Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
26.11.2010 | 08:23
Skuldarar úti í feni pólitískra loforða
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
24.11.2010 | 21:09
Lífeyrissjóðirnir flysjaðir - stjórnin býður verstu niðurstöðu fyrir lífeyristaka
..og verri fyrir suma lífeyrissjóði. Ólyginn sagði mér, að fasteignalánin yrðu jöfnuð við fasteignamatið. Það vill segja, að þeir, sem höfðu "vit" á því að skuldsetja sig upp í rjáfur vegna fasteignakaupa og fjármagna e.t.v. alls konar í leiðinni, munu fá óreiðuna afskrifaða og þeir, sem lenda rétt undir fasteignamatsþakinu munu missa af vagninum. Lífeyrissjóðunum er ætlað að afskrifa tugi milljarða á þennan hátt.
Flestir lífeyrissjóðir hafa rýrnað um meira en 20 % og tekinn og ótekinn lífeyrir þar með. Nú eiga lífeyrisþegarnir að bæta um betur og borga þetta líka. Þetta verður ekki gert með lagaboði heldur verður "samkomulag" rekið ofan í kok á lífeyrissjóðunum. Þeir stjórnarhættir eru reyndar gamalkunnir.
Jafnræðisreglan er löngu gleymd. Gert verður upp á milli þeirra, sem staðið hafa í skilum og jafnvel borgað lánin hraðar en gert var ráð fyrir og dekurbarnanna, þeirra sem eiga séreign sína á bankareikningum og hinna, sem hafa hana í lífeyrissjóðunum og þeirra, sem þegar hafa tekið út séreign sína og þeirra, sem eiga hana enn á rentunni. Enn verður þeim refsað, sem hafa sýnt forsjálni og fyrirhyggju.
Nú er nóg komið.
Tómas Guðmundsson segir Matthíasi á spjalli þeirra, að það hafi komið honum á óvart, að Jón Þorláksson skildi styðja það í þinginu, að hann fengi listamannalaun. Við því hafi hann ekki búist. Jón var þekktur fyrir að vera sparsamur á annarra fé, sagði Tómas.
Það eru fögur eftirmæli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.11.2010 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2010 | 12:39
“skrítinn og sköllóttur karl”
Ég fékk mér göngutúr um götur Búðardals í gær. Gekk út á bakkana, þar sem tún Jóns heitins Hallssonar eru að búa sig í vetrarbúninginn. Síðan lá leiðin inn með gömlu útihúsunum og íbúðarhúsinu, sem nú hefur verið gert upp og fært í upprunalegt horf að hluta. Það byggði Sigurður Sigurðsson fyrsti héraðslæknirinn í Búðardal um aldamótin 1900 og var svokallað katalóghús frá Noregi. Hafa hinir norsku viðir reynst vel. Veðrið var ómótstæðilegt eftir árstíma, aðventan á næsta leyti, tæplega andvari, Hvammsfjörðurinn spegilsléttur og æðarfuglinn enn uppi við land; hitinn eins og á góðum vordegi. Fólkið var útivið að þrífa bílana sína og huga að öðru, sem þarfnaðist athygli fyrir veturinn.
Þar sem ég var á Ægisbrautinni rétt vestan við gamla sýslumannsbústaðinn mætti ég Haraldi Leví Árnasyni frá Lambastöðum í Laxárdal, fyrrum sýsluskrifara og margfróðum Dalamanni. Hann var á göngu eins og ég. Með hans hjálp vildi ég reyna að átta mig á hvar litla húsið hans Guðmundar Ingvarssonar frá Hóli í Hvammssveit hafði staðið þarna rétt ofanvið á neðra barðinu. Aðalsteinshús var það lengst af kallað. Það brann fyrir aldarfjórðungi og Guðmundur með við annan mann.
Haraldur leysti úr þessu fljótt og vel en sagði mér eitt og annað í leiðinni. Böðvar nokkur Marteinsson, eldsmiður, sem jafnan var kenndur við Hrútsstaði, hafði byggt þetta hús á fyrsta hluta tuttugustu aldarinnar. Þegar Böðvar bjó þar, bar að gest, sem baðst næturgistingar. Kom hann ekki af landi heldur af hafi. Það sem kom á óvart var, að hann var fótgangandi og kom frá Borðeyri í Hrútafirði. Úti var bylur og tæplega ratljóst. Hafði bóndinn farið í kaupstaðinn fyrir jólin en fengið blindbyl á leiðinni heim og ratað í villu á Ljárskógafjalli. Missti hann fótanna á klettsnefi, tapaði taumnum, fór fram af klettinum og lenti í Fáskrúð, sem var á ís. Honum var ljóst að hann hafði ekki mið heim til bæjar í bylnum og valdi því að fylgja ánni til sjávar. Áttaði hann sig ekki fyrr en það blotaði í fæturna á ísnum og vissi þá, að hann var kominn út á Hvammsfjörð. Fór hann út með ströndinni á ísinum og kom að landi í Búðardal og beiddist gistingar í litla húsinu rétt ofan fjörunnar eins og áður sagði.
Þetta var Jónas Jóhannesson, bóndi í Ljárskógaseli 1900-1924 og faðir Jóhannesar úr Kötlum. Jóhannes gerði föður sínum kvæði, þar sem finna má fyrirsögn þessa pistils. Jóhannes þekkti ég ekki en Guðrúnu systur hans kynntist ég á hennar efstu árum og fylgdi allt til dauðadags. Þar fór róleg en stórlynd kona, sívinnandi eins og allt þetta fólk, sem ólst upp við hin kröppu kjör einyrkjans.
Menning og listir | Breytt 22.11.2010 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2010 | 13:06
Kindabóla en ekki sláturbóla
Þessi kvilli hefur verið í fréttum að undanförnu og Matvælastofnun vakið athygli á honum á heimasíðu sinni. Ég tel nafngiftina "sláturbóla" villandi, þar sem um erfiðan sjúkdóm er líka að ræða í lambám og ungum lömbum. Sláturbóla er staðbundið heiti einkum á Austurlandi. Ítarlega var ritað um þennan sjúkdóm í Læknablaðið 1990 og höfðu höfundarnir, læknarnir Stefán Steinsson og Sigurbjörn Sveinsson, kynnst sjúkdómnum við störf sín í Dölum og Austur Barðastrandarsýslu. Nokkru áður hafði verið ritað um þetta fyrir bændur í búnaðarblaðið Frey og voru höfundar Rögnvaldur Ingólfsson, þá héraðsdýralæknir og Sigurbjörn Sveinsson. Í texta, sem finna má á þessari slóð, segja Stefán og undirritaður:
"Sjúkdómur einn heitir »orf« í erlendum ritum. Þetta er búfjárkvilli, en getur þó borist til manna. Honum var lýst árið 1787 í sauðfé (getið í 1), 1879 í geitum (getið í 2) og 1934 í mönnum (3). Hann er ekki algengur og hefur vafist fyrir læknum að greina hann og meðhöndla rétt. Því er vakin athygli á honum hér. Á íslensku gengur sjúkdómurinn undir mismunandi nöfnum eftir héruðum: Skagfirðingar kalla hann hornabólu en Skaftfellingar sláturbólu. Hvorugt nafnið er allsendis réttnefni, eins og lesendur munu sjá. Lambabóla, bændabóla og kindabóla koma til greina. Orf er erlent alþýðunafn. Það mun komið úr fornsaxnesku, skylt orðinu sem á þeirri tungu þýðir naut (4). Einn höfundur segir það af sama stofni og íslenska orðið »hrufa« (5). Á fræðimáli er sjúkdómurinn oftast nefndur ecthyma contagiosum (4) en stundum dermatitis pustularis contagiosa (6). Síðara nafnið lýsir honum betur, en er öllu stirðara. Enskir kalla þetta ýmist orf, »soremouth« eða »scabby mouth«, og eru þá að tala um sauðfé, einnig »sheep pox« um menn. Þýskir tala um »Lámmergrind« (7). Í þessu skrifi höfum við eftir nokkrar vangaveltur valið nafnið kindabóla. Ekki er örgrannt um að menn kalli ýmis þau kýli sláturbólu, sem í sláturtíðinni fást, þar með taldar meðfærilegar bakteríusýkingar. Því er sláturbólunafnið ónákvæmt. Hornabóla er eina lifandi nafnið sem nothæft væri, ef forðast ætti nýyrðasmíð. Af neðanskrifuðu má þó sjá, að ekki smitast meinið af hornum einum. Því er leið nýyrðasmíða farin og kindabóla er ágætlega lýsandi nafn. Hér skal, áður en rætt er um eðli meinsins, drepa á nokkur sjúkratilfelli, sem höfundar hafa sjálfir stundað, eða haft spurnir af."
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2010 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2010 | 23:57
"Norðan við hníf og gaffal"
...sagði Hrafn í Kiljunni í gær, þegar hann vitnaði til heimkynna sinna norður við Ballarhaf. Það mátti halda að í kjölfar þess fylgdi kuldi sá og fásinni sem vitnað var til. En það var öðru nær. Þau hurfu á vit fegurðinni. "Fagur gripur er æ til yndis", sagði Óskar á sinni tíð og hafði eftir öðrum. Það er jafn satt fyrir því. Enda sást það á þeim öllum þrem. Þau voru snortin og Egill skríkti.
Fegurðina er erfitt að skilgreina. Henni verður tæplega með orðum lýst. Hún verður til í orðunum. Hún er afurð. Eins og eitt húsgagn er öðru fremra í málleysi sínu, þannig talar fegurðin í bókmenntum ekki fyrir sig sjálf heldur við fyrir hana. Hún bara er þarna. Og við skynjum hana. Þorgerður skynjaði hana í látlausri ástríðu, í því sem ekki var sagt, í línum sem skiluðu lesandanum Paradísarheimt í fáguðu handverki.
Eða það mátti á henni skilja.
16.11.2010 | 11:54
Hjálp til sjálfshjálpar - félagsmálastjóri kveður sér hljóðs
Skorturinn hefur margar myndir. Þessi er ein og allir sammála um að gott væri að vera laus við biðraðirnar og hjálpa hinum þurfandi eftir öðrum leiðum en þessari. Best væri að útrýma fátækt með öllu en slíkt er útópískt markmið; við okkar aðstæður og menningu munu hinir verst settu ætíð með hjálp samfélagsins skilgreina sig innan fátæktarrammans, hvernig sem allt veltur.
Stundum má vart á milli sjá hvor aðila er í meiri þörf fyrir ölmusuna, sá sem veitir eða sá sem þiggur. Það ætti að vera markmið okkar að styðja bágstadda þannig að þeir haldi reisn sinni og sjálfsákvörðunarrétti. Um þetta fjallaði Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri í Skagafirði nýlega í athyglisverðum fyrirlestri.
Talið að margir leiti aðstoðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.11.2010 | 22:31
Guðbergur var hér í gær
..einn á veginum með ellinni. Hún hefur fylgt honum frá æskuárum. Það segir hann. Guðbergur er Grindvíkingur; hann er fiskur undir steini. Hann er ólíkindatól ekki síður en Þórbergur. Hann vill ekki láta trufla sig með vinsældum; það er tímafrekt að skrifa fyrir fámenna þjóð. Að ekki sé talað um að kynna fyrir henni sólbakaða menningu úr suðrænu landi og tungutak heillar heimsálfu að auki. Eða man einhver eftir hundrað ára einsemd á einu frímerki? Þar var sko ekki þröngt um sálina. Hún undi sér möglunarlaust í gegnum dægrin á þessu frímerki með aragrúa kynslóðanna. Þar var enginn öðrum líkur en allir náskyldir; dýrvitlausir Skagfirðingar.
Ógleymanlegt.
Guðbergur skilur sig frá öðrum trúleysingjum. Ég veit ekki, segir hann. Hann er ekki í boðunarstarfi, ekki upptekinn af trú annarra. Það er meira en sagt verður um margan spámann vantrúarinnar á vorum dögum. Þeir eru uppteknir af öðrum. Guðbergur er sannur sér og því, sem hann trúir ekki.
Hann er meistari samræðunnar en það er ekki öllum gefið að næra hann á fluginu. Hann þarf að fá að skrifa í viðmælandann. Þannig var í Guðbergi Bergssyni metsölubók.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.11.2010 kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég rakst á kunningja minn fyrir rúmu ári. Hann er Norðmaður og býr hér á landi. Hann var að blaða í fasteignaauglýsingum og ég spurði, hvort hann ætlaði að festa sér húsnæði. Hann kvað svo ekki vera. Sagðist ætla að bíða í a.m.k. eitt og hálft ár í viðbót. Botninum yrði ekki náð fyrr. Þannig hefði það verið í kreppunni í Noregi fyrir 20 árum. Við ræddum það aðeins og þá atburði og þá kom fram, að um fjórðungur allra heimila í Noregi lenti í greiðsluvandræðum og engar sérstakar ráðstafanir voru gerðar af hálfu almannavaldsins í þeirra þágu.
Það var athyglisvert að sjá gömul viðtöl við talsmenn Sigtúnshópsins í sjónvarpinu á dögunum. Sigtúnshópurinn varð til í misgengi launa og verðlags 1983. Í hópnum voru ungir húsbyggjendur og vorum við hjónin á þeim báti um þetta leyti. Engar kröfur komu fram um að fá peninga að gjöf. Pétur J. Eiríksson krafðist aðlögunar fyrir fólkið til að það gæti staðið í skilum, aðlögunar, sem fæli sér aukin lán og lengingu þeirra eldri. Mannréttindaráðherrann var í þessum hópi. Skuldirnar voru borgaðar og erum við hjónin enn að og teljum það ekki eftir okkur.
Vandinn, sem við er að glíma núna er tvíþættur a.m.k. Annars vegar er raunverulegur greiðsluvandi fólks, sem reisti sér ekki hurðarás um öxl miðað við óbreyttar forsendur, en getur ekki staðið í skilum án breytinga á skilmálum skulda sinna. Hins vegar er miklu stærri hópur, sem kominn er út í fen pólitískra loforða, sem gefin hafa verið allt frá hruni um að töfralausnir úr pípuhöttum stjórnmálmanna muni gera hann jafnsettan og hann var fyrir hrun. Engir stjórnmálamenn eða flokkar eru án sakar í þessum leik. Og jafnvel hinn gamalreyndi mannréttindaráðherra fer þar fremstur í flokki.
Þessi hráskinnaleikur hefur orðið til þess að draga úr greiðsluvilja fólks. Eða telja menn, að allir þeir viðskiptamenn bankanna, sem eiga 40 % lána þeirra í vanskilum, séu í raunverulegum greiðsluerfiðleikum?