Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
13.1.2009 | 08:21
Björn Bjarnason túlkar söguna
Björn Bjarnason ritaði pistil á heimasíðu sína um liðna helgi. Þar fjallar hann um umræðuna um aðild að Evrópusambandinu. Ekki verður betur séð en að hann vilji draga fram að saga Sjálfstæðisflokksins sé samofin sögu lýðveldisins. Er það og flestra manna mál. Eins og vitnað hefur verið til segir hann: "Fyrir því eru hins vegar sterk og málefnaleg rök, að léti Sjálfstæðisflokkurinn við það eitt sitja á landsfundi sínum að binda trúss sitt við Evrópusambandið, yrði hann með öllu ótrúverðugur og brygðist sögulegu hlutverki sínu. " Björn lætur það hins vegar vera að skýra nánar hvert hið sögulega hlutverk Sjálfstæðisflokksins er í þessum efnum.
Hið sögulega hlutverk Sjálfstæðisflokksins hefur ætíð verið nytjastefna í utanríkismálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur grundvallað stefnu sína á hagsmunamati í þágu þjóðarinnar eins núverandi forustumenn flokksins hafa ítrekað bent á. Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu á sínum tíma forgöngu um aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum og síðar Atlantshafsbandalaginu en enn síðar að EFTA. Flokkurinn studdi aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu og Björn Bjarnason var einlægur stuðningsmaður aðildar að Schengensamkomulaginu. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ákafur í viðleitni sinni við að rjúfa einangrun landsins og gera Íslendinga gildandi í samfélagi þjóðanna.
Það er svo líka umhugsunarefni og gerir athugasemd Björns neyðarlegri fyrir vikið, að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þeirri stöðu, sem upp er komin í efnahagsmálum þjóðarinnar, þannig að við erum nú hársbreidd frá því að glata sjálfstæði okkar.
Ef litið er til sögulegs hlutverks Sjálfstæðisflokksins, þá er vegferð forustu flokksins núna ekki vel til þess fallin að ríma við það. Flokkurinn verður að ganga í endurnýjun lífdaga ef hann á að vera þjóðinni áfram það pólitíska gagn, sem hann hefur verið.
Auk þess legg ég til, að ríkisstjórnin boði til Alþingiskosninga og fari frá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.1.2009 | 08:41
Agnes veit svörin
12.1.2009 | 08:37
Agnes veit svörin
Í Morgunblaðinu í gær birtist pistill Agnesar Bragadóttur um stöðutökuna gagnvart krónunni. Agnes spyr sem vonlegt er: "Hverjir sváfu á verðinum á meðan það gerðist að stöðutaka í gömlu viðskiptabönkunum, þar sem veðjað var á veikingu krónunnar, varð samtals á milli 600 og 700 milljarðar króna? .....Það hefur ekki farið fram hjá því að þeir sem leyfðu þessu að gerast, þeir sem stuðluðu að því að þetta gerðist, verði dregnir til ábyrgðar."
Það er gamall vísdómur, að maður eigi einungis að spyrja þeirra spurninga, sem maður veit svörin við. Og enn betra er að spyrja aðeins þeirra spurninga, sem enginn annar hefur svörin við.
Nú þarf ekki að ganga svo langt því þjóðin varð vitni að því fyrir tæpu ári að ábyrgir aðilar sögðust ætla að rannsaka meint brask með krónuna og síðar að þeir hefðu ekki orðið varir við neitt misjafnt.
Agnes ætti að ljúka pistli sínum með því að veita okkur svörin við spurningum sínum.
9.1.2009 | 11:27
Evra eða króna?
Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur. Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.
Svo var það snemma í vor, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.
Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.
Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð. Einn fræðilegur kostur er að Norðmenn sjái ljósið og möguleika þá, sem þeir eiga í myntsamstarfi við Íslendinga. En á meðan hvorki heyrist hósti né stuna úr austurvegi, eigum við ekki annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið.
Hægt að frysta bílalán áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2009 | 08:45
Sjúkrahúsið á Akureyri ekki heppilegur forustusauður
Eitt af markmiðunum með setningu nýrra laga um heilbrigðisþjónustu 2007 var að treysta fjölbreytta þjónustu á landsbyggðinni sem og að rýmka rétt heilbrigðisstarfsmanna til að veita þjónustu án íhlutunar ríkisins. Heilbrigðisumdæmunum er ætlað að búa yfir meiri faglegri þekkingu til að taka ákvarðanir um hvaða þjónustu hentar að veita á hverju landsvæði, hvernig tryggja á sérhæfða þjónustu og hvernig best er að ráðstafa því fé, sem til skiptanna er. Eða m.ö.o. að færa ákvarðanir um veitingu heilbrigðisþjónustu heim í hérað.
Við gerð frumvarpsins var litið til þess að styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri eins og frekast væri unnt til þess að það gæti orðið áfram leiðandi afl í sjúkrahúsþjónustu utan höfuðborgarinnar og varasjúkrahús Landspítalans. Því var lögð áhersla á að það hefði aðra stöðu í sínu heilbrigðisumdæmi en önnur sjúkrahús á landsbyggðinni. Með því yrði það síður háð fjárveitingum til annarrar starfssemi á Norðurlandi og myndi jafnframt síður soga til sín fjármagn, sem heilsugæslan þyrfti.
Ég tel, að ákvörðun um forustu Sjúkrahússins á Akureyri um alla heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi sé misráðin og skaði bæði það og grunnþjónustuna.
8.1.2009 | 14:16
Guðlaugur finnur ekki upp hjólið
Ég skal gangast við því, sem ég á af þessu. Arkitektarnir voru menn eins og ég og reyndar stór nefnd, sem gerði drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu á sínum tíma. Nefndin var félagslegur og pólitískur þverskurður þjóðarinnar. Það, sem lagt er til núna, er dregið upp í þessum lögum og í reglugerð, sem fengnar voru tillögur að. Þingeyingar og Skagfirðingar voru alltaf á móti þessu og verða það vísast áfram. Jón Bjarnason talar gjarnan með því, sem til vinsælda er fallið í hans heimasveit.
En eitt má segja Guðlaugi til afsökunar, að hann er ekki að þjóna illmennsku sinni með þessari framkvæmd.
Ráðherra segi af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.1.2009 | 11:11
Tónlistarhúsið er forgangsverkefni
"Tónlistarhúsið hefur forgang fyrir margra hluta sakir og er ekki síður mikilvægt en nýtt sjúkrahús. Þar sem það stendur nú með framkvæmdirnar í andaslitrunum er það eins og vitnisburður um ófarir þjóðarinnar og uppgjöf. Þögull minnisvarði um þjóðina, sem gekk í björg með aflamönnum verðlausra fjármuna og beygði sig í lotningu fyrir fagnaðarerindi þeirra. Þessir tímar eru að baki og hamrahöllin á hafnarbakkanum þarf að breytast í þann kyndil, sem Ólafur Elíasson, myndlistarmaður ætlar henni að vera og þjóna tónlistinni en fyrst og fremst þjóðinni."
Undirbúnir samningar um yfirtöku á tónlistarhúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
6.1.2009 | 16:02
Danskir fjársvikarar stunda iðju sína úr fangaklefunum
Athyglisverð frétt á visir.is. Stofna skúffufyrirtæki til að kaupa fyrirtæki í rekstri með lánum sem hafa veð í þessum sömu fyrirtækjum. Svo eru verðmætin moluð sundur og öllu skotið undan, sem fémætt er. Að lokum flýtur alveg undan veðunum og ekkert er eftir til að tryggja endurgreiðsluna.
Þetta er allt saman of kunnuglegt til að teljast fréttnæmt. Eini munurinn er sá, að hér á landi þarf ekki fyrir því að hafa að stunda þessa iðju úr fangaklefanum. Það þykir í lagi fyrir opnum tjöldum. Samrunadæmin, þar sem skuldirnar verða eftir í verðlausum hluta fyrirtækis og lánadrottinn fær ekki rönd við reist, hafa orðið fleiri en við höfum haft þörf fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2009 | 17:53
Slæmt mál
Vinnu við Tónlistarhúsið frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2009 | 12:06
Svik á útsölum?
Í gær fórum við á ferskar útsölur í Smáralindinni. Var þar margt girnilegt á sæmilegum afslætti yfirleitt um 30%. Það kallast nú varla reyfarakaup en er viðunandi ef maður þarfnast vörunnar.
Þar kom, að húsmóðirin kom auga á flík, sem hún hafði keypt handa dótturinni í jólagjöf fáum vikum áður. Flíkin var nú boðin með afslætti á um 9.000 krónur. Upphaflegt verð var sagt 12.900 krónur og afsláttur því 30%. Þetta hefði verið í góðu lagi, ef flíkin hefði ekki kostað krónur 9.900 fyrir jól og áður en útsölurnar byrjuðu.
Þetta kennir okkur að forðast skrum og blekkingar í auglýsingum og beinlínis villandi upplýsingar og að meta þörf okkar fyrir hlutina og hvað er gefandi fyrir þá í því ljósi.