9.4.2009 | 13:13
Kilja Egils varpar ljósi á tvo stráka ...
...eða öllu heldur unga menn, sem hittast á sjúkrabeði annars. Sá er yfirkominn af kvenlegri aðhlynningu og nánast fangi umhyggju hennar. Þetta er í Miðstrætinu á árunum eftir fyrri heimstyrjöld og tengdamamma mín sáluga einhvers staðar í næsta nágrenni á ungbarnarýjunni væntanlega.
Við hittum þá næst í bjartri sumarnóttinni á leið inn fyrir Rauðará og austur í grjótholtin ofan við Tungu og þar innaf. Þeir eru þyrstir og svangir og fyrirhyggjulausir þess utan. Í holtinu ofan við veginn er greiðasala í heimahúsi og þangað hverfa þeir. Fjallmyndarleg kona, sem yngist með hverri setningunni, klifar einlægt á því, að beinanum sé lokið þann daginn. Um leið ber hún þeim mjólk og bætir á, þegar sér í borð. Þeir launa greiðann með flissi og fíflalátum og að lokum hlátri, þannig að mjólkin puðrast um og yfir þá. Þetta kannast allir við, sem enn hafa heilsu til að rifja upp æskuárin.
Síðan liggur leiðin inn fyrir bæ. Ferðin sækist illa þar sem einn er vanbúinn til fótanna og er annar fóturinn lakari, hvað sem Gunnlaugi ormstungu líður. Magnús á Blikastöðum tekur þá upp í en á ekki bensín lengra en að heimreiðinni sinni og þeir leggja á hálsinn ofan Lágafells og fara um móa og mýrar í Skammadal til Mosfellsdals. Sá sem heldur á penna er þar kunnugur. Hann kemur þeim í húsaskjól þar sem þeir losna við vosbúðina. Það má hverjum manni ljóst vera, að hinn bæklaði förunautur er höfundi textans hjartfólginn og frásögnin ólík ýmsum öðrum, þar sem finna má lýsingar þessa manns af samtíðarfólki sínu. Þar sleppur jafnvel Erlendur í Unuhúsi ekki undan.
Það rifjast upp, að nokkrum árum áður er höfundurinn, þá varla kominn af barnsaldri, í hrossaragi á Hvalfjarðarströnd og verður þar ferðstola fyrir gestrisni heimamanna. Hann lýsir því svo, að það taki lungann úr deginum að ná upp hita undir frambærilegu bakkelsi. Þar rekst hann á rifrildi úr blaði með ljóði eftir Jóhann Jónsson, Hafið dreymir, og verður svo hugfanginn af kvæðinu, að móeldurinn og bakkelsið endist honum til að læra það fyrir lífið. Þessu segir hann frá í Grikklandsárinu eins og gönguförinni til Laxness. Skáldið úr Ólafsvík, þessu guðsvolaða plássi, er öðruvísi en annað fólk, aðrir menn, önnur skáld. Handgegnar mannlýsingar með kerskni, ærslum og háði, jafnvel þegar vinir eiga í hlut, eru hér víðsfjarri. Nú víkja þeir fóstbræður, Gerpla og allur bálkurinn aftur til Steins Elliða fyrir broddlausri nærgætni og lotningu. Í raun einhvers konar öfugmæli í gjörvöllu skáldverki Laxness. Ásta Sóllilja hefur sérstöðu ekki ólíka.
Rúmum áratug síðar förum við um Skáldatíma til Leipzig,þar sem þeir eyða tíma saman Jóhann Jónsson, skáld frá Ólafsvík og Halldór Guðjónsson, rithöfundur, frá Laxnesi. Þeir fara um slóðir Bachs, Jóhann og Halldór, annar að búa sig undir dauðann, sem aldrei vill koma og hinn að kveðja ástvin. Baksviðs er leikkonan sem býr við Jóhann í dauðastríði hans, frú Göhlsdorf. Sögur fara af henni síðar á Íslandi í torskilinni einsemd í Tjarnargötunni við nauman kost.
Hennar sögu höfum við vanrækt.
Skáldatími er merkilegur fyrir þessar fátæklegu línur um manninn, sem Halldór Laxness elskaði heitar en aðra, sem hann gerir að umtalsefni, ef frá eru skildar amma hans og móðir. Að öðru leyti er Skáldatími teprulegur flótti frá sænskum skálaræðum, katólsku og hinu gerska ævintýri kommúnismans.
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?
Það er ekki með öllu ónýtt að eyða smá tíma við sjónvarpið, þegar Kiljan er annars vegar.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:33 | Facebook
Athugasemdir
Enn á ný segi ég takk.
Þessi færsla er góð og skemmtileg lesning og tengist merkilega því sem ég hef verið að hugsa um. Annars vegar kerskni, háð og kaldhæðn og hins vegar einlægni, traust og viðkvæmni.
Merkileg þau áhrif sem Jóhann Jónsson hefur haft á fólk.
Hólmfríður Pétursdóttir, 9.4.2009 kl. 16:40
Þakka pistilinn, Sigurbjörn!
Hlédís, 10.4.2009 kl. 11:08
hittirðu kött eða hvað?
Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:12
Hva, á ekki að blogga meira hér?
Sigurður Þór Guðjónsson, 16.4.2009 kl. 00:28
Það var köttur á ytri gluggasyllunni í eldhúsinu í morgun og mjálmaði frekjulega upp í opið geðið á mér. Ég var í mestu makindum að sötra teið og næra mig á nýbökuðu brauði frúarinnar. Hún á reyndar ekki hvítöl í það lengur, en samt hefur það ekki með öllu misst sjarmann og verður við það að una fram á næstu jólaföstu.
En kötturinn er tækifærissinnaður og vildi s.s. komast inn um gluggann hjá mér í þetta sinn. Að öðru leyti er hann fáskiptinn enda Asparger eins og flestir ef ekki allir kettir. Hann heitir Guðjón og hefur áður verið til hans vitnað hér á þessu bloggi.
Þessa dagana eru fleiri, sem vilja komast inn um gluggann hjá manni, en eru þess utan furðu sinnulausir um hagi manns og tefla þeim jafnvel í tvísýnu. Það er ástæðan fyrir því, að lítið er bloggað þessa dagana. Heiftin í athugasemdunum við stjórnmálafréttirnar er ekki freistandi og þeir Guðjón Friðriksson og Egill tæmdu Hólavallakirkjugarð í gærkvöldi.
Það var eftirtektarvert hve allur gróður var vel laufgaður við Suðurgötuna. Þeir segja mér Vesturbæingar, sem ég kannast við, að þar vori fyrr en hjá okkur í Breiðholtinu. Þó heyrði ég í morgun, þar sem ég lá í fleti og fór yfir daginn, í skógarþresti, svartþresti, lóu, hrafni og svarbaki (eins og Breiðfirðingar nefna hann). Þeir fyrr nefndu hafa vísast verið að huga að búi og nýjum kynslóðum, en þeir síðarnefndu að kortleggja veiðilendur sumarsins. Krumminn er fyrir löngu sestur í laupinn og þetta hafa verið geldhrafnar, sem munu gera okkur lífið leitt í sumar.
Þetta er eins og í pólitíkinni.
Sigurbjörn Sveinsson, 16.4.2009 kl. 08:29
Það sagði mér eitt sinn maður, sem ég hef ekki nokkra ástæðu til að rengja hvað það varðar, að það sé alltaf logn og gott veður í Vesturbænum. Fólk sé bara mismunandi mikið að flýta sér. Hann sagði reyndar líka að allt fyrir austan læk væru úthverfi og ruslahaugar, ég er ekki alveg sammála því...og þó...
Kettir eiga það til að stela tungum, a.m.k. segja engilsaxar það. Hélt þú værir hættur að blogga eða þá veðurtepptur upp í sumó. Þú hefðir líklega ekki hatað það síðra...Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 09:14
Vinkona mín úr Norðurmýrinni keypti íbúð vestur við sjó á tíma er verðgildi bílskúrs var oft um 1 milljón króna. Hún setti fram þá kenningu að hátt verð íbúða þarna á Gröndunum stafaði af að þær teldust 1 milljón verðmætari per vindstig en í öðrum hverfum. Ekki veit ég - held mig stöðugt á hlíða- og mýra-svæðum.
Hlédís, 16.4.2009 kl. 16:13
Flott blogg í þessari athugasemd hjá þér! Apríl so far er mjög hlýr og kólnar ekki á næstunni. Vorið er líklega komið. Mali biður að heilsa Guðjóni.
Sigurður Þór Guðjónsson, 16.4.2009 kl. 20:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.