Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
29.12.2008 | 11:16
Eitt land, ein lög
Það er ekki til nema ein lausn fyrir Israelíta og Palestínumenn. Þetta fólk býr í einu litlu landi, sem gefur ekkert tilefni til aðskilnaðar. Oslóarsamkomulagið varðaði leið til mistaka. Því fylgdi svikalogn, sem fyrir löngu hefur látið undan óveðrinu. Ríki Palestínumanna á innmúruðum blettum innan Ísraels getur aldrei orðið starfræn heild og boðið þegnum sínum frið og efnahagslegan stöðugleika. Ísraelsmenn munu alltaf hafa heljartök og úrslitaþýðingu fyrir afdrif þessarar þjóðar.
Eina lausnin er að allir innan sömu landamæranna búi við sömu lög, sama þegnrétt og njóti jafnræðis Þannig mun Ísrael dafna að velsæld og friði, því meðal þess fólks, sem það byggir, er að finna dugnað og þekkingu, sem er einstæð í Austurlöndum nær.
Báðir ábyrgir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.12.2008 | 20:58
Handa sjúkum og beygðum
Lesist í hægum takti, largo.
Mikil eru undrin hvílík blessun getur fylgt sjúkdómum. Sjúkdómurinn þvingar manninn til að líta heiminn undir nýju horni. Við það öðlast hann nýja reynslu, sem er persónuleg, skapandi og jafnvel hvetjandi og uppörvandi. Manni, sem daprast sjón, gefast ný tækifæri. Hann lítur tilveruna í nýju ljósi, sér nýja skugga, nýjar andstæður. Augun finna sér nýtt göngulag, sem er huganum eiginlegt. Lestur bókmennta, sem áður var afgreiðsla eða yfirbót fyrir vanrækslusyndir æskunnar, verður veisla eða öllu heldur opinberun.
Nautn.
ljóð, sem virðast litlaus, ómerkileg og jafnvel einskis virði, fá roða í kinnarnar og glampa í augun. Önnur skerpa litina, verða eins og regnboginn, sem komast má undir, regnboginn á akrinum, þar sem hveitikornin eru knýtt saman. Í einu bindinni. Börn að leik. Á blóðakri.
Í dag er gamla myntin á söfnum, þrjátíu silfurpeningar. Í dag gefst tóm, til að undrast og dást. Dást að gömlum sprekum, leiðarsteinum í götu minninganna, texta, ljóðum, gamalli hugmynd, gamalli sköpun. Í dag er náðardagur. Í dag er guð að fyrirgefa syndir. Eins og blærinn, sem fyllir sporin drifhvítri mjöll.
Ljóð | Breytt 24.9.2009 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2008 | 00:06
Kreppuhagfræði bjartsýninnar
Við þurfum sífellt að láta krónuræfilinn ganga manna á milli. Eins hratt og við framast getum. Það er óhætt í samdrættinum. Veldur tæplega verðbólgu við okkar aðstæður. Við megum ekki læsa buddunum eða lúra á krónunni. Þetta kenndu þeir okkur hagspekingarnir, sem voru tíðir gestir á skjánum fyrir nokkrum vikum, en sjást því miður ekki lengur. Hvað varð annars um þá? Eru þeir að fara yfir jólaprófin? Hvað um það, þá skiptir hins vegar máli í hvað við eyðum. Við eigum að eyða í mannaflafreka starfsemi þar sem verðmætasköpunin fer fram innanlands. Það segja spekingarnir. Og margt af því er ekki "eyðsla" heldur fjárfesting. Mennta- og heilbrigðismál er dæmi um slíka starfsemi, þar sem auðlindin felst í mannaflanum og hvert vel unnið verk skilar öðru betra.
Þeir vissu þetta forfeðurnir þegar þeir lögðu grunn að fallegum og gagnlegum opinberum byggingum í fátækt og kreppu og þar standa skólarnir upp úr víða um land. Gylfi Þ. Gíslason og Bjarni Benediktsson vissu líka hvað þeir voru að gera, þegar þeir treystu fjárhagsgrundvöll Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kjölfar kreppunnar 1967-8, þannig að listamennirnir voru ekki lengur bónbjargamenn hjá ríkissjóði.
Nú reynir á að hugsa stórt og við hæfi.
Tónlistarhúsið hefur forgang fyrir margra hluta sakir og er ekki síður mikilvægt en nýtt sjúkrahús. Þar sem það stendur nú með framkvæmdirnar í andaslitrunum er það eins og vitnisburður um ófarir þjóðarinnar og uppgjöf. Þögull minnisvarði um þjóðina, sem gekk í björg með aflamönnum verðlausra fjármuna og beygði sig í lotningu fyrir fagnaðarerindi þeirra. Þessir tímar eru að baki og hamrahöllin á hafnarbakkanum þarf að breytast í þann kyndil, sem Ólafur Elíasson, myndlistarmaður ætlar henni að vera og þjóna tónlistinni en fyrst og fremst þjóðinni.
22.12.2008 | 01:28
Verðlögð út af markaðnum
Ég fór í bæinn í gær, sunnudag, með fjölskyldunni. Ég leit inn í ýmsar búðir og athugaði verðið á veitingastöðunum. Allt hafði hækkað eins og við var að búast. Það sem vakti athygli mína voru ekki hækkanir á innfluttri vöru heldur hækkanir á innlendri vöru og þjónustu. Þar virtust verðhækkanir ekki vera neinir eftirbátar þeirra, sem styðjast að mestu við verðmyndun í erlendum gjaldmiðlum. Það kemur á óvart, að vara og þjónusta, sem byggir að meirihluta á innlendum launakostnaði, skuli hækka í takti við gengisfall krónunnar. Það er eins og krónan hafi alltaf verið aukaatriði og verð hlutanna alltaf verið hugsað út frá dal, evru eða pundi. Þar eru tam. 66°N og veitingahúsið Italía alveg samstíga.
Og núna kveina veitingamenn yfir hækkun áfengisgjalds eins og markaðurinn fyrir þessa vöru á börum bæjarins standi og falli með álögum ríkisins. Þetta fólk hefur verðlagt söluvöru sína út frá þumalfingursreglunni þrisvar til fimmfalt útsöluverð ÁTVR. Ég á ekki von á að þessi álagningaraðferð breytist neitt að þessu sinni. Þannig verður hækkun áfengisgjaldsins gullnáma fyrir verta og tár þeirra sannkölluð krókódílstár.
Ég ætla s.s. að láta þetta fólk verðleggja mig út af markaðnum næsta árið og eyða því sem ég á afgangs í leikhús og tónleika, bækur og aðrar listir, íslenskt grænmeti, Móakjúkling, soðningu og lamb.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.12.2008 | 09:25
Vinur minn
Hamslaus á ferð um lífið.
Fyrir löngu missti ég tökin
á ringulreið hans,
sem höggvin er í minn stein.
Svipir kunningjanna
eru eins og myndir
á sýningu.
Ljóð | Breytt 29.12.2008 kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 22:57
Lífeyrissjóðirnir eru í milljarða mínus...
...í óuppgerðum gjaldeyrisskiptasamningum. Það hljóta allir, sem slíkum samningum eiga ólokið, að njóta jafnræðis við uppgjör þeirra.
Sú spurning gerist áleitnari hvort ekki eigi að taka kvóta upp í ógreiddar skuldir sjávarútvegsins. Því hefur verið haldið fram að kvótinn sé í heild veðsettur umfram raunverulegt verðmæti. Það eru áreiðanlega einhver sjávarútvegsfyrirtæki, sem eiga fyrir kvóta sínum þannig að vandi annarra er meiri en í fljótu bragði sýnist. Fyrr en síðar verður að taka á þessum vanda og hafa eðlilega verðmyndun á fiskinum í sjónum eins nú er á bryggjunni, í fiskvinnslunni og á neysluvörunni. Við eigum fiskinn og við viljum fá eðlilega greiðslu fyrir hann.
Kröfur verði felldar niður að hluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.12.2008 | 00:37
Fuglar himinsins
Ég horfi stundum á fuglana út um gluggann heima hjá mér. Starrarnir berast um í hópum. Þeir virðast flögra stefnulaust frá einum stað til annars og ómögulegt er að sjá hvað ræður för þeirra. Kannski brestur í grein eða opnaður er gluggi. Þegar líður á daginn stækkar hópurinn. Þá er markmiðið orðið ljósara - að fara í öruggan náttstað. Þetta er svolítið svipað með þjóðina. Hún flögrar frá einni hugsun til annarrar. Það er eins og hún sé á ferðalagi í vandræðum sínum. Ljóð er ferðalag frá einni hugsun til annarrar sagði skáldið á sinni tíð. Það er tæplega hægt að kalla okkar tíma ljóð og enn síður skáldskap. Til þess eru þeir alltof raunverulegir.
Það er auðvelt að blaka við hugsun þjóðarinnar. Sú aðferð er notuð til að hrekja hana af leið. Nú fer orka hennar í að velta fyrir sér nýjum ráðherrum, hvort, hvenær, hve margir og hverjir? Þetta virðist skipta öllu máli nú. Enginn spyr um brýnasta verkefnið, markmið breytinganna, hvernig á að varðveita sjálfstæði okkar og íslenska menningu og reisa hið brotna.
Það er þægilegt líf að stjórna svona þjóð, sem telur það sitt brýnasta verkefni að ræða hvort Reynir Traustason verði áfram ritstjóri Dagblaðsins.
En saman mun þjóðin finna sér öruggan náttstað - eins og fuglar himinsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.12.2008 | 10:58
Brennt barn
Velviljaður maður veitti mér andsvör við síðasta bloggi og lét fylgja upplýsandi greinargerð um reikningsskil. Fyrir það þakka ég. Hann kvartaði líka undan því að Sjálfstæðisflokknum væri kennt um allar misfellurnar, sem að baki eru og að frjálshyggjan væri skorin við trog. Ég sendi honum m.a. eftirfarandi:
"Við sjálfstæðimenn berum höfuðábyrgð á því, sem gerst hefur. Við höfum stjórnað efnahagsmálunum frá 1991 og að halda öðru fram leiðir einungis í ljós veikleika þeirra, sem með forustuna fóru. Höfðu þeir ekki valdataumana í sinni hendi? Létu þeir undan krötum og síðar Framsókn? Réði Davíð ekki því sem hann ráða vildi? Stefnan var ekki slæm en hún gekk of langt og hún mengaði hugarfarið svo að það varð prinsíp að bregðast ekki við vandanum, þegar hann var orðinn augljós og skellt var skollaeyrum við viðvörunarorðum. Í einu af fyrri bloggum mínum þá dró ég þetta saman um ræðu DO í Viðskiptaráðinu haustið 2007:
" Þar er Davíð fyrst og fremst að tala fyrir stýrivaxtastefnu bankans og hvert samspil hennar og verðbólgu sé. Hann hefur alveg ákveðnar skoðanir á því, hvort kemur á undan eggið eða hænan í þeim efnum. Ræðan er á mannamáli og þar bregður sums staðar fyrir þessari prakkaralegu ósvífni, sem ég fell fyrir, en fer misjafnlega í fólk. Það, sem er athyglisverðast í þessari ræðu er nánari greining hans á ástandinu, þar sem hann fer vítt um vöxt fjármálakerfisins. Útlánaaukningin hefur verið gríðarleg á sama tíma og við höfum farið í gegnum mestu fjárfestingu sem um getur í sögu landsins, umbreytingar í peningakerfinu, stórkostlega fjármálalega innspýtingu í húsnæðismarkaðinn og svo mætti áfram telja. Og útrásin fær sitt: Útrás virðist þegar grannt er skoðað ekki vera annað en venjuleg fjárfesting erlendis; auðvitað einnig nýting á þekkingu og hæfileikum í bland við fjárfestinguna.......Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og fram hjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. .....við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma. Hitt er einnig til að ný orð fái nánast á sig goðsagnakennda helgimynd, eins og orðið útrás sem enginn þorir að vera á móti svo hann verði ekki sakaður um að vera úr takti, hafi ekki framtíðarsýn eins og það heitir nú, og þekki ekki sinn vitjunartíma.
Athugasemdir Davíðs voru því miður ekki settar fram þannig, að vekti forystumenn viðskiptalífsins og stjórnmálamenn af dásvefni velmegunarinnar. Meðvitundarleysið hélt áfram og aðgerðaleysið æpandi eins og áður hefur verið bent á. Það hvarflar að manni að skýringarinnar sé að leita í einhvers konar hjarðhegðun mannsins, holocost, þar sem öllum er ljóst hvað í vændum er, en enginn hreyfir litla fingur gegn örfáum vopnuðum vörðum..."" ""Því verður þetta allt sárara um að tala, að hverju barni mátti ljóst vera hvert stefndi. Fyrst skal kalla þá stjórnmálamenn til ábyrgðar, sem réðu þessum málaflokki síðustu ár. Þeir bera ábyrgð á því hvernig fór og tímabært að þeir horfist í augu við það."
Ég er þeirrar skoðunar, að við getum engan afslátt gefið á ábyrgðarkröfunni. Ríkisstjórn og meirihluti hennar á Alþingi bera þessa ábyrgð. Það þýðir ekkert fyrir þetta fólk að vísa ábyrgðinni til okkar eða spyrja: Hvað hefðuð þið gert?
Við vitum það ekki. Við kunnum það ekki. Þau sögðust kunna þetta. Þess vegna kusum við þau."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2008 | 12:00
Einar Már Guðmundsson...
...skrifar skemmtilegan texta. Hann er skáld. Þessar vikurnar minnir hann á rödd hrópandans. Stíll hans er beittur og málið fallegt. Hann segir þjóðinni til syndanna. Í honum er söknuður. Hann saknar ljóðsins eins og fram kom í síðustu Morgunblaðsgrein. Hann kann ekki við sig í þessu nýja hlutverki þrátt fyrir allt. Fyrir honum er galdur ljóðsins einstakur. Þar fær tungan túlkað það, sem ekki verður annars staðar sagt. Eða með öðrum hætti tjáð. Íslendingar eru lítt gefnir fyrir að hampa hver öðrum. Nema skáldum sínum. Svo hefur verið á öllum tímum. Einar nýtur þess núna. Í honum er þó e-r söknuður og jafnvel sársauki. Sársaukinn stafar af þeim fjötrum, sem verið er að færa þjóð hans í. Kannski á hann eftir að yrkja um það eða öllu heldur yrkja sig frá því. Yrkja eins konar þjóðartorrek. Þá eignast þjóðin kannski gimstein í aura stað. "Fagur gripur er æ til yndis" sagði Oscar Wilde og hafði eftir öðrum. Var þar þó vel mælt.
John Stuart Mill unni frelsinu eins og allir vita. Ekki síður en Einar Már. Margir hafa lesið Frelsið og sumir oftar en einu sinni. Þar talar Mill fyrir þeirri skoðun, að sérhver maður eigi að hafa frelsi til orðs og athafna eftir sínum smekk. Þannig sé manninum best borgið. Síðan leiðir hann rök að því, að þannig verði samfélögum manna einnig best borgið. Það má hafa ákveðnar nytjar af frelsi einstaklingsins, sem gagnast fjöldanum. Jafnvel það, sem orðið gæti manni að meini að annarra áliti er honum frjálst að mati Mill. En hann slær ákveðinn og mjög skýran varnagla. Frelsi mannsins takmarkast við þær gjörðir, sem ekki verða öðrum að meini. Eða með öðrum orðum: Það sem spillir lífi annarra er manninum ekki heimilt.
Það, sem nú hefur gerst á Íslandi er einmitt þetta. Frjálshyggjan hefur leitt fram umhverfi athafnafrelsis og verðmætasköpunar, sem féll þorra þjóðarinnar í hlut. Þegar fram í sótti grófu um sig í þessum jarðvegi pappírsverðmæti og/eða skuldaaukning með fjárfestingum, sem engu skila og ekki vitað hvort og hvenær það verður. Hluti þessa fjár hefur lent utan Íslands og enginn hefur fulla yfirsýn yfir, hvar það er niður komið. Með þessu móti hefur lífi þjóðarinnar verið spillt í skjóli frelsisins. Það fer gegn kenningum Mills. Allir eru sammála um að betra hefði verið að taka í taumana fyrr, setja bönkunum skorður og hafa hemil á skuldasöfnuninni. En það var ekki gert af því að menn voru uppteknir af hugmyndafræðinni um mikilvægi frelsisins og við því mætti ekki róta nánast hvað sem í húfi væri. Önnur skýring á þeim hrunadansi, sem hér hefur dunað síðan fyrir mitt ár 2004, er ekki í boði. Hugarfarið var mengað af pólitískum átrúnaði.
Þannig eru frelsinu takmörk sett. Frelsið er þjónn en ekki guð. Barnið, sem engin takmörk eru sett, leiðir frelsið til glötunar. Það vita allir foreldrar. Því er ekki ólíkt farið með okkur. Og útrásarvíkingana. Þeir hegðuðu sér eins og börn við aðgæslu- og afskiptaleysi foreldranna. Þær uppeldisaðferðir dugðu greinilega ekki og því er þjóðin komin í eitt allsherjar meðferðarbatterí.
Er nema von að Einar Már sé súr.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2008 | 18:16
Tímar Keynes runnir upp?
Í Morgunblaðinu í gær birtust tvær greinar um sama efni en með sitt hvorri niðurstöðunni. Önnur var leiðari blaðsins, sem vildu bregðast við kreppunni með enn meiri niðurskurði ríkisútgjalda en hin var grein Lúðvíks Ólafssonar, læknis, sem taldi skattahækkanir farsælli en launalækkanir og minni þjónustu. Sjónarmið ritstjóra Morgunblaðsins koma ekki á óvart þar sem þau eru runnin úr ama jarðvegi og viðhorf meirihluta þingflokksSjálfstæðisflokksins, sem ráðið hefur ferðinni undanfarin ár. Þar er hangið í afskiptaleysinu og minimalismanum eins og um sáluhjálparatriði sé að ræða og ekkert svigrúm virðist vera fyrir nýja hugsun ef hún styðst við eitthvað annað en kenningar Friedmans og Hayeks.
Lúðvík, sem er sannur aristokrat og hefur blárra blóð í æðum en flestir í þingliði sjálfstæðismanna, hefur losnað út úr þráhyggju frjálshyggjunnar og því tekst honum betur að koma auga á list hins mögulega en atvinnustjórnmálamennirnir, sem það ættu að kunna flestum betur. Hann dregur fram mikilvægi þess, að fólk verði ekki niðurlægt með launalækkunum og atvinnumissi, þegar hægt væri að mæta efnahagsvandanum á annan hátt. Ég gæti fyrir mitt leyti alveg fellt mig við skattahækkanir til að efla atvinnu eða jafnvel til að tryggja fríar skólamáltíðir í grunnskólum landsins svo eitthvað sé nefnt. Atvinnuleysi er versta afleiðing kreppunnar. Það er skárra að tapa peningum en heilbrigðum viðfangsefnum vinnunnar. Allir þurfa að finna kröftum sínum viðnám. Heilsuspillandi afleiðingar atvinnuleysis hafa margoft verið tíundaðar í vísindalegum rannsóknum. Það hefur Lúðvík vafalítið haft í huga.
John Maynard Keynes var einn af fremstu hagfræðingum 20. aldarinnar. Hann var markaðssinnaður hagfræðingur en ólíkur frjálshyggjumönnum að því leyti, að hann taldi rétt að beita miðstýringu og ríkisafskiptum ef tilefnin væru viðeigandi. Einna frægust afskipta af þessu tagi voru ráðstafanir stjórnar Franklins D. Roosevelts til að ráða niðurlögum kreppunnar í Bandaríkjunum. Fyrir bragðið var Roosevelt kallaður "kommi" og nafn hans skammaryrði og mátti jafnvel ekki nefna á sumum heimilum vestra. Þó var Roosevelt talinn farsæll forseti og elskaður af þjóð sinni.
Það er ekki óeðlilegt, að menn líti til Keynes nú á dögum við þessar aðstæður. Það er engin minnkun í því. Það sýnir sveigjanleika og víðsýni. Hagfræði er ekki kennisetningar eða trúarbrögð. Því síður er hún raunvísindi þar sem viðfangsefnið verður þvingað niður í far öreindarinnar eftir hárnákvæmum ferli rafsegulsviðsins. Hagfræðin er félagsfræði og mannfræði, þar sem engin jafna mun ná yfir allar þær breytur, sem í henni þurfa að vera.
Ég held að nálgun Lúðvíks Ólafssonar feli í sér meiri skynsemi, en nálgun ritstjóra Morgunblaðsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2008 kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)