Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
31.3.2009 | 15:07
Það geta áreiðanlega fleiri skrifað vinjettur en Ármann
Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum árum tók smáfyrirtæki hér í borg fé almennings til fjárvörslu og hét góðri ávöxtun. Eiganda þessa fyrirtækis varð það á að lána peningana skyldum aðilum og því meir sem reksturinn gekk verr. Hans hlutskipti varð að gista Kvíabryggju í þágu samfélagsins og það áður en Árni endurnýjaði beddana. Hann skrifar nú örsögur og kemst í útvarpið hjá Jónasi og fleirum.
Nú sýnist mér tilefni til að fleiri reyni sig við örsögur eftir endurhæfingu á Kvíabryggju, allavega ef ríkið ætlar að umbuna þegnum sínum samkvæmt jafnræðisreglunni.
Dapurlegar fréttir af Samson | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.3.2009 | 10:33
Lyfjaverslun ríkisins, já takk !
Í lyfjadreifingunni er vandamálið ekki kreppan. Það er einokun einkaframtaksins. Nú eru að koma fram veikleikar okkar smáa markaðar og skortur á samkeppni. Lyfjaframleiðslan er nánast komin á eina hendi fyrrum bjórframleiðanda í Rússíá og innflutningur sérlyfja er á harðahlaupum undan ódýrum og vel reyndum erlendum lyfjum.
Lyfjaframleiðandinn Actavis er uppi löngum stundum með hráefni til framleiðslu sinnar eða þá að það stendur á framleiðslu, sem fram fer í verksmiðjum hans í öðrum löndum; fyrirtækið skiptir út pakkningum og milligrammastærð að því er virðist eftir eigin hentugleikum og án læknisfræðilegra ábendinga eða fellir niður vörur hagkvæmar sjúklingunum og kemur með aðra dýrari þess í stað.
Mjög ber á því að erlend framleiðsla, sem innflutningsfyrirtæki í lyfjadreifingu hafa selt hér á markaði, hverfi og er því borið við að verð og velta hafi ekki skilað nægjanlegri framlegð til að standa undir leyfisgjaldi. Von bráðar dúkka svo margfalt dýrari lyf upp til sömu nota.
Nýjar aðferðir við lyfjaálagningu hafa verið teknar upp, sem hækkað hafa verð ódýrari lyfja verulega. Lyfsalar virðast ekki óánægðir með þess nýbreytni ríkissjóðs og úr því að þessir aðilar eru saman um ánægjuna: Hver skildi þá borga brúsann?
Sjúklingarnir!
Það er þyngra en tárum taki fyrir mig að biðja um sósíalískar lausnir. En manni dettur ekkert annað í hug en lyfjaverslun ríkisins eða jafnvel samvinnufyrirtæki lækna og sjúklinga til að greiða úr þessu öngþveiti.
29.3.2009 | 08:26
Ekki allir á sama báti
Staða lífeyrissjóða afhjúpuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.3.2009 | 09:59
Ríkistjórnin spillir séreignarsparnaði lífeyrissjóðanna
Séreignarspanaðurinn hefur verið opnaður með lögum. Ástæðan er erfitt árferði og fjárhagsvandræði einstaklinganna. Sparnaður, sem stofnað var til á forsendum langtímafjárfestinga og rýmri fjárhags þeirra, sem hefja vildu töku lífeyris fyrr en hið hefðbundna kerfi lífeyrissparnaðar gerði ráð fyrir, skal greiðast út í einu lagi til þeirra, sem sextugir eru orðnir. Einnig geta þeir, sem yngri eru, tekið út ákveðna fjárhæð til að liðka getu sína að standast þyngri greiðslubirði.
Lífeyrissjóðirnir, sem byggja ávöxtun sína á langtímafjárfestingum í samræmi við skuldbindingar sínar, eru með lagasetningu gerðir að hraðbönkum, sem afgreiða seðla eftir kalli kúnnans á götunni. Tjallinn kallar svona apparat "hole in the wall". Er það réttnefni. Tilefnið er s.s. erfiðar aðstæður í efnahagslífinu og þrengingar á fjármálamörkuðum. Á sama tíma eiga lífeyrissjóðirnir að breyta föstum eignum í peninga við erfið skilyrði til að mæta nýjum og algerlega ófyrirséðum kröfum.
Ef rétthafar úttektarinnar eru ekki í beinni þörf fyrir peninga sína um þessar mundir, hefur ríkisstjórnin samt stuðlað að því, að fólk hefur hag af því að taka út séreignarsparnaðinn, hvað sem öðru líður. Kemur þar tvennt til. Annars vegar hafa skattahækkanir verið boðaðar, þannig að skilaboðin eru: Takið eins mikið út og þið getið, eins fljótt og þið getið. Í annan stað eru vextir svo háir á innlánsreikningum í ríkisbönkunum um þessar mundir, að lífeyrissjóðirnir geta með engu móti kept við þá. Bankarnir geta í raun ekki staðið undir þessum vöxtum af innlánsreikningunum, þannig að í framtíðinni munu skattborgararnir greiða kostnaðinn af þessu ráðslagi en þeir hagnast, sem kusu að yfirgefa lífeyrissparnaðinn.
Hvað gerist svo á liggjandanum, þegar fjara tekur undan því ástandi, sem nú ríkir; þegar sparnaðarleiðir fyrir séreignarsparnað í lífeyrissjóðunum verða hagstæðari en ráðstöfun fjárins utan þeirra? Þá mun fólk streyma til þeirra að nýju og jafnvel einnig þeir, sem nú taka út.
Ég tel að ráðstafanir stjórnvalda þó vel hafi veið meintar, hafi skapað spilavítisástand í lífeyriskerfi landsmanna, sem ekki verður alveg séð hverjar afleiðingar hefur. Þjóðin stendur í spákaupmennsku með lífeyri sinn og nú eru það ekki stjórnir lífeyrissjóðanna heldur einstaklingarnir sjálfir. Hverjir munu tapa og hverjir munu græða? Sennilega munu þeir tapa, sem mesta fyrirhyggju og stöðugleika vilja sýna en tækifærissinnunum verður umbunað. Er það gömul saga og ný. Hún er eftirminnileg sagan eftir W. Somerset Maugham, Maurinn og engissprettan, um bræðurna tvo. Annar bjó í haginn fyrir sig og sína allt lífið en hinn flögraði frá einum yndisaukanum til annars og uppskar margfalt þægilegra hlutskipti að lokum.
Síðasta útspil ríkisstjórnarinnar hefur verið að leggja stein í götu þeirra lífeyrissjóða, sem gæta vilja hagsmuna hinna varkáru og setja hömlur á spákaupmennskuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.3.2009 | 08:33
Lífeyrissjóður með hreint sakavottorð
Þegar málefni lífeyrissjóða í vörslu Landsbankans voru til umræðu á dögunum kom fram, að Almenni lífeyrissjóðurinn hafði farið í gegnum sama nálarauga Fjármálaeftirlitsins og þeir og ekki fengið á sig athugasemdir. Því er sjaldan hampað, sem vel er gert og því ástæða til að hrósa starfsmönnum sjóðsins og framkvæmdastjóra hans fyrir samviskusamlega unnin störf eftir fyrirmælum stjórnar sjóðsins í gjörningaveðri verðbólunnar sem var.
Nú hafa augu manna beinst að risnu, sem forráðamenn lífeyrissjóða hafa þegið úr hendi viðskiptamanna og vörsluaðila lífeyrissjóðanna. Er það gömul saga og ný að borið sé fé á menn með þessum óbeina hætti til að liðka fyrir viðskiptum. Læknar þekkja það úr eigin ranni, að fyrirgreiðsla lyfjafyrirtækja við þá hefur ekki öll verið hugsuð sem þráðbein leið til að lina þjáningar sjúklinga. Þá er eins víst, að velgjörðir viðskiptamanna lífeyrissjóðanna hafa ekki allar verið beinlínis til þess fallnar að bæta hag sjóðfélaganna.
Við eftirgrennslan mína hefur komið í ljós að risna af þessu tagi hefur ekki tíðkast innan Almenna lífeyrissjóðsins. Þær eru hverfandi ferðirnar, sem farnar hafa verið til útlanda og tengja má því, sem til umræðu hefur verið. Ekki er mér kunnugt um ferðir innanlands svo sem laxveiðiferðir. Mér er kunnug sú skoðun stjórnarmanns í Almenna lífeyrissjóðnum frá fyrstu hendi, að laxveiðiferðir til að mynda í boði vörsluaðila sjóðsins, sem þá var Glitnir, væri dæmi um hreina spillingu.
Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins er nú öll kosin af félögum í sjóðnum og þarf sjóðurinn því ekki að fara í gegnum þá erfiðu umræðu um hlut atvinnurekenda, sem framundan er hjá mörgum lífeyrissjóðum stéttarfálaga.
Lífeyrisréttindi skerðast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2009 | 11:54
Evra eða króna?
Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur. Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.
Svo var það fyrir páska í fyrra, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.
Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.
Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð. Við eigum tæplega annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið.
Of mikil eyðsla endar illa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
23.3.2009 | 08:46
Sparisjóðabankinn leppur fyrir gömlu bankana?
Fram hefur komið að vanda Sparisjóðabankans má rekja til falls gömlu bankanna, þar sem hann hafði lánað þeim stórfé í Hrunadansinum á liðnu ári. Sagt er að upphæðin sé um 180 milljarðar króna. Þetta fé fékk Sparisjóðabankinn að láni hjá Seðlabankanum. Margvíslegar spurningar vakna af þessu tilefni og verður að leita svara við þeim.
Seðlabankanum hlýtur að hafa verið kunnugt, hvernig ráðstafa átti þessu fé. Með öðrum orðum, Seðlabankinn lánaði Sparisjóðabankanum þessa peninga til að laga lausafjárstöðu bankanna. Hvernig má það vera? Voru bankarnir þegar komnir í þrot? Gat Seðlabankinn ekki lánað þeim meir án þess að nauðir þeirra yrðu um of áberandi? Hefði Seðlabankinn brotið einhverjar "reglur" með því? Var hann að brjóta "reglurnar" óbeint með því að nota Sparisjóðabankann sem lepp? Var vandræðum bankanna dreift á sparisjóðakerfið með þessari ráðstöfun?
Fjölmiðlafólk verður að grafast fyrir um þetta eins og annað.
20.3.2009 | 10:16
Forstjóri BYRS á hringekju spillingarinnar
Maður sárvorkenndi forstjóranum þegar hann kom fram í sjónvarpi í gær og reyndi að afsaka þá gerninga, sem fram fóru innan BYRS á síðasta ári. Fór hann í marga hringi og alltaf varð augnaráðið flóttalegra með hverjum hringnum. Reyndi hann að skýra þá nauðsyn að auka við stofnfé sparisjóðsins til þess að hægt yrði að greiða út hinn góða arð, sem af rekstrinum hafði orðið á árinu 2007. Arðurinn hafði s.s. orðið af litlu sem engu stofnfé og því varð að auka það til þess að menn fengju það sem þeir áttu rétt á skv. lögum. Sumir tóku lán til þess arna. Í því meiri þörf voru þeir að fá arðinn þ.e. til að m.a. greiða þessi lán.
Það fór ekkert fyrir því í málflutningi forstjórans að þessi góða afkoma hafði orðið þrátt fyrir hlutfallslega lágt stofnfé og etv. fyrir viðskipti við almenning þann, sem sparisjóðnum er ætlað að þjóna. Hann svaraði engu uppástungu fréttamannsins um að að etv. hefðu þessir peningar átt heima í varasjóðum sjóðsins og í þeim verkefnum öðrum, sem honum væri ætlað að sinna.
Það eru til önnur orð yfir svona gerning en best að láta þau ósögð svo maður lendi ekki í spjaldinu.
En að öðru. Ólíkt hafast frændur okkar Kanar að en þingmenn okkar. Forstjórar stórfyrirtækja, sem nú eru á ríkisjötunni þar, eru ekki fyrr búnir að fá bónus fyrir taprekstur, en að fram er komið frumvarp í þinginu með víðtækan stuðning um sérsköttun þessara tekna upp á 90%. Hér heima ætlar undirlægjuhátturinn, sleifarlagið og þvælan í þinginu engan enda að taka.
Er ekki verið að biðja núna um ríkisstyrki af skattfé okkar vegna mikilvægis BYRS og góða þjónustu við borgarana?
Er þetta ekki fjárkúgun?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
11.3.2009 | 15:54
Dauði Lúðvíks
Í hröðum takti
hleypur slagverkið undir þig
og sárir strengir
hnýta lífsandann um dægur
líkt og vefur fúgunnar.
Hinn eilífi straumur lífsins
úr öðrum þætti
leysir klakaböndin
- um stund.
En arfur tímans
eltir eins og skuggi
og taktstokkur hans
mælir fegurðinni endi
- ekki síður
en ágústdagar Norðanmannsins.
Þeir sem vilja vita meira um dauðastríð Beethovens er bent á athyglisverða grein eftir Ragnar Pálsson í nýjasta hefti Læknanemans.
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.3.2009 | 14:59
Kjartan vill brunaútsölu á menningarverðmætum.
Það eru margar mannvitsbrekkurnar í kreppunni. Kjartan reiknar söluandvirðið greinilega út frá markaði dagsins. Þessi markaður er eins og allir vita viðkvæmur og má ekkert út af bregða til að umtalsverðar sveiflur verði ekki á verðmynduninni.
Hvernig ætli markaðurinn taki því, þegar 4000 listaverkum verður fleytt á honum? Ætli hann verði ekki bara í frjálsu falli? Prófkjörsgaspur.
Listaverk föllnu bankanna verði seld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |