Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Þorsteinn frá Hamri:

"Ljóðið ratar til sinna."
mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama í dag:

"Ríkisstjórn mín mun ekki styðja þá, sem leyna vilja upplýsingum; hún mun styðja þá, sem upplýsa vilja almenning."
mbl.is „Þið eruð öll rekin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú eru hetturnar ekki vandamálið

Mótmælin eru hreyfiafl en geta orðið beggja handa járn, ef atburðir gærdagsins endurtaka sig.


mbl.is Mótmælt við þinghúsið á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall og uppörvun sunnudagsins.

Á dögunum bloggaði ég í bjartsýni minni um kvótasamlag fyrir smábátaútgerðir. Í barnaskap mínum taldi ég að smábátaútgerðum ætti að vera auðveldara að greiða fyrir kvóta en togskipaútgerðum, þar sem sannanlegur tilkostnaður við veiðarnar væri mun minni í smábátaútgerðinni en með stóru skipunum. Áfallið kom með Silfri Egils þegar Ingólfur Arnarson, doktor í sjávarútvegsfræðum, lýsti eignamynduninni í sjávarútvegi, hvernig kvótasamruni hefði leitt til falskrar verðmyndunar á kvóta og  innihaldslausra efnahagsreikninga sjávarútvegsfyrirtækja og veðsetninga langt umfram raunveruleg verðmæti. Ingólfur lýsti sjávarútveginum sem pappírstígrisdýri eins og Mao formaður hefði orðað það. Ég verð að viðurkenna að ég varð hálf lamaður eftir þennan þátt Silfursins. Hér er krækja í silfrið.  

Það er ekki til nema eitt svar við þessu: Þjóðin taki kvótann til sín og endurleigi hann.

Uppörvun dagsins kom fyrst með prédikun Friðriks Schram í útvarpsmessu á Seltjarnarnesi, þar sem hann hafði að ræðuefni hafvillur fangavarða Páls postula á Miðjarðarhafi. Páll uppörvaði skipsfélaga sína í lífshættunni. Friðrik hefur mikla gáfu til prédikunar allt frá æskuárum.

Hin síðari blessan kom með nýjum formanni Framsóknar. Hafði slysast til af e-m ástæðum að leggja honum gott orð í vikunni áður.  Nú hef ég engar sérstakar mætur á Framsóknarflokknum en miklar mætur á mörgum Framsóknarmönnum, sem ég hef kynnst sem vinum, kunningjum og nágrönnum. Framsóknarflokkurinn hefur einn flokka gengið í sig - að sinni.

 


Kaupþingsmenn vissu allt mánuðum fyrr

Margt bendir til þess, að Kaupþingsmenn hafi ekki verið eins grandalausir um fall bankanna eins og þeir vilja vera láta. Því kemur ekki á óvart að þeir skuli hafa bjargað skiptimynt úr bankanum dagana fyrir hrunið. Ég vil nefna eitt dæmi um þetta.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fór óvenju vel út úr bankahruninu ef svo má að orði komast. Allavega ef litið er til afkomu flestra annarra lífeyrissjóða. Skýring þessa er, að forráðamenn sjóðsins, sem var í vörslu gamla Kaupþings, losuðu sjóðinn að mestu við áhættusöm skuldabréf mörgum mánuðum fyrir hrun bankans og fjárfestu m.a. í ríkistryggðum skuldabréfum. Þetta er þeim auðvitað ekki til hnjóðs að sínu leyti en sýnir glöggt, hvernig Kaupþing mat stöðuna vonlausa. Engir aðrir viðskiptamenn bankans eða smáeigendur fengu þessar viðkvæmu upplýsingar og jafnvel starfsmenn narraðir til að taka vitlausar ákvarðanir í eigin málum fram á síðustu stundu.

Þessar nýju fréttir um fjárflótta úr bankanum og fjárböðun á síðustu vikunum koma alls ekki á óvart skoðaðar í þessu ljósi. Margt bendir til að forráðamenn annarra banka hafi búið yfir svipuðum upplýsingum og að ýmis kurl eigi eftir að koma þar til grafar.


mbl.is Milljarðalán án áhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minn socialrealismi

Ég er flokksbundinn sjálfstæðismaður. Hef verið í um 30 ár og kosið flokkinn lengur,  var í framboði fyrir hann 1987 og hef oft lagt honum lið þess utan. Ég hef bæði reynt að auðga stefnu hans og verja. Ég hef áreiðanlega mælt frjálshyggjunni bót á e-m tíma og tengt hana við mannúðarstefnu. Frelsi John Sturats Mill er ein af mínum uppáhaldsbókum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mörgu góðu komið til leiðar fyrir íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag.  Davíð truflar mig ekki. Hann er dæmalaust hreinskilinn og prakkaralega ósvífinn. Þessir eiginleikar gerðu hann að þeim aðlaðandi stjórnmálamanni, sem þjóðin kunni að meta. Ég hef aldrei skilið " skítlegt eðli". Þessi orð eru óskiljanleg og þeim til minnkunar, sem þau lét falla á sínum tíma. En núna truflar Davíð þjóðina og sljóvgar athygli hennar á því, sem máli skiptir. Það er til skaða.

Ég er líka læknir. Ég stoltur af menntun minni og lífsstarfi. En það starf er takmörkum háð. Versti óvinur þess er hin blinda sjálfumgleði. Þekking og færni geta aldrei breitt yfir galla þess, sem kann ekki skil á eigin veikleikum; þekkir ekki þau mörk, sem getu hans eru sett og getur ekki af þeim sökum og lyndiseinkunnar sinnar leitað ráða hjá þeim, sem betur vita og meira geta. Þeir læknar, sem svo er ástatt um, eru hættulegir sjúklingum sínum og geta hæglega skaðað þá. 

Í annan stað er það skylda læknisins að horfast í augu við eigin mistök og annarra starfssystkina sinna svo af þeim megi læra. Annars bætir hann ekki við þekkingu sína og engar samfélagslegar umbætur verða, hvað læknisfræðina áhrærir.

Þjóðfélagið hér fór úr böndunum síðustu misserin. Stjórntæki efnahagslífsins virkuðu ekki og þegar stund sannleikans rann upp, þá neituðu þeir að horfast í augu við það, sem til þess voru settir. Nema e.t.v. Vestfirðingurinn, sem féll frá í glímunni við sinn síðasta tind. Hans verður ekki notið lengur og tómt mál um að tala.  Sjálfstæðisflokkurinn, minn flokkur, ber á þessu höfuðábyrgð. Hann virðist þess ekki umkominn að horfast í augu við fortíðina, endurskoða stöðu sína og vinna sér traust kjósenda að nýju. Hann þarf greinilega lengri tíma. Kjósendur verða að beita því agavaldi, sem þeir hafa. Ef það kemst ekki til skila til stjórnmálamanna núna, að afskipta- og aðgerðaleysi er ekki liðið, þá gerist það aldrei og lýðræðið á Íslandi verður eins og kölkuð gröf.

Því legg ég til að ríkisstjórnin biðjist lausnar og efnt verði til Alþingiskosninga.


Málið er ófullburða

Stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa ekki verið sannfærðir um að taka eigi hluta af því, sem nú fer fram í bönkunum, undir sjóð af þessu tagi. Í öðru lagi er ekki sjálfgefið, að  lífeyrissjóðirnir vilji taka þátt í að endurreisa sjóðakerfi með pólitískri slagsíðu.

Verkefni efnahagslífsins er að endurreisa eðlilegan verðbréfamarkað í landinu. Lífeyrissjóðirnir gætu haft samstarf um fjárfestingar sínar, sem yrði algerlega á faglegum grunni með það eina markmið að tryggja örugga ávöxtun lífeyrisspanaðar. 


mbl.is 75 milljarða fjárfestingargeta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matur með minni olíu og betri umgengni um miðin?

A síðasta borgarafundi í Háskólabíói voru bornar fram fyrirspurnir úr sal. Eins og oft vill verða undir slíkum kringumstæðum, þá voru spurningarnar ekki alltaf klárar, þó meiningu spyrjendanna væri gjarnan ekki undir mæliker skotið. Þannig var um manninn, sem af ákafa kallaði yfir salinn, að togararnir eyðilegðu vistkerfin á sjávarbotninum með botnvörpunni og eyddu meiri olíu en smábátarnir fyrir hvert veitt kíló.

Ég get ekki fullyrt, að hann hafi um ekkert spurt þessi maður, því ég varð barnslega glaður við þessa athugasemd og missti því þráðinn í máli hans. Hún rifjaði upp fyrir mér niðurstöður úr rannsókn, sem kynnt var fyrir um fimm árum, þar sem fram kom, að olíukostnaður fyrir hvert veitt kíló af þorski á smábátum væri umtalsvert minni en kostnaður stóru fiskiskipanna við að ná lífsbjörginni. Og oft hef ég velt fyrir mér þeim skemmdum, sem botnvarpan hlýtur að valda á lífríki hafsbotnsins eins og sjá má af  margvíslegu myndefni, sem þaðan er fengið. Þessu til viðbótar virðist mér augljóst, að afkastageta miðanna við Ísland hafi farið síminnkandi frá því að botnvörpuveiðar hófust - óháð afla. 

Mér segja fróðir menn, að trillukarlar séu svo sjálfstæðir, að þeir muni aldrei geta bundist samtökum um neitt það, sem til framfara geti horft í þeirra atvinnugrein, hvað þá um eitthvað, sem skákað getur stóru útgerðunum svo um munar. Aldrei er Bjartur langt undan Íslandsmanninum.

Eitt af því, sem trillukarla vantar, er kvóti. Svo segja þeir. Nú er búið að veðsetja kvótann í drep og fjárfesta fyrir milligjöfina í Kringlum þessa lands, í fallitt bönkum eða sólbekkjum fyrir ellihruma landa við miðbaug. Skuldug útgerðarfyrirtækin eru fyrir löngu horfin úr Kauphöllinni og kvótinn er kominn á brunaútsölu. Hvers vegna ekki að bindast samtökum um að eignast kvóta og leigja hann trillukörlunum? Þeir hljóta að geta greitt meira fyrir hann en stóru útgerðarfyrirtækin, sem einlægt eru á hausnum. Þetta gæti orðið vænlegt sprotafyrirtæki í eigu einhverra lífeyrissjóða, þar sem enn finnast markmið með kjarki eða þá Auðar Capital, sem líkist æ meir konunni minni að skynsemi.

Ég hef reyndar ekki mikið vit á þessu, þó ég sé af sjómönnum kominn. En þeir þekkja þetta frændur mínir á Bíldudal. Pabbi þeirra, Garðar Jörundsson,  réri til fiskjar á vit náttúrunnar. Hans rækjumið voru hross í haga og best reyndust gamlir hestar, sem treysta mátti að væru á sama stað í túni áratug eftir áratug.

Það hlýtur að hafa verið gott hlutskipti að róa við dagmál á vit gamalla hrossa, sem aldrei brugðust, hvorki til sjós né lands. Þau standa ef til vill enn í túni, afkomendum Garðars til hæginda, þegar rækjan lætur á sér kræla á nýjan leik í Arnarfirði.

Borgarafundir geta vakið margvíslegar hugsanir. Meira um það á morgun.


Af litlum neista verður oft mikið bál

Sigmundur er ungur maður með neista. Hann virðist að öllu leyti laus við klafa fortíðarinnar og vera tilbúinn að leggja sjónarmið sín undir án tillits til þeirra, sem tilkall til hans gera. Hann sér sóknarfæri í Framsóknarflokknum til að veita sjónarmiðum sínum brautargengi. Hann leikur list hins mögulega. Auk þess hefur skoðunum hans verið brugðið fyrir krítískan Oxfordafl. Það er góður skóli.
mbl.is Bar ekki að yfirtaka Icesave-skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niður með grímurnar

Mér er vel við mótmælendur. Hef alltaf verið dulítið veikur fyrir aktívistum. Jafnvel anarkíið er sjarmerandi á sinn hátt. Það er ekki langt á milli anarkistans og Hannesar Hólmsteins. Sjáið frjálshyggjuna.  Aldrei hefur afskiptaleysið hlotið aðra eins upphefð. Hampað af ríkjandi öflum. Fullkomlega lögleg hugmyndafræði. 

Mótmælendur gegna þýðingarmiklu hlutverki. Þeir halda okkur við efnið.

Ég hef fengið bágt fyrir þessa meintu linku hjá vinum og vandamönnum. Fólk hefur eðlilega áhyggjur af skemmdarverkum og eignaspjöllum yfirleitt, sem eru framandi íslensku samfélagi. Ég get vel tekið undir það. En ég hef tilhneigingu til að vega álag og ávinning fyrir samfélag okkar og fram að þessu hef ég viljað hlífa aktívistunum við of harkalegum gagnaðgerðum.

En eitt á ég ákaflega erfitt með að verja. Það eru hetturnar. Hvaða hugmyndafræði er þarna að baki? Hver er nauðsynin? Er ekki lengur hægt að standa á skoðunum sínum án þess að leyna persónu sinni?  Standa skoðanirnar ekki undir reisn persónunnar? Eru skoðanirnar og persónurnar ekki samferða í baráttu hversdagsins?  Þetta er orðið eins og hver önnur tíska. Fólk mætir á fjölmenna og friðsama borgarafundi, sem bera af því, sem áður hefur verið gert af þessu tagi hér á landi. Og láta svo ófriðlega í agiteraðri auglýsingamennsku fyrir grímubúninga sína. Fyrir mér er þetta fólk í besta falli unglingar í þörf fyrir uppeldi og aðhald og í versta falli andlitslausir aumingjar.

Það þarf að taka hart á þessu þegar í stað og það þarf að koma alveg í veg fyrir að þetta fólk fari inn í opinberar byggingar í þessum búningi. 

Ég legg til að grímurnar verði teknar ofan og þeir, sem eru í ríkri þörf, stundi sína Batmanleiki í viðeigandi umhverfi.

Auk þess legg ég til, að ríkisstjórnin boði til Alþingiskosninga og biðjist lausnar.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband