Færsluflokkur: Ljóð
11.5.2009 | 20:07
Næturvörðurinn
Handan við þilið
er næturvörðurinn.
Þarna hefur hann verið
um kynslóðir.
Hann lýsir skotið sitt
með grútartýrunni,
þannig að ætíð er dagljóst.
Enn í dag.
Mjúkir stafir
fylla rúnir tímans.
Ef til vill örlítil birta
ofan af Íslandi.
Það er ekki allt framfarir
sem svo er kallað,
sagði séra Matthías.
(Amsterdam 2009)
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
1.4.2009 | 20:59
Maður mér nákominn
Ekkert fær snortið
ættarlaukinn;
hann fer um boga litbrigðanna
eins og enginn sé gærdagurinn.
Kreppan er víðsfjarri,
andvarp fortíðar.
Nú er nýr dagur,
þjónn vonar og gleði,
sem opnast eins og draumur
í blæþýðu skrúði.
Hús á bjargi
byggt í sólheitu landi.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
11.3.2009 | 15:54
Dauði Lúðvíks
Í hröðum takti
hleypur slagverkið undir þig
og sárir strengir
hnýta lífsandann um dægur
líkt og vefur fúgunnar.
Hinn eilífi straumur lífsins
úr öðrum þætti
leysir klakaböndin
- um stund.
En arfur tímans
eltir eins og skuggi
og taktstokkur hans
mælir fegurðinni endi
- ekki síður
en ágústdagar Norðanmannsins.
Þeir sem vilja vita meira um dauðastríð Beethovens er bent á athyglisverða grein eftir Ragnar Pálsson í nýjasta hefti Læknanemans.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.3.2009 | 09:49
Í Brimnesi
I.
Þegar ég gekk í hús þitt,
þá fann ég ekkert nýtt.
Alla klassíkina
hafði ég fyrir löngu lifað.
Vívaldí og vinirnir allir
voru þarna á sínum stað.
Í sprungnum veggjum hússins
ómaði hjal barna minna,
og sporin sá ég,
sem þau stigu í bernsku sinni.
Þá minntist ég meistarans,
sem fóstraði hugsunina
í faðmi trúarinnar:
"Endurtekningin er ekki til."
En úti fyrir
hafði blær vorsins
hrifið burt gamlan kunningja.
Fönnin skildi eftir benjar
í gróandanum.
Sköpunin er endurtekning alls.
(6. júní 1989)
II.
Ég settist niður
til að semja ljóð
eins og síðast.
En ljóð er ferðalag
frá einni hugsun til annarrar
eins og allir vita.
Og sálin náði ekki fluginu.
Hún var föst í möskvum gærdagsins,
neti persónulegrar reynslu.
Sú reynsla venjulegs manns
eins og mín
er bæði hversdagsleg
og alþýðlega óspennandi.
Það hefðu orðið örlög þess ljóðs
að vera kastað
á ruslahauga borgaralegrar menningar.
(2. desember 1990)
Höfundur var læknir í Búðardal með hléi frá 1978 til 1988. Hann bjó í Brimnesi.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.1.2009 | 09:28
Helgarmoli: Á Tyrðilmýri
Á Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd vestur í Djúpi stendur gamla íbúðarhúsið enn, þó það sé komið á annað hundraðið. Það er þarna á fjörukambinum vestan við nýju húsin eins og afskipt hæruskotið gamalmenni í varpa, sem engar kröfur gerir, hvorki til fegurðarinnar né eilífðarinnar. Það hallar undir flatt upp í innlögnina nánast eins og fatlaður maður, sem skýtur öxlinni upp að vegg sér til hvíldar. Þannig hefur það verið síðan ég sá það fyrst fyrir hálfum öðrum áratug. Það minnir á skakka turninn í Pisa, sem hefur hagrætt sér á grunninum og er ásamt dómkirkjunni og skírnarkapellunni á leiðinni út í á. Þar mun þessi þrenning lenda, ef tímarnir endast. En gamla húsið á Tyrðilmýri er á engri sérstakri vegferð og mun ekkert fara. Það bara er þarna og geymir sína sögu fyrir okkur.
Því minnist ég á þetta, að Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, lauk upp Tímanum og vatninu fyrir okkur í Kiljunni fyrir nokkru. Þetta gerði hann svo snilldarlega, að nú er kvæðið eins og opin bók og allar flóknar vangaveltur um það hjómið eitt. Í gamla daga voru tveir vinir á ferð á milli staða suður í Gyðingalandi, þegar þriðji maðurinn slóst í för með þeim. Þegar heim var komið buðu þeir honum í bæinn og sagt er að hann hafi brotið brauðið og lokið upp ritningunum. Og augu þeirra opnuðust segir þar. Þannig var þessi kvöldstund með Guðmundi. Örstutt vegferð um Tímann og vatnið, sem gerði erfiði vegmóðra bókmenntafræðinga að engu. Þetta var eins og áningarstaður, þar sem þeir tóku á móti okkur, Guðmundur og Daníel heitinn læknir á Dalvík.
Hann gerði margt vel.
Aðalsteinn Kristmundsson, síðar Steinn Steinarr og höfundur Tímans og vatnsins, fæddist á Laugalandi í Skjaldfannardal við Djúp. Hann var af bláfátæku fólki, sem átti ekki alltaf öruggt skjól í lífinu frekar en Steinn sjálfur. Steinn lifði við kröpp kjör lengst af sinni ævi og stundum við sára fátækt. Það var því ekki á vísan að róa, þegar hann varð ástfanginn ungur maðurinn í Reykjavík á árunum fyrir stríð. Utan af landi, skáld og lífskúnstner og jafnvel kommúnisti, með visna hönd. Ástfanginn af læknisdóttur? Ekki sjens. Hann og Louisa Matthíasdóttir og Nína Tryggva voru vinir. Hann elskaði Louisu en Nína elskaði hann eða öfugt. Hvað vitum við um það? En þær fóru báðar og Steinn sat eftir og endaði líf sitt í Fossvoginum. Eftir situr heimslist og eilíf altaristafla í Skálholtsdómkirkju og Tíminn og vatnið á tungu, sem einungis örfáir sérvitringar í veröldinni skilja - og ekki einu sinni þeir.
Tíminn og vatnið er ástarljóð og við skulum vista okkur fyrir helgina með möndli þess, þegar skáldið gerir sér grein fyrir orðnum hlut og sættist við hann:
"Í sólhvítu ljósi
hinna síðhærðu daga
býr svipur þinn.
Eins og tálblátt regn
sé ég tár þín falla
yfir trega minn.
Og fjarlægð þín sefur
í faðmi mínum
í fyrsta sinn."
Úr Tímanum og vatninu e. Stein Steinarr, 15. liður.
Foreldrar Steins voru á Tyrðilmýri um skamma stund. Sú saga lifir í sveitinni, að þar hafi Steinn orðið til. Í gamla húsinu, sem hallar sér til sólarlagsins og er ekki á neinni sérstakri vegferð. Það er eins góð tilgáta og hver önnur. Allar sveitir eiga sín skáld. Nauteyrarhreppur á Höllu og Sigvalda Kaldalóns, Dalirnir eiga Jóhannes úr Kötlum, kennara Steins, og Stefán frá Hvítdal og mörg önnur. Steinn varð til og fæddist vestur við Djúp og því verður ekki breytt, frekar en að því verði breytt, að folald er kennt við þann stað, þar sem því er kastað.
Listin lifir okkur.
Ljóð | Breytt 25.1.2009 kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.12.2008 | 20:58
Handa sjúkum og beygðum
Lesist í hægum takti, largo.
Mikil eru undrin hvílík blessun getur fylgt sjúkdómum. Sjúkdómurinn þvingar manninn til að líta heiminn undir nýju horni. Við það öðlast hann nýja reynslu, sem er persónuleg, skapandi og jafnvel hvetjandi og uppörvandi. Manni, sem daprast sjón, gefast ný tækifæri. Hann lítur tilveruna í nýju ljósi, sér nýja skugga, nýjar andstæður. Augun finna sér nýtt göngulag, sem er huganum eiginlegt. Lestur bókmennta, sem áður var afgreiðsla eða yfirbót fyrir vanrækslusyndir æskunnar, verður veisla eða öllu heldur opinberun.
Nautn.
ljóð, sem virðast litlaus, ómerkileg og jafnvel einskis virði, fá roða í kinnarnar og glampa í augun. Önnur skerpa litina, verða eins og regnboginn, sem komast má undir, regnboginn á akrinum, þar sem hveitikornin eru knýtt saman. Í einu bindinni. Börn að leik. Á blóðakri.
Í dag er gamla myntin á söfnum, þrjátíu silfurpeningar. Í dag gefst tóm, til að undrast og dást. Dást að gömlum sprekum, leiðarsteinum í götu minninganna, texta, ljóðum, gamalli hugmynd, gamalli sköpun. Í dag er náðardagur. Í dag er guð að fyrirgefa syndir. Eins og blærinn, sem fyllir sporin drifhvítri mjöll.
Ljóð | Breytt 24.9.2009 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2008 | 09:25
Vinur minn
Hamslaus á ferð um lífið.
Fyrir löngu missti ég tökin
á ringulreið hans,
sem höggvin er í minn stein.
Svipir kunningjanna
eru eins og myndir
á sýningu.
Ljóð | Breytt 29.12.2008 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2008 | 09:37
Minning
Heiðkaldur vindur
í framandi landi.
Sumar
og við klifjuð
á regnsvörtum göngum.
Nístandi gráblautur raki
og blind glerþök.
Skíma að morgni,
kýr á akri og enginn í nánd
nema við,
óboðnir gestir
í ókunnu leikhúsi.
Amsterdam?
Sigling
í þrúgandi móðu.
Ógleði og uppköst
- og hitasótt.
Svalandi,
lognmjúkur lófi á enni,
sólheit umhyggja þín,
ástin,
sem var þarna strax
í árdaga.
Heim!
segirðu seyðandi rómi
eins og álfkona
í Tungustapa.
Perlur á bandi,
börnin og þú
og gullhvítir dagar,
ungir eins og brjóstin,
ávalir eins og mjaðmirnar,
bjartir sem hár þitt,
og endalaus sæla
á Fróni.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.12.2008 | 21:02
Taybet Zaman
Þú stóðst í hlíðinni
í sólhvítum stöfum,
jarðbrún, sælleg og fögur,
með rósir í kinnum,
full eftirvæntingar,
Ilmur liðinna daga.
Tókst okkur opnum faðmi.
Við hurfum til þín,
fylltum strætin
óvæntri auðlegð
og gleði
í ilmi liðinna daga.
Litfögur skrín
mótuð framandi fingrum,
búin til brottferðar,
heitur eimur
og mjúkhentir Tyrkir
á beru holdi,
svignuð borð.
Bikararnir barmafullir.
Ó þú Ilmur liðinna daga,
Taybet Zaman.
(Í Jordaníu, 2000)
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.11.2008 | 11:58
Vögguþula
En svo aftur sé vikið að Hösmaga á Selfossi, sem ég þekki alls ekki, en ekki hrútnum þeirra Grettis og Illuga, þá virðist mér hann hafa verið í mægðum við afkomendur Magnúsar Ásgeirsonar ljóðaþýðanda. Og þá erum við komin inn á miklu skemmtilegri slóðir heldur en þetta eilífa þras um meinta sök, sem þó verður ekki undan vikist. En tökum okkur leyfi frá því um stund.
Magnús Ásgeirsson var leiklistargagnrýnandi Þjóðviljans. Hann fór hamförum í gagnrýni sinni og skrifaði lærða leikdóma sem jafnan voru heilsíðugreinar. Svo vel metnar voru skoðanir hans á uppsetningu leikrita í Reykjavík á þeirri tíð, að kunnir íhaldsmenn keyptu Þjóðviljann í skjóli nætur til þess að hafa dóma Magnúsar á takteinum. Þá reis sól íslenskrar blaðamennsku hátt, hvort sem var á Mogga, í Tímanum eða á Þjóðvilja. Menn hugsuðu fyrst og skrifuðu svo. Voru frekar trúir pólitíkinni en eigendum blaðanna. Það hlýtur að hafa verið þægilegra hlutskipti þrátt fyrir allt. Árni Bergmann og Matthías Johannessen voru síðustu stóru nöfnin á þessum vettvangi og Styrmir fylgdi fast í kjölfar þeirra. Ilmur þessara daga berst stundum úr leiðurum Fréttablaðsins en þá er það upp talið.
En hvað um það; Magnús gerði fleira en að rita leikdóma, hann þýddi ljóð. Það gerði hann með undursamlegri smekkvísi og skáldlegu innsæi og raunar þeim sköpunarkrafti sem þarf til að frumsemja stórvirki. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég eignaðist fyrir mörgum árum ljóðasafn Almenna bókafélagsins þar sem í einu bindinu mátti finna ljóðaþýðingar. Og þar var þessi Magnús Ásgeirsson allt í einu kominn, fyrirferðarmeiri en Jón Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn. Mitt í þyrpingu ljóðaþýðinganna innan um Nordahl Grieg, Hjalmar Gullberg og aðra andans jöfra, rekst ég á kvæði eftir Federico Garcia Lorca, Vögguþulu, sem Magnús kallar svo. Skiptir engum togum, að kvæðið í þýðingu Magnúsar nær á mér þeim heljartökum, sem það hefur haft allt fram á þennan dag. Þó hef ég alls ekki skilið það enn. Annars vegar er barnsleg og viðkvæm vögguvísa fyrir dreng, sem verið er að bía í svefn og hins vegar einhver yfirþyrmandi spánskur harmur ef til vill aftan úr forneskju, sem fylgir með værðinni inn í sál barnsins. Gamalkunn aðferð til að koma arfleifðinni fyrir, þannig að hún ferðist með kynslóðunum.
Nokkru eftir að mér barst áðurnefnt þýðingasafn var ég í dýrlegum fagnaði á Stóra-Vatnshorni í Haukadal í fimmtugsafmæli Árna bónda. Við vorum á tali saman, Jökull á Vatni og ég. Við vorum kunnugir, ég hafði gaukað að honum tveimur notuðum dempurum undir volvóinn og hann skildi eftir tvo laxa á bæjarhellunni í staðinn. Jökull var ekki orðmargur og hafði sig hóflega í frammi, en hann var gefinn fyrir skáldskap og það vissi ég. Allt í einu rifjuðust upp fyrir mér nokkrar hendingar innan úr áðurnefndri þýðingu Magnúsar og ég varpaði þeim fram til að glæða umræðuna:
"Sof þú, baldursbrá, því mannlaus stendur hestur úti í á.
Blunda, rósin rjóð, því niður hestsins vanga vætlar blóð."
Þá mundi ég ekki meira og ætlaðist ekki til þess. En Jökull hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist:
"Silfurfölan flipann forðast hann að væta,
mænir miðja vega milli bakka og áls,- . . . "
og lauk kvæðinu sem vart var hálfnað alveg áreynslulaust eins og það væri hversdagsverk.
Jökull á Vatni var íslenskur alþýðumaður en Garcia Lorca spánskur. Þeir hnigu ungir, alltof ungir, annar fyrir morðingja hendi en hinn fyrir arfleifðinni. Garcia Lorca féll fyrir fasismanum. Fasisminn reis úr jarðvegi vonbrigða, fátæktar og niðurlægingar hins sigraða. Það urðu örlög Spánverja um mörg ár að þola þann mannfjandskap.
Jökull gekk til kirkju eins og hann gerði ætíð þegar þjónað var. Hann söng messuna með prestinum og öðrum safnaðarbörnum. Þegar hann mætti sínu skapadægri sýndi hann bæði hógværð og tillitsemi, vék frá, fór afsíðis og hneig í valinn. Það var eins og hann vildi ekki trufla messuna.
Ljóð | Breytt 27.1.2009 kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)