Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
22.5.2013 | 23:09
Skylt er skeggið hökunni
Ólafur Jóhannesson hafði forgöngu um lagasetningu, sem gerði mögulegt að verðtryggja fé, sem veitt var að láni. Þetta var að því er mig minnir 1979. Lánsféð hélt raungildi sínu auk þess sem vextir voru greiddir fyrir lánið. Áður höfðu lánastofnanir reynt að verja eigur sínar með tvískiptum vöxtum þar sem hluti vaxtanna voru svokallaðir kjörvextir þeirra. Lögin, sem gjarnan eru kennd við Ólaf, voru framfaraspor.
Nú háttar þannig, að verðtryggingin hentar ekki vel í samfélagi, þar sem verðbólgan æðir áfram og allt virðist á hverfanda hveli nema lánsféð, sem varið er af verðtryggðum lánasamningum. Þá reyna menn að finna lagalegar glufur á brjóstvörn verðtryggingarinnar og draga í efa, að lagasetning Ólafs hafi á sínum tíma átt sér stoð í stjórnarskránni.
Nema hvað. Til varnar verður embættismaður sunnan úr Evrópu, sem fer fyrir rannsókn EFTA á meðferð Íslendinga á verðtryggingunni, a.m.k. þeim hluta, sem tengir íslenska lánasamninga við gengi erlendra gjaldmiðla. Hver annar en barnabarn Ólafs Jóhannessonar.
Tilfinningar og ættrækni hafa alltaf verið merkilegur fylgifiskur stjórnmálaþróunar og sjálfsagður ef út í það er farið.
Þetta er fyrst og fremst til gamans sagt og fyrir forvitni sakir og alls ekki til að beita aðferðinni "hjólað í manninn".
6.5.2013 | 15:12
"Okkur finnst" niðurstaða siðanefndar blaðamanna
er illa unnin og gildishlaðin. Meint ósannindi í Kastljósi eru afgreidd sem kannski "langt til seilst" en umkvartanir Sjúkrahússins á Akranesi eru að öðru leiti óræddar og engin afstaða tekin til hvort þær hafi verið réttmætar. Það er eins og það sé í lagi fyrir blaðamenn að vitna í ótilgreinda heimildarmenn án þess að ganga úr skugga um að fullyrðingar eða jafnvel getsakir þeirra eigi við rök að styðjast.
Þetta er subbulegt af hálfu siðanefndarinnar en etv. ekki við öðru að búast, þegar blaðamenn dæma einir "í sjálfs sín sök".
Kastljós braut ekki siðareglur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.4.2013 | 13:06
Aðalsteinn Ásberg fer á kostum
... í útvarpsþættinum Norðurslóð á laugardagsmorgnum. Þar er hann að flytja okkur norræna vísnatónlist. Tónlistin við þennan kveðskap er stundum lítilfjörleg en textarnir hafa líft henni þannig að hún lifir.
Því er svo mikilvægt að Aðalsteinn Ásberg flytur okkur textana á íslensku. Hefur hann á því snilldar tök Og allt gerir hann fallega, sem það á við. Ekki er síðra, að lesturinn er fullur af lífi og maður hefur á tilfinningunni, að hann bresti í söng hvað á hverju.
Það er gott til þess að hugsa að Aðalsteinn Ásberg hefur náð fluginu eftir að sorgin kvaddi dyra í húsi hans.
20.3.2013 | 22:47
Hvimleið gömul saga og ný
Gamlar aðferðir við að deila og drottna. Sultarólarnar hertar á víxl, stjórnendur heilbrigðisstofnana spenntir fyrir sleðann eins og hundar og síðan slakað og hert. Og ráðherrann lætur smella í svipunni.
Það væri margt hægt að laga með einföldum aðgerðum svo sem þeirri að fjármagnið fylgdi verkefnunum t.d. þessari konu, sem frá er sagt í fréttinni. Það þarf að stýra fénu þannig að það falli með þeim annars vegar, sem eiga að njóta þjónustunnar og hins vegar þeim, sem hana eiga að veita. Verkfærið er vel þekkt og hefur verið þróað með miklum áhuga allra en opinberir aðilar missa kjarkinn, þegar til á að taka.
Enda þýðir virkjun þessa verkfæris, að fé verður flutt frá einum til annars t.d. frá Landspítala til landsbyggðarinnar.
Sjúkrahúsið átti ekki fyrir lyfjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2013 | 21:46
Skera þarf til verðbólgumeinsins
Það er alveg óskiljanlegt hvernig skautað er framhjá verðbólgunni í umræðum um verðtrygginguna nú á dögum. Oft er haft á orði að erfitt sé að vita hvort kom á undan eggið eða hænan. Í þessu tilfelli er svarið einfalt: Verðbólgan kom á undan verðtryggingunni. Verðtryggingin var verkfæri til að hindra eignabruna og eignatilfærslu í verðbólgunni.
Auðvitað skapaði það vanda þegar laun voru aftengd en eignir/skuldir varðar áfram með verðbótum. Við höfum þó lifað þá tíma, þegar verðbólgan var ekki áhyggjuefni og lífið með gluggaumslögum var áhyggjulaust frá mánuði til mánaðar á árunum frá 1990 - 1995. Þá var verðtryggingin í fullu fjöri en verðbólgan lítil og jafnvel lægri en í mörgum nágrannalöndum.
Ég þekki þetta allt þar sem ég er af Sigtúnskynslóðinni og er enn að borga af síðasta húsnæðisláninu mínu. En fólk er furðu fljótt að gleyma. Við stefnum nú hraðbyri aftur á 8. áratug fyrri aldar.
Líklega þarf að fara að rifja upp: "Úr fylgsnum fyrri aldar." Líta til tímanna þegar skynsamir menn eins og Ásmundur og Einar Oddur, sem höfðu báða fætur á jörðinni, náðu saman í kompaníi við Gvend jaka og létu Steingrím Hermannsson njóta sviðsljóssins.
Er ástæða til að líta til bjartrar framtíðar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.12.2012 | 16:02
Jólagrautnum stolið
hér af dyrapallinum í nótt. Aldrei komið fyrir áður neitt þessu líkt. Með "manni og mús" ef svo má segja. Varla verið krummi.
En frúin dó ekki ráðalaus, átti nóg af soðnum grjónum og fékk rjóma hjá góðum nágranna.
Jólaölinu stolið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2012 | 10:03
Stjórnlagaráðsmenn fara um með gífuryrðum
Þorvaldur Gylfason segir, að "já" við tillögum stjórnlagaráðs geri þær óbreyttar að stjórnarskrá Íslands. Eiríkur Bergmann Einarsson segir, að "nei" við sömu spurningu geri frumvarp til nýrrar stjórnaskrár að engu og skjóti öllum stjórnaskrárbreytingum á frest um ófyrirsjáanlega framtíð. Hafi þessir menn báðir rétt fyrir sér, eru þær efnislegu spurningar, sem lagðar eru fyrir þjóðina í kosningunum næsta laugardag, markleysan ein.
Steininn tók þó úr í útvarpsprédikun síðast liðinn sunnudag þegar Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur í Neskirkju, sagði lýðveldisstjórnarskrána undirstöðu misréttis og ófriðar í samfélaginu og að þeir, sem legðust gegn tillögum hans og félaga um breytingar á henni, vera bófaflokka, sem reyndu að verja sérhagsmuni sína með því að standa gegn stjórnarskrárbreytingunum.
Við höfum sem sagt náð þeim árangri, sem við blasir, þrátt fyrir stjórnarskrána.
Með orð þessara manna í huga tel ég skynsamlegt að meta handaverk þeirra að nýju áður en greidd verða atkvæði um þau.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.9.2012 | 09:55
Kvennaathvarfið - þjóðþrifastofnun því miður
Heimilisofbeldi er böl, sem margir búa því miður við, bæði karlar og konur. Miklu algengara er, að konur verði fyrir ofbeldi maka eða sambýlismanns og karlar neyta líkamsburða sinna til að halda undirtökum í fjölskyldunni eða fá útrás fyrir kvalalosta. Kvennaathvarfið var því eins og himnasending fyrir konur, sem áttu engan annan kost en að flýja ógnina og leita skjóls utan heimila sinna.
Æ fleiri konur leita til athvarfsins með og án barna og húsnæðisþörfin er brýn. Kvennaathvarfið er sjálfstætt og getur ekki reitt sig á framlög hins opinbera og er háð hinum almenna borgara um stuðning. Við þurfum að styðja það núna í húsnæðisvandræðunum - öll með tölu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.9.2012 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2012 | 15:17
Farið um Brattabrekku en ekki Bröttubrekku
Þegar komið var af fjallinu á póstleiðinni vestur í Dali og niður í Suðurárdal var farinn svokallaður Bratti. Leiðin liggur austan við núverandi vegarstæði vestur. Brattabrekka dregur nafn sitt af þessum Bratta. Því er rétt að segja að farið sé um Brattabrekku en ekki Bröttubrekku. Svipað dæmi er Kaldakinn. Maður fer í Kaldakinn en ekki Köldukinn.
Hljóðvörpin vinna á þessum orðum með tímanum og nöfnin glata upprunalegri merkingu sinni.
Óveður á Holtavörðuheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.9.2012 | 10:48
Stjórnendur í klemmu fjárveitinga og fagráðuneytis
Það er gömul saga og ný að erfiðlega gangi að ná endum saman á heilbrigðisstofnunum landsins. Landsmenn og fulltrúar þeirra í stjórnmálaum eru áhugasöm um að veita eins góða þjónustu og völ er á fyrir sem minnstan pening. Eðli málsins samkvæmt verður eilíft reiptog milli þessara sjónarmiða og erfitt að fullnægja allra kröfum.
Það sannast ítrekað á Heilbrigðisstofnun Austurlands, að ekki gott að gera svo öllum líki í þessum efnum. Nú hefur Ríkisendurskoðun upplýst að stofnunin hafi brugðist tilhlýðilega við þriggja ára tilmælum hennar um fjárreiður og aðra stjórnsýslu en samt sem áður þurft að reka stofnunina að hluta til með rándýrum yfirdráttarlánum. Þetta gerist þrátt fyrir samdrátt í þjónustu með erfiðum niðurskurði og fækkun starfsmanna. Hafa yfirmenn stofnunarinnar fengið bágt fyrir frá öllum, íbúum, starfsmönnum og stjórnmálamönnum. Þeir hafa sem sagt verið skammaðir við skyldustörfin.
Stjórnendur HSA eiga ekki nema einn kost þ.e. að skera enn frekar niður þrátt fyrir ramakveinin. Hinn kosturinn er sá, að stjórnmálamennirnir láti af tvískinnungnum og bæti fjárhag stofnunarinnar eða aðstoði stjórnendur og styðji við frekari niðurskurð og samdrátt í þjónustu.
Fjármögnuðu rekstur með yfirdrætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)