þessi atriði.

14. gr.

     Vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara um það og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála.
     Ef nefndin telur að ætla megi að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 eða eftir ákvæðum annarra laga sem gilda um störf hans skal hún tilkynna viðkomandi forstöðumanni þar um og hlutaðeigandi ráðuneyti.
     Nefndinni er ekki skylt að gefa viðkomandi kost á að tjá sig sérstaklega um þá ákvörðun hennar að senda mál til ríkissaksóknara, forstöðumanns eða ráðuneytis skv. 1. og 2. mgr.
     Um ábyrgð ráðherra fer samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.
     Upplýsingar um þau mál sem greinir í 1. og 2. mgr. skulu birtar í skýrslu nefndarinnar.
     Ekki er heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum."

Skv. þessum lagaskilyrðum ætti ekki að dragast úr hófi að birta niðurstöður nefndarinnar þó hún fari að lagaákvæðunum.


mbl.is Allir hafa andmælarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stillur

Í bliknuðum augum

er líf þitt falið.

Hljóð ertu,

botnfrosið vatn

á fjöllum.

Við klökuga bakka bærist

sölnað sef.

Veikum vængjum

slærðu hörpu þagnar

við mánans stef.

 

Og hugsun mín

er tilbrigði

við hugsun þína.


Magnús Ásgeirsson

Í nóvember 2008 tók ég mér frí á pólitíkinni á blogginu og skrifaði smá pistil um Vögguþulu Garcia Lorca og vin minn Jökul heitinn á Vatni. Þýðandi ljóðsins, Magnús Ásgeirsson,  barst þar í tal og Hösmagi á Selfossi af óbeinum ástæðum en hann hafði gert athugasemdir við skrif mín um lífeyrissjóði. Hluti pistilsins var á þessa leið:

"En svo aftur sé vikið að Hösmaga á Selfossi, sem ég þekki alls ekki, en ekki hrútnum þeirra Grettis og Illuga, þá virðist mér hann hafa verið í mægðum við afkomendur Magnúsar Ásgeirsonar ljóðaþýðanda. Og þá erum við komin inn á miklu skemmtilegri slóðir heldur en þetta eilífa þras um meinta sök, sem þó verður ekki undan vikist. En tökum okkur leyfi frá því um stund.

Magnús Ásgeirsson var leiklistargagnrýnandi Þjóðviljans. Hann fór hamförum í gagnrýni sinni og skrifaði lærða leikdóma sem jafnan voru heilsíðugreinar. Svo vel metnar voru skoðanir hans á uppsetningu leikrita í Reykjavík á þeirri tíð, að kunnir íhaldsmenn keyptu Þjóðviljann í skjóli nætur til þess að hafa dóma Magnúsar á takteinum. Þá reis sól íslenskrar blaðamennsku hátt, hvort sem var á Mogga, í Tímanum eða á Þjóðvilja. Menn hugsuðu fyrst og skrifuðu svo. Voru frekar trúir pólitíkinni en eigendum blaðanna. Það hlýtur að hafa verið þægilegra hlutskipti þrátt fyrir allt. Árni Bergmann og Matthías Johannessen voru síðustu stóru nöfnin á þessum vettvangi og Styrmir fylgdi fast í kjölfar þeirra. Ilmur þessara daga berst stundum úr leiðurum Fréttablaðsins en þá er það upp talið.

En hvað um það; Magnús gerði fleira en að rita leikdóma, hann þýddi ljóð. Það gerði hann með undursamlegri smekkvísi og skáldlegu innsæi og raunar þeim sköpunarkrafti sem þarf til að frumsemja stórvirki. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég eignaðist fyrir mörgum árum ljóðasafn Almenna bókafélagsins þar sem í einu bindinu mátti finna ljóðaþýðingar. Og þar var þessi Magnús Ásgeirsson allt í einu kominn, fyrirferðarmeiri en Jón Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn. Mitt í þyrpingu ljóðaþýðinganna innan um Nordahl Grieg, Hjalmar Gullberg og aðra andans jöfra, rekst ég á kvæði eftir Federico Garcia Lorca, Vögguþulu, sem Magnús kallar svo. Skiptir engum togum, að kvæðið í þýðingu Magnúsar nær á mér þeim heljartökum, sem það hefur haft allt fram á þennan dag. Þó hef ég alls ekki skilið það enn. Annars vegar er barnsleg og viðkvæm vögguvísa fyrir dreng, sem verið er að bía í svefn og hins vegar einhver yfirþyrmandi spánskur harmur ef til vill aftan úr forneskju, sem fylgir með værðinni inn í sál barnsins. Gamalkunn aðferð til að koma arfleifðinni fyrir, þannig að hún ferðist með kynslóðunum."

Á dögunum átti ég tal við yngri mann í minni stétt yfir kaffibolla og hann tók upp þráðinn um Vögguþuluna. Hafði hann rekist á þessi skrif mín fyrir löngu og sagðist eiga þýðingar Magnúsar og væru þær í uppáhaldi í sinni fjölskyldu. Sagði hann, að sonur sinn ungur deildi þessum áhuga með sér og bæði sveinninn hann gjarnan og ítrekað að lesa "kvæðið um hestinn" þegar þeir vildu eiga náðuga stund saman. Þessi félagi minn bar m.a. upp það umhugsunarefni, sem áhugafólk um bókmenntir hefur alla tíð velt fyrir sér, hvers vegna Magnús hafi lagt fyrir sig ljóðaþýðingar fremur en frumsaminn skáldskap.  Ég lét þau orð falla, að ef til vill hafi Magnús notað neistann úr skáldskap annarra til þeirrar nýju sköpunar, sem þýðingar hans vissulega voru en vantreyst sér til að láta frá sér ljóð, sem ekki hefði aðra samhverfu en persónu hans sjálfs. Þessi orð féllu auðvitað í flýti og báru vanþekkingu minni á bókmenntasögunni vitni. Það kom svo á daginn.

Nú er ég að lesa Mynd af Ragnari í Smáraeftir Jón Karl Helgason, þar sem víða er leitað fanga. Í bókinni rata ummæli Ragnars úr minningargrein um Magnús inn samtal þeirra Hjalmars Gullberg, þegar þeir eru ásamt hópi fólks að bíða á brautarpalli í Stokkhólmi eftir næturlestinni frá Kaupmannahöfn. Þar er Halldór Laxness á ferð með Auði til að taka á móti Nóbelsverðlaununum. Svo er frá sagt:

""Magnús var einn stórbrotnasti persónuleiki, sem ég hef kynnst," segir Ragnar við Gullberg og finnst að það sé hinn mesti harmur íslenskra bókmennta að hann hafi neitað þjóðinni " um að taka það sæti er hann var borinn og fæddur til að fylla, við hlið öndvegisskálda hennar. Hlédrægni hans og lítillátt hjarta munu ekki hafa leyft honum slíkan veraldarmunað." Þess í stað hafi Magnús tekið "ungur þá ákvörðun að fela snilli sína og áhrifavald bak við nöfn ýmissa manna frá mörgum þjóðum, sem hann lyfti sumum hverjum úr hópi góðskálda í nálægð meistaranna¨."  (Mynd af Ragnari í Smára efir Jón Karl Helgason,  Reykjavík 2009, bls. 170-171.) 


Matthías Johannessen eldist vel

Á náttborðinu í frístundahúsinu liggur Matthías - við hlið mér. Síðasta ljóðabók hans,Vegur minn til þín, er hreint hunang. Handbragðið sveiflast frá hefðbundnum bragarháttum til formlausra ljóða, sem engu lúta nema aga hugsunarinnar. Þar er Matthías á heimavelli. Ekki með hraða snigilsins heldur eins og spretthlaupari, sem aldrei missir sjónar á markinu. Hlaupið er þó fyrst og fremst þreytt af yfirvegaðri lífsreynslu. Og þessari hröðu og frjóu og oft beittu hugsun fylgir bæði værð og unaður. Tveir ólíkir skáldafákar á fleygiferð í sama ljóðinu.

Hér á árununum las ég Málsvörn hans og minningar. Sú bók er óbundið ljóð. Fyrir löngu sagði Matthías, að ljóð væri ferðalag frá einni hugsun til annarrar.  Ég brá þessari mynd einhvern tíman upp við setningu vísindaþings heimilislækna: Vísindin eru ferðalag frá einni niðurstöðu til annarrar. Sú hugsun var auðvitað fengin að láni hjá Matthíasi. Matthías fær mann til að hugsa. Að lesa Matthías er eins og að hafa tvo til reiðar. Og maður veit aldrei hvort hrossið maður situr hverju sinni. Eitt sinn talaði hann um athafnaskáld. Það var vel sagt. Matthías er hins vegar ástríðuskáld. Og hefur komið ástríðu sinni frá sér. Það er ekki öllum gefið.

Í Málsvörn og minningum er hann á ferð með hugsun sinni – og Hönnu heitinni,  sem aldrei var langt undan. “Við á þessari löngu leið frá einum legstað til annars”. Á ferð um grafarústir og fallnar kirkjur í Skotlandi í Málsvörn og minningum.    

 

Læknisævin er ferðalag frá einu verkefni til annars eins og vísindamannsins frá einni niðurstöðu til annarrar. Til að koma þessu endalausa ferðalagi frá þarf bæði sköpunargleði og ástríðu. Eins og skáld. Það er erfitt að ímynda sér málsvörn Matthíasar, hlutskipti á sakamannabekk. Frjáls andi á ástríðufullu ferðalagi frá einni hugsun til annarrar. Eins og í Málsvörn og minningum. Á ferðalagi frá einu blómi til annars – eins og hunangsflugan, sem “gleymir sér í sætleika hunangsins”.

 


Mýkri Hattersley en forðum

Það er óþarfi að taka vanþóknunarbakföll vegna þessarar greinar Roy Hattersley. Hún er full af bresku skopi og margt er alveg græskulaust og einvörðungu til skemmtunar.  Á þessum tímum er mikilvægara mörgu öðru að glata ekki skopskyninu. Og sérstaklega að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega. Það sýnist mér eina leiðin til að lifa af stjórnmál samtímans.

Roy Hattersley er óvenju frískur og kom mér í gott skap.


mbl.is Hinir þrjósku Íslendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laus úr pólitísku helsi samtímans

Einu góðu hefur Ólafur Ragnar komið í verk í dag. Ég fékk í mig þá döngun að segja mig úr Sjálfstæðisflokknum og losa mig við Mogga Davíðs og lagsfólks.   

Þetta minnir á Ólaf Ólafsson sem var lengi kristniboði í Kína. Þegar hann var ungur maður, þá fór hann í messu á Gilsbakka í Hvítársíðu minnir mig hjá presti, sem ekki var þekktur fyrir að snúa fólki til þeirra trúarskoðana, sem Ólafur síðar aðhylltist. Þessi maður hafði hins vegar svo mikil áhrif á Ólaf að hann varð til þess, að Ólafur gerðist boðandi trúarinnar upp frá því. Það mætti e.t.v. kalla ávarp Ólafs Ragnars Gilsbakkaþulu.  

Hvernig Ólafi Ragnari tókst að losa mig við helsi núverandi húsbænda í Valhöll og í Hádegismóum ætti að vera nokkuð augljóst, en ég er tilbúinn að ræða það frekar ef eftirspurn er fyrir hendi.   

Gangi ykkur allt að sólu í dag, vinir og frændur og aðrir bloggvinir!


mbl.is Endurreisnaráætlun í uppnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband