Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Ég hef lúslesið ræðu Davíðs Oddssonar

... á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 6. nóvember fyrir réttu ári. Velviljaður frændi minn sendi mér hana mér til upplýsingar. 

Þar er Davíð fyrst og fremst að tala fyrir stýrivaxtastefnu bankans og hvert samspil hennar og verðbólgu sé. Hann hefur alveg ákveðnar skoðanir á því, hvort kemur á undan eggið eða hænan í þeim efnum. Ræðan er á mannamáli og þar bregður sums staðar fyrir þessari prakkaralegu ósvífni, sem ég fell fyrir, en fer misjafnlega í fólk.  Það, sem er athyglisverðast í þessari ræðu er nánari greining hans á ástandinu, þar sem hann fer vítt um vöxt fjármálakerfisins. “Útlánaaukningin hefur verið gríðarleg á sama tíma og við höfum farið í gegnum mestu fjárfestingu sem um getur í sögu landsins, umbreytingar í peningakerfinu, stórkostlega fjármálalega innspýtingu í húsnæðismarkaðinn og svo mætti áfram telja.” Og útrásin fær sitt: “”Útrás” virðist þegar grannt er skoðað ekki vera annað en venjuleg fjárfesting erlendis; auðvitað einnig nýting á þekkingu og  hæfileikum í bland við fjárfestinguna.......Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og fram hjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. .....við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.” “ Hitt er einnig til að ný orð fái nánast á sig goðsagnakennda helgimynd, eins og orðið útrás sem enginn þorir að vera á móti svo hann verði ekki sakaður um að vera úr takti, hafi ekki framtíðarsýn eins og það heitir nú, og þekki ekki sinn vitjunartíma.” 

Athugasemdir Davíðs voru því miður ekki settar fram þannig, að vekti forystumenn viðskiptalífsins og stjórnmálamenn af dásvefni velmegunarinnar. Meðvitundarleysið hélt áfram og aðgerðaleysið æpandi eins og áður hefur verið bent á. Það hvarflar að manni að skýringarinnar sé að leita í einhvers konar hjarðhegðun mannsins, holocost, þar sem öllum er ljóst hvað í vændum er, en enginn hreyfir litla fingur gegn örfáum vopnuðum vörðum og aðstoðarmönnum þeirra, sem eru af sama sauðahúsi og fórnarlömbin. Því verður þetta allt sárara um að tala, að hverju barni mátti ljóst vera hvert stefndi. Fyrst skal kalla þá stjórnmálamenn til ábyrgðar, sem réðu þessum málaflokki síðustu ár. Þeir bera ábyrgð á því hvernig fór og tímabært að þeir horfist í augu við það.  

Davíð er kapítuli að sínu leyti. Þjóðin er alltof upptekin af honum. Jafnvel þannig að hún nær ekki að setja niður fyrir sér hin raunverulegu úrlausnarefni. Nærvera hans hefur truflandi áhrif á þjóðina. Því er afstaðan til hans ekki alltaf málefnaleg. Tilfinningar eru ekki ómerkilegri en rökræn dialektík. Þær hafa áhrif hvort sem okkur líkar betur eða verr. Í ljósi þess verður seðlabankastjórinn að skoða stöðu sína og hvernig ákvarðanir hans koma þjóðinn að mestu gagni.


Rökvilla

GPP: Stjórn Kaupþings átti tvo kosti. Annar var að eiga á hættu að starfsmenn seldu hluti sína til að verjast falli bankans eða hinn að gefa þeim hlutina til þess að þeir seldu ekki.

Hvaða panic var þetta? Vissu allir að bankinn væri að falla bæði stjórn hans og starfsmennirnir, sem í hlut áttu? Þetta lítur þannig út.

GPP: Á þessum tíma stóð bankinn vel. Það var enginn þörf fyrir starfsmennina að selja og fella þannig hlutabréfin.

Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi.  


mbl.is Ekki hægt að taka aðra ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennivínið og rónarnir

Árni Pálsson, prófessor, sagði að rónarnir kæmu óorði á brennivínið. Þannig hafa ráðandi öfli í Sjálfstæðisflokknum eyðilagt hina frjálslyndu hagstjórn sem fylgja á, ekki með stjórnlyndi heldur stjórnleysi eða öllu heldur fullkomnu rænuleysi aðdáunarinnar á auðmagninu. Í hugum þessa fólks virðist auðmagnið hafa lifað e-s konar sjálfstæðri tilveru, verið "fé án hirðis" og allra síst verkfæri í þágu þjóðarinnar.

Þessu til staðfestu vísa ég á grein eins þessara manna í Mbl. í dag, Sigurðar Kára Kristjánssonar, þar sem hann sér ekkert til bjargar nema niðurskurð ríkisútgjalda. Þetta segir hann þegar hver vinnandi hönd þarf viðfangsefni til bjargar frá langvinnri fötlun atvinnuleysisins.

Má ég biðja um Sjálfstæðiflokkinn gamla. Hvar er Illugi Gunnarsson?

Ábyrgðin er augljós

Ríkisstjórnin verður að fá ærlega ráðningu og þá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn. Yfir mikið var hann settur, yfir litlu var hann trúr. Ríkisstjórnir framtíðarinnar verða að fá þau skilaboð, að það eru takmörk fyrir því, hverju þjóðin tekur.  Hún tekur ekki öllu með þegjandi þögninni.

 


mbl.is Segir stjórnvöld ábyrg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir vissu það nema við

..að bankarnir væru á leið í þrot. Undir sumarsól voru neyðarlög samin í viðskiptaráðuneytinu, óskiljanlegar skuldsettar yfirtökur hlutabréfa héldu áfram, skuldsett hlutabréfakaup voru afskrifuð, fjármagn var flutt á milli landa, ráðuneytisstjórinn seldi hlutinn sinn og áfram var logið að okkur eins og ekkert hefði í skorist, hvort sem það var sauðsvartur almúginn sem í hlut átti eða ábyrgðarmenn sparnaðar hans svo sem í lífeyrissjóðunum. Aðgerðarleysið var æpandi, hugmyndafátæktin alger nema til að skara eld að sinni köku.

Ríkisstjórnin verður að fá ærlega ráðningu og þá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn. Yfir mikið var hann settur, yfir litlu var hann trúr. Ríkisstjórnir framtíðarinnar verða að fá þau skilaboð, að það eru takmörk fyrir því, hverju þjóðin tekur.  Hún tekur ekki öllu með þegjandi þögninni.

 


Sammi jr.

Það var engin deyfð yfir snillingunum í gær í sjónvarpinu, þeim Valgeiri Guðjónssyni og Agli Ólafssyni. Þeir hafa engu gleymt og mikið lært. Óskandi væri að svo mætti segja um fleiri. Sammi jr. er maður næstu kynslóðar. Hann er snillingur líka. Alla tónlistina hefur hann fært í pottþétt form fyrir bandið sitt og þetta gerir hann viku eftir viku, þannig að gallalaust er á að hlyða. Þessi kynslóð mun bjarga landinu, ekki við. Hún mun búa okkur lífskjör í fegurð og sannleika. Hún mun með striti ljúka tónlistarhúsinu. Það verður engin fögur sköpun án fyrirhafnar. Sumir gjalda með lífi sínu. Eins og Mozart tam. Fegurð auðlegðarinnar er fallvölt eins og dæmin sanna.

Að drepa umræðu með klisjum

“Stöndum saman” er brýning dagsins. Er þá vísað bæði til okkar sem einstaklinga og samfélags, fjölskyldna jafnt sem atvinnu- og efnahagslífs. Fátt er mikilvægara við þær aðstæður, sem nú eru, en að lifa daginn og njóta hans og átta sig á að samfélaginu verður ekki bjargað án þess að hlúð sé að einstaklingunum og að þeir veiti hverjir öðrum stuðning með návistum, tillitsemi og nærgætni. Þetta er hverju orði sannara. Það er líka mikilvægt að þjóðin horfi saman fram á veginn með meira í brjósti en einungis von um betri tíð.  Mér finnst það hins vegar ljóður á þessari annars heilbrigðu afstöðu sumra að halda því fram samhliða henni, að ekki megi gagnrýna það, sem miður hefur farið eða ráðstafanir líðandi stundar, það séu niðurrif og úrtölur og andstætt því verkefni, sem við stöndum frammi fyrir. Sagt er, að við eigum að bíða, bíða eftir logninu, bíða eftir ráðstöfununum, bíða eftir útkomunni, bíða eftir flokksþingunum, nánast bíða eftir þeirri framtíð, sem enginn veit hver er.  Ekkert má persónugera. Öllum á að hlífa og fyrst og fremst ríkisstjórn og seðlabanka. Þau virðast öll hafa verið að æfa lögreglukórinn.  

 

Þetta er misskilningur.

 

Þetta er áreiðanlegasta leiðin til að drepa alla gagnrýna hugsun, drepa umræðunni á dreif, tryggja að enginn verði kallaður til ábyrgðar og að við lærum ekkert af því sem gerst hefur og að engin breyting verði á samfélagi okkar til góðs. Við verðum að ræða atburðina um leið og þeir gerast. Það er ekki eftir neinu að bíða. Saga hugmyndanna, svo ekki sé minnst á sögu þjóðanna, er full af dæmum um umræðu, sem kæfð hefur verið með þessum rökum.  Tökum slaginn strax með opnum og lýðræðislegum skoðanaskiptum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband