Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Helgarmoli: Dagbókin hans afa

Ég er að fletta gamalli sjóferðadagbók frá afa mínum, Ólafi Veturliða Bjarnasyni, skipstjóra á Bíldudal. Hans blómtími var á skútum Péturs Thorsteinssonar, sinni eigin eða annarra. Hann fórst með mb. Erninum á fullorðinsárum. Hann fór einn túr á síld fyrir skipstjórann. Það var hans bani. Þetta var 1936.

Þá nótt dreymdi Lóu á Stakkabergi í Klofningi (Ólöf Elínmundardóttir hét hún), að hópur manna gengi á land í Hnúksnesinu. Voru þeir allir i sjóklæðum og draup af þeim. Daginn eftir heyrði hún í útvarpinu að Örninn hefði farist. Lóu kynntist ég á fullorðinsárum og var hún mér alveg vandalaus. Þá var liðinn hálfur fimmti áratugur frá skaðanum. Lóa var grandvör kona en frásagnaglöð. Lóa var náttúrubarn eins og afi. Hún var vaxin upp af landinu en hann sjónum. Við fráfall móður sinnar færði hún föður sínum og fatlaðri systur líf sitt á silfurfati. Og heimtaði það aldrei til baka. Var trú allt til dauða.

Dagbók afa hefst miðvikudaginn 10. apríl 1904 með þessum orðum: "Helstu viðburðir um borð í Gyðu frá Bíldudal, veðrátta og hvar fiskað var sumarið 1904.  10. apríl: Var fólkið lögskráð til skiprúms. 11. apríl: Kl. 1 var ljett upp frá Bíldudal og siglt út Arnarfjörð með hægum austan kalda. Komum út úr firðinum kl 11 sama dag, var þá norðan stormur með frosti, var þá því rifað stórseglið og lagt til drifs."

Þannig líður tíminn um sumarið að siglt er eftir gæftum og fiskiríi fyrir Vestfjörðum. Þegar frá líður er skipstjórinn ungi spar á ánægjuna, fiskiríið tregt, aflinn rýr og fiskurinn heldur smár. Taldar gellur að kvöldi eru þó oft á öðru þúsundinu og það, sem lagt er upp, jafnan viðunandi. Lýst er samskiptum milli skipa, gestakomum og fréttaöflun um veiði á öðrum miðum og húslestrum á sunnudögum. Það er sem sagt haldið heilagt um borð. 

Vestfirðingurinn Pétur Jónsson,  sem fæddur var í byrjun síðustu aldar, flutti til Manitoba og gerði út á Winnipegvatni. Með honum réru tveir Indíánar. Þegar þeir lentu í villum á vatninu svo sem í þoku,  lét hann þá ævinlega ráða og brást ekki að þeir náðu landi, þar sem til var ætlast. Hann áttaði sig aldrei á því, hvernig þeim tókst þetta. Sæmundur frændi minn Pétursson, bróðursonur afa, sagði mér þegar ég var strákur að afi hefði iðulega siglt inn Arnarfjörð í blindbyl og enginn í áhöfn séð fram úr stafni fyrr en lagt var að á Bíldudal. Hann fullyrti að afi hefði siglt eftir sjólaginu. Þetta kallar maður að rækta náttúruna í sér. Hún er þarna ekki síður en í fuglunum.  

Þetta kunna að vera ýkjur. Skipshöfnin og fjölskyldur hennar áttu allt sitt undir láni skipstjórans. Þetta fólk varð að trúa því að úrræði hans yrðu til farsældar. Eins og með læknana. Tiltrúin var stundum meiri en innistæða var fyrir. En þetta hefur breyst sem betur fer.  

Jónas vinur minn Guðmundsson, verkstjóri hjá RARIK í Búðardal, slæddi mig stundum upp vestur í Dölum í illviðrum og erfiðri vetrarfærð. Jónas notaði gleraugu til að sjá frá sér. Þegar ekki sást lengur út úr augum slökkti Jónas á þurrkum og miðstöð og tók ofan gleraugun. Þannig skilaði hann okkur jafnan heim. Ég hef enn þann dag í dag ekki grænan grun um hvernig hann fór að þessu. Þetta er auðvitað sérgáfa. 

Afi flutti suður 1926 vegna veikinda ömmu. Þar mældi hann göturnar í kreppunni og snapaði daglaunavinnu á meðan fjölskyldan át upp innistæðuna. Það hefur verið nöturlegt hlutskipti ekki síður en nú. Ég hef oft reynt að spegla mig í lífi þessa fólks. Það hefur reynst erfitt. Til þess eru spegilbrotin of smá og of fá. Sá, sem gat skotið stoðum undir arfleifð mína, gróf fortíð sína í ævilangri heimþrá.     

En að öðru en þó skyldu. Á dögunum fjallaði ég á vefnum aðeins um smábátaútgerð.  Ég lauk innlegginu á þessum nótum:

"Ég hef reyndar ekki mikið vit á þessu, þó ég sé af sjómönnum kominn. En þeir þekkja þetta frændur mínir á Bíldudal. Pabbi þeirra, Garðar Jörundsson,  réri til fiskjar á vit náttúrunnar. Hans rækjumið voru hross í haga og best reyndust gamlir hestar, sem treysta mátti að væru á sama stað í túni áratug eftir áratug.

Það hlýtur að hafa verið gott hlutskipti að róa við dagmál á vit gamalla hrossa, sem aldrei brugðust, hvorki til sjós né lands. Þau standa ef til vill enn í túni, afkomendum Garðars til hæginda, þegar rækjan lætur á sér kræla á nýjan leik í Arnarfirði."

Ég átti ekki von á að athugasemd kæmi við þessi skrif. En það var öðru nær. Jörundur sonur Garðars gerði athugasemd: "Gamlir hestar sem notaðir voru sem fiskimið voru auðvitað staðfesting á því að hér hafði lífið verið í föstum skorðum í þúsund ár.  En nú er öldin önnur, Auðkúluhreppur kominn í eyði fyrir utan einn einbúa á Ósi í Mosdal en þar er líka Laugaból sem ól staðfastasta hest sem sögur fara af í Arnarfirði.  Á Laugabóli er nú hestabúgarður sægreifa úr Reykjavík og rækjumiðin því á reiki.  Menn verða því að treysta á fjöllin og ef til vill hátækni til að finna sér örugg fiskimið í framtíðinni."

Þau voru fundvís á það, sem skipti máli í lífinu, systkynin, ekki síður en pabbinn. Lilja heitin Garðarsdóttir, systir Jörundar og síðar prestsfrú í Ássöfnuði í Reykjavík, var lífgjafi minn. Hún fiskaði mig úr sjónum við bryggjuna á Bíldudal forðum. Sumir verða þeirrar gæfu aðnjótandi að bjarga annarra lífi. Það er mikil blessun.


Hatur

Á dögunum kom til mín ung íslensk húsmóðir. Hún var með barnið sitt, gullfallega litla telpu, sem ber jarðbrúnan náttúrulegan lit foreldra sinna. Húðin er mjúk og sterk og ber þennan silkimjúka, krullaða nánast ósýnilega hýjung, sem okkur Norðurevrópubúum er framandi.  Pabbinn er nefnilega þeldökkur. Nema hvað þessi unga kona, sem ég er búin að þekkja síðan hún var krakki, segir mér frá þeirri nöturlegu staðreynd að það sé venja fremur en undantekning að veist sé að henni , þegar hún er á almannafæri og hún ötuð auri og svívirðingum ausið yfir börnin hennar. Jafnvel uppdressaðar íslenskar konur, sem vafalítið vilja kalla sig hefðarfrúr, gera sér erindi upp að henni og kalla hana ónefnum, sem ekki er ástæða til að hafa eftir. Eiginmaður hennar er vel menntaður og talar fjögur eða fimm tungumál reiprennandi. Samt gat samfélagið ekki nýtt gáfur hans og menntun árum saman og því m.a. borið við, að ekki væri við hæfi að svartur maður stæði fyrir ímynd Íslands út á við.

Þetta er Ísland í dag. Ísland vanþekkingar og fordóma.

Þetta er sorglegt. Ég er læknir um 2000 íbúa þessarar borgar. Þeir eru Íslendingar, Pólverjar, Norðmenn, Danir, Ítalir, Rússar, Japanir, trúaðir, vantrúaðir, fjáðir og fátækir, kaþólikkar, kommar, mótmælendur, múslimar, hommar, lesbíur, anarkistar, vottar, Gyðingar og gagnkynhneigðir og svo mætti lengi telja. Eftir því sem ég kynnist þessu fólki betur, því daufari verður tilfinningin fyrir því, sem greinir okkur í sundur. Þegar ég hef lokað dyrunum að stofunni minni á eftir okkur þá hverfur þessi tilfinning alveg. Það hefur ekkert með mig að gera heldur þá staðreynd, að það eru engar náttúrulegar forsendur til að greina fólk að á þennan hátt. Hér ræður vanþekking og hræðslan við hið óþekkta ferð. 

Ég er auðvitað barn míns tíma og læt stundum orð falla í kerskni, sem ætlað er að nýta sér þessa fordóma. Mér verður samt ekki kápan úr því klæðinu, því börnin mín uppkomin minna mig strax á, hvað er við hæfi og hvað ekki. Með öðrum orðum: Setja ofan í við mig. Það sýnir, að samfélaginu fer fram þrátt fyrir allt.

Afi minn í móðurætt var heittrúaður maður og blárra íhald en fundið verður á litakorti stjórnmálanna. Hann átti mörg börn m.a. tvo tengdasyni, sem voru kommúnistar. Honum þótti ekki síður vænt um þessi börn sín en hin, þótt hann skildi aldrei pólitíska afstöðu þeirra. Mamma kaus Sjálfstæðisflokkinn en pabbi var kommi. Að hans mati voru einu kommarnir á Íslandi hann og Jón Múli, hinir voru allir kratar.  Mamma og pabbi elskuðu hvort annað alla ævi þar til yfir lauk.

Þetta er hægt!

Mér datt þetta í hug, þegar ég las blogg Baldurs Kristjánssonar.


Ekki af brauði - en bruðl?

 Úr Mbl.grein 2006:

Við bræðurnir erum að gera upp bú foreldra okkar. Víóluleikarinn löngu látinn og móðirin flutt í húsnæði fyrir aldraða. Verkið er hvorki flókið né fyrirhafnarsamt; óbrotið alþýðufólk á Íslandi, sem haft hefur viðurværi sitt af listum, safnar ekki auði, sem mölur og ryð fá grandað. En eitt og annað leynist þó innan um persónulega hversdagshluti. Stafli af nótum fyrir strengjakvartetta, einleiksverk fyrir lágfiðlu, jassverk fyrir saxófón og stórsveit. Þarna eru til að mynda eftirritanir með eigin hendi pabba. Og jafnvel er hér hluti af sögu stéttarbaráttu hljómlistarmanna á Íslandi. Tónlistarblaðið frá 1956 liggur þarna innan um nóturnar.  

 Í þessu blaði er grein, sem ber heitið „Aðbúnaður sinfóníuhljómsveitarinnar, ábending til ábyrgra aðila“. Og þar er fátt, sem kemur á óvart hálfri öld síðar. „Góðtemplarahúsið í Reykjavík er notað sem æfingasalur fyrir hljómsveitina, þrátt fyrir það að þau salarkynni hafa ekkert af því, sem nauðsynlegt er fyrir hljómsveitina; fyrst og fremst enga „acostic“ (eða hljóm); engin upptökuskilyrði; enga hljóðfærageymslu, sem hægt er að nefna því nafni og enga nótnageymslu, svo nokkur dæmi séu tekin.      

Hljómurinn í aðalsal Þjóðleikhússins er algjörlega óhæfur til sinfóníutónleika, eins og þeir hafa eflaust tekið eftir, sem hafa hlýtt á tónleika í hljómleikasölum erlendis, enda er Þjóðleikhúsið ekki byggt með það fyrir augum, að halda þar sinfóníutónleika.“    

Í niðurlagi greinar sinnar undir fyrirsögninni „Það sem koma verður“ segir höfundurinn frá portúgölskum ferðamanni, sem fær á Íslandi að hlýða á La Bohéme eftir Puccini flutta af eintómum Íslendingum. Ferðamaðurinn getur ekki orða  bundist þegar hann kemur heim til Portúgal og segir frá þessari litlu, stoltu menningarþjóð norður við heimskautsbaug, sem er svo rík af menningarauðæfum, að hún á sína eigin óperu og sinfóníuhljómsveit. Og Íslendingar komast við af hinum erlenda palladómi eins og svo oft áður. En þá segir: „En hver er svo sannleikurinn í því, - sannleikurinn, sem hinn portúgalska ferðalang hefur ekki rennt hinn minnsta grun í? Engin þjóð í heiminum, sem vill telja sig til menningarþjóða, býr jafn illa að sinfóníuhljómsveit sinni og íslensk menntayfirrvöld sjá sóma sinn í að gera, - aðbúnaður og fjárframlög eru svo léleg, að skömm er að. Það verður að reisa hér tónlistarhöll, þar sem hljómsveitin getur haft sínar æfingar, útvarpshljómleika og almenna tónleika alveg eins og ríkið hefur byggt Þjóðleikhúsið fyrir leiklistina, Listasafn Íslands fyrir málaralist og höggmyndalistina og bókasöfn, þar sem íslenskum almenningi gefst kostur á að kynnast íslenskri ritlist.“

Velviljaður stjórnmálamaður, vinur litla mannsins, lagði til hér fyrr á árum, að sinfóníuhljómsveitin yrði lögð niður og listafólkið sent út um víðan völl að kenna tónlist. Þótt segja mætti að slík ráðstöfun kynni að leiða til fjörgvunar tónlistarskólanna í bráð, þótti ýmsum, að þetta væri jafn gáfulegt og að efla grunnskólana með því að leggja niður háskólann. Sem betur fer hefur skilningur að þessu leyti aukist. Þó virðist áhuginn enn vera í tæpu meðallagi á því að tónlistarhús rísi og við í svipuðu fari og fyrir hálfri öld eins og lýst er í ágætri grein Gunnars Egilssonar, klarínettuleikara, sem til er vitnað hér að ofan. Tónlistariðkunin er gerð að áhugamáli þröngs hóps og litið er fram hjá öllum þeim skara sem á tónlistina leggur stund um okkar daga.

Og einnig er litið fram hjá þessum óbrotnu alþýðumönnum, sem ruddu brautina og voru jafnvel Vestfirðingar eins og Einar Oddur, aldir upp í bókabúðinni á Ísafirði eða á skútuþilfari fyrir Vestfjörðum. Margir þessara alþýðumanna öfluðu sér menntunar víða um heim til að miðla landsmönnum list sinni við kröpp kjör og af nánast óskiljanlegum brennandi áhuga. Þeir lögðu grunninn að því, sem við búum við í dag.

 

Þær eru furðu lífseigar minningarnar um Olav Kielland sveiflandi tónsprotanum í Góðtemplarahúsinu, dragandi fram það besta í misjafnlega vel undirbúnum hljóðfæraleikurum og erilsöm afgreiðsla skömmtunarseðla fyrir ýmissri hversdagsvöru á loftinu, ótímabær karlakórssöngur undir súð í litlu íbúðinni í Sigtúni, kvartettæfingar á Fjólugötunni, lúðrablástur í Hljómskálanum og sveifla stórsveitar í Breiðfirðingabúð. Ný lágfiðla, sérsmíðuð fyrir pabba í Englandi, gjöf Ragnars í Smára. Höfðingslund, sem aldrei er frekar höfð á orði og vafalítið Ragnari gleymd áður en leyst er úr næsta vanda listarinnar..............  

 

.............er vafalítð glöggur hagfræðingur og ber gott skyn á það sem vel má fara við hagstjórnina. Hann vill fresta tónlistarhúsi. En honum er ekki ætlað að forgangsraða samfélagslegum verkefnum okkar. Það er stjórnmálamönnum ætlað, sem eðli málsins samkvæmt þurfa að geta litið bæði til brauðsins og draumanna. Og maðurinn lifir ekki af brauði einu saman. Hann lifir alls ekki af brauði. Hann lifir af ævintýrunum.  

Það var merkilegur dagur í sögu hugmyndanna, þegar Sigurður Nordal komst að þessari niðurstöðu.

Spilling í VG og BSRB?

Manninum var bent á fyrir 2000 árum að mannjöfnuður væri vandasamt fyrirbæri; við gætum verið glámskyggn á bjálkann og flísina, hvort væri flís eða bjálki í okkar auga og hvort væri í auga bróður okkar. Við bætist svo, að bjálki og flís er ekki það sama í augum allra. Sú þjóðfélagsumræða, sem nú á sér stað  ber þessa merki. Eins og að drekka vatn taka umræðusnillingar hversdagsins þá "móralskt" af lífi, sem taldir eru hafa heilu barrskógana í augunum. Einkum fyrir spillingu. Þingmenn hafa ekki látið þessa umræðu fram hjá sér fara og jafnvel tekið þátt í henni. Ég ætla að láta reyna á, hvers konar viðarbútur er í mínu auga.

Ég hef lengi velt fyrir mér stöðu Ögmundar Jónassonar, alþingismanns. Jafnframt því að teljast til löggjafa þjóðarinnar er hann verkalýðsleiðtogi og fer fyrir einum stærstu hagsmunasamtökum launþega, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Ég verð að viðurkenna að þetta hefur lengi vafist fyrir mér. Sennilega fleirum. Það getur ekki verið Ögmundi einfalt verk að skilja á milli hagsmuna þjóðarinnar, sem hann gætir á þingi og hagsmuna stéttarfélagsins, sem hann gætir utan veggja þingsins. Það skildi maður ætla.

Þegar ég tók fyrir mörgum árum við forustu í öflugu stéttarfélagi, Læknafélagi Íslands, þá tók ég ákvörðun um að draga mig  í hlé við málefnavinnu í þeim stjórnmálaflokki, sem ég tilheyri. Mér fannst það ekki samrýmast þeirri trúnaðarstöðu, sem ég hafði tekið að mér, hvorki með tilliti til umbjóðenda minna í læknafélaginu né félaga í Sjálfstæðisflokknum.  

Nú er mikið rætt um enn skýrari aðskilnað hinna þriggja stoða ríkisvaldsins og að þar skuli Alþingi fremst meðal jafningja. Ég tek undir það. Ég veit, að Ögmundur er meira gefinn fyrir jöfnuð en ójöfnuð, rétt en órétt og hjarta hans brennur fyrir siðbótina. Það er vel. Ég er viss um, að hann mun ræða þessi vandkvæði sín við félaga sína í þingflokki Vinstri grænna.

Eða á "flísbyltingin" við það, að aðstandendur hennar hafi allir flísar í sínum augum, en bjálkana sé að finna í augum þeirra, sem þeir gagnrýna? Maður spyr sig.

Skrifað 24.01.09


mbl.is Lögreglumenn skoða úrsögn úr BSRB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við verðum ekki svipt sjálfum okkur!

Það var fallegur dagur í gær sunnan heiða. Einhverra hluta vegna vaknaði ég snemma, fór ofan, fékk mér te og kveikti á útvarpinu.  Njörður P. Njarðvík var í sínum vikulega þætti að fara yfir kveðskap Jóns Helgasonar, prófessors, sem gjarnan er kenndur við Kaupmannahöfn. Jón var hrjúfur maður og ekki allra en ljóðin hans eru mjúk og hlý og bera vott um mikla ættjarðarást. Í þeim leiðir hann saman í töfrandi myndmáli blæbrigði tungu og hugsunar, þannig að af verða mikil listaverk og fögur. Jón vissi hvers hann fór á mis í útlegðinni í Höfn.

Það var líka fallegt að sjá Össur leiða Ingibjörgu af fundi forsætisráðherra og heyra hana síðan og sjá á skjánum fulla með skýrleik og snerpu eins og áður. Og svo kom Geir. Hann var strákslega klæddur og það var létt yfir honum og eins og óveðurskýjunum, sem fylgt höfðu honum liðna mánuði, hefði verið svipt burt.

Þessi dagur staðfesti það eitt, að bjartar sumarnætur koma aftur. Ég bý í góðu landi með góðu fólki og Bubbi syngur: Þessi fallegi dagur.


mbl.is Bjartar sumarnætur að baki á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgarmoli: Á Tyrðilmýri

 Á Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd vestur í Djúpi stendur gamla íbúðarhúsið enn, þó það sé komið á annað hundraðið. Það er þarna á fjörukambinum vestan við nýju húsin eins og afskipt hæruskotið gamalmenni í varpa, sem engar kröfur gerir, hvorki til fegurðarinnar né eilífðarinnar. Það hallar undir flatt upp í innlögnina nánast eins og fatlaður maður, sem skýtur öxlinni upp að vegg sér til hvíldar. Þannig hefur það verið síðan ég sá það fyrst fyrir hálfum öðrum áratug.  Það minnir á skakka turninn í Pisa, sem hefur hagrætt sér á grunninum og er ásamt dómkirkjunni og skírnarkapellunni á leiðinni út í á. Þar mun þessi þrenning lenda, ef tímarnir endast. En gamla húsið á Tyrðilmýri er á engri sérstakri vegferð og mun ekkert fara. Það bara er þarna og geymir sína sögu fyrir okkur.

Því minnist ég á þetta, að Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, lauk upp Tímanum og vatninu fyrir okkur í Kiljunni fyrir nokkru. Þetta gerði hann svo snilldarlega, að nú er kvæðið eins og opin bók og allar flóknar vangaveltur um það hjómið eitt. Í gamla daga voru tveir vinir á ferð á milli staða suður í Gyðingalandi, þegar þriðji maðurinn slóst í för með þeim. Þegar heim var komið buðu þeir honum í bæinn og sagt er að hann hafi brotið brauðið og lokið upp ritningunum. Og augu þeirra opnuðust segir þar. Þannig var þessi kvöldstund með Guðmundi. Örstutt vegferð um Tímann og vatnið, sem gerði erfiði vegmóðra bókmenntafræðinga að engu. Þetta var eins og áningarstaður, þar sem þeir tóku á móti okkur, Guðmundur og Daníel heitinn læknir á Dalvík.

Hann gerði margt vel.    

Aðalsteinn Kristmundsson, síðar Steinn Steinarr og höfundur Tímans og vatnsins, fæddist á Laugalandi í Skjaldfannardal við Djúp. Hann var af bláfátæku fólki, sem átti ekki alltaf öruggt skjól í lífinu frekar en Steinn sjálfur. Steinn lifði við kröpp kjör lengst af sinni ævi og stundum við sára fátækt. Það var því ekki á vísan að róa, þegar hann varð ástfanginn ungur maðurinn í Reykjavík á árunum fyrir stríð. Utan af landi, skáld og lífskúnstner og jafnvel kommúnisti, með visna hönd. Ástfanginn af læknisdóttur?  Ekki sjens. Hann og Louisa Matthíasdóttir og Nína Tryggva voru vinir. Hann elskaði Louisu en Nína elskaði hann eða öfugt. Hvað vitum við um það?  En þær fóru báðar og Steinn sat eftir og endaði líf sitt í Fossvoginum.  Eftir situr heimslist og eilíf altaristafla í Skálholtsdómkirkju og Tíminn og vatnið á tungu, sem einungis örfáir sérvitringar í veröldinni skilja - og ekki einu sinni þeir.

Tíminn og vatnið er ástarljóð og við skulum vista okkur fyrir helgina með möndli þess, þegar skáldið gerir sér grein fyrir orðnum hlut og sættist við hann:     

 

"Í sólhvítu ljósi

hinna síðhærðu daga

býr svipur þinn.

 

Eins og tálblátt regn

sé ég tár þín falla

yfir trega minn.

 

Og fjarlægð þín sefur 

í faðmi mínum 

í fyrsta sinn." 

Úr Tímanum og vatninu e. Stein Steinarr, 15. liður.

 

Foreldrar Steins voru á Tyrðilmýri um skamma stund. Sú saga lifir í sveitinni, að þar hafi Steinn orðið til.  Í gamla húsinu, sem hallar sér til sólarlagsins og er ekki á neinni sérstakri vegferð.  Það er eins góð tilgáta og hver önnur. Allar sveitir eiga sín skáld. Nauteyrarhreppur á Höllu og Sigvalda Kaldalóns, Dalirnir eiga Jóhannes úr Kötlum, kennara Steins, og Stefán frá Hvítdal og mörg önnur. Steinn varð til og fæddist vestur við Djúp og því verður ekki breytt, frekar en að því verði breytt, að folald er kennt við þann stað, þar sem því er kastað.  

Listin lifir okkur.

 


Gróðrarstía fasisma og ofbeldis

Það þarf að segja þessu fólki, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið með Breta í broddi fylkingar séu að koma hér á fót nýju Weimar-lýðveldi, sem gæti orðið gróðrarstía fasisma og ofbeldis.
mbl.is Fjallað um mótmælin víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk sem vill illindi

... og vílar ekki fyrir sér að persónugera vandann. Í þessu munum við standa með lögreglunni 100%. Þetta fólk er ekki á eftir lögreglunni. Það er á eftir okkur til þess að þjóðin berist á banaspjótum. Elsta trikkið í bókinni til þess að ná völdum.

Því verður ekki kápan úr því klæðinu.


mbl.is Nafnbirtingin grafalvarlegt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er nóg komið

Mótmælin hafa náð hámarki. Þau hafa líka náð markmiðum sínum. Nú er sú brotalöm komin í ríkisstjórnina, sem ekki verður bætt. Kosningar verða fyrir mitt ár. Almenningur hefur sýnt mótmælendum í miðborg Reykjavíkur mikið umburðarlyndi og skilning, þar sem markmiðin og skoðanir hafa farið saman. Lögreglan hefur staðið sig vel við erfið störf. Það er auðvelt að setja sig í hennar spor en erfitt að sjá, hvernig maður mundi leysa verkefnið. Það er ekki öllum gefið svo vel fari.

 Við munum leysa þetta eftir leikreglum lýðræðisins, sem við höfum sett okkur í stjórnarskránni. Ef við viljum breyta stjórnarskránni, þá gerum við það eftir þeim sömu reglum. Þeir, sem komu til að ryðja byltingunni braut eða stjórnleysinu, munu verða fyrir vonbrigðum. Almenningur mun verja stjórnskipanina.


mbl.is Lögreglumaður enn á sjúkrahúsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðjón í dag:

"Ekki kenna illum hug um það, sem skýra má með óvitahætti."
mbl.is Tveir lögreglumenn slasaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband