Píratar eru ekki píratar; þeir eru loddarar

Hvenær hafa píratar haft einhvern áhuga á Evrópusambandinu. Ekki settu þeir það á oddinn í síðustu kosningum. Þvert á móti. En nú á að kanna hug þjóðarinnar til þess og það með fyrstu skipum.En allir sanngjarnir menn sjá i gegnum bragð af þessu tagi. Því er ætlað að koma þvingu á Viðreisn.

Pírötum mun ekki verða kápan úr því klæðinu. Viðreisn mun koma með krók á móti bragði og haga málum þannig, að kosningar um þetta tiltekna mál fari fram í samræmi við stjórnarsáttmálann. 


mbl.is Vilja kjósa um nýjar viðræður við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðum fyrir vegagerð með sköttum

Mér og mörgum öðrum var illa brugðið þegar fréttist af ákvörðunum Jóns Gunnarssonar um hvað skyldi víkja í vegaframkvæmdum vegna ófullnægjandi fjármögnunar í fjárlögum. Það er auðvitað rétt hjá honum að ekki verður framkvæmt fyrir krónur, sem ekki er verið að afla. En það er líka álitamál, hvort Alþingi eigi ekki að sjá um þessar ákvarðanir en ekki ráðherrann. 

Óánægjan með frestun framkvæmda í Berufirði og í Gufudalssveit er hafin yfir gagnrýni. Þessar vegabætur hafa staðið fyrir dyrum árum saman og væntingarnar við síðustu vegaáætlun miklar og eðlilegar.

Þessi ríkisstjórn, sem nú situr virðist óvenju feimin við skattheimtu eins og allar ríkisstjórnir, sem Sjálfstæðisflokkurinn veitir forystu. Sjálfstræðismenn lamast í hnjánum, þegar minnst er á skatta. Þetta er í blóðinu. En Sjálfstæðismenn gleyma því einlægt, að skattheimta getur verið mikilvægt og nauðsynlegt hagstjórnartæki, sérstaklega á þenslutímum, þegar þörf er á aðhaldi í ríkisfjármálum.

Nú er einmitt tíminn til að beita þessum ráðum í við hagstjórnina. Það er engin lausn að afla tekna úr öðrum hagkerfum þ.e. frá ferðamönnum til að byggja vegi. Þá eigum við að byggja sjálf einmitt núna, þegar þörf er á að hefta einkaneysluna. Skattana á ferðamenn eigum við að nota til að greiða niður skuldir og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Það verður að fara í þessar vegabætur og fjármagna þær með aukinni skattheimtu um 1,5%.  


mbl.is Ákvörðun ráðherra stenst ekki lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþelló og Jón Viðar

Sá Óþelló í gær í Þjóðleikhúsinu. Það var mikið leikhús og gott. Ný sköpun úr gömlum texta. Ný snörun af gamalli tungu. Ef menn gera engar tilraunir með Sjeikspír verður hann smám saman tímanum að bráð eins og allt það, sem endurnýjar sig ekki. 

Leikurinn var góður og aðalleikendurnir þrír komu skemmtilegfa á óvart. Ingvar og Nína Dögg voru frábær. Ingvar sannaði það, sem mann hafði grunað, að umtalaður leikdómur Jóns Viðars væri tómt bull. Leikstjórnin var greinilega undirstaða verksins og ill ummæli Jóns Viðars um leikstjórn Gísla Arnar óskiljanleg.

Ég er feginn að hafa farið á þessa skemmtilegu sýningu og að mislyndum leikgagnrýnanda hafi ekki tekist að spilla þessari kvöldskemmtun fyrir mér og konu minni. 


Kókain, sódavatn og tyggjó

...var það helsta sem unga fólkinu datt í hug, þegar spurt var um aðal uppistöðu í fæðu frumbyggja Mið- og Suður Ameríku í Gettu betur í gær. Var þó spurningin skýrt fram borin. 

Það hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis við hina klassísku menntun á okkar dögum og berum við vísast ábyrgð á því eins og öðru.


Kjaradómur alþýðunnar ákvarði þingfararkaup

Það virðist alveg sama hvaða fyrirkomulag er á ákvörðun launa alþingismanna; breytingar á launum þeirra valda ætíð úlfúð og óánægju almennings, sem verkalýðsleiðtogar og aðrir alítsgjafar taka undir. Ég man rúma fjóra áratugi aftur í tímann. Hefur fyrirkomulag um ákvarðanir varðandi laun alþingismanna verið með ýmsu móti á þeim tíma.  Alþingismönnum hefur meira að segja sjálfum verið ætlað að ákvarða laun sín. Þótti það einungis vaskra manna verk og þeir vígfimustu úr hópi alþingismanna fengnir til þess eins og eins og Sverrir Hermannsson svo dæmi sé tekið.

Við sem samfélag hljótum að geta losað alþingismenn við þennan kaleik. Þeir hafa nóg annað að gera en að bera af sé misviturlegar ásakanir um síngirni, hvað þá græðgi eins og stundum heyrist.

Þjóðin þarf sjálf að bera ábyrgð á viðunandi og sanngjörnum launum alþingismanna. Með því eina móti verður nauðsynlegur friður hverju sinni um  þingfararkaupið. Stofna þyrfti dómstól sem felldi úrskurði um kjör alþingismanna, þar sem sætu fulltrúar hinna ýmsu launþegasamtaka í landinu skv. tilnefningu, og hugsanlega annarra hagsmunahópa. 

Ég er viss um að annað hljóð kæmi í strokkinn við ákvarðanir á vettvangi af þessu tagi og að þingmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af kjörum sínum eftir það. Gætu jafnvel safnað sér fyrir lítilli og snoturri íbúð. 


Páll Magnússon er tækifærissinni

...sem fer nú mikinn við að koma ábyrgð af sjómannaverkfalli á ríkisstjórnina og sérstaklega sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorgerður Katrín ver fimlega þá sjálfsögðu afstöðu ríkisstjórnarinnar að mismuna ekki skattgreiðendum með því að meðhöndla sjómenn með sértækum skattfríðindum fæðiskostnaðar. Páll, sem er auðvitað einn af stjórnarþingmönnum en á allt sitt undir stuðningi Vestmanneyinga, lætur sig einu varða góða stjórnsýslu og tillit til jafnræðisreglu og varpar ábyrgðinni á ríkisstjórnina, sem hann styður að sögn.

Málflutningur Páls er innantómur og rakalaus og sýnir einungis, að hann hefur ekkert lært.  Sjómenn teygja verkfallið á langinn til að neyða ríkisstjórn landsins til að koma á ölögum og Páll beitir sér til að skýla þessari illa grunduðu kröfu.


Forystumaður sjómanna ófær um að semja

Í vikulokunum á Rás 1 s.l. laugardag voru m.a. oddvitar beggja samninganefnda, sem leysa eiga þessa deilu. Það var átakanlegt að heyra Valmund Valmundarson formann samninganefndar sjómanna friðmælast við útgerðarmenn í öðru orðinu og leggja áherslu á að leysa verði ágreininginn og í hinu orðinu klifa á því, að gagnaðilinn hafi ekkert gert til að leysa deiluna og gefa ekki eftir í neinu. 

Þetta er kallað á mannamáli að bera kápuna á báðum öxlum og lofar ekki góðu um vilja þessa manns til að leiða deiluna til lykta. Það eru e-r hagsmunir aðrir en þeir, sem ég sé, sem ráða hér för. 


mbl.is „Verða að hætta þessari störukeppni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármögnunin er blekking

Talað er um nýja aðferð við fjármögnun heilsugæslunnar ì Reykjavík. Þessi nýja aðferð byggir á að heilsugæslustöðvarnar klóri augun hver úr annarri. Það eru engir viðbótarpeningar í spilinu. Heilsugæslustöðvarnar eru í lokuðu fjárlaganúmeri. Þetta eru einungis spilapeningar. Mattador.  Eins dauði verður annars brauð.


mbl.is „Fullsnemmt að fullyrða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinbera kerfið notað til að takmarka þjónustuna

Stjórnmálamennirnir vilja ríghalda í einokunarrétt ríkisins til að reka legudeild og takmarka þannig möguleika til að veita heilbrigðisþjónustu, sem krefst innlagnar. Ástæðan er sú, að með þessum breytingum getur ríkið ekki skammtað heilbrigðisþjónustuna úr hnefa eftir geðþótta. Löggjafinn tók í raun ákvörðun um afnám þessa fyrirkomulags fyrir 10 árum. 

Ríkið vill hafa sérleyfi á sjúkrahjálp eins og steinrunnið flugfélag eða rútubílafyrirtæki. Samfylkingin stendur fyrir þessum uppblæstri á þingi enda er hún eftir síðustu kosningar orðin að saltstólpa eins og kona Lots, sem saknaði gamla tímans.


mbl.is Skora á heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengd biðlista eftir bæklunaraðgerðum er óafsakanleg

Fólk á besta aldri bíður nánast í kör eftir einföldum og tiltölulega ódýrum aðgerðum í eitt ár. Átta mánaða biðlistinn er falsaður með fjögurra mánaða bið eftir að komast inn á hann. Með því að veita takmarkaða þjónustu og langt undir eftirspurn er heilbrigðisráðherrann að ryðja einkaframtakinu braut. Hann mun ekkert ráða við þróunina með þessu áframhaldi.
Fulltrúi Læknafélags Íslands í nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu 2006-2007 barðist fyrir því að pólitískum hömlum yrði létt af rétti heilbrigðisstarfsmanna til að veita þjónustu skv. menntun sinni á almennum markaði. Ef LÍ hefði ekki beitt sér í málinu hefði þessi breyting aldrei orðið. Enda voru rökin gegn því engin.Stjórnarskrárbundin ákvæði um rétt til atvinnu og jafnræðis ruddu þessari skoðun braut. 


mbl.is „Skammsýni“ að semja við Klíníkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband