Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Pulsur og hamborgarar

Það er gaman að sjá, að Tomma ætlar að ganga jafn vel með hamborgarana á Marylbone Lane og Dadda hefur gengið með pulsuvagninn á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn. Síðan verða það Tommaborgarar í Kaupmannahöfn og pulsuvagn í Soho.

Þetta er allt að koma strákar.


mbl.is Salan hjá Tomma aukist um 30-40% í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harpa gengur furðu vel

Brúttótekjur Hörpu að andvirði á sjöunda hundrað milljóna á fyrsta starfsári þykja mér ágætar. Fasteignagjöldin koma eins og frá annarri veröld. Er ekki rétt að leggja þau gjöld á skv. sömu reglu og önnur hús í skemmtanabransanum, sem njóta ekki rekstrarstyrkja? Á Harpa að greiða hærri fasteignagjöld en t.d. bíóin?

Þetta er bara einhver vitleysa, sem hér er í gangi. Ekki ætla Jón Gnarr og félagar að hafa þetta hús að féþúfu? Eða skríða allir marbendlar úr skotum sínum, þegar minnst er á að samfélagið þarfnist lista, sem lifa ekki án sameiginlegs átaks?  Sjálfbærnin verður ekki eingöngu mæld með krónum fyrir krónur eða auga fyrir auga.  


mbl.is Hrakspár vegna Hörpu að rætast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnám gjaldeyrishafta í skrefum - byrjum á lífeyrissjóðunum

Það verður æ ljósara, að höftin á verslun með verðbréf í erlendri mynt verða þjóðinni erfiðari með hverjum deginum og hafa margvíslegar slæmar afleiðingar fyrir efnahag landsins. Því skal ekki mótmælt, að höftin höfðu ýmsa kosti fyrir okkur, þegar þeim var komið á. Þau voru viðbrögð við neyðarástandi. Nú eru aukaverkanirnar hins vegar að koma í ljós, hið langvinna sjúkdómsástand, sem hægt og bítandi vinnur á heilbrigði efnahagslífsins. 

Þær hömlur, sem lagðar hafa verið á fjárfestingar Íslendinga erlendis geta ekki leitt til annars en ófarnaðar innanlands þegar fram í sækir. Þetta kann að hljóma ankannanlega í ljósi þess, að því er  stíft á loft haldið, að efnahagslífið sé í brýnni þörf fyrir erlenda fjárfestingu.  En ef grannt er skoðað kemur þó í ljós, að báðar þessar fullyrðingar eiga vel við og haldast í hendur.    

Heilbrigt efnahagslíf þ.e. ábatasamur atvinnurekstur keppir um óyrt fjármagn vegna umsvifa sinna. Fjármálafyrirtæki keppa eftir vel reknum fyrirtækjum í viðskipti vegna þess að líklegt má telja, að þau standi bæði undir viðunandi vaxtagreiðslum og endurgreiðslu lánanna. Lífeyrissjóðirnir sækjast eftir að kaupa skuldabréf slíkra fyrirtækja og eignast jafnvel hlut í þeim. Þeir líta kosti sína gagnrýnum augum og velja fjárfestingar í samræmi við það.

En hvernig eru aðstæðurnar núna í fjárfestingarumhverfi lífeyrisssjóðanna?

Á meðan almenningur leggur í lögbundinn skyldusparnað í lífeyrissjóðunum eru þeim settar skorður við fjárfestingum með því að hefta þá við fjárfestingar hjá íslenska ríkinu, íslenskum fyrirtækjum eða í húsnæði á Íslandi. Það má orða það þannig að peningar hlaðast upp sem koma þarf í lóg til að standa undir skuldbindingum lífeyrissjóðanna við eigendur sína. Í raun er offramboð á íslensku fé til langtímafjárfestinga hér á landi. Ein afleiðing þessa kann að verða sú, að stjórnendum lífeyrissjóðanna daprist sýn á gæði fjárfestinga sinna, að skerpan dofni og fjárfest verði í slökum og jafnvel áhættusömum verðbréfum.

En afleiðingarnar ganga ekki bara í eina átt, þær ganga í báðar áttir. Hætt er við að íslenskt atvinnulíf verði einnig fyrir barðinu á lausatökum fjármálafyrirtækja vegna minna aðhalds og gagnrýnislausra lánveitinga. Lífeyrissjóðirnir annars vegar og atvinnureksturinn hins vegar munu snúast um möndul gjaldeyrishaftanna í nýjum Hrunadansi. 

Það er lífsnauðsyn að þessari þróun verði snúið við. Það verður ekki gert nema hleypa fjárfestum að nýju að fjárfestingakostum erlendis. Það verður bæði gott fyrir rekstur atvinnulífsins, lífeyrisþega framtíðarinnar og þar með allan almenning.  

Það er skynsamlegt að hefja þessa vegferð hjá lífeyrissjóðunum.


Til hliðar við ómálefnalegan munnsöfnuð

Tveir menn tóku til sín gagnrýni mína um ómalefnalegan munnsöfnuð í Evrópuumræðunni og kröfðust annars af mér. Varð ég m.a. við því með pistli, sem ég skrifaði hér á bloggið fyrir 3 árum eða 2009:

"Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur. Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.

Svo var það fyrir páska í fyrra, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.

Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.

Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð. Við eigum tæplega annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið."

Krónan heldur ekki nema með höftum og efnahagsstjórnin hefur verið slök og ekki spyrnt við fallvöltu gengi gjaldmiðilsins. Til þess að kóróna vitleysuna vilja stjórnmálamennirnir ríghalda í krónuna til þess sð geta reglubundið breytt yfir mistök sín við efnahagsstjórnina með því að ráðstafa auðnum frá einum til annars með þessum einfalda krana, sem krefst einskis annars en að skrúfa hann fram og til baka.

Þetta er ástand, sem er óviðunandi fyrir okkur, og krefst úrlausna, sem ekki eru í boði við óbreytt fyrirkomulag í stjórn efnahagsmála.


Ómálefnalegan munnsöfnuður

eins og lymskulegur, ESB-dindill, svikari, gabba, narra,  gamlir kommúnistar, ofurróttæklingar, refjar, ESB-þjónkun, má finna víða í Evrópuumræðunni. Þarf ekki að leita víða né í mörgum bloggum til að finna gildishlaðinn málflutning af þessu tagi og jafnvel í einu og sama blogginu eins og hér um ræðir. Svona orð dæma sig sjálf. Þau færa okkur frá kjarna máls, sem þó kann að vera einhvers virði. Svona lítilsvirðing við almenning, sem þó er verið að höfða til, er beggja handa járn svo vægt sé orðað og engum til sóma.

Það veldur enn meiri vonbrigðum þegar þessari aðferð er beitt í leiðaraskrifum virðulegra dagblaða, sem maður hefur borið hlýjan hug til. 


Hvað er líkt með ÓRG og forseta Þýzkalands?

Þjóðverjar eru viðkvæmir fyrir forseta sínum. Þeir eru sómakærir fyrir hönd leiðtoga sinna. Á þeim má helst ekki finna blett eða hrukku. Ekkert má minna á sem miður hefur farið, þegar sagan er skoðuð. Sagan er fleinn í holdinu. Nú hefur Vúlfí tekið pokann sinn. Hann var sýslunefndarmaður e-s staðar í Þýzkalandi áður en hann varð forseti. Líkt og ÓRG. Honum varð það á að fara í leyfi á kostnað vina sinna og jafnvel þiggja aðra velgjörð. Þjóðverjar vita vel hvað það þýðir. "Beneficium accipere libertatem est vendere",sögðu frændur okkar í Róm til forna og það barst auðvitað austur yfir Rín og norður yfir Dóná.

ÓRG er sífellt að þiggja velgjörðir frá hverjum þeim, sem býður,og við látum okkur í léttu rúmi liggja. Gamlir stjórnmálamenn og úr sér gengnir eru jafnvel vegmóðir á eftir honum að gegna embætti nokkur ár til - í boði okkar. Limir þessarar þjóðar dansa eftir höfðinu. Er því nokkur furða að endurreisnarblikan við sjóndeildarhring sé heldur dauf? Kemur það á óvart að þjóðin óski þess helst að vera á framfæri annarra, hvort sem það eru innlendir lífeyrisþegar eða erlendir lánardrottnar?


mbl.is Forseti Þýskalands segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álagningin hækkar olíuverðið

Ekki skal dregið úr því að ríkissjóður er frekur til fjármuna almennings í gegnum eldsneytisnotkunina.

Mér finnst hins vegar lítið gert úr þætti olíufélaganna að þessu leyti. Ef litið er á álagninguna og breytingar á henni á sama tíma og skattbreytingarnar eru skoðaðar, þá hefur álagningin hækkað langt umfram almennt verðlag.

Þetta liggur fyrir.

Ekki sleppa þeim, sem hægt er að hafa áhrif á með stýringu viðskiptanna.


mbl.is Skattheimta hækkar bensínverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaðurinn orðinn að meinsemd

Það var átakanlegt að hlusta á þá nafna, Ólafana, á Bylgjunni í morgun. Þeir espuðu hvorn annan upp í  andúð á lífeyrissparnaðinum. Gekk Arnarson lengra með því að telja lífeyrissjóðina með öllu gagnslausa en Ísleifsson var öllu hógværari þótt hann sæi mikinn vanda verða til vegna sjóðssöfnunarinnar. 

Þegar ég var ungur maður kepptust allir við að eyða hverri krónu, sem aflað var. Enn betra var að skulda sem mest og höfðu menn að kjörorði: "grædd er skulduð milljón". Þetta var auðvitað svar við óðaverðbólgunni, sem þá réð miklu í efnahagsmálum þjóðarinnar og um viðhorf almennings til peninga. Öllum var þó ljóst að við mikla meinsemd var að eiga og skortur á innlendu lánsfé hamlandi bæði atvinnulífi og almenningi. Ólafslögin um verðtryggingu lánsfjár voru fyrsta skrefið til að snúa af þessari braut.  Viðunandi árangur náðist þó ekki fyrr en með samstilltu átaki þeirra félaga Guðmundar jaka, Ásnumdar og Einars Odds og bændasamtakanna í samvinnu við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1990. Fram að þeim tíma hafði mín kynslóð barist við misgengi verðtryggingar og launa. Niðurstaðan varð þannig himnasending að maður óskaði þess að þjóðin þyrfti aldrei aftur að glíma við óðaverðbólgu og þau vandamál, sem henni fylgdu. Ein af hliðarverkunum þessara efnahagsráðstafana var að þjóðin sneri við blaðinu og fór að spara og lífeyrissjóðunum var loks kleift að gera áætlanir um greiðslu lífeyris, sem hvarf ekki á verðbólgubálinu.

Það er eins og þetta sé allt saman gleymt og nú hamast menn gegn sparnaðinum og segja söfnun lífeyrisréttinda grundvallarmeinsemd og hana verði að stöðva. Glámskyggni stjórnenda lífeyrissjóðanna og áður óþekktar aðstæður í íslensku efnahagslífi leiddu til gengislækkunar lífeyrissparnaðarins. Hugsanlega má rekja ástæður þessarar glámskyggni til félagslegrar súrsunar stjórnenda lífeyrissjóðanna og bankamanna á markaðstorgi hégóma og gjálífis. Svo vilja margir vera láta og legg ég engan dóm á það. En hvernig má það vera að annars skynsamir menn beini nú allri athygli sinni að sparnaðinum sjálfum og geri hann að blóraböggli fyrir það, sem miður fór? Er það sem sagt sparnaðurinn, fyrirhyggjan, sem á að bera burt syndir heimsins að þessu sinni? Hvers konar bull er þetta? Er það ekki líklegra að efnahagsstjórnin, hvernig við fórum með þennan sparnað sem brást? Á að leggja af sparnaðinn og taka upp gegnumstreymissjóði af því að það skapar vanda að eiga til mögru áranna? Er ekki rétt að staldra hér við áður en vitleysan fer úr böndunum?


Samtryggingarkerfið leitt til öndvegis?

Þeir sem hæst kalla: Krossfestum hann, krossfestum hann bundust samtökum á sínum tíma að fría Ingibjörgu og Björgvin. Þeir kasta nú steinum úr glerhúsi þegar þeir tala um að samtryggingarkerfið verði leitt til öndvegis ef alþingismenn ganga í sig og viðurkenna að sakfelling eins manns sé stílbrot í réttarríkinu.

Í grein Ögmundar Jónassonar í Morgunblaðinu í gær birtist valmenni, sem viðurkennir rangindin, sem Alþingi hefur vaðhaft í krafti meirihlutavalds og bendir á þá einföldu staðreynd að réttarhöldin draga athygli okkar að persónulegum hefndum en ekki uppgjöri við sjálf okkur og stjórnmálin.

Að þessum réttarhöldum fylgir ekkert annað en sundrung og alls enginn nýr dagur. Ég get alveg tekið undir með Karli biskupi að þetta er þjóðarsmán.


mbl.is Uppreisn ef þingmenn styðja tillögu Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónlist fyrir lifandi fólk

Fjölskyldan var á jólatónleikum Módettukórsins í Hallgrímskirkju í gær. Ekki þeir fyrstu þetta árið. Samt ný upplifun. Ekkert léttmeti. Þekkti ekki nema brot af tónlistinni. Margt nýtt eða nýjar útsetningar á gömlu. Gamalt vín á nýjum belgjum. Tónskáldin notuðu kórinn og kórinn notaði kirkjuna. Allt reyndi þetta á mann til ánægju. Endurtekningin er ekki til, sagði Kirkegård. Ekki einu sinni í tónlist. Jafnvel þó sungið sé eftir sömu nótum aftur og aftur.

 Þóra Einarsdóttir söng einsöng. Söng englasöng. Pabbi hennar sagði mér einu sinni að hún hefði farið að læra að syngja fyrir einhverjar tiktúrur. Það væri ekkert lag í foreldrum hennar. Það er ótrúlegt. Hún er þremenningur við frændfólk mitt á Kiðafelli. Margir góðir straumar liggja um Kiðafell.

Kantorinn í Skólavörðuholtinu hefur lyft Grettistaki í íslenskri sönglist á sinn hógværa og yfirlætislausa hátt. Hann er hvalreki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband