Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kókain, sódavatn og tyggjó

...var það helsta sem unga fólkinu datt í hug, þegar spurt var um aðal uppistöðu í fæðu frumbyggja Mið- og Suður Ameríku í Gettu betur í gær. Var þó spurningin skýrt fram borin. 

Það hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis við hina klassísku menntun á okkar dögum og berum við vísast ábyrgð á því eins og öðru.


Kjaradómur alþýðunnar ákvarði þingfararkaup

Það virðist alveg sama hvaða fyrirkomulag er á ákvörðun launa alþingismanna; breytingar á launum þeirra valda ætíð úlfúð og óánægju almennings, sem verkalýðsleiðtogar og aðrir alítsgjafar taka undir. Ég man rúma fjóra áratugi aftur í tímann. Hefur fyrirkomulag um ákvarðanir varðandi laun alþingismanna verið með ýmsu móti á þeim tíma.  Alþingismönnum hefur meira að segja sjálfum verið ætlað að ákvarða laun sín. Þótti það einungis vaskra manna verk og þeir vígfimustu úr hópi alþingismanna fengnir til þess eins og eins og Sverrir Hermannsson svo dæmi sé tekið.

Við sem samfélag hljótum að geta losað alþingismenn við þennan kaleik. Þeir hafa nóg annað að gera en að bera af sé misviturlegar ásakanir um síngirni, hvað þá græðgi eins og stundum heyrist.

Þjóðin þarf sjálf að bera ábyrgð á viðunandi og sanngjörnum launum alþingismanna. Með því eina móti verður nauðsynlegur friður hverju sinni um  þingfararkaupið. Stofna þyrfti dómstól sem felldi úrskurði um kjör alþingismanna, þar sem sætu fulltrúar hinna ýmsu launþegasamtaka í landinu skv. tilnefningu, og hugsanlega annarra hagsmunahópa. 

Ég er viss um að annað hljóð kæmi í strokkinn við ákvarðanir á vettvangi af þessu tagi og að þingmenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af kjörum sínum eftir það. Gætu jafnvel safnað sér fyrir lítilli og snoturri íbúð. 


Páll Magnússon er tækifærissinni

...sem fer nú mikinn við að koma ábyrgð af sjómannaverkfalli á ríkisstjórnina og sérstaklega sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorgerður Katrín ver fimlega þá sjálfsögðu afstöðu ríkisstjórnarinnar að mismuna ekki skattgreiðendum með því að meðhöndla sjómenn með sértækum skattfríðindum fæðiskostnaðar. Páll, sem er auðvitað einn af stjórnarþingmönnum en á allt sitt undir stuðningi Vestmanneyinga, lætur sig einu varða góða stjórnsýslu og tillit til jafnræðisreglu og varpar ábyrgðinni á ríkisstjórnina, sem hann styður að sögn.

Málflutningur Páls er innantómur og rakalaus og sýnir einungis, að hann hefur ekkert lært.  Sjómenn teygja verkfallið á langinn til að neyða ríkisstjórn landsins til að koma á ölögum og Páll beitir sér til að skýla þessari illa grunduðu kröfu.


Forystumaður sjómanna ófær um að semja

Í vikulokunum á Rás 1 s.l. laugardag voru m.a. oddvitar beggja samninganefnda, sem leysa eiga þessa deilu. Það var átakanlegt að heyra Valmund Valmundarson formann samninganefndar sjómanna friðmælast við útgerðarmenn í öðru orðinu og leggja áherslu á að leysa verði ágreininginn og í hinu orðinu klifa á því, að gagnaðilinn hafi ekkert gert til að leysa deiluna og gefa ekki eftir í neinu. 

Þetta er kallað á mannamáli að bera kápuna á báðum öxlum og lofar ekki góðu um vilja þessa manns til að leiða deiluna til lykta. Það eru e-r hagsmunir aðrir en þeir, sem ég sé, sem ráða hér för. 


mbl.is „Verða að hætta þessari störukeppni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármögnunin er blekking

Talað er um nýja aðferð við fjármögnun heilsugæslunnar ì Reykjavík. Þessi nýja aðferð byggir á að heilsugæslustöðvarnar klóri augun hver úr annarri. Það eru engir viðbótarpeningar í spilinu. Heilsugæslustöðvarnar eru í lokuðu fjárlaganúmeri. Þetta eru einungis spilapeningar. Mattador.  Eins dauði verður annars brauð.


mbl.is „Fullsnemmt að fullyrða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinbera kerfið notað til að takmarka þjónustuna

Stjórnmálamennirnir vilja ríghalda í einokunarrétt ríkisins til að reka legudeild og takmarka þannig möguleika til að veita heilbrigðisþjónustu, sem krefst innlagnar. Ástæðan er sú, að með þessum breytingum getur ríkið ekki skammtað heilbrigðisþjónustuna úr hnefa eftir geðþótta. Löggjafinn tók í raun ákvörðun um afnám þessa fyrirkomulags fyrir 10 árum. 

Ríkið vill hafa sérleyfi á sjúkrahjálp eins og steinrunnið flugfélag eða rútubílafyrirtæki. Samfylkingin stendur fyrir þessum uppblæstri á þingi enda er hún eftir síðustu kosningar orðin að saltstólpa eins og kona Lots, sem saknaði gamla tímans.


mbl.is Skora á heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengd biðlista eftir bæklunaraðgerðum er óafsakanleg

Fólk á besta aldri bíður nánast í kör eftir einföldum og tiltölulega ódýrum aðgerðum í eitt ár. Átta mánaða biðlistinn er falsaður með fjögurra mánaða bið eftir að komast inn á hann. Með því að veita takmarkaða þjónustu og langt undir eftirspurn er heilbrigðisráðherrann að ryðja einkaframtakinu braut. Hann mun ekkert ráða við þróunina með þessu áframhaldi.
Fulltrúi Læknafélags Íslands í nefnd um endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu 2006-2007 barðist fyrir því að pólitískum hömlum yrði létt af rétti heilbrigðisstarfsmanna til að veita þjónustu skv. menntun sinni á almennum markaði. Ef LÍ hefði ekki beitt sér í málinu hefði þessi breyting aldrei orðið. Enda voru rökin gegn því engin.Stjórnarskrárbundin ákvæði um rétt til atvinnu og jafnræðis ruddu þessari skoðun braut. 


mbl.is „Skammsýni“ að semja við Klíníkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáranleg viðmið Landspítlans

Ungt fólk og heilbrigt bíður eftur gerviliðum í 9 mánuði. Nú á að minnka hlutdeild hinna bíðandi um ca. 20%. Á meðam bíður þetta fólk, sem í raun er verkfært, óvinnufært og nánast í kör. Hvar er metnaðurinn? Hvert stefnum við?

Ráðherrann og stjórn spítalans unir sér við það eitt, að eiga nóg hráefni á lager eins og sjúklingarnir séu súrál. 


mbl.is Stefna að því að stytta biðlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölgun öryrkja er uppsafnaður vandi; stífla, sem er brostin

Þegar VIRK kom til sögunnar til að létta af lífeyrissjóðunum væntanlegum örorkuvanda og skjóta nýjum stoðum undir virkt vinnuafl, töldu margir að vænta mætti færri öryrkja og fleiri vinnufærra einstaklinga. Hugsanlega hefur þessum væntingum verið mætt að einhverju leyti. Það, sem við eigum hins vegar erfitt með að horfast í augu við, er að fjöldi fólks hefur verið að flækjast í Völundarhúsi VIRK í mörg ár, án þess að eiga nokkra von um að komast út úr því.

Nú er þessi stífla að bresta og því þarf að taka heiðarlega afstöðu til þeirra, sem eru í raun öryrkjar og samfélagið þarf að aðstoða til frambúðar.

VIRK hefur hjálpað mörgum, einkum yngra fólki, en aðrir hafa verið þar í biðsal. Þeiira bíður ekkert annað en varanleg örorka. Þessir einstaklingar eru nú að koma fram á línuritum, sem boða Harmageddon í augum sumra en raunveruleikann ótruflaðan í augum annarra. 

Þetta mun auðvitað ná jafnvægi en niðurstaðan verður, að VIRK mun ekki lyfta Grettistaki til fækkunar öryrkjum, heldur lengja vist þeirra í forgarði örorkumatsins og sía þá betur frá, sem eiga sér von í ólgusjó atvinnulífsins.

Það þarf að gæta þess, að þegar fyrrgreindu jafnvægi er náð verði VIRK ekki skjól sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum heilbrigðis- og félagsvísndanna, heldur raunveruleg stoð þeirra, sem minna mega sín.


mbl.is „Þróunin getur ekki haldið svona áfram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullorðinn-fórnarlamb-fjárskortur

Háskólasjúkrahúsið er stíflað. Þetta er kallað "fráflæðisvandi".  Áður var talað um að gamla fólkið, hjúkrunarsjúklingarnir, tækju upp bráðarúmin.

Gamla fólkið tekur ekki upp nein rúm. Það hefur engan áhuga á að liggja á sjúkrahúsunum og allra síst á göngunum. Helst vill það halda heilsu og vera heima hjá sér. Að öðrum kosti vill það halda reisn sinni í viðeigandi hjúkrun og endurhæfingu, ef á henni er kostur. 

Þjóðfélagið hefur ekki sinnt þörfum þessa hóps samborgaranna. Úrlausnirnar hafa verið látnar sitja á hakanum og fjármagninu beint annað. Hjúkrunarþjónustan býr við afstæðan fjárskort. Ekki niðurskurð heldur beinan fjárskort. Gamla fólkið er fórnarlömb þessa fjárskorts.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband